Sarpur fyrir maí, 2018

Kosningaþynnka

Posted: maí 27, 2018 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Ég verð að játa að kosningaúrslitin ollu nú talsverðum vonbrigðum.

Ekki svo að skilja að ég ætlist til að allir hafi sömu sýn og ég að deili öllum mínum skoðunum. Það er eðlilegt að hafa ólíkar hugmyndir og ræða kosti og galla þeirra.

Það sem truflar mig alltaf eftir úrslit kosninga er hversu margir virðast (afsakið orðbragðið, „kjósa með rassgatinu“… í þeirri óbókstaflegu merkingu að nenna ekki að kynna sér málefni, nenna ekki að kynna sér afstöðu flokka, nenna ekki að kynna sér feril flokka eða flokka, kjósa flokk af gömlum vana, sætta sig við glórulausar rangfærslur sem auðvelt er að afgreiða og / eða falla fyrir ómerkilegu „tilfinningaklámi“ (gott og vel, mig vantar betra orð).

Ekki misskilja. Ég er ekki að ætlast að allir kjósendur leggir í mikla rannsóknarvinnu… en fyrr má nú rota en dauðrota.

Það er sagt að lýðræði sé slæmt en það sé bara engin betri hugmynd.

Þar er ég heldur betur ósammála. Það er ekkert flókið að útfæra þessa grunnhugmynd þannig að hún virki betur, skili okkur betri fulltrúum og betri stjórnsýslu. Það er meira að segja frekar einfalt.

 

Ég heyri marga kvarta undan því að það sé erfitt að ákveða hvað skal kjósa í sveitarstjórnarkosningunum. Jafnvel kosningaprófin á hinum og þessum vefsíðum hjálpa lítið, enda skauta þau yfir mikilvæg atriði.

Þannig að hér er lykillinn að því hvernig á að kjósa.

Fyrir það fyrsta ekki sitja heima eða skila auðu.. það er svolítið eins og að standa úti í roki og rigningu og nenna ekki að færa sig í skjól, eða bíða eftir að einhver annar komi og bjargi málunum. Og það sem verra er.. þú gætir vaknað í snjóbyl áður en þú veist af.

Næsta skref.

Ekki kjósa framboð sem ala á hatursumræðu og kynþáttafordómum („rasisma“). Við þurfum ekki þannig samfélag. Þar til viðbótar þá má hafa í huga að greind forystumanna þessara framboða er kannski ekkert til að hrópa húrra fyrir… ég segi ekki að þau séu heimsk, en hvað á maður að kalla fólk sem gerir kröfu um góða íslensku kunnáttu en er ekki sjálft skrifandi á íslensku.

Þá er það frá.

Ertu að hugsa um að kjósa framboð út frá einhverri menntaskóla-kaldastríðs rómantík? Framboð sem kannski eru búin að steingleyma hvað sú rómantík gekk út á… og þú jafnvel líka? Ef svo er, segðu endilega öllum Facebook vinunum að þú hafir kosið þau, en gerðu eitthvað betra við atkvæðið.

Gott og vel.

Er framboðið hluti af stjórnmálahreyfingu á landsvísu og vill höfða til kjósenda þeirra en afneitar um leið öllum verkum hreyfingarinnar? Er þetta ekki svolítið eins og að standa í hóp sem kastar grjóti og hvetja þau áfram… en svo þegar þau eru spurð um grjótkastið, þá kemur svarið, „ja, ég kastaði nú engu grjóti sjálf(ur)“??

Ekki styrkja svona hegðun, frekar að senda skilaboð að þú kunnir ekki að meta félagsskapinn.

Vita forystumenn framboðsins ekki almennilega um hvað þau eru að tala? Hafa þau ekki haft fyrir að kynna sér stærstu málin, þekkja ekki rök með og á móti og fullyrða eitthvað út í loftið? Ef svo er, þá er nú ekki gæfulegt að viðkomandi setjist í sveitarstjórn.

Sama gildir um frambjóðendur sem tala fyrir málum sem eru ekki á verksviði eða forræði sveitarfélaga. Ekki kjósa fólk sem býður sig fram en veit ekki um hvað það er að tala.

Sko, nú hefur gengið ágætlega að takmarka valkostina.

Er framboðið að keyra á rangfærslum um andstæðingana, ýmist af vanþekkingu eða vísvitandi að haga sér óheiðarlega. Að kjósa framboð eftir svona málflutningi er svolítið eins og að vera dómara í fótboltaleik, sjá augljósa dýfu en dæma samt vítaspyrnu.

Enn fækkar möguleikunum, vonandi.

Er framboðið eins-máls-framboð. Hefur, svo uppspunnið dæmi sé tekið, það eitt á stefnuskrá að embættismenn borgarinnar klæðist hvítu á 17. júní? Ef þú veist ekkert annað um framboðið, hvað þau standa fyrir, hvað þau vilja gera eða hvernig – og hvort sem er, þá eru hvít föt á 17. júní á stefnuskrá margra annarra þá tekur því ekki að setja atkvæðið þangað.

