Archive for the ‘Verðtrygging’ Category

Eftir umræður síðustu daga um verðtryggingu er ég kominn á þá skoðun að það væri til mikilla bóta að taka upp sérstakan sýndargjaldmiðil til húsnæðiskaupa, „húsnæðiskaupakrónur“ (HKK), eða kannski eitthvert enn betra nafn.

Umræðan um verðtrygginguna er orðin þannig að hún stýrist af alls kyns rangfærslum og misskilningi og það er eiginlega orðið vonlaust verk að eltast við að leiðrétta og halda réttum upplýsingum til haga.

Með því að taka upp húsnæðiskaupakrónur er virkni lántöku og afborgana mun skiljanlegri („gegnsærri“).

Tökum dæmi.

Segjum okkur að við byrjum með HKK í dag, 1 HKK sé jafnvirði 10.000 íslenskra króna.

Lántakandi sem hefði tekið 10 milljóna lán í íslenskum krónum (sem vantar upp á að kaupa litla eign) fær nú lán upp á 1.000 HKK. Hann skiptir þeim í 10m íslenskar krónur og kaupir sína eign. Gefum okkur að lánið sé til 10 ára með 1% vöxtum (já, ég má láta mig dreyma í bloggfærslu) – og höfum einn gjalddaga á ári til einföldunar.

Ef lánið er með föstum afborgunum, þá borgar lántakandi 100 HKK á hverju ári, vexti af höfuðstól í HKK og kaupir íslenskar krónur á gengi HKK á gjalddaga.

Eftir eitt ár greiðir lántakandi þannig 100 HKK afborgun og 10 HKK í vexti, alls 110 HKK. Gefum okkur að gengi HKK sé 11.000 eftir eitt ár. Lántakandi þarf þá að kaupa íslenskar krónur á genginu 11.000, greiðir lánveitanda 1.210.000 (11.000 * 110) ÍKR.

Gefum okkur að gengi HKK lækki og detti aftur niður í 10.000 fyrir næsta gjalddaga (já, ég mátti láta mig dreyma), þá greiðir lántakandi áfram 100 HKK, 9 HKK í vexti og nú þarf hann að kaupa 1.090.000 ÍKR til að greiða. Afborgunin er alltaf sú sama 100 HKK, vextirnir lækka á hverjum gjalddaga og höfuðstóllinn lækkar sýnilega á hverjum gjalddaga.

Sama gildir um jafngreiðslulán, það er reiknað í HKK (sennilega er greiðslan eitthvað nærri 105-106 HKK á gjalddaga, nenni ekki að reikna nákvæmlega) og þegar kemur að gjalddaga er afborgun og vextir í HKK, greiðslan alltaf sú sama í HKK og lántakandi skiptir yfir í íslenskar krónur til að greiða. Afborgun hækkar aðeins, vextir lækka og höfuðstóll lækkar á hverjum gjalddaga.

Auðvitað kemur þetta í sama stað niður, en það er mun einfaldara að skilja hvernig verðtrygging virkar og það er mun skýrara að sjá höfuðstól lánsins lækka og horfa á fastar afborganir eða fastar greiðslur sem breytast ekki á lánstímanum.

PS. biðst fyrirfram afsökunar á mögulegum innsláttarvillum í útreikningum, er að gera þetta á hlaupum.

Fullt af fólki heldur að það að „afnema“ verðtryggingu leysi bókstaflega öll heimsins vandamál, „lækni“ skalla, komi á friði í mið-austur-löndum og losi okkur við Trump.

Það hefur lengi verið sagt [réttilega] að lottó, happdrætti, getraunaseðlar séu skattur á fólk sem kann ekki að reikna. [ég kaupi oft lottómiða, getraunaseðla og happdrætti – styrki gott málefni og hef gaman af að fylgjast með úrslitum – en ég geri mér engar vonir um að vinna].

Á sama hátt er ákveðin kvöð á fólk sem kann ekki að reikna þegar kemur að þjóðfélagsumræðu að halda að það bjargi einhverju að „afnema“ verðtrygginguna.

Alls kyns undarlegar kenningar hafa komið fram, fólk gengur meira svo langt að kalla þær „staðreyndir“. Það hjálpar ekki að kenningarnar eru þvers og kruss – mótsagnakenndar og ganga einfaldlega ekki upp.

