Posts Tagged ‘Besta deildin’

Ég lofaði mér í vor að hunsa þessa lönguvitleysu sem „úrslitakeppnin“ í Bestu deild karla í fótbolta er… en það er auðvitað ekki hægt að sleppa lokaleiknum þegar Breiðablik er búið að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

En nokkrar samhengislausar hugleiðingar um leikinn, sumarið og framhaldið.

Leikurinn var sérstakur – eða réttara sagt, ekkert sérstakur – Blikar voru talsvert sterkari og ef ekki hefði verið fyrir stórleik markvarðar Víkinga þá hefði sigurinn orðið mun stærri. Þá hefðu sóknarmenn Blika kannski mátt klára betur færin, sérstaklega undir lokin, en það stefndi aldrei í að sigurinn væri í hættu. Ekki ætla ég að fara að væla (mikið) yfir dómgæslunni en ég má samt aðeins hugsa. Erlendur er auðvitað talsvert betri dómari en ég og auðvitað falla vafa atriðin stundum með og stundum á móti. Og ég geri mér grein fyrir að „Blikagleraugun“ ekkert sérstaklega hlutlaus. Ég er enn ekki að skilja hvers vegna Blikar fengu ekki 1-2 víti í fyrri hálfleik og enn síður er ég að ná því hvernig Víkingar fengu að klára fyrri hálfleikinn með 11 menn inni á vellinum. Getur hugsast að dómarar veigri sér frekar við að sýna rautt spjald framan af leik? Og það þyrfti aðeins að skýra betur fyrir mér hvers vegna gulu spjöldin sem Viktor Örn fékk voru fyrir verri brot en nokkuð mörg önnur brot sem voru afgreidd spjaldalaus. En gott og vel, leikmenn „á gulu spjaldi“ eiga auðvitað að fara varlega.

Að Víkingum, sem ég hef borið virðingu fyrir síðustu árin. Þeir eru með frábæran þjálfara, alvöru ‘karakter’ sem ber virðingu fyrir keppinautum og það að senda leikmenn til að votta Blikum virðingu við verðlaunaafhendingu er gott dæmi. Víkingarnir hafa svolítið haft þann stimpil (með réttu eða röngu) síðustu árin að vera „bölvaðir tuddar“ [ekki mín orð, en] hafa klárlega spilað eins fast og dómarar leyfa og byggt árangurinn að miklu leyti á þeim styrkleika. Ekki minn smekkur á fótbolta, en það er allt í góðu að menn nálgist verkefnið eins og þeim hentar, þeir eru klárlega með lið sem á erindi í Evrópu og með Blikum eru að færa íslenskan fótbolta upp á við. Eitthvað fannst mér leikmenn þeirra eiga erfitt með að standa í lappirnar í báðum leikjunum í Kópavogi, en bara mín upplifun.

Annars var þetta fínasta Íslandsmót, ég er á því að Blikaliðið frá því i sumar sé besta knattspyrnuliðið í sögu íslenskrar knappspyrnu – og er ég þá ekki að gleyma frábærum liðum frá síðustu öld… Þetta er auðvitað alltaf smekksatriði og ekki er ég að þykjast vera hlutlaus – en liðið spilar fótbolta eins og mér finnst að eigi að spila fótbolta. Í minni sérvisku (að þessu leyti eins og svo mörgu öðru) þá nenni ég eiginlega ekki að horfa á leiðinlegan fótbolta – jafnvel þegar ég var forvitinn um úrslit annarra leikja í sumar þá hélt ég ekki athygli þegar lið voru ekki að reyna að spila fótbolta.

Það lið sem mér fannst kannski helst að ná að spila góðan fótbolta, fyrir utan Blika, var Fram, en þar vantaði kannski einfaldlega betri leikmenn og breiðari hóp. Ég þykist vita að Stjarnan og Valur komi betri á næsta ári, og er ekki gleyma KA. Ég sakna Leiknis úr deildinni, svona sem Breiðholtsbúi, að mínu viti „fórnarlömb“ illa uppsettrar framlengingar á mótinu. Kannski ekki að spila fótbolta sem ég nennti sérstaklega að horfa á, en það var einhver stemming með liðinu.

En, það sem mig langaði nú kannski aðallega að segja eftir leikinn og eftir tímabilið.

Ég skil vel að það freisti leikmanna að fara út í atvinnumennsku, sérstaklega freistandi fyrir unga leikmenn.

En næsta skref íslensku liðanna, Blikar vonandi fremstir, er að félögin verði það stór að það sé meira (eða amk. jafn) spennandi kostur fyrir leikmenn að spila fyrir þessi lið en að fara í miðlungslið á (td.) Norðurlöndunum eða í minni deildum í Evrópu.

Og að lokum verð ég að fá að bjóða Alex Frey velkominn í Kópavoginn. Væntanlega koma fleiri sterkir leikmenn, en ánægður að sjá að Blikar ætli að styrkja hópinn enn frekar, mikið leikja álag og þátttaka í Evrópu kallar á enn stærri hóp af frábærum leikmönnum. En alltaf lykilatriði að kjarninn er uppalinn hjá félaginu.