Sarpur fyrir september, 2020

Torfís? (Óræðukeppni)

Posted: september 28, 2020 in Umræða
Efnisorð:,

Nú styttist í kappræður forsetaframbjóðenda vestanhafs.

Í því tilefni var ég að velta fyrir mér hvort það væri grundvöllur fyrir nýrri keppni samhliða Morfís, svona einhvers konar and-Morfís, sem byggði á ræðumennsku Bandaríkjaforseta, Torfís (Tafs- og röflkeppni framhaldsskóla á Íslandi)

Þarna væru gefin stig eitthvað á þessum nótum:

  • 3 stig í plús fyrir hverja setningu þar sem tafsað er og muldrað þannig að ekki sé nokkur leið að skilja hvað viðkomandi er að segja
  • 2 stig í mínus fyrir að klára setningu
  • 3 stig í mínus fyrir setningar sem eru lengri en fimm orð.
  • 4 stig í mínus fyrir að nota orð sem ekki eru í orðaforða fjögurra ára barns, „stórkostlegt“, „æðislegt“ og „rosalegt“ þó undanskilin
  • 10 stig í plús fyrir að uppnefna liðsmenn andstæðinganna, kannski ætti að vísa liði úr keppni sem sleppur þessu alveg
  • 16 stig fyrir að drulla yfir ákveðna þjóðfélagshópa
  • 18 stig í plús til viðbótar ef þetta eru minnihlutahópar
  • 5 stig fyrir að væla
  • önnur 3 stig í bónus ef vælið felur í sér að vorkenna sjálfum sér
  • 20 stig í mínus fyrir að ræða umsamið málefni
  • 12 stig í plús fyrir að saka mótherjana um að svindla
  • 15 stig í viðbót fyrir að saka dómarana um að svindla
  • 24 stig í plús fyrir að kveikja á því í miðri setningu að kjarninn í málflutningi liðsins hingað til gengur ekki upp
  • en 10 til baka í mínus ef það er einhver kjarni sem hægt er að skilja
  • 10 stig í mínus fyrir að fara rétt með heiti einstaklinga og staða
  • 7 stig í plús fyrir að vísa til landa sem eru ekki til
  • 8 stig í mínus fyrir að fara rétt með staðreyndir
  • 13 stig í plús fyrir að fá lán hjá dómurunum og neita að borga
Mér finnst alltaf skelfilega grátlegt og um leið svolítið fyndið þegar þeir sem efast um niðurstöður vísindanna, td. talsmenn hinna og þessa samsæriskenninga, skjóta sig í fótinn með tilvísun í ‘fræðimenn’. Gjarnan með því að bæta „virtur“ við án nokkurrar fótfestu.
Til að mynda, nú síðast, Covid-19 samsæriskenningasmiðar vísa í að svo og svo margir læknar telji að Covid-19 veiran / faraldurinn sé eitt alls herjar plat (‘hoax’). [Flestir á meðan þeir voru að lepja upp einhverja þvælu til stuðnings bandaríkjaforseta, þar til í ljós kom að hann var bara að ljúga]. En þetta er svona svipað og þegar loftslagsafneitarar eru að flagga því að sérfræðingar í loftlagsmálum séu á einhverri tiltekinni „skoðun“.
Mótsögnin er nefnilega nokkuð æpandi. Ef viðkomandi telur það styrkja sitt mál að þeir sem vísað er til séu læknar / loftslagssérfræðingar / verkfræðingar… hvers vegna ekki að taka mark á um það bil eitthvað nálægt tuttugu þúsund sinnum fleiri sérfræðingum?
Og á hinn bóginn, ef punkturinn með efasemdunum og kenningunum er sá að ekkert sé að marka sérfræðinga, hvers vegna þá að taka fram máli sínu til stuðnings að þetta séu læknar / loftslagssérfræðingar / verkfræðingar?
Er þetta ekki svolítið eins og að segja, „allir sköllóttir karlmenn eru lygarar“ og í næstu setningu „ég þekki sköllóttan karlmann sem staðfestir það sem ég segi“ [OK, kannski ekki gott dæmi, en ég er með próf upp á að vísa í sköllótta kalla].
Svo er auðvitað fínt að hafa í huga að við hin tökum ekki gott og gilt að sérfræðingar hafi einhverja tiltekna skoðun, við horfum við þess *hvað* viðkomandi hefur fram að færa, ekki *hver* viðkomandi er. Standast gögnin skoðun? Eru greinar ritrýndar? Eru tilvísanir í heimildir áreiðanlegar?

Vísindin, bara þegar þau henta?

