Archive for the ‘Umræða’ Category

Að vera (ó)sammála báðum

Posted: febrúar 25, 2023 in Umræða

Þegar tveir eða fleiri aðilar deila, þá er ekki alltaf nauðsynlegt að ganga í lið með öðrum (einum) og láta eins og gamaldags fótboltaleikur sé í gangi á gamla Melavellinum. Hrópa (dæla inn á samfélagsmiðla) „Áfram {hinn-eða-þessi}“, deila öllum sem kemur frá viðkomandi og gagnrýna hugsunarlaust allt sem kemur frá hinu liðinu.

Það kemur nefnilega stundum fyrir að báðir (allir) hafa haldið fram rangfærslum, rökleysum og boðið upp á ómálefnalegan málflutning.

Og það er í besta lagi að skoða hvert mál, hvert atriði, hverja fullyrðingu fyrir sig.

Biskup og grundvöllur trúarinnar

Posted: janúar 6, 2023 in Trúarbrögð, Umræða
Efnisorð:

Mér er svo sem ekkert sérstaklega illa við núverandi biskup, held svona að þar sé ágætur og vel meinandi einstaklingur sem hefur tekið að sér vonlaust verkefni og ekki bætir úr skák (!) að farast einstaklega illa úr hendi að reyna.

Í nýlegu viðtali – sem byggir reyndar á núll-bendils villu, sem forritarar reka strax augun í – þá segir biskup að guð ekki misvitrir mennirnir ákveði að kirkjan verði áfram til með sínum söfnuðum.

Nú er ég ekki guðfræðingur, eiginlega langt frá því, en stangast þetta ekki alveg á við grunn hugmyndir kristninnar?

Ef guðinn ákveður þetta, hvers vegna er ekki allt mannkyn í kristnum söfnuði? Hvers vegna voru ekki kristnir söfnuðir löngu fyrir tíma krists? Og hvers vegna þurfti guðinn að koma sjálfur „til manna“, láta menn pína sig til eins að geta fyrirgefið þeim?

HM, RÚV og heimamenn – áskorun

Posted: nóvember 17, 2022 in Íþróttir, Umræða
Efnisorð:

Það er óneitanlega ömurlegt að fylgjast með hvernig HM í knattspyrnu karla fer fram þetta árið.

Margir ætla, kannski eðlilega, sleppa því að horfa á keppnina í sjónvarpi. Ég er ekki alveg að átta mig á því hvort það breytir miklu úr þessu, heimamenn eru væntanlega búnir að fá það sem þeir ætluðu sér.

En svona til að létta okkur áhorfið sem erum enn að hugsa um að horfa.. þá vil ég skora á RÚV að nefna ekki mótsstaðinn, hvorki borgir né land einu orði allt mótið og sleppa öllu kynningarefni frá mótshöldurum.

Það eru nokkrar spurningar sem þarf að spyrja í framhaldi af skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna sölu ríkisins á hlut í Íslandsbanka. Eflaust hefði mátt spyrja þessara spurninga fyrr en það breytir því ekki að það er nauðsynlegt að fá svör.

  1. Hvaða forsendur lágu að baki þeirri ákvörðun að vilja dreifa eignarhaldi? Eru þetta einhverjar kenningar studdar rannsóknum og/eða gögnum? Eða hreinlega hjávísindi, flökkusögur og/eða það sem var kallað „kerlinga“bækur þegar ég var yngri? – Þetta er í öllu falli örugglega ekki list.
  2. Ef markmiðið var að ná dreifðu eignarhaldi á kostnað hæsta verðs, hvernig var að skilgreint? Hversu margir þurftu að kaupa og hver var lágmarkshlutur þeirra?
  3. Og ef markmiðið var dreift eignarhald, ekki bara dreifð sala, hvers vegna voru ekki sett skilyrði um að ekki mætti selja innan ákveðins (frekar langs) tíma?
  4. Og hver voru skilyrðin fyrir að vera metinn hæfur fjárfestir. Eða réttara sagt (það virðist staðfest að engar skilgreiningar hafi legið fyrir) hvers vegna voru ekki skýrar skilgreiningar settar áður en farið var af stað? [nei, þetta er heldur ekki „list“].

Svo því sé haldið til haga þá er ég alls ekki á móti sölu ríkiseigna, en þó svo væri, þá kemur það þessum spurningum ekkert við.

Og það má vel vera að það hefði mátt spyrja fyrr, það má vel vera að stjórnarandstaðan hefði mátt gera athugasemdir – en það afsakar ekki þessi vinnubrögð og það svarar ekki þessum spurningum.

Því ef hluturinn var seldur á afslætti án gildrar ástæðu og án skilgreindra markmiða og án þess að skilgreina kaupendur.. þá er hefur ríkissjóður misst af talsverðum fjármunum.

