Posts Tagged ‘Rúv’

Brynjar Níelsson svaraði fyrirspurn Egils Óskarssonar um hvort ríkið ætti að standi fyrir rekstri trúfélaga á Pressunni.

Ég læt vera að benda Brynjari á að flest rök hans fyrir þjóðkirkju eru samhljóma rökum andstæðinga hans, til dæmis þegar kemur að RÚV, geri ráð fyrir að Egill sjái um það..

Mig langar aðeins að gera fullyrðingar um fjármál að umtalsefni.

Greiðslur fyrir jarðir

Brynjar segir að ef við gefum okkur að verðmæti jarða sem ríkið tók yfir sé 50 milljarðar þá geti 4,5 milljarðar ekki talist mikið. Það eru engar forsendur til að gefa sér eitthvað um verðmæti jarðanna, það eru engar upplýsingar til um hvaða jarðir þetta eru, hvað þá hversu mikils virði þær voru. Hvers vegna að gefa sér einhverja 50 milljarða? Má ekki alveg eins segja að ef við gefum okkur að verðmæti þeirri hafi verið hálfur milljarður þá séu 4,5 milljarðar alveg svakalega mikið? Hvers vegna yfirleitt að vera að slá fram tölum sem eru fullkomlega úr lausu lofti? Eina tilraunin sem ég veit til að hafi verið gerð til að meta þetta benti til ríflega 700 milljóna, en á meðan enginn veit einu sinni hvaða jarðir þetta voru þá er tilgangslaust að reyna að meta þetta.

Meiri niðurskurður en aðrar stofnanir

Brynjar segir það óumdeilt – með þeim fyrirvara að það sé eftir því sem hann best viti – að þjóðkirkjan hafi þolað meiri niðurskurð en aðrar stofnanir.

Það kemur reyndar ekki fram á hvaða tímabili þetta á að vera. En skoðum nýjustu rauntölur.

Árið 2012 voru framlög til þjóðkirkjunnar 1.452 milljónir, til kirkjumálasjóðs 229 milljónir, til kristnisjóðs 74 milljónir, sóknargjöld (allra ef ég skil rétt) voru 1.855 milljónir, kirkjugarðar fengu 888 milljónir og einhver liður kallast jöfnunarsjóður sókna og er 297 milljónir. Alls voru þetta 4,795 milljónir árið 2012. Árið 2011 fékk þjóðkirkjan 1,330 milljónir þannig að hækkun á milli ára var 9,17%. Heildartala allra liðanna var 4,648 en hækkunin milli ára var minni eða nær þremur og hálfu prósenti (3,39%). Það má deila um hvaða liði eigi að taka með, kirkjugarðar ættu kannski að vera undanskildir.

Framlög til RÚV voru til samanburðar 3.025 milljónir árið 2011 og 3.100 milljónir árið 2012, hækka um tæplega tvö og hálft prósent (2,48%).

Launavísitalan var 409,1 stig í júlí 2011 og 433,5 stig ári seinna, hækkar um tæp sex prósent (5,96%) þannig að þjóðkirkjan sem slík fær hækkun umfram launavísitöluna, en hvorki heildargjöld til trúmála né RÚV halda í við verðbólgu.

Hvað með aðrar stofnanir? Þjóðminjasafn með 3,9% niðurskurð, Þjóðmenningarhús með 10,2% niðurskurð, Útlendingastofnun 35,5% og og svo má finna liði eins og Alþjóðastofnanir með 35,6% niðurskurð og „Söfn og menningarminjar“ með niðurskurð upp á 56,0%.

Eins og áður segir kemur ekki fram við hvaða tímabil Brynjar á við, samanburður við aðrar stofnanir lengra aftur í tímann er snúnari vegna breytinga en ein leið til að meta þetta er að bera útgjöld til þjóðkirkjunnar saman við heildarútgjöld ríkissjóðs. Árið 2008 fékk þjóðkirkjan 0,22%, 2011 voru þetta 0,23% og 2012 voru þetta 0,26% – heildarútgjöld vegna trúmála voru 0,79% árið 2008, 0,81% árið 2011 og 0,85% árið 2012.

Þannig er erfitt að halda því fram að kirkjan hafi þolað meiri niðurskurð en aðrar stofnanir. Það virðist eiginlega vera beinlínis rangt.

