Sarpur fyrir nóvember, 2012

Kukl á ríkisspenann?

Posted: nóvember 29, 2012 in Umræða
Efnisorð:,

Nú liggur fyrir Alþingi tillaga um að kuklarar fái starfsemi sína niðurgreidda eins og um heilbrigðisþjónustu sé að ræða.

Ég óttast að þetta sé ekki svefngalsa brandari hjá þingmönnum heldur sé þarna verið að tala í fullri alvöru.

Nú geri ég mér grein fyrir að ríkið styður myndarlega starfsemi sem byggir á hindurvitnum og fyrirbærum sem engin leið er að sýna fram á – en þar eru notuð (vond) söguleg rök. Og líkast til líður ekki á löngu áður en það verður lagt af.

En að ríkið fari að styðja kukl er með ólíkindum.

Hvernig dettur fólki í hug að láta ómenntað fólk sem hvergi hefur sýnt fram á að aðferðir þess virki fara að stunda „lækningar“ á kostnað ríkisins?

Þetta er jafn galið og að fela ómenntuðu fólki að byggja mannvirki, stjórna samgöngutækjum eða sinna hvers konar annarri starfsemi án þess að hafa sýnt fram á nokkra færni eða árangur.

Ætli þetta fólk þori að fara upp í flugvél með einhverjum sem hefur aldrei tekið flugmannspróf en hefur lesið sér til um góðar reynslusögur af flugi?

Skyldu þau þora að fara yfir brú sem hefur verið byggð af fólki með reynslusögur?

Þetta er ekki bara heimskulegt. Þetta er lífshættulegt. Um leið og ríkissjóður fer að gefa svona vinnu „gæðastimpil“ er hætta á að fleiri hafni alvöru lækningum og leiti til kuklara.

En á hinn bóginn, kannski er þetta bara þróunarkenningin í verki…

Tveggja þjónn – eða engra

Posted: nóvember 18, 2012 in Uncategorized

Við fórum í leikhús í gær með „matarklúbbnum“, GoutonVoir, á sýninguna „Tveggja þjónn“ í Þjóðleikhúsinu.

Ætli sýningunni hafi ekki best verið lýst með því sem vinur minn sagði strax forviða í hléi, „þetta er bara drasl!“. Nú höfum við verið þokkalega dugleg að sækja leikhúsin síðustu ár – höfum séð margt gott og margt ekki svo gott – og margt í meðallagi.

En þetta er það langversta sem við höfum séð. Í alvöru. Ég vil ekki vera leiðinlegur, en líkast til er ég það. Ég bara get ekki þagað.. en þetta var samdóma álit allra í hópnum.

Sko… ég get alveg þolað fimmaurabrandara, skræpótta búninga og æpandi leikmynd, yfirdrifni leikhústalandinn er kannski á mörkunum en „slapstick“ húmor getur verið allt í lagi.

En það var ekki neitt fyndið við sýninguna. Það náði aldrei einu sinni fimm aura brandara. Ég reyndi að dotta þegar á leið, en alltaf voru 2-3 gestir að skríkja af hlátri.

Og vinahjón okkur fóru á „Bastarða“ kvöldið áður.

PS. Hvers vegna þýða menn aldrei nöfn þegar verið er að þýða leikritstexta, svona ofan á allt annað er alveg auka kjánahrollur þegar leikarar tala í löngum máli á íslensku um „Charlie“ og …

Kyndill eða svindl

Posted: nóvember 17, 2012 in Umræða
Efnisorð:, , ,

Ég gerði að umtalsefni viðtal við talsmann opins hugbúnaðar í Silfri Egils nýlega. Meðal þess  sem ég gagnrýndi, reyndar bara í athugasemdum, var þegar hann kallaði Kindle frá Amazon, „Swindle“, án þess að skýra mál nokkuð frekar.

Ég var sem sagt að gagnrýna það að vera að uppnefna fyrirbæri án nokkurra skýringa. Ekki að hafa skoðun á því hvort Kindle væri svindl fyrirbæri eða ekki.

Ég fékk auðvitað margar athugasemdir, sem allar sneru að því að sannfæra mig um að þetta væri svindl, en enginn nefndi tilefni athugasemdarinnar, þeas. að maðurinn hefði verið að slá um sig með uppnefnum án rökstuðnings.

