Sarpur fyrir mars, 2016

Ég lét mig hafa það að þræla mér í gegnum viðtal forsætisráðherra við sjálfan sig, nokkuð sem er auðvitað fínasta leið til að komast hjá óþægilegum spurningum. En mér fannst sjálfsagt að skoða þeirra hlið fyrst ég hef verið að tjá mig um málið.

Ég nenni svo sem ekki að elta öll þau atriði sem kalla á fleiri spurningar. Ég eftirlæt fólki sem vinnur við fjölmiðla að skoða betur.

En forsætisráðherra segir að þau hafi ekki talið æskilegt að kona þingmanns og ráðherra stundaði fjárfestingar hér á landi. Þetta segir hann bara svona út í loftið og færir engin rök fyrir og gefur engar skýringar á því hvers vegna það sé ekki einmitt sjálfgefið að kona þingsmanns og ráðherra geri allt sem hún getur til að efla og styrkja íslenskt atvinnulíf. Ég er kannski eitthvað tregur en verð að játa að mér finnst þetta verulega undarleg fullyrðing.

Hitt er að, að jafnvel þó við gefum okkur að þetta standist skoðun, þá flytja þau heim áður en hann nær kjöri á þing, hvað þá að hann verður ráðherra, reyndar virðist fara nokkuð mörgum sögum af því hvað hann var að sýsla á þessum tími. Hver er skýringin á því hvers vegna hún – kona námsmanns, ef ég les rétt í söguna – fjárfesti ekki á þessum tíma í íslensku atvinnulífi?

En þetta er auðvitað ekki aðalatriðið.. við erum með forsætisráðherra sem skilur ekki hugtakið „siðferði“.

Ég náði því aldrei þegar ég var ungur hvað páskaegg höfðu með krossfestingu og upprisu að gera, en var svo sem ekkert mjög gamall þegar ég gerði mér grein fyrir að líkast til ætti þessi siður sér aðrar rætur.

Ég er gjarnan spurður fyrir jólin hvort við trúlausir höldum jól, jafnvel sama fólk spyr mig ár eftir ár og verður alltaf jafn undrandi. Svarið er auðvitað „já“, enda jólin komin til löngu fyrir tíma kristninnar og tengjast ekki trúarbrögðum frekar en hver vill.

Sama kemur gjarnan upp um páska, hvað ég, trúlaus maðurinn, sé að gera með að halda upp á þetta. Páskarnir eiga reyndar eitthvað meiri rætur í trúarbrögðin en jólin, en eru fjarri því að vera takmarkaðir við kristni, án þess að það taki því að rekja þá sögu hér.

Engu að síður, þetta er eins og jólin, almennir frídagar.. sem við notum til að draga andann, hitta fjölskyldu og vini og kannski staldra aðeins við. Hverrar trúar – eða ekki trúar sem við erum.

Og étum yfir okkar af páskaeggjum – án þess velta fyrir okkur hvaðan sá siður kemur.

ég veit að þið eruð fullir tortryggni og það þýðir kannski ekki mikið að segja ykkur að þetta sé ekki illa meint.

En þetta er ekki illa meint.

Ég hef fylgst með íslenskum stjórnmálum frá því að ég var krakki. Jónatan frændi kom öðru hverju í heimsókn á laugardögum og spjallaði um daginn og veginn, þjóðmálin og Framsóknarflokkinn, sem hann kaus samviskusamlega í hverjum kosningum.

Ég hef reyndar aldrei verið stuðningsmaður Framsóknarflokksins, verið ósammála stefnu flokksins í mörgum lykilatriðum – en þarna hafa verið margir í forystu sem ég hef borið virðingu fyrir. Ég held að ímyndin sem ég hef haft sé best lýst með að þarna hafi verið flokkur sem ég er hjartanlega ósammála í mörgum málum en er samt heill í sínum skoðunum og því sem þeir standa fyrir.

Ég var svo ekki spenntur fyrir kosningaloforðum flokksins fyrir síðustu kosningar.. en ég hafði ekki svo miklar áhyggjur, þarna voru nokkrir einstaklingar sem ég kannaðist mismikið (eða mislítið) við og treysti til að halda haus.

En ég hef áhyggjur af því hvert flokkurinn stefnir..

Öll umræða, málefnaleg gagnrýni, spurningar og efasemdar verða til að hlaupið er upp til handa og fóta..

  • það eru allir, meira að segja Rúv, í samsæri gegn flokknum
  • það er í einu orðinu viðurkennt að formaðurinn hafi brotið siðareglur en um leið fylgja upphrópanir um það sé lágkúra að ræða málið
  • þeir sem biðja um skýringar eru uppnefndir
  • þeir sem viðra skoðanir sem ekki er flokknum að skapi eru ómerkilegir
  • fullyrt að búið sé að svara spurningum sem aldrei hefur verið svarað
  • og til að kóróna vitleysuna er farið að bera á leiðtogadýrkun sem nær út fyrir öll mörk.

