Að hrapa, í frjálsu falli, að ályktunum..

Posted: febrúar 17, 2016 in Umræða
Efnisorð:, ,

Ég hef aðeins fylgst með umræðunni um breytingar á áfengislögum. Þetta skiptir mig kannski ekki svo miklu til eða frá hvort áfengi er selt í matvöruverslunum eða ekki. En mér finnst þetta talsvert mikið „prinsip“ mál. Og að hefðbundinni íslenskri umræðuhefð er ég gjarnan stimplaður sem talsmaður einhverra hagsmunahópa eða þaðan af verra um leið og ég leyfi mér að hafa skoðun.

Hitt er að ég hef talsverðan áhuga á bættri umræðu. Að málin séu rökrædd, skoðanir séu rökstuddar og rökin studd af upplýsingum.

Og það hefur verið einstaklega gremjulegt að fylgjast með umræðunni, hvort sem þar fara læknar, þingmenn og/eða þeir sem bara virðast hafa ríka þörf fyrir að vita betur en ég hvað ég vil..

Það er þekkt sagan (sennilega ekki sönn, en góð dæmisaga) um borgarstjórann sem vildi banna sölu á rjómaís í borginni. Hann hafði jú skoðað tölur og tekið eftir, réttilega, að dauðsföllum fjölgaði verulega í takt við sölu á rjómaís. Það var alveg klár fylgni á milli. Það var hins vegar ekki það orsakasamhengi að rjómaís væri að valda dauða. Skýringin var einfaldlega sú að þegar hitabylgjur gengu yfir þá keypti fólk meira af rjómaís – og á sama tíma fóru fleiri óvarlega við að kæla sig, óðu út í aðal á borgarinnar án fyrirhyggju og afleiðing var að fjöldi fólks drukknaði.

Umræðan um sölu áfengis í matvöruverslunum er því miður mjög lituð af því að farið er mjög óvarlega með upplýsingar og tölur. Fullyrt er að tölfræðileg fylgni sýni fram á orsakasamhengi. Og oft er látið nægja að skauta á hundavaði yfir aðgengilegar tölur, í stað þess að rýna í þær og velta fyrir sér hvort mótsagnir í gögnunum gefi ekki tilefni til að skoða betur.

Lokað er á athugasemdir.