Hjörtur Howser

Posted: apríl 26, 2023 in Minningar, Tónlist

Góður félagi, Hjörtur Howser er látinn.

Við kynntumst í Hljóðrita 1982 þegar við Fræbbblar vorum að taka upp aðra stóru plötu okkar, plötu sem fékk allt of mörg nöfn en kannski aðallega „Poppþéttar melódíur í rokkréttu samhengi“. Siggi Bjóla var upptökumaður en Hjörtur var að vinna þarna á sama tíma og hljóp stundum í skarðið. Þrátt fyrir ólíkan uppruna og bakgrunn í tónlist fékk hann strax áhuga á því sem við vorum að gera og það leið ekki á löngu þar til hann var farinn að koma með hugmyndir, spilaði á hljómborð í nokkrum lögum og fékk Bjössa Thor, félaga sinn, til að koma og spila á gítar í nokkrum lögum.

Ég veit að þetta var ekki sjálfgefið, þeir sögðu okkur seinna að þeir hefðu nú ekki beinlínis kunnað að meta hvernig við Fræbbblar komum inn í íslenskt tónlistarlíf – með talsverðum bægslagangi, takmarkaðri kunnáttu og ekkert merkilegri tónlist (að því er þeim fannst þá).

En það breyttist fljótt, Hjörtur var fljótur að átta sig á því hvað við vildum gera og kunni að meta, eigum við að segja, „óvenjulega og óhefðbundna nálgun“ okkar.

Eitt augnablik rifjast upp. Fljótlega settum við sérstakt stef í eitt lagið, „Ronnie and the Punks“, Steini spilaði þetta á hljómborð, Hjörtur var að taka upp og eitthvað varð hann skrýtinn á svipinn án þess að segja mikið. Ég forvitnaðist aðeins og það kom í ljós að honum fannst tóna- hljómasamsetningin sérstök, sagði eitthvað á þá leið að þetta mætti í jazzi en ekki í poppi eða rokki. Ég sagði að okkur væri alveg sama hvað mætti og hvað mætti ekki, okkur fyndist þetta mjög flott. Kannski var þetta augnablikið þegar við kveiktum á því að við ættum kannski meiri samleið í tónlist en við höfðum áttað okkur á í fyrstu.

Ekki spillti hvað Hjörtur var lifandi og skemmtilegur og það leið ekki á löngu þar til við vorum farnir að hittast utan stúdíótíma. Orkan, áhuginn, drifkrafturinn og hugmyndaauðgin voru alveg einstök. Og hann var tilbúinn að hrífast af og verða hugfanginn af ólíkum tónlistarstefnum og ólíkri nálgun – allt á sama tíma.

Þegar við kynntum plötuna var einhvern veginn sjálfgefið að hann spilaði með okkur á nokkrum hljómleikum. Hann fór svo í hljómleikaferð til Rússlands um haustið með einhvers konar popplandsliði Bo og félaga. Við Fræbbblar hættum svo tímabundið fljótlega.

Leiðir okkar lágu ekki oft saman eftir þetta, en þegar við hittumst var alltaf eins og við hefðum „hist í gær“.

Við unnum saman, með Halla Reynis heitnum, að því að setja upp afmælistónleika fyrir Hörð Torfa í tengslum við sextugsafmæli Harðar í Borgarleikhúsinu – og í framhaldinu útgáfu plötu af þeim tónleikum. Aftur var sami krafturinn, sami áhuginn og sömu kröfur um að gera þetta vel til staðar. Hjörtur flutti eitt lagið eftirminnilega einn og var spurður fyrir hljómleikana hvort einfalt píanó myndi ekki sleppa. Nei, hann vildi gera þetta almennilega, sagði að hljómurinn í alvöru hljóðfæri væri „dýrari“.

Fyrir nokkrum árum kom hópur sem hóf sinn feril í tónlist í kringum 1980 að hittast og spila lögin sem við hlustuðum á í upphafi. Hjörtur tók að sjálfsögðu þátt í þessu með okkur, enda nokkur Stranglers lög á dagskránni.

Og þegar ég hélt upp á 60 ára afmælið mitt þar sem við Fræbbblar spiluðum nokkur lög var Hjörtur mættur í Þúsund ár. Afmælisgjöfin sérstök og skemmtileg, innrömmuð nótnaútskrift af laginu „Þúsund ár“, sem er enn uppi á vegg í skrifstofunni hjá mér.

