Sarpur fyrir janúar, 2016

Mótsagnir gegn áfengi í verslunum

Posted: janúar 20, 2016 in Umræða

Kannski á ég ekki að vera að eyða tíma í að þrasa um frumvarp um sölu áfengis í matvöruverslunum. Þetta skiptir mig í rauninni ekki svo miklu, til eða frá – er svona meira eitthvað sem mér finnst augljóst og dæmigert fyrir mörk afskipta ríkisins.

Aðalatriðið er að á meðan þetta er lögleg matvara þá kemur hvorki ríkisvaldinu né öðrum við hver vill selja mér vín, hvar og hvenær.. svo framarlega sem lögum og reglum um verslun með matvöru er fylgt. Punktur. En…

Kannski er skondnasta mótsögnin sú að þeir sem vilja hafa óbreytt ástand halda því í einu orðinu fram að áfengisneysla aukist við breytingarnar. En í hinu orðinu vísa þeir til góðrar þjónustu vínbúðanna og fullyrða að framboð, vöruúrval og þjónusta verði mun lakara. (Jú, það er rétt að mikið af hæfu fólki vinnur í vínbúðunum en ef það er eftirspurn eftir þjónustunni þá kemur þetta sama fólk til með að veita hana áfram).

Þá er gjarnan vísað til að vínbúðirnar haldi uppi góðri þjónustu á stöðum þar sem einkaaðilar myndu ekki hafa fyrir því að bjóða upp á áfengi. Með öðrum orðum, þá er ríkissjóður (að þeirra mati) að niðurgreiða þjónustu vegna vínsölu. Sama fólk hefur áhyggjur af því að ríkissjóður muni tapa á breytingunni.

Já, og svo á verð að hækka en neysla að aukast.

Og svo er því haldið fram að ríkissjóður verði af verulegum tekjum þrátt fyrir aukna sölu.

Annar angi af sömu mótsögn er að vísa í einstök dæmi einhvers staðar í útlandinu, „ég bjó einu sinni… og þar var ekkert framboð af víni.. og þar var unglingadrykkjan alveg skelfilega mikil vegna þess að framboðið var svo mikið“.

Margir halda því fram að ríkissjóður muni tapa verulegum fjárhæðum á því að missa vínbúðirnir, en halda því á sama tíma fram að áfengisneysla muni aukast úr hófi. Þetta gengur ekki upp því áfengisskattur skilar stórum fjárhæðum í ríkissjóð.

Þá eru þeir sem halda því fram að fyrirkomulagið sé stórfínt eins og það er, vandamál vegna áfengisneyslu séu allt of mikil og að þau muni aukast ef vín verður selt í matvöruverslunum. En það gengur varla upp að halda því fram að fyrirkomulagið sé bara í góðu lagi eins og er – en halda því fram á sama tíma það sé allt of mikið af vandamálum vegna áfengisneyslu. Ef fólk er samkvæmt sjálfu sér þá ætti það að fara fram á að þjónusta verði skert verulega, jafnvel að algjört bann á áfengi verði sett.. ekki að halda því fram að hlutirnir séu í góðu lagi eins og þeir eru.

„Lýðheilsurökin“ eru svo eitthvað sem hljómar vel og „angar“ af ábyrgð og fyrirhyggju. Þetta væru mögulega góð og gild rök ef sama fólk færi fram á að öll önnur óhollusta væri meðhöndluð á sama hátt og áfengi. Þannig væru ríkisreknar sérverslanir fyrir sykur, unna kjötvöru, kannski allt kjöt, smjör, osta?…og hvað veit ég um hvar á að draga mörkin? En það er ansi holur hljómur í þessum lýðheilsurökum á meðan þeim er bara beint gegn áfengi.

Þá má að lokum benda á þegar því er haldið fram gögn WHO sýni að það sé beint samhengi á milli áfengis í matvöruverslunum, heildarneyslu og skaðsemi. Vissulega er oft að því er virðist, sýnileg fylgni.. en hún er engan veginn einhlít, það má skoða Möltu, Ítalíu, Finnland og Holland svo ég taki nú augljós dæmi af handahófi frá WHO data repository.

Getur verið að það séu aðrir þættir sem hafa áhrif á neyslu? Að minnsta kosti að hluta?

Og getur verið að það spili fleiri þættir inn í skaðsemi en heildarneysla?

Ég ætla ekki að fullyrða neitt til eða frá, en mér þykir óvarlega farið með gögn og tölur þegar það er fullyrt að það sé sannanlega samhengi þarna á milli.

