Sarpur fyrir febrúar, 2023

Að vera (ó)sammála báðum

Posted: febrúar 25, 2023 in Umræða

Þegar tveir eða fleiri aðilar deila, þá er ekki alltaf nauðsynlegt að ganga í lið með öðrum (einum) og láta eins og gamaldags fótboltaleikur sé í gangi á gamla Melavellinum. Hrópa (dæla inn á samfélagsmiðla) „Áfram {hinn-eða-þessi}“, deila öllum sem kemur frá viðkomandi og gagnrýna hugsunarlaust allt sem kemur frá hinu liðinu.

Það kemur nefnilega stundum fyrir að báðir (allir) hafa haldið fram rangfærslum, rökleysum og boðið upp á ómálefnalegan málflutning.

Og það er í besta lagi að skoða hvert mál, hvert atriði, hverja fullyrðingu fyrir sig.

Eymd notuð til að ala á fordómum

Posted: febrúar 20, 2023 in Samfélag

Ég sé að nokkrir vina minna eru að deila færslu með mynd af einhverjum sem er í svefnpoka í strætóskýli og lýsir (eðlilega) áhyggjum af því að þannig sé komið fyrir einhverjum að þurfa að hýrast þarna.

Það sem truflar mig hins vegar er tilvísun í að fólk af öðrum uppruna, uppnefnt í viðkomandi færslu, hafi það gott hér á landi á meðan.

Nú veit ég svo sem ekkert hvaðan sá/sú sem var í strætóskýlinu kemur, hver saga viðkomandi er, hvaða úrræði hafa verið reynd til að aðstoða eða hvað hefur yfirleitt komið til – ég get ekki einu sinni verið viss um að þetta sé ekki sviðsett (þó það sé kannski ekki líklegt).

En ég get verið alveg viss um að það að taka vel á móti flóttafólki er ekki að koma í veg fyrir að allt sé reynt til að aðstoða fólk sem þarf að hjálp að halda, „landa“ okkar eins og sagt er í færslunni.

Orðljót barátta eða ekki

Posted: febrúar 16, 2023 in Samfélag

Það er svo sem ekkert leyndarmál að ég er ekki mikill stuðningsmaður stjórnar Eflingar.

Því ber ekki að rugla saman við að ég styðji ekki baráttu láglaunafólks, ég ber bara ekki mikla virðingu fyrir framgöngu eða hegðun forystu félagsins.

Í sjálfu sér getur komið fyrir besta fólk að missa sig í baráttu fyrir því sem það trúir á og hefur helgað sig.. Og ekki ætla ég að vera of viðkvæmur fyrir orðanotkun.

Það sem truflar mig við framgöngu forystumanna félagsins er að þetta virðist nú frekar skipulagt en hitt, rangfærslur, drullumall beint að einstaklingum sem hafa vogað sér að hafa sjálfstæða skoðun. Það er eins og það fari vel skipulögð samfélagsmiðla herferð reglulega af stað.

Og ekki hjálpar að í mörgum tilfellum virðist þetta vera til að breiða yfir rökleysur, málefnafátækt og rangfærslur.