Þegar biskup kvartar undan einelti..

Posted: janúar 3, 2018 in Umræða
Efnisorð:, ,

Það er í tísku að svara málefnalegri umræðu með því að hjóla annars vegar í þá sem gagnrýna og hins vegar að reyna að mála þá sem þurfa að svara fyrir málefnalega gagnrýni sem einhvers konar fórnarlömb.

Nýlega hækkuðu laun biskups langt umfram launaþróun. Þegar samningsómyndin um laun presta var gerður (1997) voru laun biskups 262.400 og launavísitala 157,9. Launavísitala í ársbyrjun 2017 var 592,4 og hefðu laun biskups því átt að vera 984.457 í ársbyrjun 2017.

En, nei, biskup fer fram á launahækkun og fær laun upp á 1.553.359.

Skýringarnar voru þær að það væri svo íþyngjandi að þurfa að borga 90.000 leigu fyrir 400 fermetra íbúð á besta stað í bænum.

Þá var nefnt til réttlætingar að biskupinn væri forstjóri ríkisstofnunar. Sem er auðvitað skondið í ljósi þess að forsvarsmenn kirkjunnar hamast þess á milli við að halda því fram að kirkjan sé ekki ríkisstofnun.

Gott og vel, þetta eru hefðbundnir útúrsnúningar þeirra sem hafa vondan málstað að verja.

En málsvörn biskups gekk gjörsamlega fram af mér þegar farið var að kvarta yfir því að verið væri að leggja biskup í einelti. Þvílík dómsdags vanvirðing við þolendur raunverulegs eineltis.

Og höfum í huga að þetta er fólk sem telur sig sérfræðinga í að aðstoða fólk í erfiðleikum… „já, væna mín (vinur minn) ég skil svo vel hvað þú ert að ganga í gegnum, ég þurfti að ganga í gegn um nákvæmlega sams konar erfiðleika þegar launin mín voru hækkuð um meira en hálfa milljóna á mánuði umfram aðra“.

PS. jú, ég veit að biskup kvartaði ekki sjálf undan eineltinu, einhverjir „stuðningsmenn“ tóku það að sér, en hún hefur heldur séð sóma sinn í að fordæma þetta tal.

Ég velti því fyrir mér hvort kjararáð hafi einhverjar upplýsingar um að tekjur ríkissjóðs vegna jarða sem ríkissjóður tók yfir frá kirkjunni hafi aukist verulega á þessu ári (nú eða kostnaður minnkað)??

Talsmenn kirkjunnar, amk. þeirrar sem er rekin af almannafé, hafa löngum haldið því fram – reyndar út í bláinn, svo því sé haldið til haga – að yfirtaka ríkisins á jörðum, sem kirkjan réði yfir, standi undir launum presta.

Þessi fullyrðing er út í bláinn vegna þess að það getur enginn svarað því hvert verðmæti þessara jarða er, hvaða tekjur ríkissjóður hefur af þessum jörðum eða hvaða kostnað ríkissjóður ber vegna þeirra. Það getur enginn staðfest hvernig kirkjan á að hafa eignast þessar jarðir og það getur enginn sagt hvenær kirkjan á að hafa eignast þessar jarðir. Það getur nefnilega enginn svarað því til hvaða jarðir þetta eru.

Það liggur nefnilega í hlutarins eðli að ef þessar jarðir eiga að standa undir launum presta þá hlýtur það að vera forsenda launahækkunar að jarðirnar skili meiri tekjum.

Hrun – grýlan

Posted: desember 16, 2017 in Umræða
Efnisorð:

Það er varla svo að ég hlusti á fréttatíma án þess að verið sé að gefa í skyn að við stefnum að öðru hruni. Alls kyns fréttir, nú síðast um borðplötur, og umræður um miklar eignir eiga að finna líkingu við tímana fyrir hrun. Og gefa þannig í skyn að við getum átt von á öðru hruni.

Er þetta ekki svolítið eins og að reyna að spá fyrir úrslitum fótboltaleikja út frá veðrinu?

Svo langt sem ég man, þá varð hér hrun vegna innihaldslaus vaxtar bankakerfisins, útrásar þar sem peningum var dælt í íslensku bankana, meðal annars vegna loforða sem engin leið var að standa við… eflaust hjálpaði ekki tilfærsla eigna úr bönkunum. En er eitthvað líkt þessu í gangi? Og ef ekki, er einhver ástæða til að óttast sérstaklega að komið sé að næsta hruni?

Ég er amk. orðinn svo gamall að ég hef oft séð efnahagslegan uppgang án þess að honum fylgi hrun.

Auðvitað er ég enginn hagfræðingur og auðvitað getur vel verið að næsta hrun sé handan við hornið… en ég er ekki að kaupa að þessar upplýsingar bendi til þess.

