Posts Tagged ‘Alþingi’

Það var kannski ekki auðvelt að átta sig á orðum forsætisráðherra á Alþingi, enda kominn í vonda stöðu og svörin kannski fyrst og fremst hugsuð til að drepa umræðunni á dreif.

En.. ef ég skildi rétt (sem þarf ekki að vera) þá var siðferði og siðareglur eitthvað sem þingmenn ættu að ræða sín á milli og komast að samkomulagi um – en það var samt óviðeigandi að ræað þetta í þinginu!

Og svo mátti skilja sem svo að allt væri siðferðilega í lagi ef kjósendur greiddu viðkomandi einstaklingi atkvæði í næstu kosningum, það væri í rauninni eina viðmiðunin. Burtséð frá því að kjósendur þurfa nú oftast að taka tillit til margra mála, vega og meta, út frá sínu gullfiskaminni í mörgum tilfellum – þá er þetta samt þannig að það er engin þörf á siðareglum.. bara kosningum eftir nokkur ár.

Hitt er svo líka skondin mótsögn.. að eftir að hafa orðið uppvís að því að leyna mikilvægum upplýsingum um eigið siðferði fyrir kjósendum rétt fyrir kosningar – þá er ansi holur hljómur í tali um að leggja siðferði í dóm kjósenda.

Guðlast

Posted: júlí 2, 2015 in Umræða
Efnisorð:,

Mig langaði að skrifa færslu til að fagna því að guðlastlögin hafa verið afnumin. En þetta er svo augljóst og sjálfsagt mál og löngu útrætt að ég hef í rauninni ekkert um það að segja.

Svo datt mér í hug að fárast yfir þeim þingmönnum sem mölduðu í móinn – sem sumir hverjir hafa nú stundum verið með þeim skynsamari. En það er eiginlega óþarfi enda gef ég mér að þeir hafi áttað sig á endanum – og langar satt að segja ekkert til að vita hafi svo ekki verið.

Kannski má hrósa þeim sem tóku af skarið og lögðu frumvarpið fram, en ég er auðvitað löngu búinn að því.

Þannig að það er óþarfi að skrifa færslu í þetta sinn.

Ég hef lengi verið talsmaður beins lýðræðis og þess að nýta möguleika tækninnar til að yfirvinna þær takmarkanir sem fyrr á öldum kölluðu á fulltrúa lýðræði.

En ég hef aðeins verið að fá bakþanka.. Reynslan hefur ekkert verið sérstaklega góð, fólk virðist kjósa út frá eigin veski (sem þarf ekki alltaf að vera slæmt) en aðallega út frá fáfræði og vanþekkingu.. þeas. án þess að kynna sér rök með og á móti. Sama gildir auðvitað um marga þingmenn í kerfi fulltrúa lýðræðisins. Og það sem verra er.. sumir þingmanna virðast kjósa gegn betri vitund vegna þess að flokkslínan segir svo.

En hvað er þá til ráða?

Hvaða aðferðir eru heppilegastar til að taka farsælar ákvarðanir?

Og hverjar þeirra eru viðráðanlegar í tíma, vinnuframlagi og kostnaði?

Er alvitlaus hugmynd að þeir sem vilja kynna sér hvert og eitt mál, þekki vel rökin með og á móti, fái einir að greiða atkvæði? Það má deila um hvort það nægi að þekkja aðalatriði málsins eða hvort það á að gera kröfu um að þekkja rökin til hlítar. Best væri sennilega að vægi atkvæða ráðist af þekkingu.

Þannig sé krafa að til að hafa áhrif á ákvörðun þurfi viðkomandi að hafa kynnt sér málið.

Þá mætti hafa áhrif á vægi atkvæða að geta sýnt fram á hæfileika til að hugsa rökrétt.

Svona fyrirkomulag þarf alls ekki að vera dýrara í framkvæmd en núverandi kerfi.

Og það á alls ekki að vera auðveldar að svindla eða misnota svona kerfi en mögulegt er í núverandi fyrirkomulagi.

Kallar þetta á mikla vinna hjá öllum? Nei, varla, svona fyrirkomulag kallar á eðlilegan áhuga og til lengri tíma, verkaskiptingu eftir áhuga og þekkingu.

Hvað með algengustu rökin gegn beinu lýðræði? Sem ganga út á að samþykkja hömlulaust útgjöld og/eða brjóta á mannréttindum.

Fyrir það fyrsta þá ætti krafan um þekkingu að koma í veg fyrir svoleiðis vitleysu.

En þar fyrir utan væri kjörið að hafa nothæfa stjórnarskrá.. Þar væri ákveðinn rammi sem kæmi í veg fyrir að hægt sé að samþykkja lög sem brjóta mannréttindi. Þar mætti líka vera krafa um að samþykkt útgjalda verði að fylgja hvernig tekjur koma á móti.

