Það er nánast galið að fylgjast með umræðunni vegna frumvarps um að banna umskurð barna. Út af fyrir sig mætti mögulega hugsa betur og kannski er þetta einfaldlega þegar bannað. En það mætti halda að það væri keppikefli þeirra sem mótmæla frumvarpinu að „dekka“ alla rökleysubókina.

Nokkrar greinar hafa birst í Fréttablaðinu nýlega.

Skoðum aðeins „rökin“.

„Ég hef aldrei hitt mann“ notar einn sem tölfræðilegar upplýsingar.

Allir skauta yfir tölur um fjölda barna sem hafa dáið í kjölfar aðgerðarinnar. Einn kallar það agnarlitla áhættu – kannski tölfræðilega lágt hlutfall, en ekki svo „agnarlítil“ áhætta að deyja.

Þau „rök“ heyrast kannski oftast að þar sem þetta sé trúarlegur siður þá sé það skerðing á trúfrelsi að banna þetta. Fyrir utan þá einföldu staðreynd að ekki er verið að skerða trúfrelsi nokkurs manns, aðeins að takmarka trúfrelsi einstaklingsins við hann sjálfan og setja skorður við að skaða aðra. Og enginn virðist þekkja bönn við margs kyns trúarathöfnum eða siðum í forneskjulegum samfélögum, bönn sem er sett vegna þess að viðkomandi athafnir stríða gegn almennum hegningarlögum, mannréttindum og/eða almennri skynsemi. Eða kannski kjósa þeir einfaldlega að hunsa óþægilegar staðreyndir – þarf ég nokkuð að nefna mannfórnir, dauðarefsingsar fyrir litlar sakir, þrælasölu, umskurð kvenna?

„Flestir“ þolenda virðast sáttir er ein fullyrðing, ekki veit ég hvaðan sú tölfræði er komin, eflaust eru ekki margir að tjá sig, en ef einhver þarf persónulega nálgun, þá má benda á lýsingu Hrafns Gunnlaugssonar.

Þá er því haldið fram að þessi aðgerð sé órjúfanlega hluti af trúnni. Samt er fjöldi fólks sem tilheyrir þessum trúarbrögðum án þess að fylgja þessari hefði, kannski ekki stór, en einn er nóg til að þetta geti aldrei talist „órjúfanlegur hluti“.

Þá eru auðvitað hefðbundnar rökleysur settar fram, athöfninni er líkt við að gefa fermingarbörnum messuvín, að foreldrar megi reykja ofan í börn og borið saman við afstöðu Votta Jehóva til blóðgjafa. Fyrir það fyrsta, eitt mannréttindabrot réttlætir ekki annað, þetta er fráleit rökleysa. Hitt er að sopi af messuvíni telur varla meira en sopi af malti, enginn dauðsföll eru þekkt af völdum messuvíns (nei, ekki heldur alkóhólismi) og þeir sem messuvínið þiggja eru eldri en vikugamlir, nánast fullorðnir, enda „fullorðinsvígsla“. Svo langt sem ég veit þá mega foreldrar ekki reykja ofan í börn og ef svo er, þá er um að gera að banna þeim það. Svo eru Vottar Jehóva nefndir til sögunnar og sá ósiður þeirra að neita blóðgjöf til að bjarga lífi. Ég þekki ekki lagaumhverfið nægilega vel hér, en ég veit að í Bretlandi geta læknar (eðlilega) tekið fram fyrir hendurnar á foreldrum sem vilja ekki bjarga lífi barna sinna með blóðgjöf… ef það er ekki svo hér, þá er það eitthvað sem þarf að laga. Þá má hafa í huga að það er talsverður munur á tilgangslausi inngripi annars vegar og því að neita aðstoð hins vegar. Og, hvort sem er, eins og ég segi, ein vitleysan réttlætir ekki aðra.

