Posts Tagged ‘áfengi’

Greinin Mýtan um skaðleysi frjálsrar sölu áfengis er á „upplyst.org“. Ég ætlaði að senda inn nokkrar spurningar, en þetta varð eiginlega full langt.

Smá inngangur samt.

Svo það fari ekkert á milli mála þá ber ég mikla virðingu fyrir greinarhöfundi og er sannfærður um að hann tekur spurningunum vel, getur kannski leiðrétt mig að einhverju (nú eða öllu) leyti eða svarað mér.. eða ef ekki, þá er ég viss um að hann tekur mark á þeim punktum sem ég nefni.

Þá er líka rétt að taka fram að ég mjög ánægður með síðuna „upplyst.org“, það er alveg til fyrirmyndar að halda úti síðu með gagnrýna hugsun að leiðarljósi og þar sem leitast er við að hafa réttar upplýsingar aðgengilegar.

En einmitt með gagnrýna hugsun að leiðarljósi langar mig að velta upp nokkrum spurningum.

Smá útúrdúr. Það er rétt að taka fram að ég styð núverandi frumvarp og myndi styðja þó allar upplýsingar og fullyrðingar í greininni væru réttar.. en það er önnur saga og önnur umræða.

Þá er líka rétt að hafa á hreinu að mér finnst þetta ekkert stórmál til eða frá og skiptir mig ekki miklu.

Ég hef hins vegar mikinn áhuga á upplýstri umræðu og að rétt sé farið með gögn og tölur. Ekki gef ég mig út fyrir að vera sérfræðing á heilbrigðissviði, en ég þykist hafa þokkalega reynslu af því að greina gögn og tölur.

Algengasta villan við meðferð upplýsinga er að gefa sér að tölfræðileg fylgni þýði orsakasamhengi. Auðvitað getur fylgni bent til þess en oft kemur upp í hugann dæmisagan um borgarstjórann sem vildi banna sölu á rjómaís til að minnka dauðsföll af völdum drukknunar! Það þarf nefnilega að skoða hvað er á bak við tölurnar og sérstaklega þarf að varast að draga ályktanir út frá meðaltölum, það þarf að skoða undantekningarnar og frávik. Undantekningar geta átt sér sínar eðlilegu skýringar, en þær eru einmitt oft vísbending um annað og / eða flóknara orsakasamhengi en virðist þegar skautað er yfir gögnin.

Ég hef ekki skoðað öll skjöl og skýrslur sem eru í boði enda talsvert mikið í boði [og þetta er ekki aðalatriðið], en ég skoðaði gagnagrunn WHO, WHO Data Repository, fyrir nokkru og staldraði við..

Þannig, svo ég komi mér að efninu, þá eru hér nokkrar spurningar:

  1. Áfengisneysla jókst vissulega hér á landi í kjölfar þess að bjórinn var leyfður, en dróst svo saman og var orðin minni en áður en bjórinn var leyfður (án þess að hann væri bannaður aftur) og jókst svo aftur (án þess að vörutegundum væri fjölgað) – getur hugsast að fleiri þættir en það að leyfa bjór hafi áhrif á heildarneyslu?
  2. Einhverjar helstu áhyggjur andstæðinga bjórsins var að unglingadrykkja myndi aukast, hún hefur hins vegar dregist saman (amk. svo langt sem ég veit, en mögulega eru tölur þarna ekki óyggjandi) – getur verið að aðrir þættir eins og fræðsla og forvarnir hafi mun meiri áhrif?
  3. Áfengisneysla jókst jafnt og þétt eftir aldamót, en dróst saman eftir hrun og hefur aukist aftur.. getur verið að almennt efnahagsástand skipti mestu?
  4. Áfengisneysla virðist haldast nokkuð vel í hendur við almenn kjör og nokkur fylgni virðist vera á milli bíla, sjónvarpstækja (flatskjáa) og áfengisneyslu – getur verið að sameiginleg orsök sé meiri eftirspurn vegna betri kjara?
  5. Getur hugsast að útsölustaðir, sérstaklega í formi veitingastaða, séu til að mynda háðir eftirspurn (betri lífsskjör, fjölgun ferðamanna), ekki löggjöf eða ákvörðunum ríkisins?
  6. Skaðsemi (hlutfallsleg dauðsföll) sem rakin er til áfengisneyslu er minni á Ítalíu (1,6) en á Íslandi (2,1) þrátt fyrir að áfengi sé selt í matvöruverslunum – getur verið að aðgengi að áfengi og skaðsemi haldist bara ekkert endilega í hendur?
  7. Ef við skoðum sömu greiningu á skaðsemi þá eru tölurnar eiginlega út og suður, til dæmis má benda á skaðsemi í Bretlandi (3,4) en í Sloveníu (7,9) þrátt fyrir að neysla sé eins – er mögulegt að aðrir þættir en heildarneysla skipti máli?
  8. Áfengisneysla á Möltu er minni (5,4l) en í Finnlandi, (12,5l), þrátt fyrir að (amk. eftir því sem ég best veit) vín sé selt í matvöruverslunum á Möltu en aðeins í ríkisreknum verslunum í Finnlandi – getur verið að það sé einfaldlega ekki einhlítt samhengi á milli fyrirkomulags áfengissölu og áfengisneyslu og málið miklu flóknara?
  9. Það birtast oft rannsóknir sem benda til að hóflega neysla áfengis vinni gegn margs konar sjúkdómum, ég játa að ég þekki ekki hversu vandaðar þær rannsóknir eru – en getur hugsast að þrátt fyrir ákveðna skaðsemi af völdum óhóflegrar drykkju þá séu aðrir kostir sem vega þungt á móti? Ef rétt er, er varlegt að horfa eingöngu á neikvæðu hliðarnar?