Fyrir alla muni hættið þessu.

  • svarið spurningum málefnalega
  • svarið að minnsta kosti spurningum án þess að hjóla í fyrirspyrjanda
  • ekki uppnefna þá sem spyrja óþægilegra spurninga – aftur: svarið frekar spurningunum
  • ekki sjá samsæri í hverju horni þó einhver sé ykkur ekki sammála, það kemur alveg fyrir besta fólk að einhver er því einfaldlega ósammála án þess að um einhverja illkvittni eða samsæri sé að ræða
  • látið af þessum tilburðum til persónudýrkunar, þetta er einfaldlega hlægilegt, við erum ekki í Norður Kóreu…

Ég er löngu búinn að fá mig fullsaddan af kjaftæðinu um að það sé allt í lagi að stela tónlist, tónlistarmenn eigi bara að sætta sig við að öllum finnist í lagi hirða það sem þeir framleiða, þeir verða svo voðalega frægir af þessu að þeir geta bara sætt sig við að fá ekki krónu fyrir sinn snúð.

Það er rétt að tæknilega er erfitt að koma í veg fyrir ólöglegt niðurhal. Siðferðilega er þetta hins vegar ekki svo flókið, eiginlega sáraeinfalt. Það sem verra er, fólk sem telur sig boðbera réttlætis og siðferðis hefur hæst þegar kemur að því að hunsa siðferðið þegar kemur að tónlist.

Ein rök fyrir að stela tónlist hafa verið þau að tekjurnar hafi gegnum tíðina farið til einhvers konar „afætna“ í tónlistarheiminum – þeas. útgefenda og þeirra sem hafa keypt höfundarrétt. Það eru (stundum réttilega) tekin dæmi um að tónlistarmenn hafi verið hlunnfarnir. En þetta er mikil einföldun, útgefendur sinntu oft þörfu hlutverki, þetta var einfaldlega sérhæfð vinna, oft veðjuðu þeir á óþekkta listamenn sem annars hefðu aldrei náð athygli en náðu að lifa af tónlistinni. Og það gleymist líka að oftar en ekki veðjuðu útgefendur á tónlistarmenn sem engu skiluðu – og töpuðu.

En útgefendur voru ljótu-kallarnir og allt í lagi að stela tónlist þess vegna, að minnsta kosta ef marka má málflutningi þeirra sem verja þjófnaðinn.

Svo eru komnar veitur sem lifa af því að leyfa neytendum að streyma tónlist og jafnvel kaupa rafrænt. Í sjálfu sér ekki slæmt, en greiðslurnar eru út úr korti (kannski ekki heppilegt að tala um „kort“). Það sem verra er, það er ekki lengur svo sjálfgefið að setja tónlist í sölu.. það hafa sprottið upp alls kyns þjónustufyrirtæki til að hjálpa tónlistarmönnum að gefa tónlistina eða selja fyrir smáaura. Þeirra þjónusta kostar auðvitað sitt. Og hverjir borga?

Nú eru það ekki mín orð að kalla þetta „afætur“. Þvert á móti. Þetta er einfaldlega fólk / fyrirtæki sem leggur fram þjónustu og vinnur vinnu sem eftirspurn er eftir. Eins og útgefendur gerðu hér áður fyrr. Sumir gera þetta af hugsjón, eins og sumir útgefendur gerðu hér áður fyrr.. aðrir þurfa að lifa af vinnunni sinni, eins og (já, einmitt).

En þeir sem hafa notað afæturökin og halda að við búum í Doddabókunum í dag, þar sem tónlistarmenn lifa á loftinu og enginn annar fái tekjur af tónlistinni – þeir eru eiginlega mát.

[ég var að finna þessa færslu í eldgömlum drögum að greinum og í ljósi þess að þetta er að koma aftur upp er allt í lagi að láta þetta flakka.. tek fram að ég er engan veginn sannfærður á annan hvorn veginn, finnst þetta spennandi, en sé þetta ekki alveg ganga upp… en það væri fróðlegt að fá rök (ekki upphrópanir) með og á móti, hvort þetta getur gengið – en ekki sögulegar skýringar eða hugmyndafræði fyrirlestra!]

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort það megi ekki einfalda umsýslu hins opinbera..

Ég hélt satt að segja að ég væri á villigötum og úti á túni.. en svo virðist sem þessar vangaveltur séu í gangi í fullri alvöru.