Fyrir ekki svo löngu fékk maður mikla athygli í helstu fjölmiðlum, í boði hagsmunasamtaka heimila.. sem kunni ekki muninn á margföldun og samlagningu.

Þegar búið var að hrekja flestar bábiljurnar komu einhverjar kenningar um að verðtrygging væri verðbólguhvetjandi. Skoðum þetta aðeins.

Gefum okkur þrjá einstaklinga – Anna, Bjarni og Dísa – sem öll eru með þúsund kórónur í árslaun árið 1. Anna kaupir sér íbúð fyrir 5 þúsund kórónur og tekur verðtryggt lán fyrir öllum herlegheitunum. Anna borgar eitthvað nálægt 300 kórónum á ári af íbúðinni, lifir til þess að gera sparlega, neysla er að öðru leyti 650 kórónur og hún á 50 kórónur eftir. Og Anna notar einmitt þessar 50 kórónur til að kaupa flug og hótel í jólaferð.

Bjarni er á svipuðum nótum, neyslan er svipuð – en hann tók lán með breytilegum vöxtum fyrir sinni íbúð og fór með Önnu í sömu jólaferð.

Dísa lætur sér aftur nægja að leiga fyrir 200 kórónur á ári, en lifir eitthvað hærra, neyslan hjá henni er 750 kórónur og á einmitt líka 50 kórónur eftir til að fara með Önnu og Bjarna um jólin.

Ef verðbólgan er engin þá er verðtryggingin engin, breytilegu vextirnir eru óbreyttir og ef launin standa í stað þá eru þeir í sömu stöðu árið 10.

Ef verðlag hefur hækkað um 50% á fyrstu tíu árunum og laun hafa hækkað í takt – þá eru þau með 1.500 kórónur í laun, Anna borgar 450 kórónur af láninun á íbúðinni, sem hún getur núna selt fyrir 7.500 kórónur, Dísa borgar 300 kórónur í leigu. Og vegna þess að Bjarni tók lán með breytilegum vöxtum þá borgar hann einmitt 450 kórónur líka. Vegna verðbólgunnar er neysla Önnu og Bjarna komin í 975 kórónur og neysla Dísu er komin 1.125 krónur. Ferðin þeirra hefur líka hækkað um 50% og kostar núna 75 kórónur. Og ótrúlegt en satt, þau eiga einmitt 75 kórónur eftir í jólaferð.

Verðtrygging er sem sagt ekkert vandamál.

Stundum er misgengi launa og verðlags og jafnvel íbúðaverðs vandamál.

Gefum okkur að launin þeirra hafi bara hækkað upp í 1.450 kórónur á ári. Verðtrygging hækkar lán Önnu umfram greiðslugetu og hún á bara 25 kórónur eftir. Breytilegu vextirnir á láni Bjarna hækka í takt við verðbólguna, og hann á bara 25 kórónur eftir, sennilega eitthvað minna því breytilegu vextirnir eiga það til að hækka meira en því sem verðbólgu nemur. En, Dísa, sem ekki er með neitt verðtryggt lán á nefnilega samt bara 25 kórónur eftir.

Vegna þess að verðtrygging er heldur ekki vandamálið.. heldur misræmi verðlags og launa. Og það gildir jafnt fyrir þá sem eru með verðtryggð lán, þá sem borga breytilega vexti og þá sem eru ekki með nein lán.

PS. jú, fastir vextir eru möguleiki, en ekki í boði í efnahagsumhverfi með svona verðbólgu nema þá fáránlega háir.

 

Ég þarf að fara að ákveða hverjum ég greiði atkvæði í prófkjöri Pírata á Stór-Kópavogssvæðinu.

Það er ákveðið „lúxusvandamál“ að mér líst mjög vel á mjög marga frambjóðendur og á eiginlega frekar erfitt með að gera upp á milli.

En nokkur atriði telja mikið fyrir mér og ég er ekki alveg klár á afstöðu allra frambjóðenda til þeirra.

Þannig að mig langar til að setja fram nokkrar spurningar um nokkur atriði sem skipta mig máli.