Að niðurskurður til þjóðkirkjunnar hafi verið 25%

Brynjar hefur eftir ónefndum aðilum að niðurskurður til kirkjunnar hafi verið 25% og vissulega setur hann fyrirvara við þessa tölu.

En væri nú ekki hjálplegra að tala skýrt? Hvaðan kemur þessi tala? Við hvaða tímabil er miðað? Klárlega ekki frá 2011 til 2012.

Hvað fæst fyrir peninginn?

Þá er ekki verra að hafa í huga að fólk fær enn minna fyrir þjónustu kirkjunnar en þessar tölur gefa til kynna, það þarf nefnilega að greiða sérstaklega fyrir mörg viðvik og athafnir presta.

Þjónusta við hversu marga?

Þá er rétt að hafa í huga að meðlimum Þjóðkirkjunnar fækkar á milli ára, ekki bara hlutfallslega. Þjóðkirkjan sinnir aðeins þeim sem eru meðlimir og fær aðeins sóknargjöld vegna þeirra… þess vegna væri auðvitað eðlilegt að greiðslur til hennar lækki.

Aukaatriði

En þetta er auðvitað aukaatriði, spurning Egils var snerist um hvort ríkið ætti yfirleitt að standa í svona rekstri, burtséð frá öllum tölum.

PS. jú, þetta er auðvitað með fyrirvara um innsláttarvillur og upplýsingar, allar ábendingar eru vel þegnar.

Hmmm, Brynjar…

Posted: júlí 26, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Áður er lengra er haldið er rétt að taka fram að mér finnst sjálfsagt að ræða stöðu og fyrirkomulag RÚV… en mér finnst lágmarkskrafa að sú umræða sé á vitrænum nótum.

Brynjar Níelsson hélt því fram nýlega að rekstur RÚV kostaði hálf mánaðarlaun fjölskyldu, notaði reyndar töluna fjórir milljaðar, þegar 3,1 er nær lagi… en þegar reikningskúnstir voru dregnar í efa fór hann að tala um útborguð laun eftir skatta.

En það gleymist að skatturinn leggst á þá sem eru 16 ára og eldri og ég stórefast um að það séu svo margar fjölskyldur með fjóra fullorðna einstaklinga og aðeins eina fyrirvinnu með þessi laun – nú eða fleiri á þetta lágum launum. Ég kalla að minnsta kostir eftir staðfestum upplýsingum um að þetta sé svo almennt að það eigi erindi í umræðuna.

Það sem verra er… útborguð laun eftir skatta. Gott og vel. En nefskatturinn er einmitt í þeim hluta launanna sem fer í skatt! Þess vegna er verulega villandi að miða við laun eftir skatta.

Ég ítreka að ég vil endilega sjá umræðu um fyrirkomulag ríkisrekinna fjölmiðla. Mér finnast mörg góð rök mæla gegn því að svona fjölmiðill sé á auglýsingamarkaði og mér finnst vel mega ræða mun takmarkaðra hlutverk. Ég svo aftur engan veginn sannfærður um að leggja stofnunina niður.

En svona rökræðukúnstir hjálpa ekkert. Og það sem verra er, maður hálf skammast sin fyrir að vilja ræða breytingar á RÚV af ótta við að vera skipað í flokk með fólki sem ekki er fært um vitrænar rökræður.

Er það ekki ákveðin „rörsýn“ hjá Frosta Sigurjónssyni að ætla að takmarka eftirlit með skoðunum á RÚV við pólitík. Kannski fer svona fyrir góðu fólki þegar það „lendir í því“ að fara að skipta sér af pólitík. Allt í einu virðist allt snúast um pólitík og hún verður upphaf og endir alls.

Ég hef mínar efasemdir um að enginn megi viðra skoðanir á málum sem snerta stjórnmál nema allir flokkar fái sínar mínútur. Fólk sem einhvern tímann hefur lýst yfir stuðningi við flokk „gjaldfærist“ þá væntanlega á tímann sem viðkomandi hefur. Það kostar sennilega einhverjar flækjur í útreikningum ef viðkomandi hefur verið kenndur við fleiri en einn flokk. Þar fyrir utan þarf væntanlega að gæta þess að allir flokkar fái jafnan tíma. Allir flokkar á þingi? Allir flokkar sem buðu fram? Allir starfandi flokkar?