Sko. En nú vandast kannski málið aðeins.

Er málflutningur framboðsins tóm froða? Það er að segja, tala þau mikið í loforðum um hvað þau ætla að gera og kynda undir væntingar um að allt verði i „himnalagi“ ef þau fái atkvæði þitt? Hljómar kannski vel, en ef þau geta ekki sagt þér hvernig þau ætla að koma þessu í verk, þá minnir þetta svolítið á Sólskinsflokkinn sáluga. Ég bauð mig fram fyrir hans hönd 1979. Vil lofuðum betra veðri. Munurinn var kannski sá að við vissum að það var ekkert að marka þetta. Gott og vel, auðvitað er ekki alveg verðlaust að hafa góð fyrirheit og kannski er ekki hægt að sjá allar lausnir til enda, en sem sagt… loforð sem eru alveg út í loftið og algjörlega án hugmynda um hvernig á að uppfylla þau vita ekki á gott.

Kemur þá að leiðinlegasta útilokunar síunni.

Ég er tregur til að mæla gegn því að fólk kjósa öðru vísi en eftir sannfæringu sinni. En á meðan kosningakerfið er eins og það er, þá er ekki raunhæft að fara illa með atkvæði sitt. Svolítið eins og að hjálpa nágrannanum að ýta bíl í gang sem þið vitið báðir/bæði/báðar að er bensínlaus [það er samt varla að ég þori að nota bíla sem dæmi].

Þá eru nú varla margir kostir eftir.

Og nú ætti að vera einfalt að velja eftir málefnum, frambjóðendum og/eða hvernig viðkomandi framboð hafa staðið sig.

Ég sé (allt of) marga tala um að skila auðu í komandi kosningum eða jafnvel að mæta ekki á kjörstað.

Allt vegna þess að þeir finna ekki flokk sem er þeim nákvæmlega að skapi.. sem er auðvitað rétt, það er til dæmis ekki nokkur flokkur sem fellur nákvæmlega að öllum skoðunum mínum á sveitarstjórnarmálum.

En að sleppa því að kjósa einhvern þeirra tiltölulega hófsömu, „ráðsettu“ og „gömlu“ og þeirra sem eiga til dæmis fulltrúa í borgarstjórn… þetta eykur hlutfall þeirra sem eiga ekkert erindi í stjórn, og gefur þeim möguleika á að komast að. Kannski er hættan ekki mikil núna, en þetta er þróun sem þarf að varast.

Núverandi forseti Bandaríkjanna var kjörinn með atkvæðum 26,7% þeirra sem áttu rétt á að kjósa.

Til dæmis í Frakklandi [Bretland var ekki gott dæmi hjá mér í fyrri útgáfu færslunnar] hafa öfgaflokkar náð þingstyrk langt umfram fylgi kjósenda, sú þróun virðist reyndar vera að snúast við, en nokkuð dýrkeyptur lærdómur.

Og já, ég gef mér að harðir stuðningsmenn öfgaskoðana mæti frekar á kjörstað en þeir sem eiga erfitt með að gera upp hug sinn milli til dæmis gömlu flokkanna.

Þannig að fyrir alla muni, kjósið eitthvað annað en öfgaflokka, það er þess virði að greiða atkvæði gegn þeim.

Borgarstjórnarkosningarnar…

Posted: maí 12, 2018 in Umræða

Það er ekkert leyndarmál að ég styð Pírata í kosningunum til borgarstjórnar.

Þar skiptir auðvitað miklu að dóttirin, Alexandar Briem, er í þriðja sæti og á þokkalega góða möguleika á að komast inn. Þá spillir ekki að Dóra Björt er í fyrsta sæti, en Dóru Björt kynntumst við vel þegar hún var kærasta Viktors, sonar okkar. Og, ég hef fulla trú á öðrum sem eru ofarlega á lista og eiga möguleika á að ná kjöri.

Ég reyndar vil líka sjá Skúla Helgason ná kjöri fyrir Samfylkinguna… og geri ráð fyrir að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að hann nái kjöri.

En hvað með önnur framboð?

Sjálfstæðisflokkurinn kemur ekki til greina að þessu sinni, þó ég kunni ágætlega við Eyþór. En ég vildi óska að hann einbeitti sér að einhverju öðru en stjórnmálum. Það er talsvert atriði að vera læs á ársreikninga (og þeir sem eru það, mega ekki vísvitandi snúa út úr eða afbaka tölur), það er ekki í lagi að fara með fleipur af vanþekkingu, það er ekki gott að gefa rangar upplýsingar um menntun, það vekur upp spurningar að hafa á stefnu að gera eitthvað sem þegar er afgreitt, það er ekki traustvekjandi að geta ekki annað en tafsað sig fram úr einföldum, ítrekuðum spurningum og það er ekki gott að leggja áherslu á málefni sem ekki eru á verksviði borgarinnar… En aðallega er fullkomlega galið að vera að tengja sig við einhvern guð og að viðkomandi guð hafi valið sig..