Það er mikið rætt um áfengi og lýðheilsu þessa dagana. Sumt stenst líkast til skoðun, annað er vægast sagt vafasamt og ansi finnst mér mikið um einfaldanir á (að því er virðist) flóknu samspili. Og ekki er ég sammála þeim ályktunum sem flestir virðast draga um orsakir og afleiðingar.

Margir telja víst að lýðheilsu hraki umtalsvert ef minni háttar breyting verður á fyrirkomulagi á sölu á áfengi. Skorpulifur er eitt dæmið sem er gjarnan tekið og líkast til er fylgni á milli dagdrykkju og hennar. Ekki veit ég hvort heildarneyslan hefur áhrif og ekki get ég sagt að ég sé sannfærður um að þær breytingar sem eru til umræðu leiði beint til aukinnar dagdrykkju.

Látum það aðeins liggja á milli hluta, því..

Hvað með aðra heilsuþætti? Nú þykist ég hafa séð ansi margar rannsóknir sem benda til að hófleg neysla áfengis vinni gegn mörgum sjúkdómum, gott ef ekki hjartasjúkdómum, jafnvel krabbameini, kannski ekki skalla [enda ekki sjúkdómur]. Svo er „hófleg neysla“ áfengis eitthvað sem ekki er vel skilgreint, amk. ekki enn.

Þannig að hvers vegna eru lýðheilsufræðingar að einblína á neikvæðu þættina, sem virðast jafnvel takmarkaðir við eitt neyslumynstur áfengis, en hunsa um leið alla mögulega jákvæða þætti?

PS. já, nei, ég veit ekki hvað þetta kallast, þeas. að halda áfram að röfla um eitthver smáatriði sem skipta mig litlu, bara vegna þess að umræðan fer í skapið á mér – en það hlýtur að vera til eitthvert læknisfræðilegt heiti.

Eftirspurn, framboð og áfengi

Posted: febrúar 28, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Ég hef aðeins  dottið í að ræða hvort framboð í formi útsölustaða auki áfengisneyslu. Eins og mér sé ekki sama.. hef aðallega verið að láta óvarlegar túlkanir á gögnum fara í skapið á mér. Ég átti ágætt spjall á Facebook þar sem mikilvægt atriði kom fram.

Það er víst eitthvað til sem kallast framboð og eftirspurn.

Það er ekki óvarlegt að gera ráð fyrir að eftirspurn eftir hvers kyns neysluvörum, þar með talið áfengi, aukist þegar efnahagur batnar. Þá er ekki fráleitt að ímynda sér að aukinn straumur ferðamanna, bæði jafnt og þétt og síðan sprengja síðustu ára hafi talsverð áhrif á eftirspurn eftir áfengi. Ferðamenn eru jú í fríi og það er ekki langsótt að gera ráð fyrir að fólk drekki meira í fríi en að öðru jöfnu. Og ferðamenn eru neytendur en telja ekki með í íbúafjölda og skekkja þannig neyslutölur á einstakling.

Og eins og fram kom í áðurnefndu spjalli þá hefur útsölustöðum áfengis fjölgað meira í takt við þessa tvo þætti í formi fleiri veitingastaða en fjölgun vínbúða og breytingar á vöruúrvali.

