Sarpur fyrir janúar, 2021

Ég fékk svör frá fjármálaráðuneytinu við erindi mínu frá 11. janúar 2021, sbr. https://valgardur.blog/2021/01/11/skattalaekkun-vegna-greidslna-til-sokna/

Ég var hins vegar ekki alls kostar sáttur við svörin og sendi því annað bréf þar sem ég ítreka erindi mitt.

Takk fyrir skjót svör.

Fyrir það fyrsta er ánægjulegt að ekki er ágreiningur um að niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Darby skipti máli hér.

Fyrir utan að endurtaka efni erindis míns þá er nokkuð löng skýring á fyrirkomulagi sóknargjalda, ég hefði kannski átt að nefna að ég þekki þetta ágætlega og útskýringar því óþarfar.

Síðan kemur eitthvað óljóst „þá má segja..“ sem mér finnst vægast sagt undarlegt. Það hvað einhver telji að það að megi segja eitthvað er frekar vafasöm, ef ekki fráleit, forsenda fyrir brotum á mannréttindum.

Þá er nefnt til sögunnar að þriðjungur framteljenda greiði engan tekjuskatt til ríkisins. Aftur verður ekki séð að þetta komi málinu nokkuð við.

Bréfinu lýkur svo á því að segja að framangreindu virtu geti ráðuneytið ekki fallist á að koma til móts við erindi.

Ég get ekki séð nokkur rök í textanum sem vísað er til í „að framangreindu“ sem koma í veg fyrir að mál mitt sé afgreitt á viðunandi hátt. Ef hugsunin er sú að það sé ekki hægt að lækka tekjuskatta þeirra sem standa utan lífsskoðunarfélaga og greiða ekki tekjuskatt þá er auðvelt að finna lausn á því vandamáli og sjálfsagt að aðstoða við að leysa málið ef þetta er eina fyrirstaðan.

Það liggur fyrir að ríkissjóður greiðir lífsskoðunarfélögum eftir fjölda meðlima, það er klárt að ég er ekki meðlimur neins félags, ekki þarf að deila um að ég greiði skatta – bæði tekjuskatta og aðra – og ekki virðist ágreiningur um að þetta standist ekki skoðun hjá Mannréttindadómstólnum.

Þannig væri virkilega vel þegið ef hægt væri að klára þetta án frekari málalenginga.

Ekki viljum við að Íslenska ríkið fái enn einn dóminn á sig frá MDE?

Sendi eftirfarandi bréf til fjármálaráðherra.

Í ljósi þess að ég tilheyri hvorki trúfélagi né lífsskoðunarfélagi þá vil ég fara fram á að skattgreiðslur  mínar verði lækkaðar sem upphæð sóknargjalda nemur.

Í máli sem Darby höfðaði gegn sænska ríkinu og áfrýjaði til Mannréttindadómstóls Evrópu – mál 11581/85 – kom fram að kröfu hans var hafnað á þeim forsendum að hann gæti sagt sig úr lífsskoðunarfélagi og lækkað þannig skattgreiðslur sínar.

Það er því ljóst að Mannréttindadómstóllinn telur það forsendu þess að ekki sé verið að brjóta mannréttindi með greiðslu sóknargjalda úr ríkissjóði að hver einstaklingur eigi kost á að lækka skattgreiðslur sem þeirri upphæð nemur.

Það hafa verið nokkrar umræður um hvort samfélagsmiðlar hafi gert rétt í að loka aðgangi einstaklinga sem hafa neitað að fylgja reglum.

Ég er ekki nokkrum vafa.. einkafyrirtækjum ber engin skylda til að leyfa misyndismönnum að misnota kerfi og vettvang þeirra til að koma hættulegum og viðbjóðslegum skilaboðum á framfæri. Einhverra hluta vegna lítur reyndar út fyrir að þeir vinir mínir á samfélagsmiðlum sem aðhyllast frjálshyggju og frjálsa samkeppni eru hvað ákveðnastir í því að skylda eigi einkafyrirtæki til að

Það er kannski einfaldast að bera saman við að ef ég væri að reka leigu á hljóðkerfum, sjónvarpstöð eða bar. Mér bæri engin skylda til að leigja fólki hljóðkerfi til að breiða út hatursboðskap og koma þannig óorði á mitt fyrirtæki. Væri ég að reka bar og einn fastagesturinn væri stöðugt að stofna til rifrilda og slagsmála þá þætti mér ég í fullum rétti að meina honum aðgang. Og með sjónvarpsstöð, þá bæri mér engin skylda til að hleypa hverjum sem er að með hvaða bull sem er eins lengi og þeim sýnist. Enda gera sjónvarpsstöðvar þetta ekki.

Margir hafa vísað til Voltaire og talið mikils virði að leyfa öllum að segja sína skoðun, hversu ósammála sem við erum viðkomandi.

Þarna kemur tvennt til.

Fyrir það fyrsta, þá er mikilvægt að gera greinarmun á skoðunum annars vegar og staðreyndum, lygum, rangfærslum og óstaðfestum fullyrðingum hins vegar. Ég hef aldrei skilið hugmynd Voltaires þannig að hann talaði fyrir sannanlegum lygum, ósannindum eða óstaðfestum fullyrðingum. Það er ekki skoðun að fjórir plús fjórir geri ellefu, það er einfaldlega rangt. Og það er ekki skoðun að heiminum sé stjórnað af eðlum frá öðrum sólkerfum, það er fullyrðing út í bláinn.

En jafnvel þar fyrir utan. Ég er einfaldlega ekkert á því að allar skoðanir eigi rétt á sér. Það er gjarnan talað um einhvern heilagan rétt þegar kemur að stjórnmálum, en sama fólki vefst gjarnan tunga um tönn og fingur um lyklaborð þegar ég spyr hvort skoðanir sem styðja fjöldamorð, stríðsglæði, áróður rasista og barnaníð eigi rétt á sér.

Fyrir mér er þetta kýrskýrt, einkafyrirtæki ráða því hvernig kerfi þeirra eru notuð, rangfærslur eru ekki skoðanir og það eiga ekkert allar skoðanir rétt á sér.

Vefverslunarsíður

Posted: janúar 4, 2021 in Umræða

Ég hef verið að reyna að vera sem minnst á ferðinni síðustu mánuði, auðvitað gengið mis vel – en eitt af því sem ég hef reynt mikið er að nýta vefsíður söluaðila til að velja vörur og fækka þannig heimsóknum í verslanir.

Og ég verð að játa að ég er oftar en ekki gjörsamlega gáttaður á hversu lélegar upplýsingar og framsetningin er.

Ég fer ekki á vefsíðu til að sjá hversu flinkur vefforritarinn er að setja fljúgandi hluti í andlitið á mér þegar ég er að leita að upplýsingum.

Sjálfsögð atriði eins og símanúmer, tölvupóstfang og heimilisfang eiga að vera augljós á fyrstu síðu.

Ég vil hafa verð og vöruúrval á hreinu, geta flokkað og síað eftir þeim atriðum sem skipta máli, sem geta verið ansi fjölbreytt.

Ég vil geta síað eftir eiginleikum vörunnar, raðað eftir þeim atriðum sem ég kýs og borið saman nokkra valkosti.

Ég hef áhuga á upplýsingum, ekki spjalli, td. hef ég engan sérstakan áhuga á því, þegar ég er til að mynda að velja ofn í eldhúsið, að fá að vita hvort hann sé „stórskemmtilegur“ eða ekki.

Mér finnst óboðlegt að vera vísað á síðu framleiðanda með dönskum texta, þó ég sé nú kannski betur settur með dönsku, amk. lestur, en margir.