Archive for the ‘Uncategorized’ Category

Ég sá frétt um að dauðadæmdum fanga hafi loksins verið sleppt eftir nokkra áratugi í fangelsi. Það er ekki í frekari frásögur færandi.

En ein athugasemdin við fréttina vakti athygli mína, en þar bar einhver það saman við beint lýðræði að hafa kviðdóm og taldi þetta sanna, eða amk. dæmi um, hversu vont beint lýðræði geti verið.

Fyrir það fyrsta þá er ansi margt ólíkt með beinu lýðræði og kviðdómi, kviðdómendur eru valdir af handahófi, beint lýðræði gerir ráð fyrir að allir áhugasamir geti tekið þátt.

En aðallega þá er það enginn trygging fyrir betri niðurstöðu þó færri sjái um að dæma, þó þeir séu löglærðir, næg eru dæmin um alvarleg afglöð dómarar – hvort sem er í Bandaríkjunum (þaðan sem fréttin er) þar sem dómarar eru gjarnan kosnir – eða hér á landi þar sem þeir eru skipaðir.

Fyrir utan nú rökleysuna að taka eitt tiltekið dæmi og ætla sér að alhæfa út frá því.

Hitt er svo þessi mótsögn fulltrúalýðræðisins, að fólk geti ekki haft nægilegt vit fyrir sjálfu sér í einstaka málum en geti samt haft nægilegt vit til að kjósa sér fulltrúa – út frá fyrirheitum um þessi sömu mál.

Það er rétt, að það eru til dæmi um að almenningur hafi látið blekkjast til að greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslum og tekið þannig ákvarðanir sem hafa ekki reynst gæfulegar.

En það eru ekki síður dæmi um að fólk hafa kosið sér fulltrúa sem hafa blekkt kjósendur til að greiða sér atkvæði – og setið þannig uppi sem svipaðan kött úr keyptum sekknum.

Ég get alveg haft (amk.) tvær skoðanir á Pírötum.

Á jákvæðu nótunum þá er þarna er ferskur blær og ný nálgun – heiðarlegt fólk sem virðist hafa kraft til að taka til í mörgum þjóðþrifamálum – og gefur ekkert eftir af „prinsip“ málum. Það eru samt atriði sem trufla mig.

Fyrir það fyrsta er í rauninni grunnur framboðsins, þeas. viðhorfið til höfundarréttar, að svo miklu leyti sem hægt er að festa hönd á þau viðhorf… Mér finnst þetta stórmál og mér finnst afstaða þeirra ekki bara beinlínis röng, heldur óttast ég að (td) tónlistarheimurinn líði mikið fyrir að þeirra viðhorf eru stöðugt algengari.

Að svo miklu leyti sem hönd á festir segi ég… vegna þess að mér finnst ég oft fá full loðin svör, réttmæt gagnrýni á núverandi kerfi en engar raunhæfar lausnir eða tillögur. Og það gildir ekki bara um höfundarrétt.

Það sem truflar mig kannski mest – en er kannski um leið skiljanlegt í ljósi þess hvert hratt það gekk fyrir sig í aðdraganda kosninga – að þau eru (hvað skal segja) mismikið heppin með samstarfsfólk. Þess vegna eru þarna einstaklingar sem daðra við kukl og „óhefðbundnar lækningar“, jafnvel galnar samsæriskenningar um geimverur – og finnst allt í lagi að ræða það að sleppa því að bólusetja börn gegn lífshættulegum sjúkdómum. Þetta lýsir ekki bara vanþekkingu, heldur eru þetta skýrar vísbendingar um getuleysi til að afla upplýsinga og vinna úr þeim. Það er afar vont að vera í stjórnmálum og geta ekki tekið rökum og upplýsingum og skipt um skoðun ef svo ber undir. Og svo því sé haldið til haga þá er fjarri því að þetta eigi við um alla Pírata.

Þannig að kannski vantar annan flokk (eða aðra flokka) með því jákvæða sem finnst hjá Pírötum en hefur jafnframt heilbrigða skynsemi í forgangi og þá nálgun í forsæti að hugsa rökrétt.. En sennilega er ég að biðja um of mikið.