Er þetta ekki bara frábær hugmynd??

Að reka ráðherra

Posted: mars 15, 2015 in Uncategorized
Efnisorð:,

Gefum okkur að við séum að reka stofnun/fyrirtæki og/eða sjáum um að ráða fólk til starfa.

Við viljum væntanlega standa okkur vel og ráða besta fólkið sem völ er á.. við könnum væntanlega fyrri störf, jafnvel menntun og ræðum við þær/þá sem koma til greina um hvernig þær/þeir vilji sinna starfinu.

Gefum okkur að tilvonandi starfsmaður sem okkur líst vel á gefi okkur ákveðin fyrirheit um hvernig hann/hún ætli að sinna starfinu, hvaða stefnu hún/hann ætli að taka og hvaða verkefnum hann/hún ætli að sinna.

Gefum okkur svo að viðkomandi sér ráðin(n) og vinni svo þvert gegn gefnum fyrirheitum.

Ég ímynda mér að við segjum viðkomandi upp störfum og leitum að öðrum.

Ég velti þessu fyrir mér í framhaldi af framgöngu ráðherra í samskiptum við ESB:

Nú má vera – og er líkast til rétt – að aðgerð ráðherra er vita marklaus og ber kannski annað hvort frekar vott um ekkert sérstaka greind – nú, eða þá sjúklega þörf til að vekja á sér athygli.

Það breytir því ekki að hann er ráðinn til að gegna ákveðnu starfi. Hann gaf vinnuveitendum ákveðin fyrirheit áður en hann var ráðinn til starfsins. Og nú hefur hann að minnsta kosti gert sitt besta til að ganga þvert gegn þeim sömu fyrirheitum. Ég er nokkuð viss um að almennum starfsmanni í flestum stofnunum/fyrirtækjum biði einfaldlega uppsagnarbréf.

Af hverju ætti starf ráðherra að vera eitthvað öðru vísi? Eru einhver rök fyrir því að það sé sérstaklega verndað?

Stærsta vandamál kjósenda við hverjar kosningar er ekki endilega að velja þá stefnu sem þeim líkar, heldur að fá einhverja vissu fyrir því að sá sem býður sig fram með ákveðna stefnu koma í raun og veru til með að standa við gefin fyrirheit.

Jú, það er rétt, kjósendur geta haft áhrif á stjórnarmyndun á fjögurra ára fresti. En það er hægt að valda ómældum skaða á fjórum árum. Og við tekur í raun sama óvissa.

Nýtt dæmi er auðvitað í fersku minni, svo við veljum eitt, algjörlega af handahófi…

„Við ætlum að sækja 800 milljarða til ljótu-kallanna í útlöndum og greiða niður skuldir heimilanna“.

Svo er farið að rukka um efndir, en þá verður við örlítið breyttan tón.. geðvonsku jafnvel:

  • Já, en sjáiði til, við, sko, hérna… við sögðum aldrei beint út að við ætluðum að nota ljótu-kalla-peningana til að greiða niður skuldir heimilanna.
  • Víst sækjum við 800 milljarða.. en, tja, jú á svona fjörutíu árum – en vertu ekki með neinn orðhengilshátt, við sögðum ekkert um hvenær þetta yrði gert.
  • Hvaða útúrnúningar eru þetta? Erum við ekki að fara einhvern tímann bráðum að greiða eitthvað smávegis niður af skuldum heimilanna? Við sögðum aldrei allar skuldir. Og við sögðum aldrei skuldir allra heimila. Skoðaðu bara hverju við lofuðum og reyndu að finna eitthvað sem ekki stenst!
  • Jú, reyndar, ef út í það er farið, þá þurfið þið að vísu að greiða sjálf fyrir niðurgreiðsluna með eigin sparnaði að mestu leyti.. en þið fáið þó niðurgreiðsluna sem við lofuðum.
  • Jú, jú, það má vel vera að niðurgreiðslan komi úr ríkissjóði, en verið ekkert að velta vöngum yfir því hvernig ríkissjóður fær þennan pening.

Það er auðvitað til auðveld lausn við þessu – eins og svo mörgu öðru.

Setjum einfaldega eftirfarandi reglur.

  1. Hvert framboð þarf að setja fram að minnsta kosti 10 kosningaloforð. Kannski ætti að vera eitthvert hámark líka.
  2. Hvert loforð þarf að snúast um raunverulega framkvæmd eða breytingar – eða óbreytt ástand -ekki „við ætlum að skipa nefnd til að skoða“l
  3. Hvert loforð þarf að vera mælanlegt.
  4. Hvert loforð þarf að hafa tímasetningu.