  1. Ertu fylgjandi því stjórnarskrá stjórnlagaráðs verði samþykkt á næsta þingi?
  2. Ertu fylgjandi því að afnema verðtryggingu?
  3. Ertu fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju?
  4. Finnst þér siðferðilega rétt að deila og sækja efni (svo sem tónlist, sjónvarpsþætti, hugbúnað, bíómyndir) í óþökk þeirra sem eiga höfundarrétt þegar hægt er að kaupa fyrir sanngjarnt verð og sækja efnið á einfaldan og löglegan hátt? [ég er ekki að spyrja um hvort ykkur finnist að höfundar eigi að bjóða efnið aðgengilegt frítt, ég er ekki að spyrja um hvort / hvernig ætti að framfylgja einhverju hugsanlegu eftirliti og ég er ekki að spyrja um skoðanir á refsingum við brotum] – en þið megið sjálf ákveða hvað er „sanngjarnt verð“ og „einfaldur háttur“

Ef ég skildi frambjóðendur annars stjórnarflokksins rétt fyrir kosningar þá var eitt af kosningaloforðunum að afnema verðtrygginguna. Vond hugmynd vegna þess að verðtrygging er ekki raunverulega vandamálið, heldur verðbólga og háir vextir. En svona loforð gengu vel í fólk, amk. fólk sem kann ekki að reikna.

Þetta hefur ekki verið gert.

Þá var talað um að bæta fólki forsendubrest vegna verðtryggðra lána.

Það var gert fyrir suma, ekki alla og fólk sem varð ekki fyrir neinum forsendubrest fékk líka „bætur“.

Þá var lofað að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

Það hefur ekki verið gert. Og það sem verra er, það er búið að lýsa yfir að það verði ekki gert.

Forsætisráðherra talar svo um að verðtryggð króna sé einn stöðugasti gjaldmiðill í heimi. Það er reyndar rétt svo langt sem það nær, enda þekkist í nokkrum löndum að verðtryggður gjaldmiðill hafi einfaldlega sérstakt nafn til að rugla ekki saman við þennan ónýta. Krónan er reyndar jafn ónýtur gjaldmiðill utan lands, en gott og vel, ekki það sem forsætisráðherra var að tala um.

Mér vefst reyndar „hugsun um heila“ þegar ég reyni að skilja hvers vegna forsætisráðherra vill afnema einn stöðugasta gjaldmiðil í heimi. Og enn frekar hvers vegna það þurfti að bæta fólki afleiðingar þessa stöðuga gjaldmiðils – og það handahófskennt.

Og nú er allt í einu farið að tala um þjóðaratkvæðagreiðslu um þennan stöðuga gjaldmiðil.

Ég velti fyrir mér hvort það væri frekar ráð að setja upp einhvers konar „vittryggingu“ á umræðuna.

En, verð að játa að ég veit ekki hvernig ætti að upphafsstilla.

Verðtryggingin, til útskýringar…

Posted: janúar 26, 2014 in Verðtrygging
Efnisorð:

Það er einhver grundvallar misskilningur í gangi vegna verðtryggingarinnar. Ég átta mig ekki á því hvort þetta er hreinn og klár misskilningur, vankunnátta í reikningi eða hreint og klárt lýðskrum… eða kannski einfaldlega vegna þess að hún er „áþreifanleg“ og þægilegt að benda á, hentugur blóraböggull. Það er auðvelt að ná vinsældum með því að tala gegn verðbólgunni og það hljómar vel í mörg eyru að ætla að beita sér gegn henni.

Verðtryggingin er mótvægi við verðbólgu. Verðbólgan er raunverulega vandamálið. Ef ekki væri verðbólga þá væri verðtryggingin ekki sýnileg og skipti engu máli.

Hitt er að verðtryggingin væri heldur ekkert vandamál í verðbólgu ef laun fylgdu verðbólgunni líka.. þá hækkuðu launin einfaldlega jafnt og lánin og sami hluti launa færi til að greiða af lánum. Það sem gleymist í öllum hávaðanum og allri umræðunni um verðtrygginguna, sem vissulega er vandamál fyrir þá sem borga af lánum og fá greidd laun sem ná ekki að fylgja verðbólgu. Það gleymist hins vegar í þessu að aðal vandamálið er einmitt að launin fylgja ekki þróun verðlags. Og það gleymist að þetta er ekki bara vandamál fyrir þá sem borga af verðtryggðum lánum. Þetta er nefnilega líka vandamál fyrir þá sem þurfa að borga hækkandi húsaleigu, þurfa að kaupa mat, föt og aðrar nauðsynjar. Vandamálið er sem sagt ekki verðtryggingin heldur misræmi launa og verðlags.