Hitt er stærra atriði að pólitík er ekki eini mælikvarðinn á allar skoðanir.

Hvers vegna að takmarka þetta við svona þrönga sýn, þeas. pólitík… það er fullt af fólki sem hefur skoðanir sem tengist ekki stjórnmálaflokki og skoðanir á hlutum sem hafa ekkert með stjórnmál að gera. Þarf ekki að gæta sama hlutleysis á öllum stöðum?

Það væri reyndar til bóta ef öllum lífsskoðunum væri gert jafn hátt undir höfði í stað þess að ríkiskirkjan væri í lykilaðstöðu.

En þarf svo ekki eftirlit yfir skoðanir á veðri, hvar er gott að búa, matsölustöðum, frammistöðu leikmanna og liða í íþróttum – og auðvitað tónlist.

Mér finnst til dæmis sjálfsögð krafa ef einhver lýsir því yfir í útvarpi að lag einhverrar hljómsveitar sé gott þá komi annar og lýsi því yfir hvað nýjasta lagið mitt sé gott.

Nú eða ekki.

En mér er slétt sama hvort einhver stjórnmálaflokkur fær sanngjarna eða ósanngjarna gagnrýni eða ekki. Hitt er miklu meira virði.

Þvæla á RÚV

Posted: júlí 9, 2013 in Umræða
Efnisorð:, ,

Ég get ekki með nokkru móti skilið hvernig RÚV getur boðið upp á þvælu eins og eitthvað sem var kallað „heimildamynd“ og var sýnd í gær.

Mér skilst að ég geri kannski full stífar kröfur til heimildamynda, finnst að þær eigi að vera upplýsandi, benda á staðreyndir og jafnvel kynna rannsóknir eða niðurstöður þeirra – og auðvitað mögulega viðtöl þar sem viðmælandi hefur eitthvað fram að færa. Snúast um staðreyndir og vera fræðandi. Hafi mögulega eitthvað fram að færa annað en að koma einhverju dómsdags rugli inn í höfuðið á fólki. Kannski mín kröfuharka.

En er enginn kjaftæðissía í gangi, er í lagi að bjóða upp á hvaða þvælu sem er, bara vegna þess að einhver hefur púslað því saman í mynd? Amk. ein kona virðist hafa drepið sig á að taka þessu kjaftæði bókstaflega, önnur var hætt komin… kannski fær sú sem dó Darwin verðlaunin.

Endalaus frétt

Posted: desember 6, 2012 in Umræða
Efnisorð:,

Ég var að hlusta á tíufréttir RÚV áðan. Þar var fyrsta frétt um áberandi dómsmál. Sagt var að vitni hefði mætt í dag sem ekki mætti í gær (eða fyrradag) og farið út í hvaða skýringar vitnið gaf á fjarverunni og hvað dómaranum fannst um þær skýringar.

Síðan var sagt að saksóknari hefði spurt vitnið hvort það hefði vitað að til stæði að gjaldfella ákveðið lán.

Þá var útskýrt hvers vegna þessi hugsanlega gjaldfelling skipti máli.

En það var ekki sagt hverju vitnið svaraði!

Og kannski enn umhugsunarverðara, ég var í rauninni ekki hissa, svona endaslepptar fréttir eru, því miður, allt of algengar.

PS. jú, það er mögulegt, þó langsótt sé, að vitnið hafi ekki verið búið að svara þegar fréttin fór í loftið – en þá hefði verið lágmark að taka það fram.

Það er mikið búið að fjalla um fullyrðingar  í Silfri Egils á sunnudag þess efnis að það væri ólöglegt að verðtryggja höfuðstól lána. Ég missti reyndar (aldrei þessu vant) af þættinum – og það tvisvar – og þess vegna þessi síðbúna athugasemd.

En ef ég skil rétt kom fram að það væri (líkast til) ólöglegt að verðtryggja höfuðstól lána. En það fylgdi líka sögunni að það væri í lagi að verðtryggja greiðslurnar af sama láni.

Þetta var svo fyrsta frétt RÚV um kvöldið.