Gervigreind

Posted: desember 7, 2017 in Spjall, Umræða

Síminn minn vakti mig, hálftíma fyrir pantaða „vakningu“, með því að byrja að spjalla.. benda mér á að það væri heiðskýrt og kjörið að fara í „lautarferð“ (picnic).

Ég var kannski ekki alveg á því í 5 gráðu frosti sem samvarar 12 gráðum með vindkælingu. Hefði jafnvel ekki verið spenntur þó það væri ekki vinnudagur.

Ég ætla manna síðastur að gera lítið úr þeim óþrjótandi möguleikum sem tæknin býður upp á, en að gervigreind sé að fara verða til þess að tækin taki yfir… æ, ég held að við eigum eitthvað í land með að fara að óttast það fyrir alvöru.

Gott og vel, auðvitað á maður ekki að draga of stórar ályktanir út frá einu tilfelli, en þetta á að vera nokkuð „vel til slípað“ og mjög vel prófað forrit.

Farinn á rétt tímabelti…

Posted: nóvember 26, 2017 in Umræða
Efnisorð:,

Ég nenni eiginlega ekki að bíða eftir að einhverjum starfshópum og rannsóknum og að umræðum ljúki sem sýni að klukkan okkar sé vitlaus… þetta er þekkt staðreynd.

Þannig að ég er farinn á rétt tímabelti og með rétta klukku… tíminn er sem sagt UTC -1:00 – ef einhver vill til að mynda hitta mig á hádegi, biðja um að hitta mig klukkan 13:00 GMT.

Ég sé að þetta tímabelti er stundum kallað „Nóvember“, en er ekki einfaldast að kalla þetta RÍT (réttur íslenskur tími)?

Hverjir eru með??

Eitt mesta stemmingslag frá upphafsárum punk-tímabilsins var lagið If The Kids Are United með Sham 69.

Ég man eftir að fara í fyrsta skipti til London haustið 1978 með Hálfdáni, Hákoni og Stebba. Fyrsta lagið sem við heyrðum þegar við kveiktum á útvarpinu á hótelinu okkar, YMCA við enda Oxford Street, var Sunday Morning Nightmare – Stebbi orðaði það eitthvað á þá leið að nú væri heldur betur búið að „hringja til messu“. Frábært lag, en þetta var bara B-hliðin á lítilli plötu – á hinni hliðinni var aðallagið, If The Kids Are United.

Við hlustuðum talsvert á Sham 69, reyndar aðallega litlar plötur, og við Fræbbblar spiluðum lagið Hurry Up Harry á fyrstu mánuðum ferilsins.

Þegar við tókum svo upp á því fyrir nokkrum árum að minnast upphafsára punksins – meðlimir Fræbbblanna og margra annarra hljómsveita sem voru að spila á þessum árum – þá var If The Kids Are United lokalagið (Fivebellies tóku líka Borstal Breakout).

Sham 69 spila á Gauknum næsta föstudagskvöld, 17. nóvember… við Fræbbblar verðum með, líka Leiksvið Fáránleikans og Roð…

Frábært!

Sham69B

Ég hef lengi lagt áherslu á að við fáum betri stjórnarskrá, eiginlega alveg síðan á níunda áratug síðustu aldar. Ég hef svo sem marg oft skýrt hvaða gallar eru á núverandi stjórnarskrá og ekki fengið nein svör um hvers vegna ekki má bæta úr þeim. Ég hef frekar heyrt eitthvað svona almennt um að þetta skipti nú ekki svo miklu máli og önnur verkefni eigi að hafa forgang. Píratar, sem ég styð í kosningunum, hafa setið undir svipaðri gagnrýni, að þau leggi of mikla áherslu á stjórnarskrána.

Og það er svo sem rétt, það eitt að breyta stjórnarskránni gerir ekki mikið í sjálfu sér, en það er bæði nauðsynlegur grunnur að betri stjórnsýslu og stjórnmálum – og kannski ekki síður yfirlýsing um breytt hugarfar.

Það má kannski líkja þessu við gatnakerfi. Ímyndum okkur að við hefðum í flýti þurft að taka gatnakerfi frá dönum 1944, gatnakerfi sem væri hannað fyrir þeirra flatlendi og tæki tillit til lestarkerfisins þeirra. Síðan hefði nokkrum útskotum verið bætt við en aldrei hefði mátt endurskipuleggja með tilliti til annars landslags, breyttra aðstæðna, breyttra sjónarmiða og/eða breyttra tækja. Ekki mætti hugsa fyrir göngu- eða hjólastígum frekar en breyttum sjónarmiðum í mannréttindamálum. Ekki mætti gera fjallvegi sómasamlega úr garði, frekar en að það mætti tryggja eignarhald og arð auðlindanna.

Betra gatnakerfi eitt og sér hjálpar ekki til að umferðin gangi greiðlega en það er samt nauðsynlegur grunnur.

Á meðan ríghaldið er í gamla gatnakerfið af forpokun og án nokkurra raka.. þá höldum við áfram að keyra út í skurð.