Að reka ráðherra

Posted: mars 15, 2015 in Uncategorized
Efnisorð:,

Gefum okkur að við séum að reka stofnun/fyrirtæki og/eða sjáum um að ráða fólk til starfa.

Við viljum væntanlega standa okkur vel og ráða besta fólkið sem völ er á.. við könnum væntanlega fyrri störf, jafnvel menntun og ræðum við þær/þá sem koma til greina um hvernig þær/þeir vilji sinna starfinu.

Gefum okkur að tilvonandi starfsmaður sem okkur líst vel á gefi okkur ákveðin fyrirheit um hvernig hann/hún ætli að sinna starfinu, hvaða stefnu hún/hann ætli að taka og hvaða verkefnum hann/hún ætli að sinna.

Gefum okkur svo að viðkomandi sér ráðin(n) og vinni svo þvert gegn gefnum fyrirheitum.

Ég ímynda mér að við segjum viðkomandi upp störfum og leitum að öðrum.

Ég velti þessu fyrir mér í framhaldi af framgöngu ráðherra í samskiptum við ESB:

Nú má vera – og er líkast til rétt – að aðgerð ráðherra er vita marklaus og ber kannski annað hvort frekar vott um ekkert sérstaka greind – nú, eða þá sjúklega þörf til að vekja á sér athygli.

Það breytir því ekki að hann er ráðinn til að gegna ákveðnu starfi. Hann gaf vinnuveitendum ákveðin fyrirheit áður en hann var ráðinn til starfsins. Og nú hefur hann að minnsta kosti gert sitt besta til að ganga þvert gegn þeim sömu fyrirheitum. Ég er nokkuð viss um að almennum starfsmanni í flestum stofnunum/fyrirtækjum biði einfaldlega uppsagnarbréf.

Af hverju ætti starf ráðherra að vera eitthvað öðru vísi? Eru einhver rök fyrir því að það sé sérstaklega verndað?

Ég mætti í Hörpuna í dag og tók stutta skák við Hrafn Jökulsson.

Hrafn var á seinni degi í skákmaraþoni sem haldið var til styrkar sýrlenskum flóttabörnum – allt fé fer í söfnun sem Fatímasjóðurinn og Unicef standa að.

Hrafn hefur verið ótrúlega kraftmikill við að kynna skákina og tilefni maraþonsins um helgina var vel við hæfi enda einkunnarorð FIDE, sem hljómuðu undir einvígis Fischers og Spassky, „Gens Una Sumus“ eða „við erum ein fjölskylda“.

Tveimur skákum á undan mér mætti fimm ára drengur til leiks. Það var gaman að fylgjast með þolinmæði Hrafns að leiðbeina mótherjanum, hrósa honum fyrir góða leiki og skýra hina fyrir honum. Þegar Hrafn var svo kominn með óverjandi mát.. þá sneri hann taflinu við – „bókstaflega“ – og leyfði nemandanum að vinna!

En fyrir þá sem vilja styrkja söfnunina þá má leggja inn á reikn­ing Fatimu­sjóðsins, 0512-04-250461, kennitala 680808-0580.

2015-03-07 15.13.34

Já og skákinni okkar lauk með tilþrifalitlu jafntefli, frekar óvenjulegt hjá okkur báðum held ég…

Wow, hvað þetta er dapurt..

Posted: september 29, 2014 in Uncategorized

Það er víst að bera í bakkafullan lækinn að skammst yfir dapri þjónustu.

Iðunn, konan mín, átti flug með Wow frá Gatwick á hádegi í dag.. ég forðast orðið að fljúga með þeim ef nokkur kostur er.

Vegabréfið hennar varð eftir á hótelinu eftir nokkur töskuskipti og umpakkanir. Þetta var tæpt en henni var sagt að innritun lyki 11:50. Við ákváðum að reyna og ég brunaði með vegabréfið með Gatwick Express (sem var ekki gefið) og var kominn 11:45. Ég hefði auðvitað ekki reynt hefði ég vitað að innritun lyki fyrr.

Þá voru starfsmenn farnir úr innritun. Okkur var vísð á eitthvert þjónustuborð. Þeir höfðu upp á starfsfólkinu sem sá um innritun, en þau voru farin ‘í pásu’ og nenntu ekki að sinna okkur.

Okkur var bent á að reyna að tala við yfirmann þeirra á flugvellinum, en þar var enginn við..

