Bryndís forseti? Auðvitað

Posted: mars 13, 2016 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Mig minnir að það hafi verið sagt á upphafsárum Bandaríkjanna að einstaklingar ættu ekki að sækjast eftir forsetaembættinu, „embættið“ ætti að sækjast eftir rétta einstaklingnum.

Umræður um næsta forseta hafa reglulega komið upp í spjalli hinna ýmsu vinahópa okkar í vetur. Nægilega margir hafa verið nefndir til sögunnar – hafa annað hvort boðið sig fram, eru að hugsa um að bjóða sig fram, er verið að skora á að bjóða sig fram og/eða margir hafa komið að máli við. Sumar hugmyndirnar hafa óneitanlega þótt langsóttar í okkar hóp og í rauninni hefur ekkert nafn fengið almennilegan hljómgrunn.

Það var ekki fyrr en nafn Bryndísar Hlöðversdóttur kom fram í vikunni að það kom svona „já, auðvitað!“ augnablik hjá mér.

Ég var alltaf mjög sáttur við Kristján Eldjárn sem forseta, skal játa að ég hafði efasemdir um Vigdísi fyrirfram, en hún stóð sig að mestu ágætlega. Ég var aldrei mikill aðdáandi núverandi forseta þegar hann var að vasast í stjórnmálum, leist ekkert á blikuna þegar hann var kosinn og held að það hafi nú komið í ljós að það hefði verið farsælla að hafa annan einstakling í embætti. Í hans valdatíð hefur forsetaembættið nánast orðið leiksvið fyrir sérvisku og duttlunga.

Ég held að Bryndís sé nákvæmlega sá einstaklingur sem getur „farið vel með“ embættið og kannski unnið til baka þá virðingu sem hefur tapast – og umfram allt, hefur dómgreind til að beita því valdi og standa undir þeirri ábyrgð sem fylgir.

Bryndís hefur víðtæka reynslu sem lögfræðingur, þingmaður, rektor háskóla, ríkissáttasemjari, stjórnarformaður Landsvirkjunar, svo ég nefni eitthvað..

Þannig að, ég vil ekki bara hvetja Bryndísi til að bjóða sig fram, er reyndar þegar búinn að því – ég skora á þá sem þetta lesa að skora á Bryndísi! Ekkert bara persónulega, heldur opinberlega.

 

Lokað er á athugasemdir.