Þetta tvennt fer kannski mest í taugarnar á mér við almenna umræðu. Það virðist allt í lagi að uppnefna án þess að tilgreina hvers vegna.

Og þegar ég gagnrýni þá hegðun þá eru einu svörin sem ég fæ útskýringar á því hvernig uppnefnið er tilkomið. Enginn ræddi hvort þetta væri boðlegt, þeas. að standa í svona uppnefnum án skýringa.

En gott og vel. Veltum aðeins fyrir okkur hvort Kindle, eða Kyndill, frá Amazon er svindl eða ekki.

Gagnrýnin gengur út á að neytandinn sé ekki að kaupa bækur heldur réttinn til að lesa þær. Amazon geti dregið þær fyrirvaralaust til baka án endurgreiðslu. Nefnt var dæmi um eina bók (1984) og eina konu sem hafði misst allt sitt af kyndlinum.

Konan fékk reyndar leiðréttingu sinna mála og „1984“ (og reyndar „Animal Farm“ líka) voru teknar til baka eftir að í ljós kom að sá sem hafði selt réttinn til Amazon átti engan rétt til að selja. Amazon hefur reyndar gert breytingar í kjölfar gagnrýninnar og ákveðið að taka ekki bækur til baka þrátt fyrir svona mistök.

En hvert er þá svindlið? Að ég sé ekki að kaupa bækur heldur réttinn til að lesa? Það er rétt en ég veit þetta fullvel þannig að það er ekki á nokkurn hátt verið að svindla á mér. Að ég geti ekki lánað kyndilbækur eins og aðrar bækur er skondin röksemd. Fyrir það fyrsta þá er skýrt tekið fram í öllum, (jæja flestum) bókum að þær megi ekki lána. Það fer vissulega enginn eftir þessu, en það er ekki eins og verið sé að taka einhvern „rétt“ af fólki. Þá er hægt að lána og fá lánaðar bækur milli kyndil notenda. Og það er líka hægt að fá aðgang að bókasafni Amazon fyrir til þess að gera lágt mánaðargjald og fá bækur lánaðar án endurgjalds. Þá eru yfir 40.000 bækur ókeypis fyrir hvern sem er. Og svo má alltaf lána kyndilinn sjálfan (en þá fer jú allt safnið í einu).

Eftir stendur að Amazon getur jú mögulega dregið allar bækur til baka. En líkurnar eru í besta falli stjarnfræðilega litlar. Hvers vegna ættu þeir að drepa þessa gullgæs með svona tilgangslausri hegðun? Hver gæti tilgangurinn mögulega verið?

Og já, ekki gleyma, þetta svokallað svindlfyrirtæki leyfir mér líka að lesa það sem ég kaupi í símanum mínum. Og geyma afrit á tölvunni minni. Ljóta „svindlið“, er það ekki??

Þegar eintak af kyndli skilaði sér ekki til mín þá sendi Amazon mér nýtt eintak umhugsunarlaust. Þegar ég settist á kyndilinn minn – já þeir eru brothættari en bækur – þá var mér boðinn nýr á góðum afslætti. Það er ekki að „svindl“ fyrirtækinu að spyrja, eða hvað??

En gott og vel, þetta getur haft sína ókosti.

En þetta hefur marga kosti, miklu meira úrval af bókum, mikið frítt efni, mikið af ódýru efni, efnið skilar sér strax, hægt er að lána (sumar) bækur og þú getur lesið á hvaða tæki sem er. Og það er miklu auðveldara að flytja!

Ég kaupi enn „eigulegri“ bækur á föstu formi, kannski íhaldssemi.

En aðalatriðið er að þetta er valkostur. Neytandi veit fullkomlega að hverju hann gengur. Þess vegna er fráleitt að kalla þetta svindl. Einfaldlega ómerkileg upphlaup.

Stuðningur við Skúla Helgason

Posted: nóvember 16, 2012 in Umræða

Ég vil lýsa yfir stuðningi við Skúla Helgason í prófkjöri Samfylkingarinnar.

Og jú, það er best að taka fram strax að ég þekki Skúla persónulega, en það er auðvitað kostur að þekkja fólk að góðu – og vita hverjum er treystandi.

Það er nefnilega mikilvægt að hafa þingmenn sem hafa framtíðarsýn, hvort sem við erum að tala um menntun, hagkerfið, mannréttindi, landbúnaðinn og uppbyggingu atvinnulífsins.