Ég þarf svo varla að taka fram að það kom ekki til greina hjá þeim að fá far daginn eftir, hvorki frítt né gegn breytingagjaldi. Fullt verð aftur, takk!

Einhver undarlegasta þversögn íslenskra stjórnmála er ákafi Sjálfstæðisflokksins til að auka útgjöld ríkissjóðs þegar kemur að ríkiskirkjunni.

Ef marka má fréttir þá er innanríkisráðherra að fara að semja við ríkiskirkjuna um talsverða hækkun á framlögum ríkissjóðs.

Þetta er einhverra hluta vegna kallað „leiðrétting“ – svona eins og gengið hafi verið á einhvern rétt kirkjunnar. Kirkjan fær nú þegar stærri hluta útgjalda ríkissjóðs en oft áður.

En sem betur fer er til örugg leið til að vinna gegn þessari aukningu útgjalda ríkissjóðs.

Þeir sem enn eru skráðir meðlimir ríkiskirkjunnar geta einfaldlega farið á vef þjóðskrár.

Guðfræðileg stærðfræði

Posted: ágúst 23, 2014 in Uncategorized

Það er kannski illa gert að hlæja að því þegar guðfræðimenntaðir einstaklingar eru að setja sig á háan hest með tölfræði / stærðfræði. Og opinbera eigin fáfræði.

Einn presturinn hefur skrifað nokkrar greinar um „kristna talnaspeki“.

Í þeirri nýjustu, fjórir er eftirfarandi speki:

Reyndar á þessi mynd sér enn eldri samsvörun í fyrsta kafla Esekíel í Gamla testamentinu og í táknum ættbálka Ísraels í Mósebókum. Sem eru 4×4 – eða 12.

Kannski væri hugmynd að halda smá upprifjun á margföldunartöflunni í guðfræðideild. Þá myndu „hámenntaðir“ prestar ekki halda að 4×4 sé 12.

Að ég tali nú ekki um að þeir gætu gert greinarmun á tölunum 4 og 40.

Já, kannski illa gert að hlægja að þessu. En ég er bara ekki merkilegri en þetta – mér finnst einfaldlega eitthvað við sjálfumgleðina og hrokann sem veldur því að ég hef ekkert samviskubit yfir því að hlægja að þessu.

 

PS. fljótlega eftir að ég skrifaði færsluna er búið að breyta „4×4“ í „3×4“.. sem er auðvitað rétt reiknað, en innihaldið fellur á að það er ekkert lengur merkilegt við 3×4, eins og mögulega hefði verið við 4×4. Æ. og Æ.

Þjóðartrú eða þjóðtrú?

Posted: ágúst 20, 2014 in Uncategorized

Það er svolítið skemmtilegt að sjá þingmann tala um að standa vörð um „þjóðartrúna“ í einhverri örvæntingu yfir ómerkilegri dagskrárbreytingu Rúv.

Það er kannski engin tilviljun að þetta hljómar nánast eins og „þjóðtrú“ – sem er hugtak yfir gamlar „kerlingarbækur“ og hjátrú – þar sem fólk trúði hvers kyns vitleysu án nokkurra upplýsinga eða staðreynda.

Mér varð að minnsta kosti hugsað til þess hversu líkt þetta í rauninni er, enda má færa rök fyrir að mörg trúarbragðanna byggi á „þjóðtrú“ gyðinga.

Af hverju skyldi svo fullorðið fólk gera lítið úr fárra hundruð ára þjóðtrú hér á landi en bregðast ókvæða við til að verja þúsunda ára þjóðtrú gyðinga og afsprengi hennar.

Ég er aðeins að vandræðast með hverjum ég á að halda með það sem eftir er af HM 2014 í fótbolta.

Íslendingar dottnir út.

Spánverjar dottnir út.

Í getraunaleiknum í vinnunni spáði ég Brasilíu sigri og það myndi telja aðeins í heildarkeppninni þar. Ég hef hins vegar verið vonlaus spámaður að öðru leyti og á varla möguleika jafnvel þó þeir vinni.

Svo setti ég nokkrar krónur á Belgíu fyrir mótið, án þess að hafa í rauninni nokkra trú á þeim, stuðullinn var bara svo freistandi – og stundum gerast jú óvæntir hlutir.

