Sarpur fyrir október, 2013

Tólfti karlinn fær verðlaun…

Posted: október 31, 2013 in Umræða

ekki frekar en venjulega hef ég vit á að þegja um óvinsælar skoðanir… ég hleraði einmitt óvart ímyndað samtal í gær

Jæja, er ekki nokkuð ljóst hver fær björgunarverðlaunin okkar fyrir desember? Guðmundur vann ótrúlegt afrek þegar hann bjargaði tveimur fjölskyldum úr bráðri lífshættu í brunanum í byrjun desember.

– Jú, þetta er afrek ársins, jafnvel áratugarins þegar einstaklingur á í hlut. Hann sýndi ótrúlega áræðni og útsjónarsemi og það er alveg klárt að það væru að minnsta kosti níu manns komnir í gröfina ef hans hefði ekki notið við. Aðrir stóðu ráðalausir hjá á meðan hann fann leið til að bjarga þeim öllum.

Já, má ég ekki bóka þetta og láta grafa á viðurkenningarskjöldinn?

… nei, nei, bíðið aðeins róleg. Þetta gengur auðvitað ekki. Þetta væri þá tólfti karlmaðurinn sem fær afreksverðlaunin á þessu ári. Þetta gengur ekki. Við verðum að finna konu.

En það var ekkert annað björgunarafrek til að tala um í desember. Hvaða máli skiptir hvort þetta er karl eða kona? Væri hann betur að þessu kominn ef hann væri ekki með…??

– Við bara verðum að horfa á svona afhendingar með kynjagleraugum og passa okkur á að þetta er auðvitað huglægt mat og að við verðum að gæta jafnréttis.

En hann vann lang stærsta björgunar afrek mánaðarins! Árins, ef ekki áratugarins. Er það ekki það sem þetta snýst um?

– Ég geri mér grein fyrir því. En við þurfum að finna konu.

Hvaða konu? Það er ekkert afrek sem kemst nálægt því sem Guðmundur gerði. Þetta fer í sögubækurnar.

– Hvaða þröngsýni er þetta. Má ekki finna einhverja konu sem hvatti hann áfram eða tók á móti þeim sem hann bjargaði?

Það var engin kona á staðnum. Og þó svo væri, fyndist ykkur sú kona betur komin að verðlaununum? Þetta er ljóta ruglið, á ég ekki bara að spyrja hann hvort hann sé til í kynskiptaaðgerð?

– Nei, nei, það telur ekki, hann var karl þegar hann vann afrekið. Ó, þú varst að grínast.

Heldurðu það?? Hver vilt þú að fái verðlaunin? Hvað viltu gera?

– Við verðum bara að forðast neikvæða umræðu og gagnrýni. Það hlýtur að mega finna konu sem hlúði að fugli í kuldanum..

Til hvers að veita svona viðurkenningar fyrir björgunarafrek ef við ætlum ekki að veita þau fyrir björgunarafrek?

Týndur í heimi getgátunnar

Posted: október 30, 2013 in Spjall, Umræða

Ég virðist algerlega týndur í heimi getgátunnar. Sem betur fer kom háttsettur starfsmaður háskóla nokkurs vitinu fyrir mig.

Nú nýlega var nefnilega brotist inn til mín og alls kyn óhróður skrifaður með úðabrúsa á veggina heima, reyndar bæði innanhúss og utanhúss. Ég sá mann á vappi fyrir utan húsið sem ég kannaðist ekki við en var auðþekkjanlegur. Ég hafði brugðið mér afsíðis smá stund en þegar ég kom fram aftur var viðkomandi að ganga út um svaladyrnar sem höfðu greinilega ekki verið nægilega vel læstar. Ég sá hann reyndar ekki með úðabrúsa í höndunum enda sá ég aðeins andlitið.

Fyrir tilviljun bankaði upp á hjá mér einstaklingur sem ég vissi að var vel metinn innan háskólasamfélagins og er prófessor við einn af háskólum landsins. Ég sagði honum farir mínar ekki sléttar og bað hann að doka við á meðan ég hringdi til lögreglunnar og tilkynnti verknaðinn.

Hann stöðvaði mig strax og benti mér á að ég væri að velta mér upp úr tómum getgátum. Það gæti allt eins verið einhver annar hafi komið inn á undan þeim sem ég sá og hefði sá krotað á veggina. Ég muldraði eitthvað um að þetta væru nú ekki líkleg skýringar, ekkert benti til annars en að viðkomandi hefði verið á ferðinni enda engar aðrar mannaferðir hefðu verið nálægt húsinu, húsið væri allt útkrotað og aðrar skýringar því varla mögulegar. Þá hringdi nágranni og sagðist hafa mætt manni sem passaði við sömu lýsingu á leiðinni frá húsinu með úðabrúsa í hendinni. Prófessorinn taldi það litlu breyta, hann hefði allt eins getað verið bara getað verið í gönguferð með úðabrúsann sinn.