Það er líka lykilatriði að hafa menn sem þora að hafa skoðanir og gera grein fyrir því hvers vegna þeir hafa komist að ákveðinni niðurstöðu. Nú er það ekki þannig að ég sé sammála Skúla í einu og öllu – fyrr mætti nú vera, ég er ekki alltaf sammála neinum að öllu leyti, ekki einu sinni sjálfum mér. Það sem skiptir mál er að fá skýra afstöðu, forsendur fyrir henni og að geta tekið rökum. En oftast erum við á sömu nótum, svo það sé á hreinu.

Þá má auðvitað ekki gleyma sameiginlegum áhuga okkar á tónlist – og gaman að sjá frumvarp um stuðning við íslenska tónlist. Þessi leið er miklu nærtækari en ríkisrekstur, þeas. ég er lítið hrifinn af því að ríkið sé að vasast í rekstri sem einstaklingar geta sinnt. En þegar hægt er að sýna fram á að stuðningur við ákveðna grein skili miklu til samfélagins, hvort sem það er tónlist, kvikmyndir eða annað, þá er mikilvægt að finna leið til að styðja við verkefni. Ekki ríkisrekstur.

Bullið um verðtrygginguna

Posted: nóvember 14, 2012 in Umræða, Verðtrygging, Vextir

Það er eiginlega með ólíkindum að fylgjast með þessari umræðu um verðtrygginguna.

Það er auðvitað ekkert að hugmyndinni um verðtryggingu, hún segir einfaldlega til um að lán eigi að greiða til baka í jafn verðmætum krónum og það er tekið.

Vísitalan er það tæki sem er notað til að mæla verðtrygginguna. Þar er margt athugavert við núverandi fyrirkomulag. Það er engan veginn rökrétt að húsnæðislán hækki með hækkandi verði á neysluvörum. Það er miklu nærtækara að miða við launavísitölu eða þess vegna húsnæðisverð. En við skulum þá heldur ekki gleyma því að lengi vel græddu neytendur á þessu, lánskjaravísitalan hækkaði minna en launavísitala, að ég tali nú ekki um húsnæðisverð.

Betri vísitala við að reikna verðtryggingu er miklu meiri kjarabót, miklu sanngjarnari og það sem meira er, hún gengur ekki þvert og tilviljanakennt á rétt lánveitenda.

En stærsta vandamálið við húsnæðislánin eru allt of háir vextir. Lækkun vaxta er það sem skipti neytendur langmestu máli, er líka sanngjarnt gagnvart lántakendum og í takt við það sem gerist í nágrannalöndum.

Tökum dæmi af 25m húsnæðisláni sem tekið er 2006 til 25 ára.

  • Í dag væri staðan líklega sú að neytandi væri búinn að greiða 18,3m af láninu.
  • Ef notaðir hefðu verið óverðtryggðir vextir væri hann búinn að greiða 21,1m af sama láni.
  • Ef vextir hefðu verið lægri, segjum 1,5%, þá væri viðkomandi búinn að greiða 8,7m af þessu láni. Verðtryggðu. Með neysluvísitölu.

[ég ligg reyndar veikur heima, en kannski er rétt að birta fleiri dæmi þegar heilsan leyfir]

Þriðja atriðið er svo að bjóða lækkun greiðslubyrði með því að lengja lánstímann. Hentar ekki öllum en ætti að vera möguleiki.

En aftur að verðtryggingunni. Ég veit að fólk meinar vel, amk. í flestum tilfellum. Og svo er þetta er einföld leið til að ná athygli. Það er einhvern veginn rosalega fréttnæmt dag eftir dag ef einhver lýsir frati á verðtrygginguna. Stjórnmálaflokkar og prófkjörsframbjóðendur keppast um að nota stærri og stærri lýsingarorð gegn verðtryggingunni.

Einhverjir sjá kannski auðsóttan skyndigróða í hyllingum.

Kannski er ástæðan þess að verðtryggingin er svona vinsæll skotspónn að þetta er ekki mikið notað í öðrum löndum. En þar þjóna breytilegir vextir sama hlutverki, og eru í raun minna gagnsæir, þeas. ekki er ljóst hvernig þeir eru ákveðnir.