Að lokum gleymist, eða er reynt að fela, að öll lán eru í rauninni verðtryggð. Aðferðin sem notuð er við óverðtryggð lán kallast breytilegir vextir. Þessir breytilegu vextir taka einmitt við af… verðbólgu. Og fylgja verðlagsþróun en ekki launaþróun. Og það sem verra er, breytilegir vextir byggja ekki á tiltölulega gagnsærri vísitölu, heldur verðbólgu og spádómum um verðbólgu.

Ég veit að það er hægt að finna ýmis dæmi með því að velja rétt tímabil sem sýna fram að á verðtryggð lán komi illa út, en til lengri tíma litið þá er ekkert að verðtryggingunni, hún er ekki vandamálið sem þarf að leysa.

Í gamla daga var talað um að fara Krýsuvíkurleiðina þegar farin var óþarflega löng leið að settu marki.

Skuldaleiðréttingarleiðin sem kynnt var á laugardaginn er vissulega skárri en við var að óttast eftir galgopaleg kosningaloforðin.

Ég hef heldur ekki áttað mig á hvers vegna þeir sem skulda húsnæðislán eiga frekar kröfu á leiðréttingu á kjörum en þeir sem búa við verri kjör vegna forsendubrests af öðrum ástæðum.

Þá finnst mér undarlegt, ef það er í lagi að setja skatt á þrotabúin – sem einhver hefði kannski látið kanna áður en farið var að berja sér á brjóst – hvers vegna tækifærið er ekki notað til að skattleggja enn frekar. Og nota peningana í almennar aðgerðir sem nýtast öllum, þess vegna beint í heilbrigðiskerfið, svo eitthvað sé nefnt.

Plástrakerfið sem kynnt var um helgina með tilheyrandi flækjum, undantekningum og takmarkaðri gagnsemi minnir á gamla sögu, „af hverju takið þið bílinn ekki bara úr handbremsu“..

Það væri nefnilega miklu meira gagn að því fyrir alla, ekki bara þá sem skulda verðtryggð húsnæðislán, að ná niður verðbólgu, jafnvel verðhjöðnun. Þá þarf engar sértækar aðgerðir eða plástra.

PS. nei, ég er ekki málpípa þrotabúanna.

PPS. nei, ég er ekki einu sinni talsmaður stjórnarandstöðunnar (nema kannski að því marki að ég þarf alltaf að vera á móti)

PPPS. nei ég er ekki að ljúga.

Verðtryggð lán lækka

Posted: ágúst 6, 2013 in Umræða, Verðtrygging
Efnisorð:

Ég velti fyrir mér hvort þeir sem býsnast hafi yfir verðtryggingunni, talið henni allt til foráttu og kallað þá öllum illum nöfnum sem voga sér að benda á að hún er ekki okkar raunverulega vandamál… hafi tekið eftir lækkun vísitölunnar í júlí.

Auðvitað er þetta ekki mikil lækkun, 411,5 í 411,3 stig. Og auðvitað ganga hækkanir fyrri ára ekki til baka á einum mánuði. Og hún hækkar aftur í ágúst.

En þetta gæti orðið til þess að auka skilning á eðli verðtryggingarinnar.

Og sérstaklega ef þetta gæri orðið til þess að fleiri skilji að verðtryggingin er ekki okkar stærsta vandamál í (td.) húsnæðismálum, stærsta vandamálið eru háir vextir…

Dögun er kannski ekki eins fjarri mér og ætla mætti í fyrstu. Þarna er að minnsta kosti fólk sem ég þekki af góðu einu og hefur einlægan vilja til að bæta hag heimilanna.

Margrét Tryggvadóttir stóð með breyttri stjórnarskrá alla leið og á hrós skilið fyrir.

Það strandar þó á því að ég er þeim fullkomlega ósammála í þeirra helsta baráttumáli, þeas. afnámi verðtryggingarinnar. Verðtryggingin er ekki vandamálið, eins og ég hef marg sinnis fært rök fyrir, heldur háir vextir, undarlega samsett vísitala og há greiðslubyrði.

Þá hjálpar ekki að helstu talsmenn framboðsins hafa sýnt það sem mér finnst fákunnátta og skammsýni.

Sama gildir um mörg stefnumála, eins og að ríkið eigi að sýna frumkvæði… ég er einfaldlega ósammála.

