Sarpur fyrir mars, 2013

Umræðan um ólöglega dreifingu og afritun tónlistar dúkkar alltaf öðru hverju upp. Þetta á auðvitað við um sjónvarpsefni, kvikmyndir og hugbúnað, en höldum okkur við tónlistina.

Það er nefnilega alltaf verið að reyna að sannfæra okkur um þetta sé nú ekki svo slæmt. Tónlistarmenn græði nú bara á endanum á að það sé verið að stela frá þeim.

Mér er með öllu fyrirmunað að skilja hvers vegna heiðarlegt og skynsamt fólk leyfir sér að stela tónlist.

Þetta sama fólk stelur ekki hjóli nágrannans, labbar ekki út í næsta bakarí og grípur næsta kleinuhring eða tekur bók án endurgjalds, ekki einu sinni ljósrit.

En einhverra hluta vegna finnst mörgum allt í lagi að stela tónlist.

Og svo upphefst einhver sjálfsréttlætingarkór með hverja rökleysuna á fætur annarri.

Jú, það er auðvelt að afrita tónlist og nýtt eintak af tölvuskrá kostar (nánast) ekkert. En sömu hundalógík mætti færa yfirfæra á bakarann, „hann hendir hvort sem er svo miklu“ eða „ég skil tíkall eftir fyrir hráefninu“.

Nei, þarna virðir fólk það að framleiðslan kostar vinnu og gerir sér grein fyrir að það væru ekki margir bakarar í bænum ef það væri stolið jafnt grimmt frá þeim og tónlistarmönnum.

Það heyrist heldur ekki „ja, bakarinn verður nú svo vinsæll ef ég stel frá honum að þetta er allt í lagi“.

Ég sé í dag frétt hjá Rúv um rannsókn sem bendi til að ólöglegt niðurhal hafi ekki áhrif á sölu á tónlist, sjá http://www.scribd.com/doc/131005609/JRC79605

Ef „rannsóknin“ er skoðuð nánar kemur fram að lítið sem ekkert styður þessar fullyrðingar. Meira að segja er tekið skýrt fram að tekjur af sölu tónlistar hafi minnkað verulega („revenues decrease drastically“). Þá kemur fram að hegðun notenda er mjög mismunandi eftir löndum. 

Þeir segjast reyndar ekki finna nein merki þess að ólöglegt niðurhal hafi áhrif á sölu tónlistar, en það gefur ekki leyfi til að álykta að það sé ekki til staðar. Enda er aðferðin sem þeir beita til að gefa sér að ólöglegt niðurhal hafi ekki áhrif á sölu beinlínis fráleit.

Í rauninni er þetta frekar einfalt.

Það er engin leið að gefa sér að fólk sem sækir tónlist án þess að greiða fyrir myndi ekki kaupa ef ekki væri hægt að sækja hana ólöglega. Það eru fleiri milljónir eða milljónatugir sem sækja sér tónlist ólöglega. Að gefa sér að enginn þeirra myndi í nokkru tilfelli kaupa þá tónlist sem viðkomandi hefur sótt er eiginlega fráleitt.

Að horfa á lækkandi sölutölur á sama tíma og ólöglegt niðurhal fer sívaxandi og halda því fram að engin tengsl séu þarna á milli er galið.

Ef eitthvað er þá fer „neysla“ á afþreyingarefni vaxandi og því ættu tekjur af tónlist að hafa vaxið gríðarlega ef eitthvað er.

Ég geri ekki lítið úr því að netið hefur opnað dyrnar fyrir óteljandi tónlistarmenn. En það er með þeirra vilja og samþykki.

Þá er líka rétt að hafa í huga að sú aðferð að dreifa tónlist á vefnum, td. í gegnum YouTube, hentar ekki öllum tónlistarmönnum og alls ekki allri tegund af tónlist. Mér sýnist (og hef ég engar rannsóknir til að styðja, heldur er þetta órökstudd tilfinning) að tónlist sé sífellt að verða einhæfari og einsleitari.

Jú, og svo enginn misskilningur sé á ferð… ég vil gjarnan sjá breyttar reglur um höfundarrétt og breytt umhverfi. En ekki bulla í mér með forsendurnar…

Sigur Sólskinsflokksins

Posted: mars 21, 2013 in Stjórnmál, Umræða

Í Alþingiskosningunum 1979 var ég í framboði fyrir Sólskinsflokkinn ásamt nokkrum félögum.

Kosningabaráttan gekk að mestu vel, nema hvað sjónvarpsupptaka fór gjörsamlega út og suður hjá okkur. Fyrri upptakan gekk ágætlega en okkur fannst við geta gert betur og báðum um að fá að reyna aftur. Í þetta sinn rann saman í eitt hvað við höfðum sagt í hvorri upptökunni, okkur vafðist tunga um tönn og útkoman varð bæði vandræðaleg og ruglingsleg. Ekki var við það komandi að fá að draga andann og taka upp aftur, þetta hefði væntanlega kostað heilar fimm mínútur.