… til Blika

Posted: október 28, 2022 in Íþróttir, Fótbolti, Umræða
Efnisorð:, ,

Mig langar rétt að nefna eitt atriði við Blika í kjölfar yfirburðasigurs á Íslandsmótinu í fótbolta karla. Og rétt að taka fram strax að ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að þetta verði í lagi.

Það er gott, alveg frábært, að vera stoltur af sínu liði og njóta þess að horfa á liðið spila frábæran fótbolta og ná árangri þannig.

En fyrir alla muni ekki byrja að gera lítið úr leikmönnum eða stuðningsmönnum annarra liða.

Takið frekar þjálfara síðustu Íslandsmeistara, og auðvitað þjálfara og leikmenn Blika til fyrirmyndar, berið virðingu fyrir andstæðingum og sleppið einhverjum hallærilegum skotum og tækifærum til að gera lítið úr árangri eða sögu andstæðinganna.

Ég veit að einhverjum þykir þetta “sniðugt” og finnst þetta hluti af leiknum, en þetta er auðvitað yfirgengilega hallærislegt – svona einhver arfur frá fótboltabullum, sem hafa verið áberandi í Evrópu – kannski er þetta á einhverju stigi sprottið af sömu rótum og einelti [þó ég ætli nú auðvitað ekki að fara að bera það saman].

Nýtt fyrirkomulag efstu deildar Íslandsmóts karla í fótbolta hefur heldur betur virkað illa á mig. Mér fannst þetta strax í fyrstu fráleitt og ekki hefur álitið aukist með reynslunni fyrsta árið.

Fyrir minn smekk eru það verðugir Íslandsmeistarar sem vinna keppni í efstu deild þar sem allir mæta öllum á jafnréttisgrunni, heima og heiman.

Stærsta vandamálið er að það er innbyggð ósanngirni í þessu fyrirkomulagi.

Það hjálpar ekki að þetta fyrirkomulag hefur bætt við ótölulegum fjölda fullkomlega tilgangslausra leikja – það var svo sem ekkert endilega fyrirséð, en mun líklegra en með betra og sanngjarnara fyrirkomulag.

Besta (eða auðvitað versta) dæmið um ósanngirni núna er að FH, sem var í efra fallsætinu, fékk heimaleik á móti Leikni sem var í síðasta örugga sæti.. lykilleikur um sæti í deildinni.

Að einhverju leyti snýst þessi breyting um að fjölda leikjum í efstu deild. En ég get ekki með nokkru móti séð hvers vegna það er eftirsóknarvert að fjölgun tilgangslausum leikjum þar sem hvorugt liðið hefur að nokkru að keppa.

Bæði handbolti og körfubolti fóru á sínum tíma þá leið að setja einhverja úrslitakeppni eftir venjulega deildakeppni – þar sem liðið sem lauk venjulegri deildakeppni í áttunda sæti gat orðið Íslandsmeistari. Jú, jú, það varð til lokakeppni með tilheyrandi “spennu”, en fljótlega þá varð sjálf deildakeppnin að (nánast) tilgangslausu æfinga- og/eða upphitunarmóti.

Ég veit að mörgum finnst „spennan“ mikils virði, en fyrir minn smekk, ef ég er að leita að spennu er einfaldara að fara í bíó.

Ég geri ekki lítið úr því að það er erfitt að hafa fyrirkomulag á Íslandsmóti án þess að margir „dauðir“ leikir komi í loka umferðunum – sérstaklega þegar sem mikill munur er á getu liðanna.

Ég er á því að eina leiðin til að fækka tilgangslausum leikjum sé að hafa færri lið í efstu deild, átta, tvö falla og vonandi heldur Ísland fjórum sætum í Evrópukeppnum – í boði Blika og Víkinga (og kannski KR) eftir slaka frammistöðu íslenskra liða nokkur ár þar á undan.

Við erum einfaldlega ekki nægilega mörg til að halda úti fleiri en átta (eða mögulega tíu) liðum á efsta stigi… að hafa tólf lið í efstu deild mörg þeirra þunnskipuð og reyna að bæta sér upp takmarkað úrval leikmanna með aðkeyptum (ég segi ekki meðaljónum, en) leikmönnum sem kosta sitt og bæta litlu við íslenska fótbolta.

Átta lið, fjórar umferðir, allir við alla, heima og heiman, tvö lið falla, fjögur fá sæti í Evrópukeppni.. ég hef ekki heyrt betri leið til að sem flestir leikir verði þannig að bæði lið hafi að einhverju að keppa. Og þetta fyrirkomulag skilar 28 umferðum.