Svo eru auðvitað atriði þar sem ég er þeim sammála, td. varðandi betra og opnara lýðræði.

Verðtryggingin er þægilegur blóraböggull og vinsælt skotmark. Margir finna fyrir því að lánin hækka umfram laun og eiga erfitt með að standa undir greiðslum. Fyrsta hugsun er því að afnám verðtryggingar hljóti að vera lausnin. Ég efast ekki um góðan vilja flestra þeirra sem vilja afnema verðtrygginguna en ég efast um að málið hafi verið hugsað til enda. Og mér finnst oft vanta á að fjölmiðlafólk kynni sér forsendur fullyrðinga áður en fréttir fara „í loftið“. Og það sem verra er, það er að myndast einhvers konar múgsefjun fyrir þessu. Það er góð taktík á atkvæðaveiðum að tala gegn verðtryggingunni og það býður heim uppnefnum og skítkasti að benda á að ekki er allt sem sýnist í fyrstu.

Hluti af skýringunni er að greiðndur lána, „þolendur“ verðtryggingarinnar, eru í flestum tilfellum almennt launafólk en lánveitendur oftar en ekki „ljótir kallar í útlöndum“. Sem er reyndar ekki rétt, íslenskir lífeyrissjóðir eiga stóran hluta. Lífeyrissjóðirnir sem þurfa að standa undir greiðslum til þessa sama launafólks.

Það er ekkert að hugmyndinni um verðtryggingu, hún gengur einfaldlega út á það að lántakandi greiði lán til baka í jafn verðmætum krónum og hann fékk að láni.

Þá er allt í lagi að hafa í huga að hvort sem lánveitandi er „ljótur kall í útlandinu“ eða lífeyrissjóður þá má ekki gera ráð fyrir að þeir sem eiga pening vilji lána ef þeir fá minna til baka en þeir lána.

Afnám verðtryggingar getur þannig bæði komið í bakið á launafólki þegar kemur að eftirlaunum – og orðið til að það fást einfaldlega ekki lán til húsnæðiskaupa.

En verðtrygging er eitt og vísitala annað. Vísitalan er aðferð til að meta verðmæti krónunnar. Þegar allt er eðlilegt hækka laun og húsnæðisverð í takt og lántakandi greiðir sanngjarnan hlut til baka. Reyndar væri best að hafa enga verðbólga, þá væri þetta ekkert vandamál.

Það sem flestir upplifa sem vandamál við verðtryggingu er í rauninni vandamál við vísitölu. Lánskjaravísitalan hækkar meira en laun og því þarf greiðandi að greiða talsvert hærri hlut af launum sínum af lánum. Þetta mætti auðvitað laga með því að nota launavísitölu eða miða við húsnæðisvísitölu, þannig að húsnæðislán haldist í takt við verðmæti eignarinnar.

Það talaði reyndar enginn um þetta misræmi þegar launin hækkuðu meira en lánskjaravísitalan og greiðendur greiddu stöðugt minna af lánum.

Vísitala húsnæðisverðs sú líkast til sú sanngjarnasta. Hún getur reyndar komið illa út fyrir lántakanda ef misræmi eru milli launavísitölu og húsnæðisvísitölu, en með þessari vísitölu má reyndar gera ráð fyrir að þessar vísitölur haldist í hendur, því geta til að kaupa húsnæði ætti að stýra verðinu. Þannig ætla ég að mæla með launavísitölu en það er ekkert að þeirri hugmynd að miða við vísitölu húsnæðisverðs.

Skoðum dæmi um lán til húsnæðiskaupa, kaupandi kaupi íbúð á 25 milljónir í janúar 2006 og fái alla upphæðina að láni. Til að hafa þetta skýrt og einfalda útreikninga gerum við ráð fyrir að lánið hafi verið til fimm ára.

Gefum okkur – til að halda „ljótu köllunum“ frá umræðunni – að lánveitandi sé einstaklingur sem seldi íbúð fyrir 25 milljónir, fékk hana greidda út í hönd, og ætlar sér að kaupa aðra sambærilega eftir fimm ár. Ég sé einfaldlega enga sanngirni í því að hann fái aðeins hluta greiddan til baka og þurfi að sætta sig við að kaupa minni íbúð. Hversu háa vexti hann á skilið að fá fyrir greiðann er svo önnur umræða, ég vil meina að eitthvað rétt undir hagvexti séu sanngjarnir vextir fyrir lán með nánast engri áhættu, þeas. tryggt með veði í fasteigninni.