Ef ég skildi frambjóðendur annars stjórnarflokksins rétt fyrir kosningar þá var eitt af kosningaloforðunum að afnema verðtrygginguna. Vond hugmynd vegna þess að verðtrygging er ekki raunverulega vandamálið, heldur verðbólga og háir vextir. En svona loforð gengu vel í fólk, amk. fólk sem kann ekki að reikna.

Þetta hefur ekki verið gert.

Þá var talað um að bæta fólki forsendubrest vegna verðtryggðra lána.

Það var gert fyrir suma, ekki alla og fólk sem varð ekki fyrir neinum forsendubrest fékk líka „bætur“.

Þá var lofað að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

Það hefur ekki verið gert. Og það sem verra er, það er búið að lýsa yfir að það verði ekki gert.

Forsætisráðherra talar svo um að verðtryggð króna sé einn stöðugasti gjaldmiðill í heimi. Það er reyndar rétt svo langt sem það nær, enda þekkist í nokkrum löndum að verðtryggður gjaldmiðill hafi einfaldlega sérstakt nafn til að rugla ekki saman við þennan ónýta. Krónan er reyndar jafn ónýtur gjaldmiðill utan lands, en gott og vel, ekki það sem forsætisráðherra var að tala um.

Mér vefst reyndar „hugsun um heila“ þegar ég reyni að skilja hvers vegna forsætisráðherra vill afnema einn stöðugasta gjaldmiðil í heimi. Og enn frekar hvers vegna það þurfti að bæta fólki afleiðingar þessa stöðuga gjaldmiðils – og það handahófskennt.

Og nú er allt í einu farið að tala um þjóðaratkvæðagreiðslu um þennan stöðuga gjaldmiðil.

Ég velti fyrir mér hvort það væri frekar ráð að setja upp einhvers konar „vittryggingu“ á umræðuna.

En, verð að játa að ég veit ekki hvernig ætti að upphafsstilla.

Það er kannski óþarfi að vera að tíunda niðurstöður úr könnuninni sem Maskína gerði fyrir Siðmennt. En, jú, jú.. hún er nokkuð merkileg og um að gera að ræða málin.

Ef marka má niðurstöður könnunarinnar þá er um fjórðungur þjóðarinnar kristinnar trúar en trúir ekki á neitt.

Líklegasta skýringin er auðvitað að fólk telji sig finna siðferðisleg gildi í kennisetningum trúarinnar og/eða kunni að meta athafnir, siði og venjur trúfélaganna.

Það er hins vegar mikill misskilningur að ekki sé hægt að finna góð siðferðileg viðmið án trúarinnar.. þvert á móti þá geta þau sem ganga út frá grundvöllum trúarsetninga verið mjög skaðleg eins og sést best á viðhorfi margra kristinna til samkynhneigðra.

Svo er auðvitað engin þörf á að tengja viðburði við yfirnáttúrlegar verur.. Siðmennt hefur til að mynda sýnt fram á í verki að athafnir geta verið ógleymanlegar og vel heppnaðar þó ekki sé verið að skreyta þær með bábiljum fyrri alda.

Það hefur oft verið sagt að stysta leið kristinna að trúleysi sé að lesa biblíuna.

Fyrir um það bil tveimur áratugum ákvað kirkjan að hefja sérstakt átak í skólum landsins, prestar voru sendir í skólana á skólatíma og oftar en ekki farið með börnin í messu í kirkju.

Þetta hefur, eðlilega, verið mikið gagnrýnt og ekki fyrir löngu setti Reykjavíkurborg skýrar reglur um aðgang utanaðkomandi aðila í menntastofnanir – nokkuð sem kostað hefur rifrildi og ritdeilur nánast fyrir hver einustu jól.

En nýleg könnun sem Maskína gerði fyrir Siðmennt sýnir að ekki eitt einasta barn undir 25 ára aldri trúir á guð kristinna. Þau eru kannski sátt við siði og athafnir – og þau eru sammála mörgu í siðferðisboðskap kristinna – sem að mestu er eldri en kristnin og hefur lítið með hana að gera.

En þetta er einmitt sú kynslóð sem sat undir markaðsátaki kirkjunnar.

Kannski ættum við trúlaus frekar að hvetja kirkjuna til að mæta í skólana, fulltrúar hennar eru að ná miklu betri árangri en við…

Það er óneitanlega verulega skondið að fylgjast með umræðunni í kjölfar skoðanakönnunar sem Siðmennt lét gera um trúarskoðanir og fleira.

Það hefur aðeins verið gagnrýnt að ekki hafi verið boðið upp á guð-stýrði-miklahvelli sem valkost.