Aftur vildi ég nú samt hringja og tilkynna skemmdirnar og benti á að það kæmi þá í ljós við rannsókn ef aðrar og eðlilegar skýringar væru fyrir hendi, enda fengi viðkomandi tækifæri til að skýra mál sitt.

En prófessorinn aftók þetta með öllu. Hann sagði að ég lifði í heimi getgátunnar og ætti ekki að vera að gefa mér eitthvað þegar aðrar skýringar væru alveg mögulegar.

Ég þakkaði honum fyrir, hætti við að hringja og sat eftir með útbíað húsið, alveg laus úr heimi getgátunnar.

PS. nei, það var ekki í alvöru brotist inn til okkar, þetta er dæmisaga.

Tölvupóstur til sölu

Posted: október 27, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Ég er að hugsa um að selja nokkra tölvupósta. Þetta eru stórskemmtilegir tölvupóstar sem ég hef skrifað og ætla ég að selja þá á vægu verði, kannski litlar 10 krónur.

Þetta er auðvitað ekki í frásögur færandi út af fyrir sig.

En ég velti fyrir mér hvað stuðningsfólki óheftrar dreifingar á stafrænu efni gerir. Ég þykist vita að flestir séu andvígir því að hnýsast í tölvupósta og önnur samskipti einstaklinga í leyfisleysi. En á sama tíma finnst þeim allt í lagi að dreifa öðru efni frá fólki í leyfisleysi.

Þannig að…

Ætla þeir að taka tölvupóstinn minn og dreifa áfram án minnar heimildar? Það væri ansi gróft brot á fiðhelgi einkalífsins, ef ég skil rétt.

Eða ætla þau að dreifa áfram í leyfisleysi af því að ég verð svo vinsæll? Eða vegna þess að þeir geta ekki keypt hann eftir öðrum leiðum? Eða vegna þess að ég verð bara að sætta mig við að heimurinn er svona og það er bara allt í lagi að dreifa þessu í leyfisleysi?

Spyr sá sem ekki veit. Og sá sem ekki skilur rökin fyrir að taka efni í leyfisleysi.

Ráðstefna í Boston

Posted: október 25, 2013 in Spjall
Efnisorð:,

Við Jón Eyfjörð mættum á ráðstefnu hjá The DataWarehouse Institution í Boston, aðallega fyrirlestrar um vöruhús gagna og viðskiptagreind.

Iðunn og Jóhanna komu með og við náðum nokkrum dögum með okkur í Boston fyrir ráðstefnuna sjálfa. Virkilega gaman að vera með þeim og ég held að Iðunn og Jóhanna séu farnar að skipuleggja næstu ferð.

Ég kann ágætlega við mig í Boston þó ég hafi ekki kynnst borginni mikið á fáum dögum. Það var reyndar gaman að fara „innansveitar“ leið til næsta bæjar á föstudeginum. Mikið af smárekstri út um allt, dekkjaverkstæði, snyrtistofur, bankar, bifreiðaverkstæði, bakarí.. allt frá nítján-hundruð-og-fimmtíu-og-eitthvað. Og önnur hver bygging var kirkja, hver af sinni tegund, ég fékk á tilfinningunni að þarna væru vel yfir hundrað söfnuðir.

Við kíktum sem sagt einn dag til Wrentham þar sem ku vera ódýrt að versla. Ég væri að skrökva ef ég segði að það væri það skemmtilegasta sem ég geri. Kemst ekki einu sinni á topp 100 hjá mér. En við náðum að klára nánast alla jólagjafaverslun – og vel þess virði að fórna einum degi í það.

En við vorum mjög heppin með veitingastaði. Eða réttara sagt, Jón þekkir vel til og valdi vel… og þegar því sleppti þá fylgdum við góðum ráðum frá Góu frænku. Japanski Douzo, franski Deuxeve, ítalski Erbaluce, steikarstaðurinn Grill 23 og Stephanies voru allir í fyrsta klassa. Indverski Kashmir og mexíkóski Cactus Club voru alveg yfir meðallagi en ekkert meira.

Svo var skemmtileg viðbót að hitta Kára (Indriðason), sem spilaði á gítar með okkur Helga fyrir þrjátíu árum… við náðum einu virkilega góðu kvöldi, eftir að Jón og megnið af Landsbankahópnum voru farin heim.

Svo er alltaf smá hughreysting að vera beðinn um skilríki á bar þar sem stendur skýrum stöfum að þeir sem líta út fyrir að vera 30 ára eða yngri verði að sýna skilríki.

Og, já, fyrir minn smekk var gaman að finna Cigar Masters – vindlabúð þar sem fólk (tja, aðallega karlar) situr inni og reykir stóra eðal vindla.

Var eitthvert gagn að ráðstefnunni? Já, já.

Boston-1-litil

Framlög til trúarbragða

Posted: október 6, 2013 in Trú, Umræða

Ég heyrði rétt áðan að til stæði að „lagfæra“ greiðslur til trúfélaga vegna þess að þeir liðir hefðu orðið fyrir meiri skerðingu en aðrir liðir á framlögum úr ríkissjóði.

