Kannski er ég farinn að endurtaka mig, en svona í ljósi nýjustu frétta – um þyngdarbylgjur – rifjast upp hversu galið það er í ljósi þekktra upplýsinga að trúa því að heimurinn hafi verið skapaður af guði gyðinga fyrir fáum þúsundum ára.
Það eru auðvitað sárafáir hér á landi og í Evrópu sem beinlínis hafa þetta fyrir satt. En í fjölmennu ríki vestan hafs er þetta til að mynda nokkuð útbreidd skoðun.
Það væru nokkuð augljós viðbrögð að þegar búið er að afsanna án nokkurs vafa þann grundvöll sem ákveðinn trúarbrögð byggja tilvíst sína á – þá væri sjálfgefið að segja einfaldlega, „jæja, þetta var nú barasta hreinn og klár misskilningur, þeim var kannski vorkunn að halda þetta á sínum tíma, en nú vitum við betur og leggjum þetta til hliðar“. Þannig bregst að minnsta kosti sæmilega skynsamur einstaklingur við því þegar í ljós kemur að skoðanir hans / hennar standast ekki skoðun.
En einhverra hluta vegna ríghalda talsmenn trúarbragðanna í að þetta sé nú samt allt satt og rétt, þrátt fyrir allt. Kannski er of mikið undir. Kannski er búið að fjárfesta of mikið, bæði bókstaflega og fyrir mannorðið.
Á flóttanum undan staðreyndum og upplýsingum þá er gripið til að segja að megnið af vitleysunni sé nú bara líkingamál, allt saman myndlíkingar sem beri nú (allt í einu) ekki að taka bókstaflega. Enginn getur reyndar svarað fyrir hvað þetta líkingamál stendur og/eða hvað það er sem myndlíkingarnar vísa til. Ég veit ekki til að nokkur hafi getað svarað því hvað það er sem „meyfæðing“ vísar til sem myndlíking.
En ef allt sem stendur í bókinni er orðið líkingamál, eða amk. smám saman að verða líkingamál (því flóttinn frá textanum virðist hraðari með hverjum deginum), hvert er þá innihaldið? Er þá ekki guðinn sjálfur myndlíking? Eru trúarbrögðin (sum) þá bara safn myndlíkinga?