Niðurstaðan varð sú að við fengum ekki þingsæti í takt við verðleika.

Á stefnuskrá flokksins var að bæta veðurfar á landinu, færa það sunnar á bóginn.

Nú birtust fréttir í vikunni að Íslandi væri komið á sömu breiddargráðu veðurfarslega og Írlandi.

Þannig hefur helsta baráttumál Sólskinsflokksins loksins orðið að veruleika og fullnaðarsigur hefur unnist í málinu.

Ég verð eiginlega að fara í framboð eins og allir hinir.. og er  að hugsa um að hafa þetta einfalt.

Happdrættisflokkurinn held ég að sé málið.

Skoðanakannanir sýna að yfir 95% landsmanna vilja gjarnan vinna stóra vinninginn í happdrætti.

Þetta verður væntanlega eina stefnumálið, allir vinna stóra vinninginn, hvort sem er í happdrætti, lottó, getraunum..

Flestir núverandi þingmanna voru kosnir á þing eftir loforð fyrir kosningar um nýja stjórnarskrá.

Þingið skipaði stjórnlagaráð til að endurskoða stjórnarskrána.

Þingið spurði síðan þjóðina álits á tillögum stjórnlagaráðs og fékk afgerandi svar, mikill meirihluti studdi það að klára stjórnarskrána.

Þingið hefur þess vegna ekkert umboð til að spila með málið í einhverri refskák í þinglok eða sem hluta af kosningabaráttu. Þingið hefur einfaldlega ekkert umboð til undanbragða, hvorki til að fresta málinu, drepa á dreif eða þynna út.

Viðbrögðin við breytingatillögu Margrétar Tryggvadóttur vegna stjórnarskrárinnar hafa gefið tilefni til orðskýringa í næstu útgáfu orðabókarinnar.

„Atkvæði verða greidd um stjórnarskrána í heild sinni – Vigdís Hauksdóttir orðlaus“ – þetta er ágætis skýring á oraðtiltækinu að slá tvær flugur í einu höggi.

„Mér finnst að þessu grunnplaggi íslenskrar löggjafar sé ekki mikil virðing sýnd með slíkri afgreiðslu“ sagði svo Magnús Orri Schram um sömu tillögu. Þetta er að sjálfsögðu rétt, en vandamálið er ekki tillaga Margrétar heldur vilja- og/eða getuleysi þingsins til að klára málið á fjórum árum. Hvaða orð skyldi þessi skýring eiga best við?

Magnús Orri Schram þingmaður Samfylkingarinnar segir að stjórnarskránni sé ekki mikil virðing sýnd með því að afgreiða stjórnarskrármálið með tillögu Margrétar Tryggvadóttur.

Þetta er auðvitað hárrétt.

En þetta er líka fullkominn misskilningur.

Vandamálið er ekki tillaga Margrétar. Vandamálið er tilraunir til að þæfa málið og drepa á dreif í stað þess að einfaldlega klára í framhaldi af skýrum vilja þjóðarinnar.

Neitunarvald á forsetann

Posted: mars 16, 2013 in Trú
Efnisorð:,

Rétt að taka líka fram að forsetinn var heldur betur ekki að tala í mínu nafni, frekar en margra annarra, þegar hann sendi nýkjörnum páfa heillaóskir í nafni þjóðarinnar.

Þarf ekki að vera möguleiki á neitunarvaldi á gjörðum forseta?

Við Fræbbblar gáfum út lagið „Judge a Pope just by the Cover“ – á nýársdag.

Hér: http://www.youtube.com/watch?v=dL0JWTdasw4 er videó með laginu unnið af upptökum Viktors Orra á hljómleikum til styrktar Ingólfi Júlíussyni í Norðurljósasal Hörpu.

Við Fræbbblar tökum þátt í styrktarhljómleikum fyrir Blátt áfram í kvöld, föstudagskvöldið 15. mars. Hljómleikarnir hefjast um 21:00 en húsið opnar 20:00.

Þarna koma fram (hér í stafrófsröð):

  • Alchemia
  • Diamond Thunder
  • Fræbbblarnir
  • Mercy Buckets
  • Morgan Kane
  • Morning After Youth
  • The Wicked Strangers
  • Why Not Jack?

Það má auðvitað ekki missa af þessu.

Enda hvað er betra að en að styrkja stórmerkileg samtök og skemmta sér vel í leiðinni, er þetta ekki eðal tveir-fyrir-einn tilboð?