En er þetta rétt?

Einfaldasta leiðin til að skoða þetta er að bera saman greiðslur sem hlutfall af heildar útgjöldum ríkissjóðs. Skoðum aðeins nánar, heildarútgjöld vegna trúmála (rauntölur) voru

  • 0,79% árið 2008
  • 0,81% árið 2011
  • 0,85% árið 2012

Fyrir 2013 er áætlun upp á 0,88%.

Á sama tíma hefur meðlimum ríkisreknu kirkjunnar fækkað verulega. Þannig að ef „lagfæra“ á greiðslur til þessara liða þá liggur beint við að lækka þær.

Það má eflaust reikna þetta á marga vegu.. það má deila um hvort kirkjugarðsgjald eigi heima þarna.

„Út í loftið“ samningurinn um einhverjar kirkjujarðir sem enginn veit á hverju byggir skilar kirkjunni dágóðum summum beint úr ríkissjóði.

Svokölluð sóknargjöld eru greidd beint úr ríkissjóðin en ekki innheimt af meðlimum trúfélaga.

En svo ansi hressilegar upphæðir þarna fyrir utan. „Kirkjumálasjóður“, „kristnisjóður“ og „jöfnunarsjóður sókna“. Sex hundruð milljónir! 600.261.044 krónur af almannafé árið 2012.

PS. eins og alltaf set ég svona tölur fram með fyrirvara um að rétt sé reiknað

Auðvitað er hallalaus ríkissjóður gott, ef ekki nauðsynlegt, markmið. En það markmið næst ekki með bókhaldsbrellum og / eða tilfærslum innanlands – hvað þá skammsýni og „að borða útsæðið“.

Það er ágætt að líta á þjóðfélagið sem heimili. Ríkissjóður er einfaldlega tilfærslur og jöfnun á milli einstaklinga innan sama „heimilis“.

Að koma rekstri heimilisins í plús er lykilatriði, svo má sjá til að tilfærslur innanlands séu í jafnvægi. Og nei, ég er ekki að gera lítið úr nauðsyn þess að halda vel á spöðunum þegar því markmiði er náð.

Fyrsta skrefið er sem sagt að sjá til þess að tekjur heimilisins verði meiri en útgjöld. Allt sem hægt er að gera til að auka tekjur skiptir máli, sama gildir um að spara útgjöld. Ekki hvert til annars heldur til og frá „heimilinu“.

Þannig er algert aukaatriði að þvinga fram hallalausan ríkissjóð ef grundvöllurinn er ekki í lagi. Að leggja niður stofnanir í sparnaðarskyni er blekking, því hvað sparast við að fólk fái greitt úr ríkissjóði í gegnum atvinnuleysisbótakerfið? Að lækka framlög til verkefna sem geta aukið tekjur eða sparað útgjöld og hafa starfsfólk á atvinnuleysisbótum er fráleitt. Að skera niður í heilbrigðiskerfinu og spara útgjöld af þeim „reikningi“ breytir engu ef þetta sama fólk fer á atvinnuleysisbætur og fær greitt úr öðrum vasa. Jú, það breytir því að mögulega að við fáum fleiri heilbrigðisvandamál. Að láta fólk sitja aðgerðalaust frekar en að sækja menntun og byggja upp þekkingu sem gæti skilað tekjum er líka fráleitt.

Þannig er að fullkominn misskilningur að bókhaldsleg niðurstaða ríkissjóðs til skamms tíma sé eitthvert markmið í sjálfu sér.

Það er svona eins og að reyna að leiðrétta myndina í baksýnisspeglinu.

The Gas, The Finger

Posted: október 1, 2013 in Tónlist
Efnisorð:,

Ég fór með Fræbbbla meðlimunum Stebba og Steinþóri til London 1980. Aðal erindið var að reyna að ná eyrum útgefendum með „Nammi“ efnið. Við vorum frekar úti á túni, en náðum þó sambandi við EMI, sem höfðu ekki áhuga.. þeirra tap.

En við fórum á nokkra hljómleika í ferðinni, meðal annars á hljómleika The Gas á Marquee klúbbnum við Wardour Street. Við vorum verulega hrifnir af hljómsveitinni og spjölluðum aðeins við þá eftir hljómleikana. Eitt lagið var sérstaklega eftirminnilegt, The Finger – nægilega eftirminnilegt til að ég hef munað þetta síðan.

Lagið kom út á lítilli plötu seinna en mér tókst ekki að finna hana. Og hvergi hef ég fundið leið til að kaupa lagið á vefnum. En lagið poppaði öðru hverju upp í hausnum. Og ég var að finna þetta á YouTube, svona ef einhver skyldi hafa áhuga.. fínasta lag, smá bergmál af / eða minnir á (ja, þeir kveikja á perunni sem þekkja).

En það er amk. hér.. http://youtu.be/6pxczlu16mI.