Þetta er heldur ekki ósanngjarnt fyrir þann sem tekur lánið, hafi hann notað peninginn til að kaupa í búð þá er alltaf sá möguleiki í boði að selja íbúðina og fá svipaða upphæð og hann greiðir af láninu, þeas. að vöxtunum frátöldum.

Miðað við lánskjaravísitölu hefði lántakandi greitt 40,1m.

Með breytilegum vöxtum, eins og þeir hafa verið, væru greiðslurnar 36,1m. Breytilegir vextir hafa sem sagt verið hagstæðari en „fastir vextir“ með verðtryggingu, kannski að einhverju leyti vegna þess að vextir á verðtryggðu lánunum hafa verið langt frá því að vera fastir.

Það er hins vegar enn fróðlegra að skoða niðurstöðuna hefði lántakandi greitt sambærilega vexti og tíðkast, td. í Finnlandi (sbr. þó fyrirvara á eftir). Þá hefði heildargreiðsla viðkomandi 33,8m.

En miðað við launavísitölu og lægri vexti þá væru heildargreiðslur 30,7m.

Íbúðin sem við gerum ráð fyrir að viðkomandi hafi keypt væri 28,4 milljóna virði.

Kostnaðurinn við að eignar íbúðina á fimm árum má lækka um þriðjung með breytilegum vöxtum.

En það má lækka hann um 80% með betri vísitölu og lægri vöxtum.

Kostnaður

Fyrirvarar

Já, rétt að taka fram að þessar stærðir – vextir, verðbólga, vísitölur – eru teknar af vefsíðum – ma. Hagstofu – og þó þær séu sennilega réttar þá er ekki hægt að útiloka innsláttarvillur. Ég þurfti til að mynda að leiðrétta innsláttarvillu í fyrri færslu. Og auðvitað er ekkert ríki nægilega líkt okkur til að hægt sé að fá nákvæman samanburð.

Það er mikið búið að fjalla um fullyrðingar  í Silfri Egils á sunnudag þess efnis að það væri ólöglegt að verðtryggja höfuðstól lána. Ég missti reyndar (aldrei þessu vant) af þættinum – og það tvisvar – og þess vegna þessi síðbúna athugasemd.

En ef ég skil rétt kom fram að það væri (líkast til) ólöglegt að verðtryggja höfuðstól lána. En það fylgdi líka sögunni að það væri í lagi að verðtryggja greiðslurnar af sama láni.

Þetta var svo fyrsta frétt RÚV um kvöldið.

En hver er fréttin?

Það breytir nefnilega nákvæmlega ekki neinu hvort höfuðstóllinn er hækkaður fyrst og afborgun reiknuð svo – eða hvort afborgunin er reiknuð fyrst og svo verðtryggingin.

Þetta er svona grunnskólastærðfræði að a * b = b * a.

Þetta skiptir nákvæmlega ekki neinu máli. Niðurstaðan er sú sama upp á krónu.

Tökum einföld dæmi um lán og höfum þau vaxtalaus til einföldunar:

Skoðum fyrst ef ég tek lán upp á 1.000 krónur til eins árs. Gefum okkur að vísitalan hækki um 10%. Þá greiði ég 1.100 krónur, hvort sem höfuðstóllinn er fyrst hækkaður í 1.100 eða ég greiði 1.000 krónur sem hækka um 10% vegna vísitölu. Í báðum tilfellum er endanlega greiðsla 1.100 krónur. Niðurstaðan er nákvæmlega sú sama.

Sama gildir ef ég tek 1.000 króna lán til tveggja ára. Höfum vísitöluna áfram 100 í upphafi, 105 eftir ár og 110 eftir tvö ár. Þá er afborgunin 500 krónur eftir eitt ár, greiðslan hækkar um 5% og ég borga 525 krónur. Ef ég fer hina leiðina þá hækkar lánið um 5% upp í 1.050 krónur og ég greiði helminginn af því. Sem er einmitt, 525 krónur. Svo þegar seinna árið er liðið borga ég annað hvort 10% hækkun á höfuðstól, sem gerir 550 krónur eða 10% hækkun á greiðslu, sem er – ótrúlegt en satt – 550 krónur.

En þetta er auðvitað stórfrétt. Eða ekki.