Það er í meira lagi skondið að sjá fólk reyna að grauta þessum hugmyndum saman. Kenning biblíunnar um hvernig og uþb. hvenær guð á að hafa skapað heiminn er nokkuð skýr. Og hún hefur klárlega verið afsönnuð.

Tilgáta vísindanna um miklahvell er sennilega besta (ja, skársta) nálgun sem við höfum. Mögulega koma aðrar og betri kenningar síðar, en það verður á forsendum vísindanna.

Það er með ólíkindum að fullorðið og – að því virðist, að öðru leyti – nokkuð greint fólk skuli ekki einfaldlega getað kyngt þessu og samþykkt að texti biblíunnar sé hreint og klárt bull.

Þess í stað er farið að fjasa um að biblían sé nú bara líkingamál og hangið á því eins og hundur á roði að það megi nú bara alveg gefa sér að það sé eitthvað að marka þennan texta. Texta sem ekkert sérstaklega vel upplýstir einstaklingar skrifuðu fyrir nokkur þúsund árum í einhverri tilraun til að geta sér til um upphaf alheimsins.

Og úr verður einhvers konar grautarhyggja sem gengur gegn einfaldri skynsemi, þekktum staðreyndum og augljósum rökum. Og til að bíta höfuðið af skömminni þá er þetta sama fólk að setja sig á háan hest í umræðunni, þykist vera eitthvað „andlega“ merkilegra en við hin..

 

 

„Túlkunar“hefðin

Posted: janúar 9, 2016 in Trú, Trúarbrögð, Umræða

Ég sé að starfsmaður ríkisins er að kveinka sér undan því að of margir vilji kasta einhverri túlkunarhefð.

Eins og svo oft áður þegar þessi stétt er að reka áróður fyrir að vera áfram á ríkisspenanum þá er talað niður til allra sem voga sér að hafa aðra skoðun en þeir og skoðanir þeirra uppnefndar.

Það er eitt og annað við þetta að athuga.. og þetta helst.

Þetta er engin þúsund ára „túlkunarhefð“, þar til nýlega var þessu haldið fram sem staðreyndum og „túlkun“ kom hvergi við sögu. Og reyndar er mjög margir sem gera það enn. En á flóttanum frá upplýsingum og raunverulegum staðreyndum síðustu áratuga er allt í einu farið að tala um túlkun og jafnvel líkingamál. Þessi túlkun er í besta falli nokkurra áratuga gömul.

En það sem verra er þessi túlkun hefur verið og er enn notuð til að níðast á og brjóta mannréttindi á fólki. Skemmst er að minna fordóma gagnvart samkynhneigðum sem enn eru mjög áberandi í skjóli þessarar túlkunar.

Svo er líka allt í lagi að hafa í huga að þessi úrelta túlkun á kenningum sem klárlega standast enga skoðun er einfaldlega fullkomlega óþörf.

Í rauninni eru það því allt of fáir sem vilja kasta þessu út í hafsauga.

Plötuútgáfa

Posted: janúar 4, 2016 in Tónlist, Umræða
Efnisorð:, , ,

Upptaka og útgáfa nýrrar Fræbbblaplötu tók góðan hluta af seinni hluta ársins 2015 hjá okkur. Eftir að hafa verið að basla við upptökur í nokkur ár og látið eitt og eitt lag „leka“ í útgáfu þá ákváðum við að fara í gott stúdíó með topp hljóðmanni og gera loka tilraun til að taka upp. Fyrir valinu varð Sýrland og Sveinn Kjartansson, topp aðstaða, topp maður og átti lausan tíma sem okkur hentaði.

Við vildum hafa plötuna „lifandi“ að mestu leyti, ekki dauðhreinsaða, en láta samt ekki slæm mistök fylgja, mistök sem hreinlega skemma fyrir lögum. Grunnar og gítarar runnu inn á nokkrum klukkutímum. Ríkharður, gítarleikari, tók svo að sér að for-hljóðblanda, spila inn nokkra aukagítara og taka upp söng í eigin stúdíói. Hann notaði óhemju tíma í að fá réttan hljóm í hvert lag og að lokum fórum við aftur til Sveins í Sýrland til að ganga frá.

Það gekk hratt og vel, mikilvægt að fá fersk eyru, góðar ábendingar og fullkomnari tækni. Við Rikki sátum yfir þessum frágangi með Sveini og tókst að klára í 2-3 atrennum.

Eftir miklar vangaveltur og hátt á annað hundrað tillögur varð nafnið „Í hnotskurn“ fyrir valinu.

Okkur grunaði að ekki væri nægileg eftirspurn eftir vinyl en ákváðum að framleiða nokkur eintök af geisladiskum. Við áttum ekki von á sérstaklega mikilli eftirspurn og fórum þá leið að hanna umslag sjálf, Iðunn teiknaði mynd og ég hannaði að öðru leyti. Leturprent prentaði vasa fyrir diskana og Sýrland sá um að skrifa diska.

