Sarpur fyrir desember, 2018

Veggjöld, vond hugmynd

Posted: desember 19, 2018 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Ég skal játa að mér fannst hugmyndin um veggjöld ekki alslæm þegar ég heyrði af henni fyrst. Enda gerði ég ráð fyrir að skattar á eldsneyti yrðu lækkaðir á móti, tryggt yrði að tekjur af þeim rynnu beint í vegakerfið og kostnaður við framkvæmd innheimtunnar yrði ekki úr öllu hófi.

Nú virðist ljóst að ekki standi til að lækka skatta á móti, engin leið er að tryggja að tekjurnar fari í vegakerfið og ekkert er vitað um kostnað við innheimtu.

Þetta er að sjálfsögðu nægilegt til að ég er algjörlega mótfallinn hugmyndinni. Enda er það eðli málsins samkvæmt að margar tegundir að innheimtu kalla á meiri rekstur við innheimtuna.

En svo fór ég að hugsa betur.

Hugmyndin er í rauninni alltaf vond.

Það er alltaf aukinn kostnaður við innheimtuna, jafnvel þó hann verði innan skynsamlegra marka, þá er þetta alltaf sóun.

En aðallega þá er ég ekki sáttur við þessa hugmynd.

Samgöngur eru ekki lúxus þeirra sem nota samgöngukerfið. Góða samgöngur nýtast öllum til lengdar og kostnaðurinn við slæmt samgöngukerfi bitnar á öllum.

Jafnvel þó einhverjum finnist réttlæti í því að mikil notkun vegakerfisins kalli á enn hærri gjöld en felast í himinháum gjöldum á eldsneyti, þá get ég ekki séð að hugmyndin gangi upp, amk. ekki eins og verið er að ræða framkvæmd.

Eða hver eru rökin fyrir því að sá ökumaður sem keyrir oft inn og út af höfuðborgarsvæðinu eigi að borga meira fyrir vegakerfið en sá sem keyrir tvöfalt meira innan höfuðborgarsvæðisins?

Og hver eru rökin fyrir því að sá sem keyrir inn og út af höfuðborgarsvæðinu tvisvar á dag eigi að borga meira fyrir vegakerfið en sá kemur utan af landi tvisvar í viku.

Og hver eru rökin fyrir að þessir ökumenn eigi til dæmis öðrum fremur að standa undir jarðgöngum í öðrum landshlutum?

Það eru auðvitað til leiðir til að leggja gjöld hlutfallslega rétt á þá sem nota vegakerfið meira en aðrir. En mér dettur eiginlega ekki í hug að skýra þær, mér finnst þetta engan veginn sanngjarnt. Og mig grunar að skattheimtuhrammur ríkisstjórnarinnar bæti þeim einfaldlega við aðrar hugmyndir.

 

Lögleiðing eða ekki

Posted: desember 14, 2018 in Umræða
Efnisorð:

Ég virka kannski mótsagnakenndur þegar ég segist vera á móti neyslu kannabisefna en vilji samt lögleiða þau.

En þetta er auðvitað engin mótsögn.

Ég hef aldrei neitt slíkra efna, fór meira að segja í gegnum nokkurra ára feril í hljómsveit þegar ég var yngri (og er auðvitað enn), þar sem þetta þótti nú enn eitt merkið um að ég væri hálfgert viðrini.

En neysla kannabisefna er sannanlega heilsuspillandi og ég hef séð marga fara ansi illa á neyslu þessara efna. Þá eru niðurstöður rannsókna nokkuð afgerandi. Ég þekki svo auðvitað á hinn bóginn fullt af fólki sem hefur prófað þetta (mis mikið) án þess að hljóta varanlegan skaða af.

En alveg eins og með áfengi, þá er mikilvægt að halda úti fræðslu og forvörnum og hafa allar upplýsingar aðgengilegar.

En valið er alltaf einstaklingsins. Þess vegna vil ég ekki að neysla þessara efna sé bönnuð með lögum.

Þá eru einstaklingar sem geta nýtt sér þessi efni í lækningaskyni, þar sem ávinningurinn virðist vera meiri en áhættan. Aftur… þetta á að vera val hvers og eins.