Posted: september 17, 2020 in Umræða

Ég er alltaf jafn undrandi að sjá fólk sem nýtir sér framfarir í vísundum mörg hundruð sinnum á dag allt í einu hafna vísindum þegar niðurstaðan er óþægileg. Mögulega hefði þetta fólk ekki einu sinni „komist á legg“ ef ekki væri fyrir læknavísindin.

En þegar niðurstaðan er óþægileg þá allt í einu er einhver á YouTube bara með góðar og gildar skoðanir og um að gera að taka mark á áróðursgreinum hagsmunaaðilum, sem standast enga skoðun.

Og svo er ákveðin kaldhæðni að öllu þessu er dreift á netinu með notkun tölvutækni og snjallsíma.

Blikar

Posted: september 12, 2020 in Fótbolti
Efnisorð:

Ég hef fylgst með knattspyrnuliðum Breiðabliks í all nokkuð langan tíma. Skal játa að ég mætti vera duglegri að mæta á völlinn, sérstaklega hjá kvennaliðinu, en stundum er of þægilegt að horfa heima og eiginlega lítið annað í boði þetta árið. Í öllu falli… kvennaliðið er í góðum málum en það hafa verið nokkrar umræður um karlaliðið.

Ég var nokkuð efins um þá ákvörðun að láta fyrri þjálfara, Ágúst Gylfason, fara.. en auðvitað er ekki annað en sanngjarnt að gefa nýjum þjálfara tækifæri.

Og í stuttu máli þá er ég mjög sáttur við hvernig liðið spilar, þetta er nákvæmlega sá fótbolti sem ég hef mest gaman af, finnst að Blikar eigi að standa fyrir og ég einfaldlega nenni ekki á völlinn fyrir neitt minna.

Það hafa komið nokkrir leikir þar sem úrslitin hafa ekki verið eins og ég vonaðist eftir, liðið hefur fengið á sig allt of mikið af ódýrum mörkum og færanýtingin er vel undir lágmarkskröfum.

En… þetta er heldur betur á réttri leið, megnið af tímanum spilar liðið fyrsta flokks fótbolta og það er ekkert óeðlilegt við að það taki tíma að slípa svona til. Sumt má skrifa á reynsluleysi, annað skrifast kannski á að stundum eru leikmenn ekki á „sömu blaðsíðu“ og svo eru auðvitað nokkur atriði sem þjálfarinn lagar með tímanum.

Í smá bjartsýniskasti sé ég ekki betur en að liðið geti orðið eitt af bestu liðum í sögu íslenskrar knattspyrnu.

Það er rifjast öðru hverju upp umræður um hversu öruggir notendur eru gagnvart því að persónu upplýsingar lendi í röngum höndum og verði misnotaðar.

Nú síðast vegna Covid-19 rakningarinnar.

Margir telja að það að kódi kerfisins sé opinn veiti nægilega tryggingu, það er fínt ef það nægir einhverjum.

En ef einhver hefur áhyggjur af því að forrit séu að safna og dreifa persónulegum upplýsingum þá eru nokkur atriði sem gætu reynst betur við að eyða áhyggjum (nú eða auka þær).

  1. Eru líkur á að einhver hafir yfir höfuð áhuga á upplýsingunum? Ef svarið er neitandi þá kannski þarf ekki að hugsa meira um þetta.
  2. Ef þú hefur gríðarlegar áhyggjur af því að einhver komist að því hvað þú ert að gera og að þær upplýsingar komist í rangar hendur en ert stöðugt að setja inn færslur á samfélagsmiðla um hvað þú ert að gera og hvar þú ert staddur / stödd… þá er kannski kominn tími til að hugsa aðeins.
  3. Ef þú hefur gríðarlegar áhyggjur af því að upplýsingar um ferðir þínar komist í hendur óprúttinna (frekar en „prúttinna“) aðila, en notar farsíma með staðsetningu daglega, þá er enn frekar kominn tími til að hugsa aðeins.
    1. Og jafnvel þó þú slökkvir á staðsetningu, þá ættir þú nú samt að hugsa aðeins.
  4. Hafi einhver áhuga á upplýsingunum, er samt spurning hvort þær séu nægilega verðmætar til að leggja í þann kostnað sem þarf til að sækja þær og taka þá áhættu sem því fylgir? Aftur ætti neikvætt svar að loka málinu.
  5. Ef einhver hefur áhuga á þessum upplýsingum þá er spurning hvort mögulegt sé að sækja þær með öðrum og einfaldari og ódýrari hætti? Í þessu tilfelli ætti jákvætt svar að nægja til að ekki þurfi að hugsa þetta frekar.
  6. Ef þú hefur enn áhyggjur þá er hægt að gera prófanir á virkni viðkomandi forrits. Þetta kallar reyndar á nokkra þekkingu, en kannski einhver þeirra sem ég nefni til sögunar hér á eftir geti aðstoðað.

