Sarpur fyrir ágúst, 2014

Guðfræðileg stærðfræði

Posted: ágúst 23, 2014 in Uncategorized

Það er kannski illa gert að hlæja að því þegar guðfræðimenntaðir einstaklingar eru að setja sig á háan hest með tölfræði / stærðfræði. Og opinbera eigin fáfræði.

Einn presturinn hefur skrifað nokkrar greinar um „kristna talnaspeki“.

Í þeirri nýjustu, fjórir er eftirfarandi speki:

Reyndar á þessi mynd sér enn eldri samsvörun í fyrsta kafla Esekíel í Gamla testamentinu og í táknum ættbálka Ísraels í Mósebókum. Sem eru 4×4 – eða 12.

Kannski væri hugmynd að halda smá upprifjun á margföldunartöflunni í guðfræðideild. Þá myndu „hámenntaðir“ prestar ekki halda að 4×4 sé 12.

Að ég tali nú ekki um að þeir gætu gert greinarmun á tölunum 4 og 40.

Já, kannski illa gert að hlægja að þessu. En ég er bara ekki merkilegri en þetta – mér finnst einfaldlega eitthvað við sjálfumgleðina og hrokann sem veldur því að ég hef ekkert samviskubit yfir því að hlægja að þessu.

 

PS. fljótlega eftir að ég skrifaði færsluna er búið að breyta „4×4“ í „3×4“.. sem er auðvitað rétt reiknað, en innihaldið fellur á að það er ekkert lengur merkilegt við 3×4, eins og mögulega hefði verið við 4×4. Æ. og Æ.

Þjóðartrú eða þjóðtrú?

Posted: ágúst 20, 2014 in Uncategorized

Það er svolítið skemmtilegt að sjá þingmann tala um að standa vörð um „þjóðartrúna“ í einhverri örvæntingu yfir ómerkilegri dagskrárbreytingu Rúv.

Það er kannski engin tilviljun að þetta hljómar nánast eins og „þjóðtrú“ – sem er hugtak yfir gamlar „kerlingarbækur“ og hjátrú – þar sem fólk trúði hvers kyns vitleysu án nokkurra upplýsinga eða staðreynda.

Mér varð að minnsta kosti hugsað til þess hversu líkt þetta í rauninni er, enda má færa rök fyrir að mörg trúarbragðanna byggi á „þjóðtrú“ gyðinga.

Af hverju skyldi svo fullorðið fólk gera lítið úr fárra hundruð ára þjóðtrú hér á landi en bregðast ókvæða við til að verja þúsunda ára þjóðtrú gyðinga og afsprengi hennar.

Það má segja að breyting á dagskrá Rúv, þar sem ákveðið var að fella niður úrelta dagskrárliði sem hafa litla hlustun, sé ekki stórmál. Auðvitað á Rúv ekki að þjóna einu trúfélagi sérstaklega, en það er önnur saga.

Ég efast um að sú ákvörðun að fella niður dagskrárliði sem fáir hlusta á myndi yfirleitt kalla á nokkur viðbrögð.

En þarnar er atriði tengt kirkjunni.

Það er ótrúlegt að fylgjast með viðbrögðunum.. heiftinni, rangfærslunum og samlíkingunum.

Einn prestur líkti þessu við ofsóknir á hendur kristnum mönnum í Austurlöndum, annar við banni við ástarjátningar svo ég nefni nú tvö dæmi um ruglið.

Vantrú og Siðmennt er kennt um og talað um volduga einstaklinga á þeirra vegum!

Stofnuð var Facebook grúppa sem hleypir bara inn athugasemdum frá þeim sem eru sammála!

En kannski er þetta merki um örvæntingu.

Og kannski er þessi örvænting merki um breytta tíma.

Okurverð á litlum bjór

Posted: ágúst 3, 2014 in Spjall, Umræða
Efnisorð:,

Ég get ekki almennilega skilið verðlagninguna á bjór á börunum hér á landi. Jú, áfengi er almennt óhóflega dýrt hér á landi. Og ég skal viðurkenna að ég hef ekki reynt að reka bar.

