Ég hef alltaf verið fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum sem góðri leið til að skera úr um deilumál. Aðallega þó um stefnumótandi ákvarðanir en ég hef haft fyrirvara og efasemdir um einföld tæknileg atriði – sérstaklega þar sem fólk tekur afstöðu með skammtímahagsmuni að leiðarljósi.
Gott dæmi um atriði sem á varla heima í þjóðaratkvæðagreiðslu var atkvæðagreiðslan um síðasta IceSave samning. Ég kynntist allt of mörgum dæmum – án þess að geta fullyrt að þar hafi verið þverskurður af allri þjóðinni – þar sem fólk greiddi atkvæði án þess að hafa í raun hugmynd um hvaða valkostir væru í boði eða hvaða afleiðingar hvor kostur gæti haft, hvað þá að verið væri að meta þá kalt.
Auðvitað voru margir sem kynntu sér málið vel og komust að annarri niðurstöðu en ég. En það voru margir sem greiddu atkvæði án þess að hafa hugmynd um hvað valkostirnir þýddu.
Spilað var á þjóðerrnisrembing og ljótu-kallarnir-í-útlöndum og allan þá órökréttu tilfinningastrengi sem voru í boði. Og samningnum var hafnað. Vissulega var hann ekki ákjósanlegur, en ég taldi þetta bestu niðurstöðu til að ljúka málinu.
Á morgun fellur dómur í málinu. Ætli þeir sem sögðu nei hafi hugleitt hvað niðurstaðan getur þýtt? Eru þeir tilbúnir til að bera ábyrgð á sínu atkvæði?
Nei, ég segi nú bara svona. Mér dettur auðvitað ekki í hug að fólk standi við stóru orðin frá því fyrir kosningarnar….
Hversu stór hluti þingmanna heldurðu að hafi skilið vel hverjir valkostirnir voru? Og hversu stór hluti þeirra heldurðu að hafi látið yfirvegaða skynsemi ráða afstöðu sinni?
nei, það er góður punktur… en ég treysti mér ekki til að svara.