Einhver nefnir AIDS til sögunnar án þess að geta hvert samhengið er, vísað í skýrslur heilbrigðisstarfsfólks, án þess að geta heimilda og án þess að geta hver rök þessa heilbrigðisstarfsfólks séu – hvað þá að nefna annað heilbrigðisstarfsfólk sem hefur aðrar skoðanir. Og auðvitað er WHO nefnd til sögunnar í framhjáhlaupi til að reyna að tengja stofnunina við stuðning við umskurð, auðvitað án nokkurra heimilda.

Til að bíta höfuðið af skömminni þá er svo verið að ýja að því að þeir sem taka málstað hvítvoðunga í þessu sjálfsagða mannréttindamáli, og gera það óháð trúarbrögðum, þjóðerni eða kynþætti séu að sýna kynþáttahatur, „rasisma“?

Að lokum er gjarnan talað um að þetta sé virðingarleysi við trúarhópa eins og gyðinga. Mér þykir eiginlega þvert á móti lítilsvirðing við gyðinga að gefa sér þeir taki ekki rökum, virði ekki mannréttindi og hangi sérstaklega á einu atriði þegar þeir hafa aflagt mörg einkenni trúarinnar. Gyðingar eru, eins og flestir trúar- lífsskoðunarhópar, langflestir skynsamir og ekki rétt að dæma heilan hóp út frá skoðunum örfárra talsmanna.

 

 

 

Slappur „Guð“

Posted: febrúar 24, 2018 in Trúarbrögð, Umræða

Í kjölfar morðanna í Bandaríkjunum í síðustu viku keppast heittrúaðir kristnir við að birta gamla klisju og nemanda sem spyr guðinn hvers vegna hann hafi ekki komið nemendum til bjargar og guðinn svarar að hann hafi því miður verið útilokaður frá skólum.

Ég veit svo sem alveg að þetta er ómerkilegur áróður og þeir sem dreifa þessu vita alveg betur.

En skoðum aðeins.

„Guðinn“ er almáttugur, en samt getur hann ekki blandað sér í atburði innan veggja skóla vegna þess að ekki má tilbiðja hann þar.

Er „Guðinn“ svo aumur að það eitt að ekki megi tilbiðja hann í skólum þá getur hann ekki aðstoðað þá sem á hann trúa?

„Guðinn“ er ekki bannaður frá heimilum, en einhver dæmi eru nú um ofbeldisverk innan veggja heimilanna.

„Guðinn“ er nú svo ekki einu sinni ekki bannaður í kirkjum í Bandaríkjunum, en samt hefur verið níðst á börnum þar í gegnum tíðina, áratugum ef ekki öldum saman. Og jafnvel eru nú dæmi um skotárásir í kirkjum.

Er þetta virkilega guðinn ykkar?? Ég held / vona ekki. Ég held að þetta sé vanhugsað og frekar ómerkilegt áróðursbragð.

Þannig að svona hafið í huga áður en þið setjið þetta næst inn á Facebook eða blogg eða aðra samfélagsmiðla… þeir sem lesa þetta hugsa ekki, „já, kannski væri nú rétt að leyfa trúboð í skólum“, flestir hugsa „mikið skelfilega er þetta aumkunarverður útúrsnúningur og svakalega er þetta máttlaus og lélegur guð sem þið trúið á – ekki vil ég tilheyra svona trúarbrögðum“.

Þröngsýnn

Posted: febrúar 17, 2018 in Umræða
Efnisorð:

Ég játa að ég er þröngsýnn – og skammast mín ekkert fyrir.

Ég hafna hvers kyns hugmyndum og skoðunum sem byggðar eru á fáfræði, rökleysum, stangast á við þekktar staðreyndir, ganga gegn mannréttindum, hanga á langsóttum getgátum og vangaveltum og/eða hafa það eitt sér til stuðnings að byggja á hefð eða sögu.

Ég geri kröfur um upplýsingar, þekkingu, staðreyndir og rök.

Ég hef nefnilega aldrei skilið þetta tal um „víðsýni“, að taka hlutum með „opnum huga“ og reyna að hafa skilning og þolinmæði á hvers kyns vitleysu. Það er til dæmis gott að muna að opinn hugur á það til að fyllast af rusli.