Sósíalistaflokkurinn virðist einhver misskilningur eða tímaskekkja, forystumenn flokksins virðast ekki vita hvað hugtakið þýðir, „skapari“ flokksins (þrátt fyrir að vera oft skemmtilegur og koma með góða punkta) er nú ekki beinlínis trúverðugur í þessari sölumennsku. En ætli útslagið geri nú ekki hvað þau eru að boða arfavitlaus stefnumál, þetta minnir um margt á miðflokkinn, flokkurinn virðist verða til í kringum – annars ágætlega skemmtilegan einstakling – með þráhyggju fyrir að koma sjálfum sér á framfæri, vera ekki í neinum tengslum við þá sem þeir ætla að tala fyrir og ganga á ódýrum loforðum og innantómum slagorðum.

Alþýðuhreyfingin er ólíkt trúverðugri sem framboð þeirra sem minna mega sín. En ég er einfaldlega ósammála þeim í aðferðum til að bæta kjör almennings.. og ég óttast að þetta framboð geri lítið annað en að styrkja þá sem þau ætla nú væntanlega síst að styrkja.

Um Vinstri-græn gilda í rauninni svipuð rök, ég er einfaldlega ósammála þeim í mikilvægum atriðum og þó ég væri þeim sammála, þá væri trúverðugleikinn enginn eftir þátttöku flokksins í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi.

Ekki veit ég hvaða erindi Miðflokkurinn telur sig eiga í sveitarstjórnir, flokkurinn virðist hafa verið stofnaður í kringum veruleikafirringu eins manns og burtséð frá því, þá er ég þeim einfaldlega ósammála í þeim málum sem þau hafa lagt áherslu á, reyndar ekki hlaupið að því að átta sig á stefnu flokksins í borginni, heimasíðan ákaflega fátækleg og af henni að dæma hafa þau lítið annað fram að færa en gatnamál og einhverja spítalaumræðu.

Það gildir eiginlega svipað um Framsóknarflokkinn, þau hafa reyndar losað sig við daðrið við kynþáttafordóma, eflaust ágætis fólk, en þau hafa ekki gert upp við fortíðina. Það litla sem birtist um stefnu flokksins er annars vegar tengt menntun og samgöngum, gera kennarastarfið eftirsóknarvert og raunhæfar lausnir í samgöngumálum er það sem þau hafa fram að færa. Gott og vel, ekkert hef ég á móti því, en á meðan ekki kemur fram hvernig þau ætla að ná þessum markmiðum þá er þetta einfaldlega fullkomlega verðlaust.

Höfuðborgarlistinn er mögulega grínframboð, en ég er samt ekki viss, en alls kyns stefnumál um atriði sem borgin hefur ekkert um að segja eru í besta falli stór undarleg og hugmyndir og yfirlýsingar sem virðast byggjast á mikilli vanþekkingu… nema auðvitað, að þetta sé grín… en ef svo er, þá er það heldur ekki að takast, – jú, eitthvað hefur verið lagfært síðan kynningin byrjaði, en kannski enn ruglingslegra.

Flokkur fólksins byggir á frekar undarlegum málflutningi, óskilgreindur hrærigrautur, vanþekking og virðast spila á einhverja tilfinningasemi frekar en að hafa eitthvað raunhæft fram að færa. Þarna virðist reyndar ágætis fólk að hluta, en einnig fólk sem látið hefur frá sér vanhugsaðan þvætting og ekki tekið í mál að leiðrétta.

Kallalistinn leit út fyrir að verða skemmtilegt framboð, en þeir hættu við.

Svo er víst eitthvað sem heitir „Karlalistinn“, ég hélt lengi vel að þetta væri sama og Kallalistinn, en ef ég skil rétt þá snýst þetta um baráttu feðra til að umgangast börn sín… sem er svo sem gott mál, en ég er ekki alveg að átta mig á framboðum með nánast eitt sérstakt málefni… málefni sem má vinna innan annarra framboða og á öðrum vettvangi – og á heima á landsvísu en ekki sveitarstjórnarstigi, þeas. þetta þarf að leysa þar.

Þá er eitthvert kvennaframboð sem virðist ekki hafa mikið fram að færa sem ekki væri hægt að vinna fylgi innan annarra framboða, enda frekar óljóst hvernig þau ætla að vinna málum fylgi sem þau ætla að beita sér fyrir – og taka kannski helst atkvæði frá þeim sem helst gætu unnið að þeim málstað… og vinna þannig í rauninni væntanlega gegn því sem þau tala fyrir.

Svo er eitthvað framboð sem kallast Borgin okkar, frekar fá stefnumál, stefnumál sem ætti að vera hægt að vinna að innan annarra framboða og stefnumál sem ég er ekki sammála – og aðalatriðið virðist hreinasta smáatriði.

Ég þarf vonandi ekki að skýra hvers vegna ég hef skömm á framboðum sem gera út á kynþáttafordóma.

Eru fleiri framboð????