Einhvern veginn vel við hæfi, ég held að Hjörtur hafi gert meira á sínum tíma en margur hefði náð á þúsund árum.

Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina.

Að vera (ó)sammála báðum

Posted: febrúar 25, 2023 in Umræða

Þegar tveir eða fleiri aðilar deila, þá er ekki alltaf nauðsynlegt að ganga í lið með öðrum (einum) og láta eins og gamaldags fótboltaleikur sé í gangi á gamla Melavellinum. Hrópa (dæla inn á samfélagsmiðla) „Áfram {hinn-eða-þessi}“, deila öllum sem kemur frá viðkomandi og gagnrýna hugsunarlaust allt sem kemur frá hinu liðinu.

Það kemur nefnilega stundum fyrir að báðir (allir) hafa haldið fram rangfærslum, rökleysum og boðið upp á ómálefnalegan málflutning.

Og það er í besta lagi að skoða hvert mál, hvert atriði, hverja fullyrðingu fyrir sig.

Eymd notuð til að ala á fordómum

Posted: febrúar 20, 2023 in Samfélag

Ég sé að nokkrir vina minna eru að deila færslu með mynd af einhverjum sem er í svefnpoka í strætóskýli og lýsir (eðlilega) áhyggjum af því að þannig sé komið fyrir einhverjum að þurfa að hýrast þarna.

Það sem truflar mig hins vegar er tilvísun í að fólk af öðrum uppruna, uppnefnt í viðkomandi færslu, hafi það gott hér á landi á meðan.

Nú veit ég svo sem ekkert hvaðan sá/sú sem var í strætóskýlinu kemur, hver saga viðkomandi er, hvaða úrræði hafa verið reynd til að aðstoða eða hvað hefur yfirleitt komið til – ég get ekki einu sinni verið viss um að þetta sé ekki sviðsett (þó það sé kannski ekki líklegt).

En ég get verið alveg viss um að það að taka vel á móti flóttafólki er ekki að koma í veg fyrir að allt sé reynt til að aðstoða fólk sem þarf að hjálp að halda, „landa“ okkar eins og sagt er í færslunni.

Orðljót barátta eða ekki

Posted: febrúar 16, 2023 in Samfélag

Það er svo sem ekkert leyndarmál að ég er ekki mikill stuðningsmaður stjórnar Eflingar.

Því ber ekki að rugla saman við að ég styðji ekki baráttu láglaunafólks, ég ber bara ekki mikla virðingu fyrir framgöngu eða hegðun forystu félagsins.

Í sjálfu sér getur komið fyrir besta fólk að missa sig í baráttu fyrir því sem það trúir á og hefur helgað sig.. Og ekki ætla ég að vera of viðkvæmur fyrir orðanotkun.

Það sem truflar mig við framgöngu forystumanna félagsins er að þetta virðist nú frekar skipulagt en hitt, rangfærslur, drullumall beint að einstaklingum sem hafa vogað sér að hafa sjálfstæða skoðun. Það er eins og það fari vel skipulögð samfélagsmiðla herferð reglulega af stað.

Og ekki hjálpar að í mörgum tilfellum virðist þetta vera til að breiða yfir rökleysur, málefnafátækt og rangfærslur.

Biskup og grundvöllur trúarinnar

Posted: janúar 6, 2023 in Trúarbrögð, Umræða
Efnisorð:

Mér er svo sem ekkert sérstaklega illa við núverandi biskup, held svona að þar sé ágætur og vel meinandi einstaklingur sem hefur tekið að sér vonlaust verkefni og ekki bætir úr skák (!) að farast einstaklega illa úr hendi að reyna.

Í nýlegu viðtali – sem byggir reyndar á núll-bendils villu, sem forritarar reka strax augun í – þá segir biskup að guð ekki misvitrir mennirnir ákveði að kirkjan verði áfram til með sínum söfnuðum.

Nú er ég ekki guðfræðingur, eiginlega langt frá því, en stangast þetta ekki alveg á við grunn hugmyndir kristninnar?

Ef guðinn ákveður þetta, hvers vegna er ekki allt mannkyn í kristnum söfnuði? Hvers vegna voru ekki kristnir söfnuðir löngu fyrir tíma krists? Og hvers vegna þurfti guðinn að koma sjálfur „til manna“, láta menn pína sig til eins að geta fyrirgefið þeim?

