Stærsta vandamál kjósenda við hverjar kosningar er ekki endilega að velja þá stefnu sem þeim líkar, heldur að fá einhverja vissu fyrir því að sá sem býður sig fram með ákveðna stefnu koma í raun og veru til með að standa við gefin fyrirheit.
Jú, það er rétt, kjósendur geta haft áhrif á stjórnarmyndun á fjögurra ára fresti. En það er hægt að valda ómældum skaða á fjórum árum. Og við tekur í raun sama óvissa.
Nýtt dæmi er auðvitað í fersku minni, svo við veljum eitt, algjörlega af handahófi…
„Við ætlum að sækja 800 milljarða til ljótu-kallanna í útlöndum og greiða niður skuldir heimilanna“.
Svo er farið að rukka um efndir, en þá verður við örlítið breyttan tón.. geðvonsku jafnvel:
- Já, en sjáiði til, við, sko, hérna… við sögðum aldrei beint út að við ætluðum að nota ljótu-kalla-peningana til að greiða niður skuldir heimilanna.
- Víst sækjum við 800 milljarða.. en, tja, jú á svona fjörutíu árum – en vertu ekki með neinn orðhengilshátt, við sögðum ekkert um hvenær þetta yrði gert.
- Hvaða útúrnúningar eru þetta? Erum við ekki að fara einhvern tímann bráðum að greiða eitthvað smávegis niður af skuldum heimilanna? Við sögðum aldrei allar skuldir. Og við sögðum aldrei skuldir allra heimila. Skoðaðu bara hverju við lofuðum og reyndu að finna eitthvað sem ekki stenst!
- Jú, reyndar, ef út í það er farið, þá þurfið þið að vísu að greiða sjálf fyrir niðurgreiðsluna með eigin sparnaði að mestu leyti.. en þið fáið þó niðurgreiðsluna sem við lofuðum.
- Jú, jú, það má vel vera að niðurgreiðslan komi úr ríkissjóði, en verið ekkert að velta vöngum yfir því hvernig ríkissjóður fær þennan pening.
Það er auðvitað til auðveld lausn við þessu – eins og svo mörgu öðru.
Setjum einfaldega eftirfarandi reglur.
- Hvert framboð þarf að setja fram að minnsta kosti 10 kosningaloforð. Kannski ætti að vera eitthvert hámark líka.
- Hvert loforð þarf að snúast um raunverulega framkvæmd eða breytingar – eða óbreytt ástand -ekki „við ætlum að skipa nefnd til að skoða“l
- Hvert loforð þarf að vera mælanlegt.
- Hvert loforð þarf að hafa tímasetningu.
Samsteypustjórnir mega einungis byggja málefnasamning sinn á gefnum kosningaloforðum.
Framboðum er óheimilt að taka þátt í ríkisstjórn nema að minnsta kosti 60% kosningaloforða þeirra séu hluti af stefnuskrá stjórnarinnar. Enda á flokkur ekkert erindi í stjórn ef hann nær ekki að minnsta kosti fleiri en færri atriðum. Mögulega mætti gera undantekningar þannig að gera má málamiðlanir ef tvö loforð ólíkra flokka snúast um sama mál, en hafa aðra tímasetningu eða ganga mislangt. Sú málamiðlun mætti aldrei vera utan marka beggja framboða.
Ef eitt loforð stenst ekki skoðun þá lækkka laun stjórnarþingmanna og ráðherra strax um 25%.
Þegar og ef næsta loforð bregst fara launin niður í 50%.
Falli þriðja loforðið þá skal stjórnin segja af sér og boða skal til kosninga.
Einhverjar undantekningar??
Já, mögulega ef alvarlegur og augljós forsendubrestur verður þá mætti efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um undanþágu.
Eru ekki allar líkur á að svona fyrirkomulag myndi skila okkur betri stjórn?
En svo væri þetta bara fyrsta skrefið í áttina að betri umgjörð.
Líkar við:
Líkar við Hleð...