Það eru sem sagt allar líkur á að það sé aukin eftirspurn sem kallar á fleiri útsölustaði, ekki fleiri útsölustaðir sem búa til eftirspurn.

Ég skal játa að ég hef ekki skoðað tölurnar í smáatriðum… ég er um það bil að verða búinn að fá nóg af þessari umræðu og nenni eiginlega ekki að eyða meiri tíma í þetta í bili. En við fyrstu sýn virðist þetta nokkuð gefið og ég er nokkuð viss um að þetta er að minnsta kosti mun líklegri skýring en það eitt að gera breytingar á tegund útsölustaða.

Mér sýnist deginum ljósara að betri efnahagur og fleiri neytendur auka eftirspurn sem eykur fjölda útsölustaða.. það er eftirspurnin sem skýrir meiri neyslu, ekki fjöldi útsölustaða… aðgerðir löggjafans breyta sennilega litlu sem engu um þetta.

Og umdeilt frumvarp breytir bara nákvæmlega ekki neinu um þetta!

Fyrir daga bjórsins voru andstæðingar þess að leyfa hann þess fullvissir að það að leyfa bjór myndi einfaldlega bætast við aðra neyslu, aukið aðgengi myndi þýða meiri neyslu áfengis og við sætum uppi með enn verri drykkju með tilheyrandi vandamálum.

En skoðum tölur.

Seldir alkóhóllítrar á mann voru 3,14 árið 1980 og hafði aukist í 3,39 árið 1988. Samt var ekki búið að gera neina verulega breytingu, hvað þá að leyfa bjór.

En, vissulega jókst heildarneysla áfengis árið 1989, árið sem bjórinn var leyfður, neyslan fór í 4,13 alkóhóllítra á mann.. við fáum seint að vita hversu mikið af þessari breytingu má rekja til minnkandi heimabruggs og/eða smygls.

En, svo ber við að 1993 er neyslan orðin minni en fyrir tíma bjórsins eða 3,34 alkóhóllítrar á mann. Og aftur er rétt að hafa í huga að við vitum ekkert um brugg eða smygl fyrir tíma bjórsins. Ekki var búið að banna bjórinn aftur og ekki var búið að takmarka aðgengi að áfengi (mér vitanlega) á annan hátt.

Áfengisneysla jókst svo nokkuð þétt til 2007 þegar alkóhóllítrar á mann voru komnir í 5,95. Ekki var verið að leyfa bjórinn aftur á þessum tíma, ekki var verið að leyfa aðrar tegundir.. neyslan jókst nú bara samt, og það talsvert.

Tölurnar Hagstofunnar ná reyndar bara til 2007, það skemmtilega ártal tvö-þúsund-og-sjö. Svo minnkar neyslan aftur.. hér vantar reyndar nákvæmar tölur en í skýrslu Landlæknis er greinilegur samdráttur eftir 2007. Ekki var bjór bannaður og ekki fækkaði útsölustöðum.

Getur hugsast að það séu fleiri þættir en aðgengi sem hafa áhrif á heildarneyslu áfengis? Getur jafnvel verið að almennt efnahagsástand hafi talsverð áhrif? Verð? Fjöldi ferðamanna? Fræðsla? Breytt menning?

Er mögulegt að neysla áfengis sé einfaldlega flóknari en þeir sem hafa hæst í umræðunni vilja láta? Getur verið að aðgengi, heildarneysla, skaðsemi, unglingadrykkja haldist bara alls ekkert í hendur eftir allt saman?

Er mögulegt að þetta sé bara flökkusaga, sem haldið er við með því að að endurtaka stöðugt möntru sem á ekki við rök að styðjast..

Ég á auðvitað að hafa vit á að þegja um þetta áfengisfrumvarp.. en síðan hvenær hef ég haft vit á að þegja?

Í öllu falli þá er ég alveg búinn að fá upp í kok á þessu lýðheilsutali þegar kemur að minni háttar breytingum á sölu áfengis.

Það er ekki þverfótað fyrir tilvísunum í hvað lýðheilsufræðingum finnst og jafnvel þó bent sé á að gögnin sem þeir leggja til grundvallar standist ekki skoðun, þá er einfaldlega haldið áfram að endurtaka fullyrðingarnar aftur og aftur.

