Ég virka kannski mótsagnakenndur þegar ég segist vera á móti neyslu kannabisefna en vilji samt lögleiða þau.
En þetta er auðvitað engin mótsögn.
Ég hef aldrei neitt slíkra efna, fór meira að segja í gegnum nokkurra ára feril í hljómsveit þegar ég var yngri (og er auðvitað enn), þar sem þetta þótti nú enn eitt merkið um að ég væri hálfgert viðrini.
En neysla kannabisefna er sannanlega heilsuspillandi og ég hef séð marga fara ansi illa á neyslu þessara efna. Þá eru niðurstöður rannsókna nokkuð afgerandi. Ég þekki svo auðvitað á hinn bóginn fullt af fólki sem hefur prófað þetta (mis mikið) án þess að hljóta varanlegan skaða af.
En alveg eins og með áfengi, þá er mikilvægt að halda úti fræðslu og forvörnum og hafa allar upplýsingar aðgengilegar.
En valið er alltaf einstaklingsins. Þess vegna vil ég ekki að neysla þessara efna sé bönnuð með lögum.
Þá eru einstaklingar sem geta nýtt sér þessi efni í lækningaskyni, þar sem ávinningurinn virðist vera meiri en áhættan. Aftur… þetta á að vera val hvers og eins.
Eitt geðvonsku innlegg samt..
Það fer óstjórnlega í taugarnar á mér þegar stuðningsmenn þess að leyfa efnin eru að hamast á samanburðinum við áfengi.
Flestir, eða amk. mjög margir, neyta áfengis bragðins vegna, miklu frekar en vegna áhrifanna. Ég myndi sennilega drekka talsvert meira ef ekki væri fyrir áhrifin.
Ég þekki engan sem neytir kannabis efna í öðrum tilgangi en að komast í vímu, ég hef amk. aldrei heyrt nokkurn dásama bragðið.
Þannig að, fyrir alla muni, hættið þessu rugli, það veikir málstaðinn!