Sarpur fyrir janúar, 2017

Ég hef verið svona á báðum áttum varðandi aðild Íslands að Evrópusambandinu.. kannski hallast í áttina að vera frekar jákvæður án þess að vera mjög heitur eða sannfærður.

Í ljósi þróunar síðustu vikna og mánaða þá er ég orðinn sannfærður um að sterk, sameinuð Evrópa er mikilvægt mótvægi við önnur stórveldi, stórveldi sem virðast stefna frá mannréttindum og lýðræði – yfir í fáfræði, fordóma og einræði.

Þetta snýst ekki um einhverjar krónur, aura eða Evrur til eða frá. Þetta snýst ekki um hvort skrifræðið er meira að minna innan eða utan ESB. Það skiptir mig ekki öllu hvers lensk vegabréf þeirra einstaklinga eru sem græða á sjávarútvegi og flytja ágóðann úr landi. Og ég er ekkert sérstaklega trúaður á að ekki sé hægt að halda stjórnun fiskveiða innan skynsamlegra marka. Ég held meira að segja að við séum betur sett með því að geta haft áhrif á lög og reglur og stefnu, frekar en að þurfa að taka möglunarlaust við til afgreiðslu.

Ekki svo að skilja að mér finnist allt fullkomið eða til fyrirmyndar í Evrópu. En þarna virðist einfaldlega vera besta varnarlína fyrir mannréttindi og hreinlega siðað þjóðfélag, ekki bara stök smáríki, heldur ríkjasamband sem hefur eitthvert vægi.

† Jú, ég hef verið mjög ákveðinn í að við áttum að klára umsóknina fyrst hún var farin af stað, en ég var ekki sannfærður um að fara af stað á sínum tíma. Mér finnst auðvitað forkastanlegt að lofa þjóðaratkvæðagreiðslu og hlaupast svo undan merkjum. En það er önnur saga, (aðrar sögur) sem hafa með verklag og loforð að gera.

Það hefur á síðustu vikum komið í ljós að ráðherra fyrri ríkisstjórnar leyndi upplýsingum fyrir  kjósendum sem mjög líklega (svo ég segi nú ekki örugglega) hefðu komið sér illa fyrir framboð viðkomandi ráðherra í kosningunum. Það voru engar málefnalegar ástæður fyrir biðinni (að minnsta kosti ekkert sem hefur komið fram þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir) þannig að eina forsendan fyrir ákvörðun ráðherra virðist virðist vera að hafa áhrif á niðurstöður kosninganna.

Ég veit alveg hvaða hugtak ég vil nota um það þegar ráðamaður tekur ákvörðun í skjóli valdsins sem færir honum aukin völd, en látum það liggja á milli hluta.

Það liggur fyrir frumvarp um upplýsingarskyldu ráðherra.

Mætti ekki bæta það og hafa enn skýrara að ráðuneytum sé skylt að gera skýrslur opinberar þegar þær berast? Mögulega gætu ráðuneytin haft 1-2 daga til að leiðrétta hugsanlegar staðreyndavillur, en að öðru leyti ættu þetta að vera opinber skjöl.. þau eru unnin af opinberum stofnunum og kostuð af skattfé.

Er eitthvað sem mælir á móti þessu? Kannski einhverjar vel skilgreindar undantekningar.

Það var kannski ekki auðvelt að átta sig á orðum forsætisráðherra á Alþingi, enda kominn í vonda stöðu og svörin kannski fyrst og fremst hugsuð til að drepa umræðunni á dreif.

En.. ef ég skildi rétt (sem þarf ekki að vera) þá var siðferði og siðareglur eitthvað sem þingmenn ættu að ræða sín á milli og komast að samkomulagi um – en það var samt óviðeigandi að ræað þetta í þinginu!

Og svo mátti skilja sem svo að allt væri siðferðilega í lagi ef kjósendur greiddu viðkomandi einstaklingi atkvæði í næstu kosningum, það væri í rauninni eina viðmiðunin. Burtséð frá því að kjósendur þurfa nú oftast að taka tillit til margra mála, vega og meta, út frá sínu gullfiskaminni í mörgum tilfellum – þá er þetta samt þannig að það er engin þörf á siðareglum.. bara kosningum eftir nokkur ár.

Hitt er svo líka skondin mótsögn.. að eftir að hafa orðið uppvís að því að leyna mikilvægum upplýsingum um eigið siðferði fyrir kjósendum rétt fyrir kosningar – þá er ansi holur hljómur í tali um að leggja siðferði í dóm kjósenda.

Trump, áhyggjur? Já, já…

Posted: janúar 22, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Gott og vel, Trump er mögulega ekki eins tröll heimskur og margir vilja láta.

Og jú, einhverju hefur verið logið upp á hann, sumt hefur verið ýkt og eitthvað hefur verið tekið úr samhengi.

En…

Svona, bara, ef við metum hann eingöngu út frá (sannanlega) óklipptum ræðum, tístum og yfirlýsingum.. og fyrstu verkum, þá stendur hann klárlega fyrir flest það sem mér finnst ógeðfellt.

Það er vissulega eitthvað til að hafa áhyggjur af, en við höfum áður séð undarlega einstaklinga í valdastöðum og heimurinn hefur svo sem komist af en óneitanlega verið talsvert verri fyrir vikið.