Ef fólk hefur virkilega trú á að lýðheilsurök komi þessu frumvarpi eitthvað við, þá ætti þetta sama fólk að eyða jafn mikilli, eða reyndar meiri, orku í að krefjast þess að allt áfengi væri bannað. Sama fólk ætti þá með sömu rökum að krefjast þess að tóbak, sykur, sælgæti, unnar kjötvörur yrði eingöngu selt í ríkisreknum verslunum. Nei, hvernig læt ég, auðvitað á að banna þetta alfarið, það eru mjög sterk lýðheilsurök fyrir því.

En fólki vefst allt í einu tunga um tönn og fingur um lyklaborð þegar á að teygja rökin lengra og yfir á eitthvað sem þeim hentar ekki sjálfum. Lýðheilsurökin virðast nefnilega bara telja „þegar það hentar mér“..

Og ég hef ekkert sérstaklega mikla samúð með svona málflutningi.

Aldurinn og áfengið

Posted: febrúar 10, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Nei, kannski ekki aldurinn í sjálfu sér, heldur frekar tímabilið sem „við vorum ung“.. fyrirsögnin hljómaði bara betur svona.

Ég velti fyrir mér einum rauðum þræði í umræðunni um sölu áfengis í verslunum. Þetta virðist nefnilega ekki skiptast eftir stjórnmálaflokkum og/eða -skoðunum, heldur fyrst og fremst eftir aldri.

Jú, jú, það heyrast alveg rökleysur þar sem verið er að stimpla fólk með frösum og klisjum og reyna að tengja við stjórnmálaflokka og stefnur, en það virðist fyrst og fremst koma frá þeim eru að skilgreina skoðanir annarra.

Getur verið að skýringin liggi frekar í því að hér áður fyrr, td. þegar ég var ungur, var áfengi fyrst og fremst vímuefni og með neyslu þess var verið að sækja eftir ákveðnum áhrifum, frekar en að þetta þættu endilega eitthvað sérstaklega spennandi drykkir. Tvöfaldur vodki í kók með matnum var alveg þekkt pöntun á veitingastöðum. Sólarlandaferðir snerust fyrst og fremst (hjá mörgum) um að komast í ódýrt áfengi. Það að fá sér einn drykk og láta þar staðar numið var ekki algengt. Ég ætla ekki að alhæfa út frá eigin reynslu, en ég man mjög vel eftir ákveðinni skemmtistaðamenningu sem var engan veginn bundin við minn vinahóp. Enda lá í menningunni að áfengi væri einhvers konar helgigripur sem þyrfti að meðhöndla sérstaklega. Bjór var til að mynda ekki leyfður fyrr en 1989, á meðan sterk vín voru í lagi.. sem sýnir nú kannski best „skynsemina“ þegar kom að áfengi.

Að sama skapi virðist ungt fólk í dag umgangast áfengi á allt annan hátt en fyrri kynslóðir. Það að leyfa bjórinn hjálpaði eflaust mikið til, ungt fólk fær sér 1-2 bjóra með mat, sjónvarpsglápi, tölvuleikjum, spilum, yfir spjalli.. án þess að tilgangurinn sé sá einn að komast í vímu. Líkast til hefur líka hjálpað til að það er mun ódýrara og einfaldara að ferðast, jafnvel búa erlendis, og kynnast þannig annarri menningu.

Fyrir þeim er það (heyrist mér) ótrúlega afdalamennska að það þurfi sérstakar ríkisreknar einokunarverslanir til að selja áfengi.

Gott og vel, auðvitað má finna fullt af undantekningum. Það þekktist alveg fólk sem kunni að meta áfengi hér áður fyrr án þess sækjast eftir því að komast í vímu. Og auðvitað er fullt af undantekningum um ungt fólk sem misnotar áfengi. En almennt séð, þá sýnist mér ákveðin viðhorfsbreyting vera sláandi milli kynslóða. Við eigum enn eitthvað í land, þetta er þróun og þetta snýst um viðhorf og þetta snýst um menningu. Ég held að fyrsta skrefið sé að hætta að umgangast áfengi eins og einhvers konar „helgigripi“. Og ég efast um að þessi móðursýkiskenndi [hvaðan kemur annars þessi þýðing „móðursýki“? muna að skoða seinna] tónn í umræðunni síðustu daga hjálpi til.

Svo langt sem ég sé, þá er opnunartími og fjöldi útsölustaða engin hindrun fyrir þá sem eru í vandræðum með áfengisneyslu og ætla sér að ná í áfengi, þetta eru fyrst og fremst óþarfa óþægindi fyrir aðra. Ég á líka mjög bágt með að trúa því að það skipti sköpum fyrir einhvern hvort áfengi er inni í matvöruverslun eða blasir við í næstu búð þegar komið er út. Verð virðist hafa áhrif á heildarneyslu, en ég hef ekki séð það stöðva þá sem eru í vandræðum með neysluna, það sitja einfaldlega aðrir hlutir á hakanum.