Hvaðan kemur þessi hugsun að „víðsýni“ sé eftirsóknarverð og „þröngsýni“ sé slæm?

Eina víðsýnin sem á við er að vera tilbúinn til að endurskoða afstöðu þegar nýjar upplýsingar koma fram.

Styð Skúla Helgason

Posted: febrúar 4, 2018 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Ef svo ólíklega skyldi vilja til að það fari eitthvað á milli mála þá styð ég Skúla Helgason í prófkjöri Samfylkingarinnar.

Smá bakgrunnur… ég finn mig hvergi á einhverjum pólitískum áttavitum, „vinstra“ fólk kallar mig „hægri“ sinnaðan og öfugt.

Að grunni til vil ég afskipti ríkisins í lágmarki og tel verkefni að öðru jöfnu betur komin í hendur einkaaðilum… það vantar auðvitað mikið á að umhverfið sé í lagi til að þetta virki nægilega vel en það er önnur umræða.

Hins vegar eru ákveðin atriði sem þarf að tryggja að séu í lagi, menntun, heilbrigðiskerfið skipta þar mestu máli. Ekki bara vegna þess að ég vil búa í þjóðfélagi sem leggur áherslu á menntun og heilsu – sem er alveg nægilega góð ástæða – heldur er einfaldlega mjög þjóðhagslega hagkvæmt að hafa þessi atriði í forgangi … svona fyrir þá sem þurfa að reikna alla hluti til enda á „hagfræðinótum“.

Hægri / vinstri skiptir mig engu… ég styð fólk sem leggur áherslu á það sem skiptir máli og kemur hlutunum í verk.

Þess vegna styð ég Skúla Helgason.

 

[Gefum okkur að trúfélög væru óháð ríkinu og rekin eins og hver önnur áhugafélög… svona samtal væri eiginlega algjörlega út úr kú]

Ég var að velta fyrir mér hvort það væri ekki fín hugmynd að taka eitthvert áhugafélag um yfirnáttúrulegar verur og láta ríkissjóð um reksturinn, kannski skella nokkrum milljörðum í þetta á ári.. ráða starfsfólk á fantagóðum launum, nokkuð margföldum launum sjúkraliða, lögreglumanna, sálfræðinga o.s.frv… og láta þá fá jarðir til að búa á og leyfa þeim að hirða hlunnindin.

Nei, er það ekki algjör óþarfi? Getur fólk ekki sinnt þessum áhugamálum bara á eigin forsendum… á þetta að hafa eitthvert hlutverk?

Já, já, þau myndu sjá um alls kyns tímamótaathafnir, nafn, manndómsvígslur, hjónavígslur.

OK, og gera þetta ókeypis?

Nei, nei, þeir sem nota þjónustuna greiða auðvitað vel fyrir.

Svona eins og fólk gerir hvort sem er?

Já, já… og svo kannski sjá um að aðstoða fólk sem hefur orðið fyrir áföllum.

Eins og sálfræðingar?

Já, nákvæmlega.

Og eru þeir þá menntaðir sem sálfræðingar?

Nei, ekki beint, en mæta kannski í einn kúrs.

Nú, skil ég ekki, er ekki betra að til þess menntaðir sérfræðingar sjái um svona? 

En þetta eru svo krúttleg félög, þau trúa því að heimurinn hafi verið skapaður af yfirnáttúrulegri veru sem fylgist með okkur og grípi inn í aðstæður hjá okkur ef við biðjum nægilega vel.

Eru einhverjar upplýsingar staðreyndir sem styðja þessar hugmyndir?

Nei, nei, þá þyrfti ekki að byggja á að trúa þessu…

Og hvað, viltu að ríkið reki öll félög sem trúa á yfirnáttúrulegar verur?

Nei, auðvitað ekki, við veljum bara eitt. Það má nota þetta í siðferðilegum tilgangi. Þetta sem ég er með í huga trúir því að yfirnáttúruleg vera hafi skapað heiminn, bara svona rétt si svona á nokkrum dögum fyrir ekki svo löngu síðan og að engin þróun hafi átt sér stað. Veran var víst mjög refsiglöð framan af fann allt í einu upp á því að barna konu með sjálfri sér fyrir tvö þúsund árum, látið drepa sig og rísa svo upp frá dauðum svo hún gæti fyrirgefið fólk það sem það gerði rangt.