Eitt geðvonsku innlegg samt..

Það fer óstjórnlega í taugarnar á mér þegar stuðningsmenn þess að leyfa efnin eru að hamast á samanburðinum við áfengi.

Flestir, eða amk. mjög margir, neyta áfengis bragðins vegna, miklu frekar en vegna áhrifanna. Ég myndi sennilega drekka talsvert meira ef ekki væri fyrir áhrifin.

Ég þekki engan sem neytir kannabis efna í öðrum tilgangi en að komast í vímu, ég hef amk. aldrei heyrt nokkurn dásama bragðið.

Þannig að, fyrir alla muni, hættið þessu rugli, það veikir málstaðinn!

 

Langt heiti á lítilmenni

Posted: desember 13, 2018 in Stjórnmál, Umræða

Ég skal játa að mér vefjast oft fingur um lyklaborð við að velja viðeigandi lýsingarorð fyrir æðsta stjórnanda Bandaríkjanna.

Ég hef stundum notað orðið „trúður“, vegna galgopalegra yfirlýsinga um hluti sem hann veit klárlega ekkert um, sýndarmennsku, innistæðulausrar sjálfumgleði og yfirgengilegrar fáfræði – að ógleymdri hegðun sem gjarnan minnir á ofdekrað þriggja ára barn í frekjukasti.

En „trúður“ er auðvitað engan veginn nákvæmt, það er allt of vingjarnlegt og nær engan veginn yfir alla þá fjölbreyttu eiginleika sem birtast okkur reglulega.

Úrþvætti, skítseiði, fábjáni, fáráðlingur, siðblindur, loddari, drullusokkur, raðlygari, sauðheimskur, svikari, falsari, rasisti, afglapi, auli, aðhlátursefni, fáráðlingur, viðrini… allt þetta á auðvitað miklu betur við – og ég er væntanlega að gleyma einhverju.

Íslenskan á ekki eitt orð yfir þessi stjarnfræðilega samsettu ósköp sem sameinast í þessu fyrirbæri, ekki frekar en önnur tungumál.

En íslenskan á kannski eitt vopn fram yfir önnur tungumál, samsett orð.

Er ekki við hæfi að nota úrþvættisskítseiðisfábjánafáráðlingssiðblinduloddaradrullusokksraðlygarasauðheimskusvikarafalsararasistaafglapaaulaaðhlátursefnisfáráðlingsviðrini?

Æi, trúður datt út. Jæja.

Varahlutir og vefverslun

Posted: desember 12, 2018 in Umræða

Við keyptum nokkuð góðan ísskáp þegar við tókum eldhúsið í gegn fyrir nokkuð mörgum árum. Við völdum, að við héldum, öruggt vörumerki og keyptum stóran ísskáp.

Hann hefur svo sem ekki verið alslæmur en skelfilega kauðaleg hönnun á vatnsinntaki fyrir klakavél og vatn hefur kostað óteljandi leka og bilanir.

Og þegar við höfum þurft varahluti fyrir plastdótið sem brotnar auðveldlega þá þurfum við að hugsa í ansi mörgum mánuðum.

Nú vantaði mig eina hillu, hringdi í söluaðila og hann sagðist reyndar ekki eiga þessa hillu á lager, en hún gæti örugglega verið komin fyrir jól, bætti hann við. Þetta fannst mér ansi seint og þetta fannst mér slök þjónusta eða þar til hann bætti við að hann væri reyndar ekki að tala um þessi jól.

Hann afsakaði sig með að eitthvert fyrirtæki úti hefði keypt einhvern hlut af einhverju öðru fyrirtæki – eins og mér væri ekki slétt sama. Enda heldur sú skýring ekki beinlínis, því síðast þegar okkur vantaði varahlut fyrir sama ísskáp þá tók það um ár – og var þó fyrir nokkru síðan.