HM, RÚV og heimamenn – áskorun

Posted: nóvember 17, 2022 in Íþróttir, Umræða
Efnisorð:

Það er óneitanlega ömurlegt að fylgjast með hvernig HM í knattspyrnu karla fer fram þetta árið.

Margir ætla, kannski eðlilega, sleppa því að horfa á keppnina í sjónvarpi. Ég er ekki alveg að átta mig á því hvort það breytir miklu úr þessu, heimamenn eru væntanlega búnir að fá það sem þeir ætluðu sér.

En svona til að létta okkur áhorfið sem erum enn að hugsa um að horfa.. þá vil ég skora á RÚV að nefna ekki mótsstaðinn, hvorki borgir né land einu orði allt mótið og sleppa öllu kynningarefni frá mótshöldurum.

Það eru nokkrar spurningar sem þarf að spyrja í framhaldi af skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna sölu ríkisins á hlut í Íslandsbanka. Eflaust hefði mátt spyrja þessara spurninga fyrr en það breytir því ekki að það er nauðsynlegt að fá svör.

  1. Hvaða forsendur lágu að baki þeirri ákvörðun að vilja dreifa eignarhaldi? Eru þetta einhverjar kenningar studdar rannsóknum og/eða gögnum? Eða hreinlega hjávísindi, flökkusögur og/eða það sem var kallað „kerlinga“bækur þegar ég var yngri? – Þetta er í öllu falli örugglega ekki list.
  2. Ef markmiðið var að ná dreifðu eignarhaldi á kostnað hæsta verðs, hvernig var að skilgreint? Hversu margir þurftu að kaupa og hver var lágmarkshlutur þeirra?
  3. Og ef markmiðið var dreift eignarhald, ekki bara dreifð sala, hvers vegna voru ekki sett skilyrði um að ekki mætti selja innan ákveðins (frekar langs) tíma?
  4. Og hver voru skilyrðin fyrir að vera metinn hæfur fjárfestir. Eða réttara sagt (það virðist staðfest að engar skilgreiningar hafi legið fyrir) hvers vegna voru ekki skýrar skilgreiningar settar áður en farið var af stað? [nei, þetta er heldur ekki „list“].

Svo því sé haldið til haga þá er ég alls ekki á móti sölu ríkiseigna, en þó svo væri, þá kemur það þessum spurningum ekkert við.

Og það má vel vera að það hefði mátt spyrja fyrr, það má vel vera að stjórnarandstaðan hefði mátt gera athugasemdir – en það afsakar ekki þessi vinnubrögð og það svarar ekki þessum spurningum.

Því ef hluturinn var seldur á afslætti án gildrar ástæðu og án skilgreindra markmiða og án þess að skilgreina kaupendur.. þá er hefur ríkissjóður misst af talsverðum fjármunum.

Ég lofaði mér í vor að hunsa þessa lönguvitleysu sem „úrslitakeppnin“ í Bestu deild karla í fótbolta er… en það er auðvitað ekki hægt að sleppa lokaleiknum þegar Breiðablik er búið að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

En nokkrar samhengislausar hugleiðingar um leikinn, sumarið og framhaldið.

Leikurinn var sérstakur – eða réttara sagt, ekkert sérstakur – Blikar voru talsvert sterkari og ef ekki hefði verið fyrir stórleik markvarðar Víkinga þá hefði sigurinn orðið mun stærri. Þá hefðu sóknarmenn Blika kannski mátt klára betur færin, sérstaklega undir lokin, en það stefndi aldrei í að sigurinn væri í hættu. Ekki ætla ég að fara að væla (mikið) yfir dómgæslunni en ég má samt aðeins hugsa. Erlendur er auðvitað talsvert betri dómari en ég og auðvitað falla vafa atriðin stundum með og stundum á móti. Og ég geri mér grein fyrir að „Blikagleraugun“ ekkert sérstaklega hlutlaus. Ég er enn ekki að skilja hvers vegna Blikar fengu ekki 1-2 víti í fyrri hálfleik og enn síður er ég að ná því hvernig Víkingar fengu að klára fyrri hálfleikinn með 11 menn inni á vellinum. Getur hugsast að dómarar veigri sér frekar við að sýna rautt spjald framan af leik? Og það þyrfti aðeins að skýra betur fyrir mér hvers vegna gulu spjöldin sem Viktor Örn fékk voru fyrir verri brot en nokkuð mörg önnur brot sem voru afgreidd spjaldalaus. En gott og vel, leikmenn „á gulu spjaldi“ eiga auðvitað að fara varlega.

