Posts Tagged ‘þjóðaratkvæðagreiðsla’

Ég fæ reglulega og allt of oft áskoranir um að fara fram á að samþykkt svokallaðs þriðja orkupakka verði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nú er ég að öllu jöfnu yfirleitt frekar hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslum, amk. um stærri og stefnumótandi mál þar sem mismunandi rök, vægi þeirra og áherslur ráða afstöðu.

Í þessu tilfelli snýst álitamálið um hvort það felist eitthvert framsal sjálfstæðis í samþykkt pakkans.

Ef svo er ekki þá er engin þörf á þjóðaratkvæðagreiðslu, þá er engin þörf á að hafna þessu frekar en reglugerðum um raftæki, stærð matardiska á veitingahúsum eða öðrum ómerkilegum reglugerðum sem fyrst og fremst snúa að því að tryggja rétt neytenda.

Ef eitthvert nýtt valdaframsal felst í samþykktinni, nú þá er heldur engin ástæða fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta málefni, heldur um aðildina að EES – nokkuð sem er allt annað mál.

Þannig að þeir sem eru að tala fyrir því að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu eru í rauninni að biðja um að kosið verið um hvort ástæða sé til að það fari í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það væri ekki verið að greiða atkvæði um innihald pakkans og þau lög og reglugerðir sem honum fylgja, heldur væri verið að greiða atkvæði um túlkun á því hvað ákveðnir texta þýða.

Málatilbúnaður andstæðinga pakkans virðist að mestu ganga út á misskilning eða vísvitandi útúrsnúning á því hvað ákveðinn texti þýðir í raun. Það er því engin ástæða til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem hægt er að afgreiða með því að fletta upp í orðabók og lesa!

Þar til viðbótar, þá væri nægilegt að staðfesta samþykkta stjórnarskrá og þá þyrfti ekki einu sinni að ræða málið frekar.

Það má deila um það hvort og í hvaða tilfellum það sé rétt að greiða þjóðaratkvæði um um skatta. Gallinn við þá leið er auðvitað að skattgreiðendum hættir til að greiða atkvæði gegn sköttum, enda þurfa þeir oftast sjálfir, að borga. Þetta skiptir þó auðvitað ekki máli þegar meta átti hvort vísa bæri lögum um auðlindagjald í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við vorum ekki að fara fram á atkvæðagreiðsluna sem skattgreiðendur.

Við vorum að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslu sem eigendur auðlindar og vildum fá að taka afstöðu til þess hvaða reglur eiga að gilda um nýtingu hennar.

Þess vegna settist forsetinn vitlausu megin við borðið þegar hann tók ákvörðun.

Og þess vegna varð ákvörðunin vitlaus.

Nánar um það síðar hvort rétt sé að greiða þjóðaratkvæði um tekjur og gjöld. Forsetinn hefur reyndar þegar sett fordæmi þess efnis að það sé í góðu lagi.

Það er rétt að ókostir þjóðaratkvæðagreiðslna eru nokkrir.

Margir taka afstöðu

 • eftir óljósri tilfinningu
 • út frá ómálefnalegum áróðri
 • persónulegum hagsmunum
 • án þess að kynna sér rök með og á móti
 • án þess að þurfa að bera ábyrgð á afstöðu sinni

Gallinn er sá að í þingkosningum taka margir afstöðu, og kjósa

 • eftir óljósri tilfinningu
 • út frá ómálefnalegum áróðri
 • persónulegum hagsmunum
 • án þess að kynna sér rök með og á móti
 • án þess að þurfa að bera ábyrgð á afstöðu sinn

Þá hjálpar ekki að við atkvæðagreiðslu á Alþingi taka margir afstöðu, og kjósa

 • eftir óljósri tilfinningu
 • út frá ómálefnalegum áróðri
 • persónulegum hagsmunum
 • án þess að kynna sér rök með og á móti
 • án þess að þurfa að bera ábyrgð á afstöðu sinn

Það eru auðvitað til leiðir til að bæta niðurstöður almennra atkvæðagreiðslna.