Ég reyndi að fá smá samúð með því að benda á að þetta væri aðal bjór hillan hjá okkur. Hann svaraði því til að sumir geymdu grænmetið sitt þarna. Nú veit ég ekki hvort hann var að leggja mér til hráefni í „pub-quiz“ ef ég fengi óvænt spurninguna „hvar í ísskápnum geymir fólk grænmetið sitt sem ekki vill nota grænmetisskúffurnar?“ Eða hvort hann hafði sterkan grun um að við drekkum of mikinn bjór og ættum að snúa okkur að grænmeti. Hefði ég verið að hringja og leita ráða við mikilli bjórdrykkja hefði ég væntanlega þakkað fyrir og lagt á. En mig vantaði hillu. Tæpar fimmtán þúsund og engar upplýsingar fáanlegar um hvenær hún gæti verið komin.

Mér varð hugsað til Google og fann viðkomandi hillu vandræðalaust, $60 kostaði hún fyrir utan sendingarkostnað og gjöld.

Þetta tók þrjár vikur, fór rétt yfir fimmtán þúsund með öllum gjöldum, en kom fljótt.

Kannski þurfum við að kaupa annan ísskáp fyrir bjórinn. En hann verður örugglega ekki frá þessu fyrirtæki.

En það þýðir ekkert fyrir íslensk fyrirtæki að kvarta yfir að fólk panti vörur beint ef þjónustan er ekki betri en þetta.

Vandamálið fyrir vestan

Posted: desember 12, 2018 in Umræða

er í rauninni ekki að landinu er stjórnað af ofdekruðum, ómenntuðum, sjálfhverfum, ofvöxnum, sjálfhverfum krakka sem er að dunda sér við að eyða auði fjölskyldunnar.

Vandamálið er auðvitað að það er fólk sem bókstaflega trúir á hann. Þá á ég við í merkingu trúarbragðanna. Ég rökstyð þetta með því að það er ekkert sem gaurinn getur gert eða sagt, eða hefur gert eða sagt, sem getur fengið fólk til að skipta um skoðun. Hann er ýmist afsakaður með að þetta sé nú ekki svo slæmt (þó andstæðingar hans hafi verið útmálaðir óverjandi og óalandi fyrir sömu sakir), þetta séu falsfréttir (þó staðfestar séu og komi jafnvel beint af hans eigin tísti) og ef annað dugar ekki til, andstæðingarnir eru bara ekkert betri… og allt leyfilegt þegar kemur að því að ljúga upp á þá.

Það er alveg sama þó upp komist um að hann hafi logið, svikið, svindlað, skipað fyrir um dráp á fólki, niðurlægt konur, sé rasisti, taki réttindi af samkynhneigðum og transfólki.

Það er alveg sama þó komi í ljós að hann hafi ekki lágmarksþekkingu á viðskiptum, vísindum, landafræði, stjórnmálum, milliríkjaviðskiptum, stjórnkerfi, hlutverki dómstóla, geti ekki munað í 2 mínútur í hvaða bæ hann er staddur, ljúgi upp á aðra þjóðarleiðtoga, hvetji til ofbeldis, verji morðingja og verji þá sem fremja hatursglæpi.

Fólk kemur til með að styðja hann áfram. Í höfuðlausri heimskunni.

Hvernig get ég fullyrt?

Jú, allt þetta er þegar staðfest… og gaurinn hefur stuðning fólks.

ég hef stundum sett niður nokkrar hugleiðingar um þennan ræfil sem komst til valda fyrir vestan, án þess að birta, en kannski er rétt að hafa þetta í huga, við virðumst stöðugt vera að færast nær siðblindu í stjórnmálum, þannig að ég ætla að láta nokkrar athugasemdir detta inn næstu daga

„Kópavogsbúi“ ei meir

Posted: desember 1, 2018 in Umræða

Ég ólst upp í Kópavogi, þrátt fyrir að fæðast í Reykjavík – enda engin fæðingardeild í Kópavoginum – bjó þar til ég var 24 ára.

Síðustu 35 árin hef ég svo búið í Reykjavík, en alltaf talið mig Kópavogsbúa… Breiðablik mitt félag og og einhvern veginn litið á að þetta væri minn bær.

En þetta er auðvitað óþarfa rómantík fram eftir aldri.

Í öllu falli þá er kominn tími til að segja þetta gott, látum vera hvaða dropi fyllti mælinn, en ég er sem sagt Reykvíkingur ef einhver spyr.