Eftir stendur að ég hef fulla trú á að við gerum best með því að bæta menningu og neysluvenjur með upplýsingum, fræðslu og aðstoð – til lengri tíma hef ég trú á að það fækki vandamálum vegna misnotkunar – ekki bara vegna neyslu áfengis. Á sama hátt hef ég ekki trú á að ríkisrekin stýring og það að setja óþarfa takmarkanir á alla (þó það sé) í vel meintri trú á að hjálpa fáum skili okkur í rauninni nokkru.

Ég hef aðeins fylgst með umræðunni um breytingar á áfengislögum. Þetta skiptir mig kannski ekki svo miklu til eða frá hvort áfengi er selt í matvöruverslunum eða ekki. En mér finnst þetta talsvert mikið „prinsip“ mál. Og að hefðbundinni íslenskri umræðuhefð er ég gjarnan stimplaður sem talsmaður einhverra hagsmunahópa eða þaðan af verra um leið og ég leyfi mér að hafa skoðun.

Hitt er að ég hef talsverðan áhuga á bættri umræðu. Að málin séu rökrædd, skoðanir séu rökstuddar og rökin studd af upplýsingum.

Og það hefur verið einstaklega gremjulegt að fylgjast með umræðunni, hvort sem þar fara læknar, þingmenn og/eða þeir sem bara virðast hafa ríka þörf fyrir að vita betur en ég hvað ég vil..

Það er þekkt sagan (sennilega ekki sönn, en góð dæmisaga) um borgarstjórann sem vildi banna sölu á rjómaís í borginni. Hann hafði jú skoðað tölur og tekið eftir, réttilega, að dauðsföllum fjölgaði verulega í takt við sölu á rjómaís. Það var alveg klár fylgni á milli. Það var hins vegar ekki það orsakasamhengi að rjómaís væri að valda dauða. Skýringin var einfaldlega sú að þegar hitabylgjur gengu yfir þá keypti fólk meira af rjómaís – og á sama tíma fóru fleiri óvarlega við að kæla sig, óðu út í aðal á borgarinnar án fyrirhyggju og afleiðing var að fjöldi fólks drukknaði.

Umræðan um sölu áfengis í matvöruverslunum er því miður mjög lituð af því að farið er mjög óvarlega með upplýsingar og tölur. Fullyrt er að tölfræðileg fylgni sýni fram á orsakasamhengi. Og oft er látið nægja að skauta á hundavaði yfir aðgengilegar tölur, í stað þess að rýna í þær og velta fyrir sér hvort mótsagnir í gögnunum gefi ekki tilefni til að skoða betur.

Áfengi og Ríkið

Posted: júlí 22, 2014 in Umræða
Efnisorð:,

Ég er enn að furða mig á undarlegum og nánast forneskjulegum skoðunum á því hvort selja megi vín í matvöruverslunum eða ekki.

Ég er væntanlega eitthvað tregur, en ég get ekki mögulega skilið rök – eða rökleysur – sem einkenna umræðuna.

Fyrir mér er þetta frekar einfalt. Áfengi er vara sem er leyfilegt að selja hér á landi án sérstakra kvaða, fyrir utan takmarkanir vegna aldurs sem gildir um margt annað.

Hvers vegna ríkið ætti eitt að reka verslun sem selur þessa vöru er mér algerlega óskiljanlegt. Svo ég tíni nú til nokkur atriði