Samsteypustjórnir mega einungis byggja málefnasamning sinn á gefnum kosningaloforðum.

Framboðum er óheimilt að taka þátt í ríkisstjórn nema að minnsta kosti 60% kosningaloforða þeirra séu hluti af stefnuskrá stjórnarinnar. Enda á flokkur ekkert erindi í stjórn ef hann nær ekki að minnsta kosti fleiri en færri atriðum. Mögulega mætti gera undantekningar þannig að gera má málamiðlanir ef tvö loforð ólíkra flokka snúast um sama mál, en hafa aðra tímasetningu eða ganga mislangt. Sú málamiðlun mætti aldrei vera utan marka beggja framboða.

Ef eitt loforð stenst ekki skoðun þá lækkka laun stjórnarþingmanna og ráðherra strax um 25%.

Þegar og ef næsta loforð bregst fara launin niður í 50%.

Falli þriðja loforðið þá skal stjórnin segja af sér og boða skal til kosninga.

Einhverjar undantekningar??

Já, mögulega ef alvarlegur og augljós forsendubrestur verður þá mætti efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um undanþágu.

Eru ekki allar líkur á að svona fyrirkomulag myndi skila okkur betri stjórn?

En svo væri þetta bara fyrsta skrefið í áttina að betri umgjörð.

Ég að einhver þingmaður nær ekki þeirri hugsun að samflokksmaður hans hafi sjálfstæða skoðun og sé ekki með sömu skoðun og hinir „í liðinu“.

Kannski kristalla þessi ummæli þingmannsins stærsta vanda íslenskra stjórnmála. Menn eru saman „í liði“ og í einhvers konar keppni við „andstæðingana“. Það sem skiptir máli er að hafa betur í keppninni. Ekki að komast að niðurstöðu með því að ræða málið.

Á meðan það þykir undarlegt og tilefni til að móðgast að þingmaður hafi sjálfstæða skoðun – og á meðan það þykir yfirleitt fréttnæmt – þá vantar „ljósár“ upp á þroska manna til að sitja á löggjafarsamkomu.

Ég greip nokkra búta úr umræðum um frumvarp til að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum í fréttum Rúv í gær.. ég ætlaði nú reyndar að láta það gott heita sem ég hef skrifað um þetta mál – en ég var eiginlega enn pirraður yfir rökleysunum þegar ég vaknaði í morgun.

Ég heyrði Ögmund Jónasson tala af miklu yfirlæti niður til flutningsmanna, hvort þeir væru „börn“ og að auðvitað myndu kaupmenn stilla rauðvíninu upp við hliðina á steikunum (man ekki orðrétt).

Fyrir það fyrsta.. kannski hefur Ögmundur ekki komið til útlanda, en ég hef oft verið á flakki, það hefur alveg komið fyrir að ég hafi farið í matvöruverslanir en ég man ekki til þess að rauðvíni hafi verið stillt upp hjá kjötinu. Það hefur (eðlilega) verið með öðrum drykkjarvörum. Kannski þekkist þetta, ég ætla ekki að fullyrða, en þetta er að minnsta kosti ekki vaninn.. ekki frekar en að kaupmenn stilli (óhollum gossullinu) upp hjá kjötinu í dag.

Svona yfirlæti er auðvitað þreytandi, en það fyllir mælinn þegar það er byggt á fáfræði.

Þetta er auðvitað ekkert aðalatriði.

Aðalatriðið er að jafnvel þó kaupmenn myndu stilla víninu upp hjá kjötinu þá er ég alveg fullfær um að taka ákvörðun sjálfur um hvað ég kaupi og hvað ég kaupi ekki. Ögmundur og/eða aðrir þingmenn þurfa einfaldlega ekkert að hafa vit fyrir mér. Við erum ekki börn. Takk fyrir umhyggjuna, en sama og þegið.

Annar þingmaður talaði um að áfengi myndi flæða hér ef breytingin yrði samþykkt. Já, já, eins og áfengi flæðir í þeim löndum Evrópu sem hafa leyft sölu áfengis í matvöruverslunum..

Enn einn talaði af alvöru um að þetta væri „lýðheilsumál“. Mögulega. En í ljósi þess að við Íslendingar erum ekki fyrirmyndir annarra þjóða þegar kemur að áfengisneyslu – og aðrar þjóðir eru ekki að fara að taka upp þann sið Íslendinga að selja áfengi í ríkisreknum sérverslunum – þá er kannski vert að velta fyrir sér hvort núverandi fyrirkomulag sé einmitt „lýðheilsuvandamál“. Og það væri til mikilla bóta að hætta að umgangast áfengi með þeim Molbúahætti sem við gerum.