En hver er fréttin?

Það breytir nefnilega nákvæmlega ekki neinu hvort höfuðstóllinn er hækkaður fyrst og afborgun reiknuð svo – eða hvort afborgunin er reiknuð fyrst og svo verðtryggingin.

Þetta er svona grunnskólastærðfræði að a * b = b * a.

Þetta skiptir nákvæmlega ekki neinu máli. Niðurstaðan er sú sama upp á krónu.

Tökum einföld dæmi um lán og höfum þau vaxtalaus til einföldunar:

Skoðum fyrst ef ég tek lán upp á 1.000 krónur til eins árs. Gefum okkur að vísitalan hækki um 10%. Þá greiði ég 1.100 krónur, hvort sem höfuðstóllinn er fyrst hækkaður í 1.100 eða ég greiði 1.000 krónur sem hækka um 10% vegna vísitölu. Í báðum tilfellum er endanlega greiðsla 1.100 krónur. Niðurstaðan er nákvæmlega sú sama.

Sama gildir ef ég tek 1.000 króna lán til tveggja ára. Höfum vísitöluna áfram 100 í upphafi, 105 eftir ár og 110 eftir tvö ár. Þá er afborgunin 500 krónur eftir eitt ár, greiðslan hækkar um 5% og ég borga 525 krónur. Ef ég fer hina leiðina þá hækkar lánið um 5% upp í 1.050 krónur og ég greiði helminginn af því. Sem er einmitt, 525 krónur. Svo þegar seinna árið er liðið borga ég annað hvort 10% hækkun á höfuðstól, sem gerir 550 krónur eða 10% hækkun á greiðslu, sem er – ótrúlegt en satt – 550 krónur.

En þetta er auðvitað stórfrétt. Eða ekki.

Niðurstöður þjóðaratvæðagreiðslunnar á laugardag voru ekki góðar þegar kemur að þjóðkirkjuákvæðinu.

Ef við miðum við skoðanakannanir þar sem mikill meirihluti vill aðskilnað ríkis og kirkju þá er forvitnilegt að staldra við og velta fyrir sér hvers vegna niðurstöður kosninganna eru allt aðrar.

Voru skoðanakannanir svona svakalega vitlausar? Ítrekað?

Þetta staðfestir enn frekar hvers vegna við megum ekki búa við það fyrirkomulag að eitt trúfélag sé ríkisrekið. Það er nefnilega í lykilaðstöðu til að keyra sína áróðursvél fyrir svona kosningar. Fyrir almannafé.

Stanslaust áróður kirkjunnar fyrir kosningar, hvort sem var í kynningarbæklingi, aðkeyptum auglýsingum eða á vef kirkjunnar var nógu slæmur. Hamrað var ítrekað á rangfærslum og spilað á „grýlur“ sem enginn fótur var fyrir.

En fjölmiðlar spiluðu líka með. Fréttablaðið birti nánast daglega greinar stuðningsmanna kirkjunnar en hafnaði greinum þeirra sem vildu aðskilnað. Það var ekki fyrr en einn fyrrverandi prestur sendi inn grein með rangfærslum um mig að ég fékk að birta svargrein.

Fréttastofa RÚV spilaði svo með kirkjunni. Ég fékk að vísu að mæta í Silfur Egils, eins og biskup, en Egill var sá eini sem sá sóma sinn í að kynna ólík sjónarmið. Útvarpsfréttir, Spegillinn, hleypti bara presti að í umræðunni. Talað var við presta í fréttum. Í Kastljósi mætti biskup og hlutlaus stjórnlagaráðsmaður.

Þetta sýnir svo ekki verður um villst að það fyrirkomulag að hafa þjóðkirkju er klárt brot á öllu jafnræði og jafnrétti. Einhliða einokun eins trúfélags á umræðu leiðir til niðurstöðu sem ekki byggir á jafnræði og er því ekki lýðræðisleg.

Það er gott að bera þetta saman við ríki sem aðeins leyfa einn stjórnmálaflokk sem stýrir öllum fjölmiðlum. Við myndum ekki kalla það lýðræðislegt fyrirkomulag eða réttlátt.

Með yfirgangi og stanslausum einhliða áróðri staðfesti þjóðkirkjan nefnilega hvers vegna hér má ekki vera þjóðkirkja.