  1. Aðalatriðið eru að þetta er grundvallaratriði þegar kemur að því hverju ríkið á að vera að vasast í og hverju ekki – það er ekki ríkisins að segja hvenær má selja mér og hvenær ég má kaupa vöru sem er leyfileg að selja á annað borð.
  2. Það er mikill tvískinningur í því að selja tóbak í matvöruverslunum en ekki vín. Vín í hófi þykir hollt og er í fæstum tilfellum ávanabindandi. Ég hef ekki heyrt að tóbak sé talið til hollustu og tóbak er nánast undantekningarlaust ávanabindandi.
  3. Ég sé engin rök fyrir því að þurfa að kaupa eina tegund af matvöru fyrir 18:00 á laugardögum ef til kemur að við fáum gesti á sunnudegi eða okkur skyldi detta í hug á sunnudegi að bjóða í mat. Allt annað er aðgengilegt í næstu búð. Ef ég er ekki svo heppinn að búa á höfuðborgarsvæðinu gæti ég þurft að hugsa fyrir þessu enn fyrr.
  4. Að meðhöndla áfengi eins og stórkostlega verðmæti gerir lítið annað en að gera þetta spennandi og eftirsótt.
  5. Takmarkaður opnunartími og sérstakar verslanir gerir ekki annað en að trufla og tefja fyrir og leggja krók á leið þeirra sem nota áfengi í hófi. Þetta breytir engu fyrir þá sem eru í vandræðum með áfengisneyslu. Ef eitthvað er þá verður þetta til þess að þeir birgja sig upp fyrir lokun.. eiga þannig meira áfengi en annars og drekka jafnvel meira.
  6. Sú hugsun að miða verslun með áfengi við þá sem eiga í vandræðum með neyslu þess gengur ekki upp, hún truflar þá sem ekki eiga í vandræðum en hjálpar þeim sem eiga í erfiðleikum í rauninni ekkert. Með sömu rökum mætti beita takmörkunum á sölu annarra vörutegunda – og ætti í raun miklu frekar við um aðrar vörur en áfengi.
  7. Ein rökin eru þau að vöruúrval sé betra í ríkisrekinni verslun en í einkareknum. Mér finnast þau rök fráleit og þarf ekki að horfa mjög langt aftur til hafta í verslun til að sjá að þau standast ekki. Enda ættu þeir sem telja þetta góð og gild rök að einbeita sér að ríkið yfirtaki rekstur og hefji einkasölu á mikilvægari vörum en áfengi. Vissulega yrði vöruúrval mismunandi eftir stöðum, en ef sú verður raunin að einkarekstur standi ekki undir betra vöruúrvali en ríkisrekstur þá er um leið verið að halda því fram að reksturinn sé niðurgreiddur. Ef það er tilfellið fæ ég ekki séð hvers vegna ríkið ætti að niðurgreiða rekstur á verslun með áfengi en ekki öðrum vörum. Þá gengur ekki upp að halda því fram að vöruúrval á áfengi sé betra hér en annars staðar. Við sjáum til þess að gera fáar vörutegundir af þeim sem framleiddar eru. Ef ekki væri meira framboð annars staðar þá væri engin grundvöllur fyrir framleiðslunni.
  8. Þá er ákveðin mótsögn í rökum þeirra sem telja bæði að hlutirnir séu í fínu lagi eins og þeir eru, vöruúrval og þjónustu séu eins og best verður á kosið – á sama tíma og þeir telja rétt að takmarka neyslu annarra með því að takmarka opnunartíma og framboð – þessir sem þykjast þess umkomnir að segja okkur hinum hvað okkur sé fyrir bestu. Væri þá ekki nær að þeir fögnuðu minna framboði?
  9. Svo er kannski ágætt að hafa í huga að á Íslandi er mjög sérstakt fyrirkomulag á sölu áfengis, muni ég rétt er þetta nánast óþekkt nema í Svíþjóð. Er einhver í alvöru að halda því fram að vínmenning okkar sé til þeirra fyrirmyndar og eftirbreytni að við getum ekkert lært af öðrum þjóðum – og þeim væri nær að taka upp ríkisrekna einkasölu á borðvínum?

Áfengis- eða „lambakjöts“-stefnan

Posted: júlí 24, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Það hefur komið fram að áfengisstefnan sé að „virka ágætlega“, við drekkum minna en aðrar þjóðir, amk. af víni sem keypt er með löglegum leiðum… neyslan gengur út á að nota áfenga matvöru sjaldan og þá mikið í einu, verða afvelta af drykkju og ómögulegur daginn eftir.

Er þetta eftirsóknarvert? Er þessi stefna í lagi?

Ef ég má ýkja aðeins…

Nú er þekkt af ofneysla á feitu kjöti getur kostað sitt fyrir heilsuna, sumir tala um alvarlegt heilbrigðisvandamál.

Hvernig væri sú lambakjötsstefna að leggja þúsunda prósenta skatt á hvert kíló og selja aðeins í fáum ríkisreknum verslunum? Yrði afleiðingin sú að lambakjöt væri notað sjaldan, fólk hittist sérstaklega til að „lambast“ þar sem reynt væri að éta eins mikið og hægt er… gestirnir lægju afvelta, ælandi í lok veislunnar og með tilheyrandi heilsubrest daginn eftir vegna þess að líkamanum hefði verið ofboðið?

… væri það „lambakjötsstefna“ sem er „að virka“??