Við erum með ansi þungt kerfi í kringum ellilífeyrir, atvinnuleysisbætur, sjúkratryggingar og skattheimtu. Að við tölum nú ekki um lífeyrissjóðina. Og eftirlitið með þessu öllu.

Væri ekki rosalegur sparnaður að sleppa öllum þessum kerfum?

Þannig er vissulega freistandi hugmynd að hver fullorðin einstaklingur fái ráðstöfunarfé sem myndi nægja fyrir lágmarks lífsnauðsynjum – án tillits til nokkurs. Allar stofnanir sem meta hverjir eiga að fá hvað verða óþarfar – og sama gildir um allt eftirlit.

Laun fyrir hvers konar vinnu myndu væntanlega lækka talsvert, þeas. vinnuframlag yrði til að sækja viðbótarlaun. Sem aftur væri til að greiða fyrir hvers kyns bölvaðan óþarfa umfram lífsnauðsynjar sem okkur langar samt til að kaupa.

Hvaðan fær ríkið tekjur til að greiða öllum laun? Hætta ekki allir að vinna? Leggst ekki grunn framleiðslan af?

Sennilega verður getur þetta gengið til skamms tíma – og mjög líklega gengur þetta til skamms tíma á afmörkuðu svæði og/eða í litlu samfélagi.

En til lengri tíma litið þá er kannski rétt að hafa á bak við eyrað að við búum ekki í Doddabókunum. Fólk er almennt frekar eigingjarnt, sjálfhverft og jafnvel ekkert sérstaklega fært um einfalda rökhugsun.

Þegar svona hugmyndir eru skoðaðar er hjálplegt að setja upp dæmi af litlu þorpi eða lítilli fjölskyldu.

Allir þurfa húsaskjöl, mat (þmt. vatn) og föt (ímynda ég mér). Það þarf kannski ekki mjög mikla vinnu til að útvega þetta. En það þarf að halda umhverfinu í lagi, þrífa og þvo. Vonandi gleymum við ekki menntun. Og fólk veikist og það þarf hjúkrun. Hvernig tryggjum við að einhverjir séu tilbúnir að vinna til að sinna þessum verkefnum?

Mögulega verða nægilega margir sem hafa áhuga á neyslu umfram grunnþarfir og sinni þannig þeim störfum sem þarf að sinna.

En hvað, ef ekki? Hvernig tryggjum við þetta? Það er ekki hægt að setja lágmarks vinnuskyldu á alla.. sumir eru jú ófærir um að vinna – og um leið og við förum að gefa sumum undanþágur þá erum við komin með einhvers konar eftirlitsstofnanir.

Og hvað með þá sem taka grunnlaunin sín og eyða í eitthvað allt annað en grunnþarfir? Er betra að útvega öllum grunnþarfir í stað peninga sem við ætlumst til að notaðir séu í annað en grunnþarfir?

Það skiptir mig engu „hvar“ þessi spítali er staðsettur, svona að því gefnu að það séu ekki sérstakar hindranir í að komast þangað.

Það sem skiptir máli er „hvað“ þessi spítali er. Að þarna sé boðlegur aðbúnaður fyrir alla þá sem þarf að sinna. Að nauðsynlegur tækjabúnaður sé til staðar og sé í lagi. Og ekki síst að kjör starfsmanna séu þannig að við höldum hæfu starfsfólki.

Jú, og svo er auðvitað kostur að ekki sé verið að kasta stórum fjárhæðum út um gluggann með kúvendingum á miðri leið.

Mig minnir að það hafi verið sagt á upphafsárum Bandaríkjanna að einstaklingar ættu ekki að sækjast eftir forsetaembættinu, „embættið“ ætti að sækjast eftir rétta einstaklingnum.

Umræður um næsta forseta hafa reglulega komið upp í spjalli hinna ýmsu vinahópa okkar í vetur. Nægilega margir hafa verið nefndir til sögunnar – hafa annað hvort boðið sig fram, eru að hugsa um að bjóða sig fram, er verið að skora á að bjóða sig fram og/eða margir hafa komið að máli við. Sumar hugmyndirnar hafa óneitanlega þótt langsóttar í okkar hóp og í rauninni hefur ekkert nafn fengið almennilegan hljómgrunn.

Það var ekki fyrr en nafn Bryndísar Hlöðversdóttur kom fram í vikunni að það kom svona „já, auðvitað!“ augnablik hjá mér.

Ég var alltaf mjög sáttur við Kristján Eldjárn sem forseta, skal játa að ég hafði efasemdir um Vigdísi fyrirfram, en hún stóð sig að mestu ágætlega. Ég var aldrei mikill aðdáandi núverandi forseta þegar hann var að vasast í stjórnmálum, leist ekkert á blikuna þegar hann var kosinn og held að það hafi nú komið í ljós að það hefði verið farsælla að hafa annan einstakling í embætti. Í hans valdatíð hefur forsetaembættið nánast orðið leiksvið fyrir sérvisku og duttlunga.