Það er fyrir neðan allar hellur að hlusta dag eftir dag á einhliða áróður ríkiskirkjunnar í RÚV.

Gærdagurinn hófst á útvarpsmessu og síðan voru gagnrýnislaust fluttar „fréttir“ af skoðun prestins.

Í Silfri Egils fékk biskupinn drottningarviðtal í gær.

Og nú í kvöldfréttum, eða Speglinum, fékk prestur að skýra mál kirkjunnar. Fréttamaður spurði nokkurra ágætra spurninga en hafði ekki rænu á að leiðrétta rangfærslur prestsins. Bábiljan um arð af ríkisjörðum fékk til að mynda að hljóma athugasemdalaust.

Gagnrýnislaust kjaftæði á Rúv

Posted: ágúst 26, 2012 in Umræða
Efnisorð:,

Kannski er ég óheppinn með að hlusta á útvarpið, geri það auðvitað ekki mikið, vinnunnar vegna. En mér finnst gagnrýnislaust kjaftæði fara vaxandi á Rúv. Þetta á auðvitað líka við um aðra miðla. En ég gagnrýni RÚV hér vegna þess að ég hef heyrt of mörg dæmi nýlega og vegna þess að ég geri aðrar kröfur til Rúv en sjálfstæðra miðla.

Um daginn flutti, annars ágætur grínisti, pistil þar sem hann endurtók bábiljur og fullyrðingar samsæriskenningasmiða sem standast enga skoðun. Kannski (vonandi) var þetta grín hjá honum.

Í gær heyrði ég viðmælendur, sem voru að auglýsa bók og geisladisk í spjallþætti, vera að röfla eitthvað um að tala við frumurnar í líkamanum.

Og fyrir nokkrum vikum birti fréttastofa Rúv „frétt“ þess efnis að klínískar rannsóknir hefðu sannað að eitthvert seyði virkaði sem lyf í baráttu við ákveðinn sjúkdóm. Daginn eftir þurfti Rúv að leiðrétta fréttina, það hafði engin rannsókn sýnt fram á nokkra virkni. Rannsóknin hafði sýnt fram á að það væri skaðlaust að drekka þetta. Með öðrum orðum, það gerði ekki neitt til eða frá.

Annað dæmi er þegar fréttastofa Rúv birti gagnrýnislaust fullyrðingar annars aðila í viðkomandi deilumáli án þess að hafa fyrir að leita álits mótaðila. Ég sendi viðkomandi fréttamanni tölvupóst og spurði hvort ekki hefði verið við hæfi að fá fram fleiri skoðanir. Hann sá ekki ástæðu til að virða það viðlits og svara mér, hvað þá að bregðast við.

Og ekki má gleyma heilum Kastljósi þætti í vetur þar sem einstaklingur fékk að fara athugasemdalaust með staðlausa stafi um þekkta einstaklinga án þess að viðkomandi einstaklingar fengju tækifæri til að svara. Ég spurði stjórnendu Kastljóss hvort ekki hefði verið við hæfi að fá sjónarmið þeirra sem verið var að úthúða, en fékk engin svör. Og ekki var þeim gefinn kostur á að koma í Kastljós og svara fyrir sig.

Nú er ég ekki að fara fram á að undarlegar skoðanir séu bannaðar. En ég geri kannski kröfu til fréttastofunnar að hún kanni hvort einhver fótur sé fyrir frétt – áður en hún fer í loftið. Kannski eiga pistlahöfunar að hafa frítt spil, svona að einhverju leyti, en væri þá kannski möguleiki að fá pistla til mótvægis?

Mér finnst ekki ósanngjarnt að gera þá kröfu til Kastljóss að þar sé gætt hlutleysis og báðir aðilar fái að skýra sín sjónarmið í deilumálum.

Og mér finnst allt í lagi að þáttastjórnendut staldri við fráleitar fullyrðingar viðmælanda þó ekki væri annað en að spyrja hvað viðkomandi hafi fyrir sér í fullyrðingunum.

En, þetta ber auðvitað ekki að skilja sem einhverja alls herjar gagnrýni á Rúv, þar er fullt af fínum þáttum.. en stundum má gera betur.