OK, ekki veit ég hvað þetta fólk hefur verið að reykja, en þú nefndir siðferðilegan tilgang, kannski það sé einhver flötur.. 

Já, já, meðlimirnir hafa mjög skýrar reglur um öll siðferðileg mál sem eru vel skilgreind í einni bók.

Gott og vel, og eitthvað sem má fara eftir?

Nei, ekki beint, sumir telja sig reyndar taka öllu bókstaflega, en það er svolítið snúið því reglurnar eru talsvert mótsagnakenndar… og þeir sem segjast taka öllu bókstaflega taka nú eiginlega bara því sem þeim sjálfum hentar hverju sinni. Hins vegar er mun geðfelldari hópur sem notar sögurnar og reglurnar sem dæmisögur til að gefa skýr siðferðileg skilaboð.

Já, það er eitthvað, en hvernig er hægt að vita hvernig á að túlka sögurnar?

Jú, það er nú bara miðað við hvað samfélaginu finnst siðferðilega rétt hverju sinni.

En nú er ég alveg að týna þræðinum, hvers vegna þurfum við þá bækurnar og dæmisögurnar? Ef við notum hvort sem er bara það sem þykir rétt?

Hvaða smámunasemi er þetta, eigum við ekki að gera þetta?

Æi, veistu, ég sé bara enga ástæðu til…

„Ástæða“, hvað er það?

Tómas

Posted: janúar 27, 2018 in Tónlist, Umræða
Efnisorð:

Það eru sennilega ekki margir sem hafa komið jafn víða við íslenska tónlistarsögu og Tómas Tómasson, bassaleikari. Við þekktumst svo sem ekki mikið og aðrir kunna betur að gera hans sögu skil.

En… Tommi tók, ásamt Georg, upp plötu okkar Fræbbbla, „Dásamleg sönnun um framhaldslíf“ árið 2000 – við tókum upp nokkra hljómleika á Grand Rokk og fórum með efnið í stúdíó og kláruðum. Ekki bara vissi hann nákvæmlega hvað hann var að gera, heldur voru engin vandamál, öllu tekið með jafnaðargeði og húmor.

En einhverra hluta vegna kemur eitt andartak upp í hugann, við vorum að vandræðast með nafn á plötuna, en Tommi var alveg viss, „Gamlir og gramir“.

Einu sinni eða tvisvar forfölluðust hljóðmenn á hljómleikum þegar við vorum að kynna plötuna og það var sjálfsagt að mæta og hjálpa okkur með hljóðið. Í eitt skiptið spiluðu 3G’s (Guðjón sonur okkar og félagar hans) með okkur, og Tommi (og Georg) hrifust af þeim og gáfu þeim tíma í stúdíói… sem þeir nýttu til að taka upp plötu, plötu sem gekk vel í þeirra kynslóð og tveir þeirra hafa fundið sinn flöt í tónlistinni.

En, samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina..

Bannmerkingar…

Posted: janúar 22, 2018 in Umræða

Ég hef þrjóskast við að setja „bannmerkingu“ á símanúmerin frá því að þetta var í boði… Mér hefur þótt allt í lagi að fá stöku sinnum símtöl þar sem verið er að óska eftir styrkjum við góð (amk. oftast) málefni og stundum verið að selja eitthvað sem ég hef nú sjaldnast áhuga á, en hefur þó komið fyrir.

Oftar en ekki hef ég reynt að styrkja, forðast reyndar „áskriftir“ að styrkjum og auðvitað hefur stundum komið upp að annað hvort hefur talsvert mikið verið komið á stuttum tíma eða ekki hefur staðið vel á hjá okkur.

En… nú er svo komið að síðustu mánuði er ítrekað verið að hringja á miðjum vinnudegi í farsíma. Þetta er orðið svo mikið ónæði að ég einfaldlega verð að setja bannmerki á símann.