PS. nei mér er alls ekkert illa við Ögmund, er oft sammála honum (ja, amk. kemur það fyrir), hann er sjálfum sér samkvæmur og hans afstaða og rökin fyrir henni eru yfirleitt skýr – ég er einfaldlega ósammála í þetta sinn.

Birtingarmynd umburðarlyndis

Posted: september 8, 2014 in Umræða
Efnisorð:,

Til þess að gera reynslulítill þingmaður kvartar í dag yfir því vera boðið til athafnar Siðmenntar vegna setningar þings á morgun. Hann virðist ekki átta sig á því að þetta hefur verið í boði í nokkuð mörg ár – og margir þingmenn hafa mætt. En það er kannski önnur saga.

Þingmaðurinn fullyrðir út í bláinn – eða að minnsta kosti án þess að nefna nokkuð máli sínu til stuðnings – að Siðmennt eyði mestum tíma sínum í að berja á kristni og kirkju.

Varla á þingmaðurinn við að það að bjóða fólki valkost við þingsetningu sé merki um skort á umburðarlyndi. Það væri jú álíka vitlaust og að segja það skort á umburðarlyndi að vilja leyfa frjálslegri klæðnað í þinginu. Það má vera að þingmaður hafi þá skoðun á þingmenn eigi að mæta til guðsþjónustu trúarbragða sem þeir standa utan við og að þingmenn eigi að klæðast samkvæmt áratuga hefðum hvort sem þeim líkar betur eða verr. En það er aldrei skortur á umburðarlyndi að umbera skoðanir og viðhorf annarra.

Hvað á hann þá við með þessari fráleitu fullyrðingu? Hann nefnir jú ekkert annað þannig að kannski finnst honum það skortur á umburðarlyndi að hafa önnur viðhorf en hann sjálfur.

Enda má segja þetta geðvonskukast þingmannsins ágætt dæmi um lítið umburðarlyndi gagnvart viðhorfum annarra.

Þannig að við erum þó sammála um eitt.

Birtingarmynd umburðarlyndis er greinilega með ýmsum hætti.

Ég bauð mig fram til Alþingis fyrir hönd Sólskinsflokksins 1979. Okkar aðal stefnumál var að breyta veðrinu, ma. með því að setja veðurfræðinga á bónus þannig að þeir fengju einungis greitt fyrir góðviðrisdaga. Fleiri stefnumál voru á þessum nótum.

Þetta var satt best að segja ekki í fullri alvöru.

En mér verður hugsað til framboðsins þegar allir eru að safna vinsældum með því að tala um að banna verðtrygginguna. Verðtryggingin er ekki vandamál, verðbólgan er vandamál. Ef engin væri verðbólgan þá skipti verðtryggingin engu máli. Vísitalan mælir verðbólgu (þó að vísu megi deila um hvað á að taka með í þeim útreikningum) og staða verðtryggðra lána er svo reiknuð út frá vísitölunni.

Þegar ég heyri fólk tala um að banna verðtrygginguna þá finnst mér það álíka gáfulegt og að banna hitamæla eða vísitölu. Þetta hljómar vel – sérstaklega fyrir fólk sem kann ekki að reikna – en þetta er nákvæmlega það.. eitthvað sem bara hljómar vel. 

Það var stundum atriði í spurningaleikjum, aðallega í „gamla daga“, að fá leynigest. Þá var einhver fenginn til að fela sig á bak við tjald og svara spurningum. Keppendur spreyttu sig á að þekkja gestinn með því að spyrja spurninga og það eitt skipti máli *hvað* gesturinn sagði.

Er þetta ekki kjörið fyrirkomulag á Alþingi?

Með þessu fyrirkomulagi leggja þingmenn fram fyrirspurnir án þess að nokkur viti hver er að tala. Þá er ekki hægt að svara með hefðbundnu skítkasti eins og „þessi þingmaður er nú alltaf svona og svona…“. Það er einfaldlega ekki hægt að vera með persónulegar pillur ef viðkomandi veit ekki hver er að tala. Það er ekki einu sinni hægt að hrauna yfir „stjórnarandstöðu“ eða „stjórn“… því sá sem spyr gæti allt eins verið „samherji“.

Sama gildir um frumvörp, er ekki einfaldast að þingmenn leggi þau fram nafnlaust?

Umræður fara auðvitað líka fram nafnlaust, sem og atkvæðagreiðslur.

Fáránlegt??

Já, kannski. En þetta myndi að minnsta kosti útrýma þessum sandkassa- smábarnaskap sem einkennir Alþingi.

Þannig að, nei, ekki svo fáránlegt.