Það má vissulega finna bari í stórborgum sem erum með verðið á bjór slagar upp í verðið hér. En almennt er bjór hér tvöfalt (og jafnvel ríflega það) dýrari á bar en erlendis. Áfengisskatturinn skýrir þetta auðvitað að hluta.. en bara að hluta.

En það sem viriklega gengur fram af mér er verðlagningin á litlum bjórum. Bæði er að oft finnst mér fínt að fá bara lítinn bjór og láta þar við sitja. Hitt er að mér finnst í öðrum tilfellum gaman að smakka mismunandi bjóra.

Erlendis er verðið á litlum bjór nokkurn veginn helmingur af verðinu á stórum, jú kannski eitthvað örlítið hærra.

Í gær fór ég á nokkuð skemmtilegan bar þar sem úrvalið var mikið, sérstaklega af krana. Það spillti óneitanlega fyrir að stór bjór kostar þar 1.500 krónur. En gott og vel, mér fannst úrvalið spennandi og ákvað kannski allt í lagi að styrkja staði sem nenna að hafa fyrir því að bjóða upp á fjölbreytt og skemmtilegt úrval. Úrvalið var reyndar það mikið að ég var í vandræðum með að velja og ákvað fá mér tvo litla. Hvað kostaði lítill? Jú, 1.250…

Ég reyndi að skammast út í barþjóninn – þó ég efist nú um að ákveði þetta.Hann svaraði að skýringin væri sú að áfengisskatturinn hér heima væri svo hár. Ég benti honum á að áfengisskatturinn af litlum bjór væri nákvæmlega jafn hár á hvern millilítra í litlum og stórum bjór.

En ég efast nú einhvern veginn samt um að búið verði að lækka verðið á litlum bjór þegar ég kem næst. Ef ég kem aftur.

Ég kaupi helst ekki vörur sem eru merktar „lífrænt ræktaðar“.

Sennilega er þetta smá sérviska – eða mótþróaskeiðið enn á sextugsaldri.

Einhvern veginn finnst mér þetta vera innihaldslaust markaðsátak til að selja mér vörur á óþarflega háu verði.

Upphaflega hugmyndin byggði á að þekkja upprunann, „þekkja bóndann“ og vita þannig hvaðan varan kom og hvernig hún var meðhöndluð. Þetta er auðvitað löngu horfið með lífrænt rækuðum deildum í stórmörkuðunum. Það er einfaldlega engin tenging þarna lengur.

Einhverjir vilja meina að lífrænt ræktaður matur sé betri og hollari, þarna sé minna af eiturefnum og jafnvel fari þetta betur með náttúruna, þeas. ræktarlandið.

Ég hef ekkert séð um að lífrænt ræktað sé betra á bragðið.. enda smekksatriði.

Þá virðist almennur misskilningur að engin eiturefni eða aukaefni séu notuð við ræktun á lífrænt ræktuðum matvælum. Þetta er ekki rétt, en vissulega eru einhverjar takmarkanir á hvaða efni má nota eða í hvaða mæli… en „lífrænt ræktað“ þýðir ekki það sem hugtakið gefur til kynna, þeas. það er vissulega notað eitur og alls kyns aukaefni. Bara í takmörkuðu magni. Og það sem verra er, stundum einfaldlega gömul og léleg efni í stað nýrri og betri efna – nýjar og og betri aðferðir skila oftast meiri framleiðslu og jafnvel með „skárri“ aukaefnum – sem hvort sem er mælast varla.. „snefilmagn“ er held ég rétta hugtakið.

Gott og vel ég er ekki sérfræðingur í þessu. En ég kalla þá eftir betri upplýsingum og betri rökum.

Hvers vegna er í lagi að nota „bara svolítið“ af úreltu skordýraeitri? Væri þá ekki nær að ganga alla leið og hafa ræktunina 100% lífræna? Það yrði reyndar varla hægt að fæða heimsbyggðina.. en það er væntanlega aukaatriði.