Góður félagi, Hjörtur Howser er látinn.
Við kynntumst í Hljóðrita 1982 þegar við Fræbbblar vorum að taka upp aðra stóru plötu okkar, plötu sem fékk allt of mörg nöfn en kannski aðallega „Poppþéttar melódíur í rokkréttu samhengi“. Siggi Bjóla var upptökumaður en Hjörtur var að vinna þarna á sama tíma og hljóp stundum í skarðið. Þrátt fyrir ólíkan uppruna og bakgrunn í tónlist fékk hann strax áhuga á því sem við vorum að gera og það leið ekki á löngu þar til hann var farinn að koma með hugmyndir, spilaði á hljómborð í nokkrum lögum og fékk Bjössa Thor, félaga sinn, til að koma og spila á gítar í nokkrum lögum.
Ég veit að þetta var ekki sjálfgefið, þeir sögðu okkur seinna að þeir hefðu nú ekki beinlínis kunnað að meta hvernig við Fræbbblar komum inn í íslenskt tónlistarlíf – með talsverðum bægslagangi, takmarkaðri kunnáttu og ekkert merkilegri tónlist (að því er þeim fannst þá).
En það breyttist fljótt, Hjörtur var fljótur að átta sig á því hvað við vildum gera og kunni að meta, eigum við að segja, „óvenjulega og óhefðbundna nálgun“ okkar.
Eitt augnablik rifjast upp. Fljótlega settum við sérstakt stef í eitt lagið, „Ronnie and the Punks“, Steini spilaði þetta á hljómborð, Hjörtur var að taka upp og eitthvað varð hann skrýtinn á svipinn án þess að segja mikið. Ég forvitnaðist aðeins og það kom í ljós að honum fannst tóna- hljómasamsetningin sérstök, sagði eitthvað á þá leið að þetta mætti í jazzi en ekki í poppi eða rokki. Ég sagði að okkur væri alveg sama hvað mætti og hvað mætti ekki, okkur fyndist þetta mjög flott. Kannski var þetta augnablikið þegar við kveiktum á því að við ættum kannski meiri samleið í tónlist en við höfðum áttað okkur á í fyrstu.
Ekki spillti hvað Hjörtur var lifandi og skemmtilegur og það leið ekki á löngu þar til við vorum farnir að hittast utan stúdíótíma. Orkan, áhuginn, drifkrafturinn og hugmyndaauðgin voru alveg einstök. Og hann var tilbúinn að hrífast af og verða hugfanginn af ólíkum tónlistarstefnum og ólíkri nálgun – allt á sama tíma.
Þegar við kynntum plötuna var einhvern veginn sjálfgefið að hann spilaði með okkur á nokkrum hljómleikum. Hann fór svo í hljómleikaferð til Rússlands um haustið með einhvers konar popplandsliði Bo og félaga. Við Fræbbblar hættum svo tímabundið fljótlega.
Leiðir okkar lágu ekki oft saman eftir þetta, en þegar við hittumst var alltaf eins og við hefðum „hist í gær“.
Við unnum saman, með Halla Reynis heitnum, að því að setja upp afmælistónleika fyrir Hörð Torfa í tengslum við sextugsafmæli Harðar í Borgarleikhúsinu – og í framhaldinu útgáfu plötu af þeim tónleikum. Aftur var sami krafturinn, sami áhuginn og sömu kröfur um að gera þetta vel til staðar. Hjörtur flutti eitt lagið eftirminnilega einn og var spurður fyrir hljómleikana hvort einfalt píanó myndi ekki sleppa. Nei, hann vildi gera þetta almennilega, sagði að hljómurinn í alvöru hljóðfæri væri „dýrari“.
Fyrir nokkrum árum kom hópur sem hóf sinn feril í tónlist í kringum 1980 að hittast og spila lögin sem við hlustuðum á í upphafi. Hjörtur tók að sjálfsögðu þátt í þessu með okkur, enda nokkur Stranglers lög á dagskránni.
Og þegar ég hélt upp á 60 ára afmælið mitt þar sem við Fræbbblar spiluðum nokkur lög var Hjörtur mættur í Þúsund ár. Afmælisgjöfin sérstök og skemmtileg, innrömmuð nótnaútskrift af laginu „Þúsund ár“, sem er enn uppi á vegg í skrifstofunni hjá mér.
Einhvern veginn vel við hæfi, ég held að Hjörtur hafi gert meira á sínum tíma en margur hefði náð á þúsund árum.
Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina.