Sarpur fyrir júlí, 2013

Brynjar Níelsson svaraði fyrirspurn Egils Óskarssonar um hvort ríkið ætti að standi fyrir rekstri trúfélaga á Pressunni.

Ég læt vera að benda Brynjari á að flest rök hans fyrir þjóðkirkju eru samhljóma rökum andstæðinga hans, til dæmis þegar kemur að RÚV, geri ráð fyrir að Egill sjái um það..

Mig langar aðeins að gera fullyrðingar um fjármál að umtalsefni.

Greiðslur fyrir jarðir

Brynjar segir að ef við gefum okkur að verðmæti jarða sem ríkið tók yfir sé 50 milljarðar þá geti 4,5 milljarðar ekki talist mikið. Það eru engar forsendur til að gefa sér eitthvað um verðmæti jarðanna, það eru engar upplýsingar til um hvaða jarðir þetta eru, hvað þá hversu mikils virði þær voru. Hvers vegna að gefa sér einhverja 50 milljarða? Má ekki alveg eins segja að ef við gefum okkur að verðmæti þeirri hafi verið hálfur milljarður þá séu 4,5 milljarðar alveg svakalega mikið? Hvers vegna yfirleitt að vera að slá fram tölum sem eru fullkomlega úr lausu lofti? Eina tilraunin sem ég veit til að hafi verið gerð til að meta þetta benti til ríflega 700 milljóna, en á meðan enginn veit einu sinni hvaða jarðir þetta voru þá er tilgangslaust að reyna að meta þetta.

Meiri niðurskurður en aðrar stofnanir

Brynjar segir það óumdeilt – með þeim fyrirvara að það sé eftir því sem hann best viti – að þjóðkirkjan hafi þolað meiri niðurskurð en aðrar stofnanir.

Það kemur reyndar ekki fram á hvaða tímabili þetta á að vera. En skoðum nýjustu rauntölur.

Árið 2012 voru framlög til þjóðkirkjunnar 1.452 milljónir, til kirkjumálasjóðs 229 milljónir, til kristnisjóðs 74 milljónir, sóknargjöld (allra ef ég skil rétt) voru 1.855 milljónir, kirkjugarðar fengu 888 milljónir og einhver liður kallast jöfnunarsjóður sókna og er 297 milljónir. Alls voru þetta 4,795 milljónir árið 2012. Árið 2011 fékk þjóðkirkjan 1,330 milljónir þannig að hækkun á milli ára var 9,17%. Heildartala allra liðanna var 4,648 en hækkunin milli ára var minni eða nær þremur og hálfu prósenti (3,39%). Það má deila um hvaða liði eigi að taka með, kirkjugarðar ættu kannski að vera undanskildir.

Framlög til RÚV voru til samanburðar 3.025 milljónir árið 2011 og 3.100 milljónir árið 2012, hækka um tæplega tvö og hálft prósent (2,48%).

Launavísitalan var 409,1 stig í júlí 2011 og 433,5 stig ári seinna, hækkar um tæp sex prósent (5,96%) þannig að þjóðkirkjan sem slík fær hækkun umfram launavísitöluna, en hvorki heildargjöld til trúmála né RÚV halda í við verðbólgu.

Hvað með aðrar stofnanir? Þjóðminjasafn með 3,9% niðurskurð, Þjóðmenningarhús með 10,2% niðurskurð, Útlendingastofnun 35,5% og og svo má finna liði eins og Alþjóðastofnanir með 35,6% niðurskurð og „Söfn og menningarminjar“ með niðurskurð upp á 56,0%.

Eins og áður segir kemur ekki fram við hvaða tímabil Brynjar á við, samanburður við aðrar stofnanir lengra aftur í tímann er snúnari vegna breytinga en ein leið til að meta þetta er að bera útgjöld til þjóðkirkjunnar saman við heildarútgjöld ríkissjóðs. Árið 2008 fékk þjóðkirkjan 0,22%, 2011 voru þetta 0,23% og 2012 voru þetta 0,26% – heildarútgjöld vegna trúmála voru 0,79% árið 2008, 0,81% árið 2011 og 0,85% árið 2012.

Þannig er erfitt að halda því fram að kirkjan hafi þolað meiri niðurskurð en aðrar stofnanir. Það virðist eiginlega vera beinlínis rangt.

Að niðurskurður til þjóðkirkjunnar hafi verið 25%

Brynjar hefur eftir ónefndum aðilum að niðurskurður til kirkjunnar hafi verið 25% og vissulega setur hann fyrirvara við þessa tölu.

En væri nú ekki hjálplegra að tala skýrt? Hvaðan kemur þessi tala? Við hvaða tímabil er miðað? Klárlega ekki frá 2011 til 2012.

Hvað fæst fyrir peninginn?

Þá er ekki verra að hafa í huga að fólk fær enn minna fyrir þjónustu kirkjunnar en þessar tölur gefa til kynna, það þarf nefnilega að greiða sérstaklega fyrir mörg viðvik og athafnir presta.

Þjónusta við hversu marga?

Þá er rétt að hafa í huga að meðlimum Þjóðkirkjunnar fækkar á milli ára, ekki bara hlutfallslega. Þjóðkirkjan sinnir aðeins þeim sem eru meðlimir og fær aðeins sóknargjöld vegna þeirra… þess vegna væri auðvitað eðlilegt að greiðslur til hennar lækki.

Aukaatriði

En þetta er auðvitað aukaatriði, spurning Egils var snerist um hvort ríkið ætti yfirleitt að standa í svona rekstri, burtséð frá öllum tölum.

PS. jú, þetta er auðvitað með fyrirvara um innsláttarvillur og upplýsingar, allar ábendingar eru vel þegnar.

Hmmm, Brynjar…

Posted: júlí 26, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Áður er lengra er haldið er rétt að taka fram að mér finnst sjálfsagt að ræða stöðu og fyrirkomulag RÚV… en mér finnst lágmarkskrafa að sú umræða sé á vitrænum nótum.

Brynjar Níelsson hélt því fram nýlega að rekstur RÚV kostaði hálf mánaðarlaun fjölskyldu, notaði reyndar töluna fjórir milljaðar, þegar 3,1 er nær lagi… en þegar reikningskúnstir voru dregnar í efa fór hann að tala um útborguð laun eftir skatta.

En það gleymist að skatturinn leggst á þá sem eru 16 ára og eldri og ég stórefast um að það séu svo margar fjölskyldur með fjóra fullorðna einstaklinga og aðeins eina fyrirvinnu með þessi laun – nú eða fleiri á þetta lágum launum. Ég kalla að minnsta kostir eftir staðfestum upplýsingum um að þetta sé svo almennt að það eigi erindi í umræðuna.

Það sem verra er… útborguð laun eftir skatta. Gott og vel. En nefskatturinn er einmitt í þeim hluta launanna sem fer í skatt! Þess vegna er verulega villandi að miða við laun eftir skatta.

Ég ítreka að ég vil endilega sjá umræðu um fyrirkomulag ríkisrekinna fjölmiðla. Mér finnast mörg góð rök mæla gegn því að svona fjölmiðill sé á auglýsingamarkaði og mér finnst vel mega ræða mun takmarkaðra hlutverk. Ég svo aftur engan veginn sannfærður um að leggja stofnunina niður.

En svona rökræðukúnstir hjálpa ekkert. Og það sem verra er, maður hálf skammast sin fyrir að vilja ræða breytingar á RÚV af ótta við að vera skipað í flokk með fólki sem ekki er fært um vitrænar rökræður.

Áfengis- eða „lambakjöts“-stefnan

Posted: júlí 24, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Það hefur komið fram að áfengisstefnan sé að „virka ágætlega“, við drekkum minna en aðrar þjóðir, amk. af víni sem keypt er með löglegum leiðum… neyslan gengur út á að nota áfenga matvöru sjaldan og þá mikið í einu, verða afvelta af drykkju og ómögulegur daginn eftir.

Er þetta eftirsóknarvert? Er þessi stefna í lagi?

Ef ég má ýkja aðeins…

Nú er þekkt af ofneysla á feitu kjöti getur kostað sitt fyrir heilsuna, sumir tala um alvarlegt heilbrigðisvandamál.

Hvernig væri sú lambakjötsstefna að leggja þúsunda prósenta skatt á hvert kíló og selja aðeins í fáum ríkisreknum verslunum? Yrði afleiðingin sú að lambakjöt væri notað sjaldan, fólk hittist sérstaklega til að „lambast“ þar sem reynt væri að éta eins mikið og hægt er… gestirnir lægju afvelta, ælandi í lok veislunnar og með tilheyrandi heilsubrest daginn eftir vegna þess að líkamanum hefði verið ofboðið?

… væri það „lambakjötsstefna“ sem er „að virka“??

Er það ekki ákveðin „rörsýn“ hjá Frosta Sigurjónssyni að ætla að takmarka eftirlit með skoðunum á RÚV við pólitík. Kannski fer svona fyrir góðu fólki þegar það „lendir í því“ að fara að skipta sér af pólitík. Allt í einu virðist allt snúast um pólitík og hún verður upphaf og endir alls.

Ég hef mínar efasemdir um að enginn megi viðra skoðanir á málum sem snerta stjórnmál nema allir flokkar fái sínar mínútur. Fólk sem einhvern tímann hefur lýst yfir stuðningi við flokk „gjaldfærist“ þá væntanlega á tímann sem viðkomandi hefur. Það kostar sennilega einhverjar flækjur í útreikningum ef viðkomandi hefur verið kenndur við fleiri en einn flokk. Þar fyrir utan þarf væntanlega að gæta þess að allir flokkar fái jafnan tíma. Allir flokkar á þingi? Allir flokkar sem buðu fram? Allir starfandi flokkar?

Hitt er stærra atriði að pólitík er ekki eini mælikvarðinn á allar skoðanir.

Hvers vegna að takmarka þetta við svona þrönga sýn, þeas. pólitík… það er fullt af fólki sem hefur skoðanir sem tengist ekki stjórnmálaflokki og skoðanir á hlutum sem hafa ekkert með stjórnmál að gera. Þarf ekki að gæta sama hlutleysis á öllum stöðum?

Það væri reyndar til bóta ef öllum lífsskoðunum væri gert jafn hátt undir höfði í stað þess að ríkiskirkjan væri í lykilaðstöðu.

En þarf svo ekki eftirlit yfir skoðanir á veðri, hvar er gott að búa, matsölustöðum, frammistöðu leikmanna og liða í íþróttum – og auðvitað tónlist.

Mér finnst til dæmis sjálfsögð krafa ef einhver lýsir því yfir í útvarpi að lag einhverrar hljómsveitar sé gott þá komi annar og lýsi því yfir hvað nýjasta lagið mitt sé gott.

Nú eða ekki.

En mér er slétt sama hvort einhver stjórnmálaflokkur fær sanngjarna eða ósanngjarna gagnrýni eða ekki. Hitt er miklu meira virði.

Líkingamál trúarinnar

Posted: júlí 22, 2013 in Trú, Umræða
Efnisorð:,

Þeim sem skilgreina sig „bókstafstrúar“ þegar kemur að trúarbrögðum virðist fara fækkandi. Enda erfitt að skilgreina hvað felst í þessu og auðvitað erfitt að trúa bókstaflega á rit sem er jafn mótsagnakennt og til dæmis biblían.

Mjög fáir trúa því orðið bókstaflega að Jesú hafi verið eingetinn, hann hafi risið upp frá dauðum og heimurinn hafi verið skapaður af geðstirðum föður gyðinga. Og engan hef ég hitt sem gerir ekki málamiðlanir um innihald trúarrita þegar hentar.

Kirkjan hefur auðvitað verið á „skipulögðu undanhaldi“ með innihald biblíunnar gegnum aldirnar. En það gengur auðvitað ekki að leggja stofnunina niður. Aðferðin við að halda andlitinu er að boða að textinn sé líkingamál og eitthvað sem þurfi að túlka. Í stað þess að sætta sig við að grundvöllurinn er bara vangaveltur forfeðra með litla þekkingu fyrir þúsunum ára. Enda væri auðvitað hlægilegt að halda því fram í ljósi almennrar þekkingar í dag að inniihald biblíunnar sé allt satt og rétt um á staf.

Kirkjan og „guðfræðingar“ nútímans hamast sem sagt við að breyta skilningi á textanum og stöðugt meira og meira af innihaldi biblíunnar verður líkingamál sem ekki á að taka bókstaflega.

Það er svo aftur spurning hvenær allt innihald biblíunnar verður afgreitt sem líkingamál, enginn guð, enginn Jesú, engin meyfæðing, engin upprisa, engin sköpun.

Sem betur fer hefur umburðarlyndi minnkað gagnvart skoðunum sem fela í sér mannfyrirlitningu og eru hatursáróður hvort sem er vegna kyns, trúar, litarháttar eða annars.

Ég er ekki að segja að við eigum að banna skoðanir eða dæma fólk fyrir heimskulegar skoðanir.. öðru máli gegnir um að fremja ódæði, eða hvetja til, í nafni þessara skoðana. En almennt held ég að besta mótvægið gegn heimsku séu upplýsingar og rök.

En einhverra hluta vegna virðist í lagi að halda á lofti heimskulegum skoðunum, mannfyrirlitningu og fordómum ef þær byggja að einhverri á trúarkenningum.

Reyndar nota sumir misjafna mælistiku eftir því hver á í hlut, hér á landi horfa menn góðlátlega framhjá þeim sem tala af fyrirlitningu um náungann í nafni kristni, vegna þess að þeir geta vísað í biblíuna máli sínu til stuðnings… en æsa sig umsvifalaust ef þetta er gert í nafni annarra trúarbragða.

Fyrir mér á að leggja þetta að jöfnu. Heimska er heimska. Mannfyrirlitning er mannfyrirlitning. Og fordómar eru fordómar. Alveg sama á hverju þetta byggir.

Mannfyrirlitning í nafni trúar

Posted: júlí 18, 2013 in Trú, Umræða
Efnisorð:,

Það var skelfilegt að hlusta á rausið í fulltrúa annars múslima safnaðarins hér á landi áðan í kvöldfréttum RÚV, eða Speglingum, réttara sagt. Hvort sem hann ræddi stöðu kvenna yfirleitt, það að heilsa konum með handabandi, blæjur kvenna, hver ætti að ráða á heimilinu eða samkynhneigð þá gekk hann nokkrum sinnum fram af okkur á örfáum mínútum.

Það hvarflar ekki að mér að dæma alla múslima út frá bullinu í manninum, ekki frekar en að það hvarflar að mér að dæma alla kristna út frá verstu bullukollunum.

Á stuttu ferðalagi um Miðjarðarhaf lögðu amk. tveir farastjórar, í Tyrklandi og Egyptalandi – báðar konur – áherslu á að flestir múslimar væru hófsemdarfólk sem iðkaði trú sína í friði og léti aðra í friði. Nú dettur mér ekki í hug að nokkrir dagar gefi mér yfirgripsmikla þekkingu, en þeim var mikið í mun að leiðrétta klisjur og koma í veg fyrir fordóma – og tókst að minnsta kosti að sannfæra mig. Ef ég skildi rétt þá voru þetta fyrst og fremst hefðir og siðir, eins og kristni er væntanlega hjá flestum.

En það er ágætt að hafa í huga að svona fordómar, þessi mannfyrirlitning í nafni trúar, er ekki skráð einkaleyfi hjá múslimum. Við þurfum ekki að leita langt.

 

Fáránlegt réttarkerfi

Posted: júlí 14, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Það er auðvitað fáránlegt réttarkerfi þar sem ofbeldismenn ýmist sleppa við dóma fyrir gróf brot eða fá vægar refsingar, allt á tækniatriðum og útúrsnúninum á hugtökum.

Á sama tíma dæmir þetta sama réttarkerfi venjulegt fólk í gjaldþrot eftir minnstu smáatriðum.

Það er auðvitað ekki við miklu að búast þegar réttarkerfið er í höndum á vanhæfum og fáfróðum einstaklingum.

Og já, ég er að tala um Íslenska réttarkerfið en ekki það Bandaríska.. það er fáránlegt, en við skulum kannski byrja á að taka til hér heima.

Fyrir nokkuð mörgum árum kom óvandaður læknir fram á Bretlandseyjum, sagðist hafa gert rannsóknir sem sýndu fram á tengsl ákveðinnnar tegundar bóluefnis við einhverfu. Hann mælti með að fólk notaði önnur bóluefni. Hann var reyndar á svimandi háum ráðgjafalaunum hjá fyrirtækjunum sem hann mælti með að fólk verslaði við. Og síðar kom í ljós að rannsóknin hans stóðst engar kröfur, var í rauninni fölsuð. Hann missti lækningaleyfið í kjölfarið.

Upp reis hreyfing fólks sem hafnaði bólusetningum. Ekki bara þessu efni sem hann mælti gegn, heldur öllum bólusetningum. Fólk heyrði bara hálfa setningu og rauk upp til handa og fóta. Vefurinn fylltist af greinum gegn bólusetningum og alls kyns bábiljur urðu nánast að „allir vita“ sannleik hjá nokkuð stórum hópi fólks. Afleiðingin varð faraldur sjúkdóma sem nánast var búið að útrýma.. við heyrðum fyrr á árinu fréttir af faraldri á Bretlandi.

Hvað kemur þetta okkar „ástsæla“ við?

Jú, það hefur stundum verið bent á að ekki sé alltaf heppilegt að greiða atkvæði um skatta í almennum atkvæðagreiðslum. Nánar um það síðar hvenær þetta á við og hvenær ekki, aðalatriðið er að þetta er hvorki lögmál, né algilt… það eru nokkrir þættir sem spila þarna inn í, sumir umdeilanlegir.

Rökin fyrir að vísa auðlindagjaldi ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu voru einmitt studd því að ekki ætti að greiða atkvæði um skatta. Alveg eins og sértækt tilfelli um eitt ákveðið bóluefni varð að hreyfingu gegn öllum bóluefnum af hreinni fáfræði og óvitaskap… þá virðast rökin um skatta notuð hér á sömu forsendum. Eitt atriði er tekið atriði sem á ekki alltaf við, alhæft út frá því og vond ákvörðun tekin í fáfræði. Fólk heyrir bara hluta af setningunni.

Eða kannski vita menn betur, en treysta því að þetta slái ryki í augu nægilega margra.

PS. Þar fyrir utan var ekki verið að fara fram á þjóðaratkvæði um skattgreiðslur sem skattgreiðendur heldur voru eigendur auðlindarinnar að biðja um atkvæðagreiðslu um hvaða reglur ættu að gilda um nýtingu hennar.

Það má deila um það hvort og í hvaða tilfellum það sé rétt að greiða þjóðaratkvæði um um skatta. Gallinn við þá leið er auðvitað að skattgreiðendum hættir til að greiða atkvæði gegn sköttum, enda þurfa þeir oftast sjálfir, að borga. Þetta skiptir þó auðvitað ekki máli þegar meta átti hvort vísa bæri lögum um auðlindagjald í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við vorum ekki að fara fram á atkvæðagreiðsluna sem skattgreiðendur.

Við vorum að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslu sem eigendur auðlindar og vildum fá að taka afstöðu til þess hvaða reglur eiga að gilda um nýtingu hennar.

Þess vegna settist forsetinn vitlausu megin við borðið þegar hann tók ákvörðun.

Og þess vegna varð ákvörðunin vitlaus.

Nánar um það síðar hvort rétt sé að greiða þjóðaratkvæði um tekjur og gjöld. Forsetinn hefur reyndar þegar sett fordæmi þess efnis að það sé í góðu lagi.