Ég held að Bryndís sé nákvæmlega sá einstaklingur sem getur „farið vel með“ embættið og kannski unnið til baka þá virðingu sem hefur tapast – og umfram allt, hefur dómgreind til að beita því valdi og standa undir þeirri ábyrgð sem fylgir.

Bryndís hefur víðtæka reynslu sem lögfræðingur, þingmaður, rektor háskóla, ríkissáttasemjari, stjórnarformaður Landsvirkjunar, svo ég nefni eitthvað..

Þannig að, ég vil ekki bara hvetja Bryndísi til að bjóða sig fram, er reyndar þegar búinn að því – ég skora á þá sem þetta lesa að skora á Bryndísi! Ekkert bara persónulega, heldur opinberlega.

 

Fræbbblar, næsta plata

Posted: mars 12, 2016 in Tónlist
Efnisorð:

Við Fræbbblar gáfum út plötuna „Í hnotskurn“ í fyrra. Platan fékk afbragðs umsagnir, einhverja spilun í stuttan tíma á Rás2, aðrar útvarpsstöðvar voru ekki heima, streymið alveg þokkalegt en plötusala hverfandi. Okkur grunaði það svo sem fyrirfram og ekki höfðum við gert ráð fyrir að geta hætt í vinnunni.

Við spiluðum nokkrum sinnum til að kynna plötuna, á Akureyri, tvisvar í Hafnarfirði, á Bifröst og að lokum í Reykjavík. Ég veit ekki betur en að það hafi tekist nokkuð vel til, kannski skemmtilegast að sjá ánægða óvænta gesti.. ungt fólk, innlent sem erlent, sem datt inn fyrir tilviljun.

Þannig að við erum að loka þessum kafla á ferlinum. Einhver laganna af plötunni lifa eflaust áfram en önnur detta „í salt“. Sama gildir um megnið af lögunum sem við höfðum æft upp fyrir „punk“ kvöldin, þeas. annarra manna efni frá árdögum „punksins“, við leggjum þau til hliðar.

Og næsta verkefni er löngu tímabært.. Sem er að fara að semja nýtt efni, efni á næstu plötu. Á meðan gamla efnið var óafgreitt þá var einhverra hluta vegna vonlaust að vera að bæta við safnið, ég kom mér amk. ekki að verki.

En það er fullt af hugmyndum og ég get ekki beðið eftir að fara að vinna úr þeim.

Þetta þýðir auðvitað minni spilamennsku næstu mánuði – en það gerir svo sem ekki mikið til, það er ekki eins og við höfum verið að spila mjög reglulega. Við getum auðvitað mætt ef sérstakt tilefni er til og við myndum eins og alltaf taka jákvætt í að vera með í að styrkja góð málefni. En við látum stærri hljómleika og eigin hljómleika liggja á milli hluta.

Þá tekur Arnór, gítarleikari, sér frí seinni hluta ársins.. flytur til Noregs í allt of marga mánuði.

Steini, sem hefur verið svona annar bassaleikari, ætlar líka að segja þetta gott í bili.. líklega kemur Ellert, sem var með okkur til 2000, til með að taka það hlutverk.

 

Ég fór að velta þessu fyrir mér í framhaldi af fréttum um að minnsta kosti einn prestur ætli í framboð til forseta Íslands.

Auðvitað er ekkert tæknilega séð sem kemur í veg fyrir þetta, en er þetta góð hugmynd?

Nú er rétt að taka fram að ég þekki viðkomandi einstakling ekkert en hann fær hin bestu meðmæli, fínn og vandaður maður og hefur, að mér er sagt, sýnt fulla tillitssemi í samskiptum við fólk sem ekki er kristið og forðast að troða siðum upp á þá sem ekki vilja. Sem sagt eins góður prestur og þeir gerast – og mættu aðrir taka hann sér til fyrirmyndar.

En ég kemst ekki fram hjá þessu með trúna.

Þó ekki væri annað en trúarjátningin.

Í henni eru að minnsta kosti tvær fullyrðingar sem stangast á við náttúrulögmálin.

Þannig að annað hvort trúa prestar því að náttúrulögmálin hafi verið brotin fyrir tvö þúsund árum eða svo. Eða þeir fara reglulega með yfirlýsingu sem þeir taka ekki trúanlega.

Ekki segja mér að þetta sé myndlíking eða dæmisaga.. þetta er skýr og klár yfirlýsing.

Og ekki segja mér að yfirlýsingar séu marklausar, það gengur ekki almennilega upp fyrir forseta.