Sarpur fyrir febrúar, 2019

Allt er fertugum fært og sextugum sennilega líka… eins og segir einhvers staðar… amk. hér.

Ég er sem sagt að horfa á að verða sextugur bráðum, nánar tiltekið föstudaginn 8. febrúar.

Eftir talsverðar vangaveltur um hvort og þá hvað ég ætti að gera í tilefni dagsins, halda stóra afmælisveislu, halda veislu eingöngu fyrir fjölskylduna, eða fjölskyldu og nánustu vina, vera að heima, fara í siglingu, bíða fram á sumar og halda garðveislu, fara í helgarferð – taka hugmynd Jóns Stefánssonar og bjóða í veislu en vera sjálfur að heiman?

En mig langar einfaldlega ekkert sérstaklega til að halda hefðbundna afmælisveislu. En eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að halda hljómleika. Og er það þá ekki svarið? [Jú].

Þannig að eftir smá yfirlegu er ráðið að halda hljómleika á afmælisdaginn, ekki beint hátíðarhljómleikar og alls ekki afmælisveisla, það kostar inn (reyndar lítið og frítt til 22:30), engar veitingar, engar ræður, engar gjafir og ef einhver reynir afmælissöng þá…

Við verðum á Hard Rock, föstudaginn 8. febrúar, byrjum 22:30, Fræbbblarnir spila að sjálfsögðu og svo ákvað ég að fá gesti úr óvæntum áttum, sonurinn Guðjón Heiðar (Projekt), Björn Thoroddsen, Halli Reynis og Unnur Malín koma öll og taka nokkur lög – vonandi amk. eitt Fræbbblag hvert.

Og svo því sé haldið til haga, ég ætlast verð ekkert móðgaður eða sár ef einhver hefur ekki tök á eða áhuga á að mæta, þetta er bara hugsað fyrir þá sem hafa gaman af… við fáum næg önnur tækifæri til að hittast og skála fyrir tímamótunum.

Og svo því sé líka haldið til haga, þá eru allir velkomnir.