Að Víkingum, sem ég hef borið virðingu fyrir síðustu árin. Þeir eru með frábæran þjálfara, alvöru ‘karakter’ sem ber virðingu fyrir keppinautum og það að senda leikmenn til að votta Blikum virðingu við verðlaunaafhendingu er gott dæmi. Víkingarnir hafa svolítið haft þann stimpil (með réttu eða röngu) síðustu árin að vera „bölvaðir tuddar“ [ekki mín orð, en] hafa klárlega spilað eins fast og dómarar leyfa og byggt árangurinn að miklu leyti á þeim styrkleika. Ekki minn smekkur á fótbolta, en það er allt í góðu að menn nálgist verkefnið eins og þeim hentar, þeir eru klárlega með lið sem á erindi í Evrópu og með Blikum eru að færa íslenskan fótbolta upp á við. Eitthvað fannst mér leikmenn þeirra eiga erfitt með að standa í lappirnar í báðum leikjunum í Kópavogi, en bara mín upplifun.

Annars var þetta fínasta Íslandsmót, ég er á því að Blikaliðið frá því i sumar sé besta knattspyrnuliðið í sögu íslenskrar knappspyrnu – og er ég þá ekki að gleyma frábærum liðum frá síðustu öld… Þetta er auðvitað alltaf smekksatriði og ekki er ég að þykjast vera hlutlaus – en liðið spilar fótbolta eins og mér finnst að eigi að spila fótbolta. Í minni sérvisku (að þessu leyti eins og svo mörgu öðru) þá nenni ég eiginlega ekki að horfa á leiðinlegan fótbolta – jafnvel þegar ég var forvitinn um úrslit annarra leikja í sumar þá hélt ég ekki athygli þegar lið voru ekki að reyna að spila fótbolta.

Það lið sem mér fannst kannski helst að ná að spila góðan fótbolta, fyrir utan Blika, var Fram, en þar vantaði kannski einfaldlega betri leikmenn og breiðari hóp. Ég þykist vita að Stjarnan og Valur komi betri á næsta ári, og er ekki gleyma KA. Ég sakna Leiknis úr deildinni, svona sem Breiðholtsbúi, að mínu viti „fórnarlömb“ illa uppsettrar framlengingar á mótinu. Kannski ekki að spila fótbolta sem ég nennti sérstaklega að horfa á, en það var einhver stemming með liðinu.

En, það sem mig langaði nú kannski aðallega að segja eftir leikinn og eftir tímabilið.

Ég skil vel að það freisti leikmanna að fara út í atvinnumennsku, sérstaklega freistandi fyrir unga leikmenn.

En næsta skref íslensku liðanna, Blikar vonandi fremstir, er að félögin verði það stór að það sé meira (eða amk. jafn) spennandi kostur fyrir leikmenn að spila fyrir þessi lið en að fara í miðlungslið á (td.) Norðurlöndunum eða í minni deildum í Evrópu.

Og að lokum verð ég að fá að bjóða Alex Frey velkominn í Kópavoginn. Væntanlega koma fleiri sterkir leikmenn, en ánægður að sjá að Blikar ætli að styrkja hópinn enn frekar, mikið leikja álag og þátttaka í Evrópu kallar á enn stærri hóp af frábærum leikmönnum. En alltaf lykilatriði að kjarninn er uppalinn hjá félaginu.

… til Blika

Posted: október 28, 2022 in Íþróttir, Fótbolti, Umræða
Efnisorð:, ,

Mig langar rétt að nefna eitt atriði við Blika í kjölfar yfirburðasigurs á Íslandsmótinu í fótbolta karla. Og rétt að taka fram strax að ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að þetta verði í lagi.

Það er gott, alveg frábært, að vera stoltur af sínu liði og njóta þess að horfa á liðið spila frábæran fótbolta og ná árangri þannig.

En fyrir alla muni ekki byrja að gera lítið úr leikmönnum eða stuðningsmönnum annarra liða.

Takið frekar þjálfara síðustu Íslandsmeistara, og auðvitað þjálfara og leikmenn Blika til fyrirmyndar, berið virðingu fyrir andstæðingum og sleppið einhverjum hallærilegum skotum og tækifærum til að gera lítið úr árangri eða sögu andstæðinganna.