Það sem ég virkilega óttast og það sem veldur því að ég hef í fyrsta skipti verulegar áhyggjur af leiðtoga í valdastöðu sem getur haft mikil áhrif á heimssöguna (jú, víst) er að..

Ofan á það sem virðist ekkert sérstaklega mikil greind, getu til að vinna úr upplýsingum og alls engan áhuga á að kynna sér mál áður en ákvörðun er tekin – þá virðist þetta vera einstaklingur í verulega miklu ójafnvægi, einstaklingur sem getur ekki höndlað minnsta mótlæti eða frábrigði án þess að bregðast við af gegndarlausu offorsi og persónulegum árásum á þá sem eru ósammála hans (að mér finnst) brengluðu sjónarmiðum.

Síendurtekin vanstilling að hætti þriggja ára barns í skapofsaköstum er einfaldlega eitthvað sem ég hef verulegar áhyggjur af hjá einum valdamesta einstaklingi í heimi.

Vonandi er öryggisnetið í lagi og vonandi verður hægt að koma honum (ofbeldidslaust) úr embætti sem fyrst.

 

Er kominn tími til að hugsa aftur?

Posted: janúar 11, 2017 in Umræða

Ég hef aðeins verið að velta fyrir mér vændi, klámi og öðrum „ófögnuði“. Þeir sem ekki hafa áhuga á rökum eða umræðu og vilja afgreiða allar skoðanir með þeirri rökleysu að ég sé gamall karl og skoðun mín sé þar af leiðandi einskis virði geta hætt að lesa strax.

Ég er ekkert sérstaklega hlynntur vændi.

Mér finnst mansal stórglæpur sem þarf að berjast gegn með öllum tiltækum ráðum. Og mér finnst ömurlegt ef einhver fer að stunda vændi vegna þess að ekki séu önnur úrræði í boði.

En þó ég sé ekkert sérstaklega hrifinn af þessu – frekar en svo mörgu öðru – þá finnst mér ekki vera mitt að banna fullorðnu fólki eitthvað sem það kýs sjálft, mér finnst mér einfaldlega ekki koma það neitt við. Þess vegna vil ég leyfa ýmislegt sem ég er sjálfur mótfallinn, til að mynda „gras“reykingar, svo eitthvað sé nefnt. Ég veit ekkert um hversu margar konur eða karlar hafa áhuga á að stunda vændi, hvorki sem seljendur eða kaupendur, en það skiptir einfaldlega ekki nokkru máli.

Vandamálin liggja í mansali og hjá þeim sem sjá ekki aðra kosti í stöðunni, þeas. fjárhagslega.

Það virðist nú nokkuð ljóst að á meðan framboð og eftirspurn er til staðar þá gerir bann ekki annað en að færa starfsemina í undirheimana. Þar er auðveldara fyrir glæpamenn að brjóta á þeim sem ekki geta varið sig og eru utan kerfis. Það að sópa vandanum undir teppið og telja sig hafa náð árangri vegna þess að opinberar tölur sýni einhvern „árangur“ er auðvitað ekkert annað en sjálfsblekking.

Svarið hlýtur að liggja í því að auðvelda fórnarlömbum mansals að leita réttar síns, efla löggæslu og taka mun harðar á þeim sem stunda mansal. Þetta er hægt. Og þetta er auðveldara ef ekki verið að fela starfsemina.

Hitt vandamálið liggur í þeim fjölda sem virðast ekki sjá annan kost en að stunda vændi.

Það er einhver hrikaleg hugsanavilla að halda að þeim sé einhver hjálp í að banna þeim að stunda vændi. Svarið liggur augljóslega í betra öryggisneti og betri stuðningi við fólk sem er í vandræðum, hjálpa þeim og styrkja þannig að vændi sé ekki lengur úrræði.

Er kannski kominn tími til að hugsa þetta aðeins aftur? En, hvað veit ég, ég er bara gamall karl..

Banna skúringar?

Posted: janúar 11, 2017 in Í ófullri alvöru

Ég er aðeins að velta fyrir mér hvort ekki sé rétt að banna nokkrar starfsgreinar, til dæmis skúringar.

Sjálfum finnst mér þetta skelfilega leiðinlegt verk og get ekki ímyndað mér að nokkur velji sér þetta sem starf nema í algjörri neyð. Það að það sé eftirspurn eftir skúringum skiptir auðvitað engu. Og við skulum ekki láta okkur detta í hug að aðstoða fólk við að finna aðra valkosti.

Þá er þetta þreytandi starf, fer illa með úlnliði og olnboga þeirra sem starfa við þetta. Ég held að það sé fínasta hugmynd að banna skúringar.

Gleymum ekki að í mörgum tilfellum eru skúringar stundaðar af innfluttu vinnuafli sem býr við kröpp kjör og óprúttnir aðilar hagnast á aðstæðum þessa fólks.. fólk sem komið er til landsins allslaust, á ekki í önnur hús að venda og hefur ekki hugmynd um réttindi sín. Er ekki einfaldast að banna skúringar?

Svo er hugmynd að gera refsivert að kaupa skúringaþjónustu… Það myndi reyndar sennilega leiða til að skúringar yrðu að algerri neðanjarðarstarfsemi og endanlega vonlaust að tryggja þeim sem vilja starfa við skúringar réttindi. En okkur liði örugglega betur eftir að hafa sópað vandanum undir teppið.

Bönnum skúringar, fólk getur sópað upp eftir sig sjálft.