Að öllu jöfnu held ég með því liði sem spilar skemmtilegasta og besta fótboltann.

Í gegnum tíðina hef ég svo líka verið veikur fyrir óvæntum úrslitum, þeas. þegar minni spámenn slá þá stærri úr keppni. Reynslan hefur nú samt kennt mér að það er kannski ekki alltaf svo gaman þegar fram í sækir, leikirnir eru jú oftast skemmtilegri þegar bestu leikmennirnir / liðin eru hvað lengst með. Smálið sem kemst áfram á leiðinlegum varnarleik og því að skora eitt mark eftir að hafa kýlt fram… það er einfaldlega ekki að skila öðru en fleiri leiðinlegum leikjum.

Það hefur vissulega verið svolítið gaman að fylgjast með Kosta ríka, en ég er ekkert viss um að ég vilji sjá þá í úrslitaleiknum.

Ég var mikill aðdáandi Hollendinga á áttunda áratungum en að sama skapi lítill á HM 2010.. og í ljósi þess að þeirra bestu leikmenn eru frekar óheiðarlegir, jafnvel hálfgerðir skúrkar inni á vellinum, þá held ég ekki með þeim.

Frakkar eru með mjög sterkt lið og ef þeir slá Þjóðverja út gætu þeir klárað mótið, heilsteypt lið, en vantar kannski einstaklinga sem skipta máli. En þeir virðast stundum hafa haft minnimáttarkennd gagnvart Þjóðverjum og gætu dottið út næst.

Þjóðverjar hafa aldrei verið í uppáhaldi hjá mér, en liðið þeirra í ár er með þeim skemmtilegri sem hafa spilað fyrir Þýskaland. Liðið er auðvitað ekki í sama gæðaflokki og Spánverjar, en þeir hafa tekið miklum framförum og þeir eiga meira hrós skilið en margir vilja gefa þeim. Þá tekur laumu Arsenal aðdáandinn í mér eftir því að þar eru flestir leikmenn Arsenal og varla verra fyrir sjálfstraustið þar á bæ að hafa sem flesta nýkrýnda heimsmeistara í liðinu.

Belgar eru með ágætis leikmenn en liðið var engan veginn verið að heilla mig fyrr en kannski á móti Bandaríkjamönnum. Margir frábærir leikmenn, en sennilega of margir veikir hlekkir. En það gæti verið gaman að fá heimsmeistara úr óvæntri átt og sennilega eru þeir eina óvænta liðið sem á möguleika.

Nema auðvitað Kólumbía. Þeir eru að spila mjög góðan bolta, svona það sem ég hef séð – sem hefði reyndar mátt vera meira. Ef Kólumbía nær að slá Brasilíu út þá gætu þeir svo sem farið alla leið.

Brasilía hins vegar er sennilega líklegasta liðið til að klára þetta. Þeir hafa ekki engan veginn staðið undir væntingum og mögulega fer taugaspennan með þá í þessu móti. En eftir því sem þeir ná að vinna fleiri leiki minnkar stressið kannski aðeins hjá þeim. En þeir hafa einfaldlega ekki spilað nægilega góðan bolta til að ég haldi neitt sérstaklega með þeim.

Þá er það Argentína. Ég hef einhvern veginn aldrei þolað argentínska landsliðið. Ég er löngu búinn að gleyma hvers vegna. Mögulega vegna þess að þeir voru ákveðnir frumkvöðlir í leikaraskap og öðrum óheiðarleika, svona í minningunni. En þeir eru ekkert verri en flest liðanna í dag. Ágætis lið, frábærir einstaklingar og skemmtilegir leikir. Þar til auðvitað á móti Sviss, eiginlega frekar ráðalausir og lítið að gerast.

Ég skal játa að ég hef ekki rannsakað málið og styðst ekki við neina tölfræði…

En einhvern veginn finnst mér það vera mikið til sama fólkið sem kvartar og kveinar – oft réttilega – yfir mistökum dómara og er alfarið á móti því að bæta dómgæsluna á einfaldan og öruggan hátt með hjálp myndavéla!

Þá allt í einu er þetta ómissandi hluti af leiknum.

Er þetta ekki ansi mikil þversögn?

Nema „sjarminn“ sé fólginn í því að fá að nöldra…