En smá ósk til frambjóðenda og fréttamanna. Ef þið virkilega viljið bæta kjör neytenda, hafið að minnsta kosti fyrir því að kynna ykkur hvernig þetta virkar og hvaða aðferðir nýtast best.

Stallman í Silfrinu

Posted: nóvember 12, 2012 in Spjall, Umræða

Ég var að horfa á viðtal við Richard Stallman í Silfri-Egils. Nú þykist ég vita hver maðurinn er og hafi lesið eitthvað eftir hann – en það má svo sem vera að mig sé að misminna hver sagði hvað.

En ég varð óneitanlega fyrir miklu vonbrigðum með Stallman. Hugmyndir hans og fleiri hafa haft sín áhrif, og í mörgum tilfellum til góðs.

En fyrir það fyrsta ruglaði hann saman opnum og frjálsum hugbúnaði, sem þarf ekki að vera sami hluturinn.

Þá talaði hann ítrekað eins og það að ef ég hefði ekki aðgang að virkni hugbúnaðar þá stjórnaði hann mér en ég ekki honum. Klisjukennt tal og ekki boðlegt. Ég hef aldrei upplifað það að þau verkfæri sem ég nota stjórni mér að neinu leyti þó ég borgi fyrir að nota þau.

Annað er kannski nokkur skonar sjálfhverfa, hann hefur áhuga og skoðanir á því hvernig hugbúnaður á að virka – og getur breytt honum að eigin þörfum. Það er einfaldlega fullt af fólki sem er mjög sátt við að fá hugbúnað „úr hillunni“ og nákvæmlega engan áhuga á að setja sig inn í forritun eða hvernig hann virkar.

Þá má ekki gleyma því að þó opinn hugbúnaður sé að mörgu leyti skemmtileg aðferð – og hentar mörgum verkefnum – þá er þetta engan veginn algilt. Kannski kemur þessu hugsun úr stofnana og háskólasamfélaginu þar sem einhver annar borgar launin. En það að skrifa hugbúnað og fá ekkert fyrir sinn snúð verður auðvitað til þess að það er betra að gera eitthvað annað. Enda er ég nokkuð viss um að heimurinn væri talsvert fátækari af hugbúnaði ef aðeins væri notast við frjálsan og/eða opinn hugbúnað.

Þá fór hann að tala um að það mætti ekki afrita listaverk, svona hálfri mínútu eftir að hann var að skammast yfir að fólk mætti ekki dreifa tónlist að eigin vild.

Nú er ég á því að það vanti betri reglur og lög um höfundarrétt, en það er engin lausn að krefjast þess að allt sé frítt til dreifingar.

Að hlusta á vel málaðan vegg

Posted: nóvember 8, 2012 in Tónlist

Ég hef aðeins verið að hugsa… um íslenska tónlist. Sem ég hef bæði nokkuð mikinn áhuga á – sem og auðvitað, tónlist yfirleitt.

Sennilega þarf ég ekki að taka fram að tónlistarsmekkurinn minn er mjög sérstakur. Ég er nánast alltaf á hvolfi miðað við aðra.

Eitt  hefur verið sláandi síðustu árin, hversu mikið úrval af íslenskri tónlist er í boði og hversu vel og fagmannlega þetta er gert.

Það er eiginlega komin ný kynslóð af mjög öflugum „krökkum“ / „unglingum“ / „yngra fólki“ / „ekki svo rosalega gömlum“ í tónlistarheiminum.

Það vantar ekkert upp hversu vel þau eru að sér í tónfræðinni, ólíkum töktum, erfiðum taktskiptum, vel samæfð, flottar raddir og kunna svo sannarlega að fara með þetta.

En mér finnst samt eitthvað vanta.

Oftar en ekki er efnið frekar „gleymanlegt“ og hvorki snertir né hrífur. Ég fæ sjaldnar og sjaldnar þessa tilfinningu, „af hverju datt mér þetta ekki í hug?“ og „rosalega vildi ég að ég hefði samið þetta lag“.

Ef ég má ýkja aðeins, þá er þetta eins og að horfa á vel málaðan vegg í hlutlausum hvítleitum lit. Frekar en málverk.

Ég er ekkert (frekar) að tala um kraftmikið rokk eða ögrandi texta. Bara eitthvað sem hefur „karakter“.

Og, jú, jú, auðvitað eru undantekningar…