Varðandi það að kódinn sé opinn. Jú, fínt. Eflaust eru einhverjir rólegri og það er svo sem fínt.

En það að kódi sé opinn og aðgengilegur tryggi að ekki sé verið að nota forritið til að sækja og misnota upplýsingar er ekkert sérstaklega góð trygging

  1. Því fer víðs fjarri að nægilega margir hafi þekkingu til að lesa svona kóda. Því fer líka víðs fjarri að margir þekki einhvern sem hefur þekkingu til.
  2. Það að treysta því að aðrir forritarar sem þú þekkir, eða þekkir ekki, lesi kódann og gangir úr skugga um að hann sé í lagi, gengur heldur ekki almennilega upp
    1. Forritarar hafa afskaplega lítinn áhuga á að lesa og villuleita kóda annarra, sérstaklega ekki í frítíma eftir langan vinnudag við að vinna við eigin kóda.
    2. Það er mjög erfitt, og ég meina mjög erfitt, að finna villur eða galla í annarra kóda, jafnvel þó ekki sé viljandi verið að reyna að fela eitthvað, þetta tekur óhemju tíma og líkurnar eru ekkert sérstaklega miklar á að það takist.
    3. Það er ekkert endilega tryggt að forritið sem keyrir sé byggt á sama kóda og forritskódinn sem er sýnilegur. Þetta fer að vísu eftir umhverfi og það hafa verið miklar framfarir í að bæta þetta.
    4. En aðallega, ef það nægir að treysta því að einhver annar geri þetta… þá eru ekkert sérstaklega miklar líkur til að nokkur geri þetta yfir höfuð. Sérstaklega ef valið er þægilega leiðin að treysta því að einhver annar takið þetta að sér á móti því að leggjast í margra klukkutíma vinnu við að lesa annarra manna kóda.

Ætli ég hafi ekki verið ellefu – tólf ára þegar ég ákvað að halda með Derby County í enska boltanum. Sá brot af viku gömlum leik og fannst þeir spila flottan fótbolta. Það var ekki verra að þeir urðu fljótlega enskir meistarar á ævintýralegan hátt. Ég fór að fylgjast betur með, hlusta á lýsingar BBC, kaupa ensk dagblöð.. kaupa ensk fótboltablöð, Goal, Football Star og ég man ekki hvað þau hétu..

Stjóri Derby á þeim tíma var nokkuð skemmtilegur og litríkur einstaklingur, en kannski svolítið ruglaður líka, Brian Clough, an aðallega hafði hann sterkar skoðanir á því að liðin sem hann stýrði spiluðu góðan fótbolta. Hann entist svo sem ekki lengi, en Derby hélt áfram að spila vel og unnu titilinn fljótlega aftur.

Svo tóku við rýrari tímar, liðið féll, féll langt niður, komst upp og féll svo sem aftur. Síðast þegar félagið átti lið í efstu deild féll það með slakasta árangur sem nokkurt lið hefur náð í úrvalsdeild.

Ég fylgdist svo sem ekki alltaf mikið með, um tíma nánast ekki neitt, en Derby var alltaf mitt félag í enska boltanum. Jafnvel þó allt sem varð til að ég valdi þá á sínum tíma hafi fyrir löngu verið farið „á haugana“.

Af hverju heldur maður með liði í enska boltanum? Það er ekki eins og þetta skipti einhverju máli eða breyti nokkru yfirleitt.

Ég hef gaman af að horfa á góðan fótbolta og það að lið sem leggja upp úr því að spila góðan fótbolta nái árangri verður væntanlega til þess að fleiri lið nálgist leikinn þannig. Og við fáum skemmtilegri leiki.

Breiðablik hefur verið þannig lið, en Breiðablik er líka mitt félag, þar æfði ég með félögunum þegar við vorum yngri, vann fyrir félagið í stjórn og meistaraflokksráði í nokkur ár.

En eitthvert lið á Englandi? Ef upphaflegar forsendur eru farnar út á hafsauga, hvers vegna ætti ég að halda með þeim?

Mér finnst Barcelona spila skemmtilegan bolta og þeir eru mitt lið á Spáni. Um tíma var ég veikur fyrir Arsenal, hugmyndafræði Arsene Wenger var akkúrat það sem heillaði mig.. og oftar en ekki var Arsenal að spila flottan fótbolta, og aðrir fjölskyldumeðlimir halda með Arsenal – en það erenginn Wenger lengur þar á bæ.

Guardiola er annar þjálfari sem leggur mikið upp úr fótbolta sem heillar mig, en eitthvað við eignarhaldið og umhverfið í kringum Manchester City truflar mig of mikið.

Kannski er einfaldlega hægt að horfa á fótbolta án þess að halda með liði.