Einfaldasta leiðin er að þeir sem taka þátt í atkvæðagreiðslu svari örfáum spurningum af handahófi sem sýna fram á að þeir hafi kynnt sér lágmarks efnistriði málsins. Hreinlegast væri að hafa þetta tölvuvætt.

Ég veit að þetta þykir róttækt. En flest mótsvör sem ég hef fengið eru innantóm, „æi, ég veit það ekki“, „ég held nú ekki“ og þar fram eftir götunum.

Þetta kemur. Kannski ekki fyrr en á næstu öld. En þetta kemur.

Ef IceSave dómur…

Posted: janúar 27, 2013 in Umræða
Efnisorð:,

Ég hef alltaf verið fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum sem góðri leið til að skera úr um deilumál. Aðallega þó um stefnumótandi ákvarðanir en ég hef haft fyrirvara og efasemdir um einföld tæknileg atriði – sérstaklega þar sem fólk tekur afstöðu með skammtímahagsmuni að leiðarljósi.

Gott dæmi um atriði sem á varla heima í þjóðaratkvæðagreiðslu var atkvæðagreiðslan um síðasta IceSave samning. Ég kynntist allt of mörgum dæmum – án þess að geta fullyrt að þar hafi verið þverskurður af allri þjóðinni – þar sem fólk greiddi atkvæði án þess að hafa í raun hugmynd um hvaða valkostir væru í boði eða hvaða afleiðingar hvor kostur gæti haft, hvað þá að verið væri að meta þá kalt.

Auðvitað voru margir sem kynntu sér málið vel og komust að annarri niðurstöðu en ég. En það voru margir sem greiddu atkvæði án þess að hafa hugmynd um hvað valkostirnir þýddu.

Spilað var á þjóðerrnisrembing og ljótu-kallarnir-í-útlöndum og allan þá órökréttu tilfinningastrengi sem voru í boði. Og samningnum var hafnað. Vissulega var hann ekki ákjósanlegur, en ég taldi þetta bestu niðurstöðu til að ljúka málinu.

Á morgun fellur dómur í málinu. Ætli þeir sem sögðu nei hafi hugleitt hvað niðurstaðan getur þýtt? Eru þeir tilbúnir til að bera ábyrgð á sínu atkvæði?

Nei, ég segi nú bara svona. Mér dettur auðvitað ekki í hug að fólk standi við stóru orðin frá því fyrir kosningarnar….

Það er fyrir neðan allar hellur að hlusta dag eftir dag á einhliða áróður ríkiskirkjunnar í RÚV.

Gærdagurinn hófst á útvarpsmessu og síðan voru gagnrýnislaust fluttar „fréttir“ af skoðun prestins.

Í Silfri Egils fékk biskupinn drottningarviðtal í gær.

Og nú í kvöldfréttum, eða Speglinum, fékk prestur að skýra mál kirkjunnar. Fréttamaður spurði nokkurra ágætra spurninga en hafði ekki rænu á að leiðrétta rangfærslur prestsins. Bábiljan um arð af ríkisjörðum fékk til að mynda að hljóma athugasemdalaust.

Kynningarbæklingurinn vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýju stjórnarskrána þykir víst vandaður og vel unnin.

Það kemur því aðeins flatt upp á mig að sjá textann um þjóðkirkjuákvæðið. Það er í meira lagi vilhallt kirkjunni, hreinar rangfærslur, undarlegar túlkanir og aðeins kynnt til sögunnar sem álitamál það sem þjóðkirkjan hefur nefnt.

Tökum dæmi:

 • Í upphafi segir „Ekki er spurt um aðskilnað ríkis og kirkjur“. Þetta er auðvitað í besta falli umdeilanlegt og að mínu mati kolrangt. Kirkjuskipan byggir á þessu ákvæði núverandi stjórnarskrár og með því að taka það út er klárlega verið að ákveða breytta skipan kirkjumála.
 • Þá segir að litið hafi verið svo á að kirkjan hafi ákveðnar skyldur gagnvart öllum almenningi. Ekki kemur fram á hverju þessi fullyrðing byggir eða hvaða skyldur þetta eru. Þá þarf ekki að leita langt til að sjá að kirkjan telur sig ekki hafa skyldur gagnvart almenningi og úthýsir reglulega þeim sem aðhyllast aðrar lífsskoðanir en kristni.
 • Þarna segir að þjóðkirkjufyrirkomulag sé víða við lýði í Evrópu. Þetta stenst ekki skoðun, á http://en.wikipedia.org/wiki/State_religion má glöggt sjá að þetta fyrirkomulag hefur víðast hvar verið lagt af í Evrópu.
 • Þá kemur fram að þetta fyrirkomulag teljist samkvæmt dómi Hæstaréttar samræmast trúfrelsis og jafnræðisreglum stjórnarskrárinnar. Sem betur fer (eða því miður) er Hæstiréttur marklaus viðmiðun þegar kemur að mannréttindamálum eins og ítrekaðar ákúrur Mannréttindadómstóls Evrópu staðfesta. Hvers vegna nefnir bæklingurinn ekki þá skoðun að þetta brjóti klárlega í bága við aðrar reglur stjórnarskrárinnar?
 • Þá er nefnd til sögunnar sú skoðun að ekki megi breyta kirkjuskipan nema í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er rangt og á ekki heima einu sinni undir „aðrir hafa látið í ljós“. Ákvæðið er kýrskýrt og á einungis við ef kirkjuskipan er breytt með lögum án þess að breyta stjórnarskrá.
 • Hvers vegna eru eingönu álitamál á nótunum „aðrir hafa látið í ljós“ talin upp til að koma sjónarmiðum kirkjunnar á framfæri?

Það er vægt til orða tekið að það er ójafn leikurinn þegar kemur að  þjóðkirkjuákvæðinu í þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýja stjórnarskrá.

Við erum með ríkisstofnun á fjárlögum með fjölda mannns í vinnu á skrifstofu – þar með talið fólk sem vinnur almannatengsla – mig minnir að um 36 manns starfi á skrifstofu ríkiskirkjunnar.

Við erum sem sagt með starfsfólk í fullu starfi við að halda úti áróðri fyrir að fá áfram hluti í stjórnarskránni. Að vissu leyti skil ég starfsfólk þar á bæ, það hlýtur að  vera erfitt að sitja þegjandi hjá þegar verið er að fjalla um grunn stofnunarinnar.

En það þýðir ekki að þetta sé í lagi. Það hlýtur að vera eðlileg og sjálfsögð krafa að kirkjan setji ekki krónu í þetta verkefni, beint eða óbeint, og að starfsmenn hennar sinni ekki áróðursstarfi vegna þessa.

Hin leiðin væri að kirkjan geri grein fyrir hverri krónu sem fer í þetta verkefni og þeir sem vilja ákvæði um þjóðkirkju út fái sömu upphæð til ráðstöfunar.

Eftir nokkrar vikur verða greidd atkvæði um nokkur álitamál vegna nýrrar stjórnarskrár.

Í sjálfu sér er ég ánægður með að sjá að leitað er álits þjóðarinnar um helstu álitamálin.

En það gengur ekki að kjósa um grein sem myndi stangast á við aðrar, nema þá að gera breytingar til samræmis. Í það minnsta vona ég að okkur takist að gera nýja stjórnarskrá þannig úr garði að hún verði ekki í innbyrðis ósamræmi.

Í sjöttu grein nýrrar tillögu um stjórnarskrá um jafnræði segir:

Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Þetta er kýrskýrt og gefur ekkert svigrúm til ríkisrekins trúfélags eins trúarhóps.

Á kjörseðlinum er eftirfarandi valkostur:

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?

Að vísu er ekki tilgreint hvernig þetta ákvæði ætti að vera – sem býður upp á smá útúrsnúninga… en sleppum þeim.

Til að kjósendur geri sér grein fyrir hvað þetta þýðir – ef við gefum okkur að stjórnarskráin eigi að vera í innra samræmi – þá þyrfti valkosturinn að vera þannig:

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi og að ákvæði um trúfrelsi og skoðanir verði felld úr kaflanum um jafnrétti?

Þá er undarleg uppsetning á atkvæðaseðlinum að þessu leyti, þeir sem vilja samþykkja tillögur stjórnlagaráðs merkja við JÁ í öllum tilfellum nema vegna þjóðkirkjunnar, þar þarf að merkja við NEI.