Ég veit að einhverjum þykir þetta “sniðugt” og finnst þetta hluti af leiknum, en þetta er auðvitað yfirgengilega hallærislegt – svona einhver arfur frá fótboltabullum, sem hafa verið áberandi í Evrópu – kannski er þetta á einhverju stigi sprottið af sömu rótum og einelti [þó ég ætli nú auðvitað ekki að fara að bera það saman].

Nýtt fyrirkomulag efstu deildar Íslandsmóts karla í fótbolta hefur heldur betur virkað illa á mig. Mér fannst þetta strax í fyrstu fráleitt og ekki hefur álitið aukist með reynslunni fyrsta árið.

Fyrir minn smekk eru það verðugir Íslandsmeistarar sem vinna keppni í efstu deild þar sem allir mæta öllum á jafnréttisgrunni, heima og heiman.

Stærsta vandamálið er að það er innbyggð ósanngirni í þessu fyrirkomulagi.

Það hjálpar ekki að þetta fyrirkomulag hefur bætt við ótölulegum fjölda fullkomlega tilgangslausra leikja – það var svo sem ekkert endilega fyrirséð, en mun líklegra en með betra og sanngjarnara fyrirkomulag.

Besta (eða auðvitað versta) dæmið um ósanngirni núna er að FH, sem var í efra fallsætinu, fékk heimaleik á móti Leikni sem var í síðasta örugga sæti.. lykilleikur um sæti í deildinni.

Að einhverju leyti snýst þessi breyting um að fjölda leikjum í efstu deild. En ég get ekki með nokkru móti séð hvers vegna það er eftirsóknarvert að fjölgun tilgangslausum leikjum þar sem hvorugt liðið hefur að nokkru að keppa.

Bæði handbolti og körfubolti fóru á sínum tíma þá leið að setja einhverja úrslitakeppni eftir venjulega deildakeppni – þar sem liðið sem lauk venjulegri deildakeppni í áttunda sæti gat orðið Íslandsmeistari. Jú, jú, það varð til lokakeppni með tilheyrandi “spennu”, en fljótlega þá varð sjálf deildakeppnin að (nánast) tilgangslausu æfinga- og/eða upphitunarmóti.

Ég veit að mörgum finnst „spennan“ mikils virði, en fyrir minn smekk, ef ég er að leita að spennu er einfaldara að fara í bíó.

Ég geri ekki lítið úr því að það er erfitt að hafa fyrirkomulag á Íslandsmóti án þess að margir „dauðir“ leikir komi í loka umferðunum – sérstaklega þegar sem mikill munur er á getu liðanna.

Ég er á því að eina leiðin til að fækka tilgangslausum leikjum sé að hafa færri lið í efstu deild, átta, tvö falla og vonandi heldur Ísland fjórum sætum í Evrópukeppnum – í boði Blika og Víkinga (og kannski KR) eftir slaka frammistöðu íslenskra liða nokkur ár þar á undan.

Við erum einfaldlega ekki nægilega mörg til að halda úti fleiri en átta (eða mögulega tíu) liðum á efsta stigi… að hafa tólf lið í efstu deild mörg þeirra þunnskipuð og reyna að bæta sér upp takmarkað úrval leikmanna með aðkeyptum (ég segi ekki meðaljónum, en) leikmönnum sem kosta sitt og bæta litlu við íslenska fótbolta.

Átta lið, fjórar umferðir, allir við alla, heima og heiman, tvö lið falla, fjögur fá sæti í Evrópukeppni.. ég hef ekki heyrt betri leið til að sem flestir leikir verði þannig að bæði lið hafi að einhverju að keppa. Og þetta fyrirkomulag skilar 28 umferðum.

Ég veit að þetta verður ekki vinsælt hjá liðum sem eru núna í neðri hluta deildarinnar, en ég er sannfærður um að til lengri tíma litið skilar þetta betri og sterkari liðum. Er það virkilega svo mikils virði að hanga í efstu deild með fámennan leikmannahóp, talsverðan kostnað af erlendum leikmönnum og vera í fallbaráttu ár eftir ár eða í einhverju jó-jó-i á milli deilda? Er ekki betra að fá tíma til að byggja upp og koma upp sterkum hópi uppalinna leikmanna?