Það var svo ánægjulegt að platan fékk strax stórfínar móttökur, nánast allar umsagnir um plötuna voru frá því að vera mjög jákvæðar upp í hæstu hæðir, „ein af plötum ársins“, „plata ársins“, „framúrskarandi“, „skemmtilegasta plata Fræbbblanna“, „besta plata Fræbbblanna frá ‘Viltu nammi væna?'“ svo ég nefni nú eitthvað.

Rás 2 var svo aftur eina útvarpsstöðin sem gaf plötunni tækifæri, enda hafa Óli Palli og félagar alltaf stutt vel við íslenska tónlist. „Í hnotskurn“ var plata vikunnar og var kynnt vel og vandlega þá viku, eitt lag datt inn á vinsældalista í 2 vikur og Óli Palli bauð okkur að spila í beinni á föstudegi. En þar við sat og hún datt strax úr spilun.

Við buðum dagblöðunum (og hálf-dagblöðum) eintök, enginn þáði og enginn fjallaði um plötuna (mér vitanlega). En Halldór Ingi og Arnar Eggert voru báðir mjög jákvæðir á vefsíðum sínum eins og Grapevine – og gott ef greinar Halldórs Inga birtast ekki líka í tímaritum sem fylgja flugi.

Kannski þurftum við að vera duglegri að koma okkur á framfæri, en gerð plötunnar hafði tekið toll í vinnu og sem áhugamál var á mörkunum að það væri réttlætanlegt að leggja meiri vinnu (og þess vegna kostnað) í kynningu sem óvíst var að myndi skila nokkru. Það litla sem við reyndum nú samt til að koma okkur á framfæri var pent afþakkað og ekki beinlínis hvatning til að reyna meira.

Halldór Ingi valdi hana bestu plötu ársins, hjá Dr. Gunna var hún í fimmta sæti og hún sást á nokkrum öðrum samantektum þó ekki eins hátt skrifuð – og auðvitað gæti ég hafa misst af einhverju.

Nú fórum við af stað vitandi það að þetta myndi aldrei standa undir sér fjárhagslega, vorum sátt við að borga með okkur og vildum einfaldlega gera góða plötu. Fólk eyðir væntanlega öðru eins í áhugamál eins og að gera eina svona plötu á nokkurra ára fresti. Ætli beinn útlagður kostnaður hafi ekki verið um 600.000, kannski er rangt að reikna okkur laun fyrir vinnuna, en á lágmarkstaxta hefðu þau laun varla verið undir 400.000 – og eitthvað meira ef við hefðum verið á okkar launum.

Við þurftum að gefa nokkuð af eintökum en ætli plötusala skili ekki í kringum 100.000 á endanum, sennilega eitthvað minna. Tónlistarveitur hafa skilað 66 krónum!

Auðvitað hefði verið gaman að fleiri gæfu henni tækifæri. Ég er enn sannfærður um að mikill fjöldi fólks hefði haft mjög gaman af þessu efni, ef það hefði einfaldlega vitað af plötunni og gefið henni tækifæri. Einhver sagði við mig að þetta væri sú plata ársins sem fæstir vissu af sem myndu hafa gaman af (eða eitthvað í þá áttina). Mögulega er „punk“ stimpillinn að fæla einhverja frá, mögulega hefur fólk enga trú á að við getum enn gert góða plötu en líklega eru hreinlega of fáir sem vita af henni.

Þannig hefði verið gaman að fá þau skilaboð í verki að einhverjir vildu fá aðra plötu frá okkur. En við skiluðum verki sem erum stolt af, verki við höfðum gaman af að vinna. Og við vissum fullvel að við myndum seint fá upp í kostnað.

Á hinn bóginn hef ég verulegar áhyggjur af framtíð tónlistar og þykist sjá þróun sem er varhugaverð, þó hún birtist okkur í mýflugumynd. Jú, ég veit að allir eiga að vera voðalega þakklátir fyrir að vera voðalega vinsælir þegar tónlistinni þeirra er dreift og stolið án þess að þeir fái túkall fyrir viðvikið. En þetta er grundvallar misskilningur, það eru bara örfáir sem ná í gegn á þeim forsendum, fjölbreytnin fer smátt og smátt hverfandi og flestir virðast elta sömu kerruna. Við getum leyft okkur að gefa út og tapa á því, en mér finnst sorglegt að hugsa til þess að ungt og efnilegt tónlistarfólk geti ekki lifað af því að semja og gefa út tónlist.