Ég veit að þetta verður ekki vinsælt hjá liðum sem eru núna í neðri hluta deildarinnar, en ég er sannfærður um að til lengri tíma litið skilar þetta betri og sterkari liðum. Er það virkilega svo mikils virði að hanga í efstu deild með fámennan leikmannahóp, talsverðan kostnað af erlendum leikmönnum og vera í fallbaráttu ár eftir ár eða í einhverju jó-jó-i á milli deilda? Er ekki betra að fá tíma til að byggja upp og koma upp sterkum hópi uppalinna leikmanna?

Er kominn tími á Uber/Lyft/Bolt??

Posted: ágúst 23, 2022 in Umræða

Ég hef ekki verið neitt sérstaklega jákvæður á hugmyndir um að opna fyrir aðrar leigubílaþjónustur, kannski helst vegna þess að þjónustan hér heima hefur gjarnan verið mjög fín og umfjöllun um þessi fyrirtæki erlendis hafa nú ekki bent til að þetta sé eftirsóknarvert.

Á hinn bóginn hef ég stundum notað þessar þjónustur erlendis og ekki haft undan miklu að kvarta.

En síðustu misseri hefur verið erfitt, jafnvel nánast ómögulegt að fá leigubíl, meira að segja utan háannatíma.

Síðasta Menningarnótt var gott (eða vont) dæmi.

Við fórum í leigubílaröð í Aðalstræti, þar komu fáir bílar, fyrsta (tæpa) klukkutímann kom einn sem tók farþega úr röðinni, aðrir stoppuðu fyrr í götunni og tóku upp farþega sem voru á leiðinni í röðina.

Vinkona okkar hringdi og náði sambandi [er ekki alveg klár á við hvaða stöð] en henni var sagt að leigubílar mættu ekki keyra Aðalstrætið vegna þess að götur væru lokaðar og við þyrftum að fara upp að Landakoti. Þetta var auðvitað ekki rétt, því leigubílar, sem og aðrir voru að keyra þarna reglulega.

Gott og vel, við fórum upp að Landakoti, en þar var engan bíl að fá.

Við ákváðum að reyna strætó aftur, en enginn vagn kom.

Þá virtist lausum leigubílum vera að fjölga sem keyrðu fram hjá, við færðum okkur og mættum tveimur, en nú var allt í einu ekki stoppað fyrir farþegum úti á götu.

Við röltum aftur í leigubílaröðina í Aðalstræti og eftir einn og hálfan tíma fengum við bíl.

Daginn eftir heyrðum við það hefði verið gert ráð fyrir leigubílaröðum á öðrum stöðum, sem hefði nú verið vel þegið að fá að vita þegar vinkona okkar náði sambandi.

Það hjálpar ekki að svokallað ‘app’ hjá einni stöðinni er nánast fullkomlega gagnslaust.

Ég heyrði talsmann leigubílstjóra í viðtali á einhverri útvarpsstöðinni fyrir nokkrum vikum, hann viðurkenndi að ástandið væri ekki nógu gott, fann tillögum um úrbætur allt til foráttu en það var ekki nokkur leið að skilja hvað hann vildi að yrði gert í staðinn.

Ég veit að mörg þessara erlendu fyrirtækja hafa ekki gott orð á sér, en það ætti svo sem ekki að vera flókið að hafa skýrar reglur um réttindi og skyldur fyrirtækjanna sem tryggja rétt starfsmanna og farþega.

Vonandi ‘hysja’ núverandi aðilar upp um sig og koma þessu í lag. Nothæft ‘app’ þar sem hægt er að panta bíl, fá staðfestingu á pöntun, sjá hvar viðkomandi bíll er staddur með áætluðum komutíma, bílar í boði í takt við álag, leigubílaraðir skýrar [fyrir þá sem ekki vilja nota ‘app’] og bílstjórar sem fylgja röðinni. Og eitthvert gagn að upplýsingum þegar hringt er á stöð.

Vonandi bætir bráðnauðsynleg Borgarlína ástandið, en leigubílar þurfa væntanlega að vera valkostur áfram.

Það berast jákvæðar fréttir orðið reglulega úr stjórnmálunum vestanhafs, Bannon (vonandi) á leiðinni í fangelsi, skítseiðið Alex Jones að greiða háar skaðabætur [allt of lágar, en það var smá huggun að sjá gerpið svitna og tafsa þegar upp komst um lygarnar], Trump sætir rannsókn FBI (sem hann taldi eitt og sér nægja á sínum tíma þegar aðrir áttu í hlut) og mögulega gripinn glóðvolgur með trúnaðarskjöl heima hjá sér (sem hann fordæmdi nú fólk ranglega fyrir). Og neitar að svara spurningum fyrir rétti – og ekki hafði hann fögur orð um fólk sem greip til “fimmta” ákvæðisins.. Og svo er möguleg tilraun til kosningavika í Georgíu.

Ég ímynda mér að þetta sé upphafið að algjöru hruni á veldi þessara drullusokka sem hafa valdið ómældu tjóni á lífi hundruða þúsunda (ef ekki milljóna) eftir að hafa tuddast til valda með hallærislegri leiksýningu sem nægilega margir auðtrúa einfeldningar kokgleyptu – allt til þess eins að moka undir rassgatið á sjálfum sér – og koma vinum og stuðningsmönnum í lykilstöður í stofnana- og embættiskerfinu.

Ég er orðinn nægilega gamall og hef fylgst nægilega vel með fréttum gegnum tíðina til að geta mér til um að það sé stutt í hrunið. Um leið og það byrjar að kvarnast úr liðinu þá telur að vera með þeim fyrstu að koma sér út.. Það þarf ekki marga úr forystusveit flokksins til að aðrir taki á sprett með þeim. Þetta er þannig pakk að það hugsar eingöngu um eigin rassgat.

Líkingin um að rotturnar yfirgefi sökkvandi skip á vel við að hluta (þeas. rotturnar) en það er kannski full mikið í lagt að tala um skip, minnir kannski meira á framhlið á skipsmynd þar sem ekkert er á bakvið – svona sviðsetning í ódýrri B mynd.

Ég nenni svo sem ekki að ræða þetta sérstaklega, þetta kemur í ljós (nú eða ekki).

Gleði(ganga] í skugga bakslags

Posted: ágúst 6, 2022 in Umræða

Rétt þegar þróunin virtist á réttri leið, fordómar og fáfræði gagnvart fólk sem fellur ekki að stöðluðum hugmyndum var á stöðugu undanhaldi – þá kemur bakslag.

Mér er algjörlega hulið hvers vegna þetta gerist.

Hvernig fáfræðin og mannfyrirlitningin sem virðist hafa kraumað undir í hugarfylgsnum einhverra einfeldninga sem geta ekki mögulega skilið að þeirra eigin heimsmynd er einfaldlega bara þeirra eigin heimsmynd… heldur er einhver óskiljanleg þörf fyrir að troða henni upp á alla aðra. Með valdi ef annað dugar ekki.

Hvað með “ég skil ekki, en þetta breytir engu fyrir mig og mér kemur þetta ekkert við”?

Það er eins og hugmyndafræði fólks sem temur sér fáfræði og afskipti af högum annarra hafi fengið byr undir vængi í einhverri hallærislegri liðsskipan, fólk sem getur ekki haft sjálfstæða skoðun virðist hafa þörf fyrir að tilheyra einhverju liði og vera með liðinu “sínu” í einu og öllu.

Það er auðvitað ákveðin einföldun að kenna fyrrverandi forseta vestanhafs einum um en stuðningsmenn hans hafa klárlega verið áberandi og kynnt undir hatur og fáfræði.

Það eru auðvitað engin einföld svör en ég hallast að því að skársta leiðin sé að vera sýnileg og halda áfram að upplýsa og fræða.

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti hressilega, að sögn til að reyna að hægja á verðbólgu.

Ég hef aldrei almennilega skilið þessa aðferðafræði – enda ekki hagfræðingur – en mér skilst að þetta sé nú engan vegin óumdeild aðferð. Hugmyndin er að það sé dýrara að taka lán og það dragi þannig úr lántökum. En jafnvel þó þetta virki erlendis, með stöðugum gjaldmiðlum (sem virðist vera allur gangur á), þá er Íslendingurinn sem hætti við að taka lán vegna þess að stýrivextir hækkuðu einhvers staðar með jólasveininum og páskahéranum.

Ef eitthvað er hægt að treysta á lögmál um framboð og eftirspurn þá er jú ein leiðin sú að draga úr eftirspurn eftir lánum. En væri ekki alveg eins líklegt til árangurs að snarlækka stýrivexti og draga þannig úr framboði á lánum? Kannski væru peningar sem annars væru lánaðir í kaup á „þarflausu glingri“ notaðir í fjárfestingar og atvinnuuppbyggingu. Líkast til myndi húsnæðisverð lækka, sem og afborganir af lánum lækka? Og jafnvel verðbólgan?

Ég geri mér grein fyrir að þetta er væntanlega „vankunnáttuhagfræði“ hjá mér og ég á ekkert sérstaklega von á að fá Nóbelsverðlaunin í hagfræði. en samt, er eitthvað tregur þegar kemur að því að sjá hvers vegna þetta gæti ekki mögulega virkað.. [sem er kannski ekkert nýtt].