Sarpur fyrir janúar, 2017

Ég hef verið svona á báðum áttum varðandi aðild Íslands að Evrópusambandinu.. kannski hallast í áttina að vera frekar jákvæður án þess að vera mjög heitur eða sannfærður.

Í ljósi þróunar síðustu vikna og mánaða þá er ég orðinn sannfærður um að sterk, sameinuð Evrópa er mikilvægt mótvægi við önnur stórveldi, stórveldi sem virðast stefna frá mannréttindum og lýðræði – yfir í fáfræði, fordóma og einræði.

Þetta snýst ekki um einhverjar krónur, aura eða Evrur til eða frá. Þetta snýst ekki um hvort skrifræðið er meira að minna innan eða utan ESB. Það skiptir mig ekki öllu hvers lensk vegabréf þeirra einstaklinga eru sem græða á sjávarútvegi og flytja ágóðann úr landi. Og ég er ekkert sérstaklega trúaður á að ekki sé hægt að halda stjórnun fiskveiða innan skynsamlegra marka. Ég held meira að segja að við séum betur sett með því að geta haft áhrif á lög og reglur og stefnu, frekar en að þurfa að taka möglunarlaust við til afgreiðslu.

Ekki svo að skilja að mér finnist allt fullkomið eða til fyrirmyndar í Evrópu. En þarna virðist einfaldlega vera besta varnarlína fyrir mannréttindi og hreinlega siðað þjóðfélag, ekki bara stök smáríki, heldur ríkjasamband sem hefur eitthvert vægi.

† Jú, ég hef verið mjög ákveðinn í að við áttum að klára umsóknina fyrst hún var farin af stað, en ég var ekki sannfærður um að fara af stað á sínum tíma. Mér finnst auðvitað forkastanlegt að lofa þjóðaratkvæðagreiðslu og hlaupast svo undan merkjum. En það er önnur saga, (aðrar sögur) sem hafa með verklag og loforð að gera.

Það hefur á síðustu vikum komið í ljós að ráðherra fyrri ríkisstjórnar leyndi upplýsingum fyrir  kjósendum sem mjög líklega (svo ég segi nú ekki örugglega) hefðu komið sér illa fyrir framboð viðkomandi ráðherra í kosningunum. Það voru engar málefnalegar ástæður fyrir biðinni (að minnsta kosti ekkert sem hefur komið fram þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir) þannig að eina forsendan fyrir ákvörðun ráðherra virðist virðist vera að hafa áhrif á niðurstöður kosninganna.

Ég veit alveg hvaða hugtak ég vil nota um það þegar ráðamaður tekur ákvörðun í skjóli valdsins sem færir honum aukin völd, en látum það liggja á milli hluta.

Það liggur fyrir frumvarp um upplýsingarskyldu ráðherra.

Mætti ekki bæta það og hafa enn skýrara að ráðuneytum sé skylt að gera skýrslur opinberar þegar þær berast? Mögulega gætu ráðuneytin haft 1-2 daga til að leiðrétta hugsanlegar staðreyndavillur, en að öðru leyti ættu þetta að vera opinber skjöl.. þau eru unnin af opinberum stofnunum og kostuð af skattfé.

Er eitthvað sem mælir á móti þessu? Kannski einhverjar vel skilgreindar undantekningar.

Það var kannski ekki auðvelt að átta sig á orðum forsætisráðherra á Alþingi, enda kominn í vonda stöðu og svörin kannski fyrst og fremst hugsuð til að drepa umræðunni á dreif.

En.. ef ég skildi rétt (sem þarf ekki að vera) þá var siðferði og siðareglur eitthvað sem þingmenn ættu að ræða sín á milli og komast að samkomulagi um – en það var samt óviðeigandi að ræað þetta í þinginu!

Og svo mátti skilja sem svo að allt væri siðferðilega í lagi ef kjósendur greiddu viðkomandi einstaklingi atkvæði í næstu kosningum, það væri í rauninni eina viðmiðunin. Burtséð frá því að kjósendur þurfa nú oftast að taka tillit til margra mála, vega og meta, út frá sínu gullfiskaminni í mörgum tilfellum – þá er þetta samt þannig að það er engin þörf á siðareglum.. bara kosningum eftir nokkur ár.

Hitt er svo líka skondin mótsögn.. að eftir að hafa orðið uppvís að því að leyna mikilvægum upplýsingum um eigið siðferði fyrir kjósendum rétt fyrir kosningar – þá er ansi holur hljómur í tali um að leggja siðferði í dóm kjósenda.

Trump, áhyggjur? Já, já…

Posted: janúar 22, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Gott og vel, Trump er mögulega ekki eins tröll heimskur og margir vilja láta.

Og jú, einhverju hefur verið logið upp á hann, sumt hefur verið ýkt og eitthvað hefur verið tekið úr samhengi.

En…

Svona, bara, ef við metum hann eingöngu út frá (sannanlega) óklipptum ræðum, tístum og yfirlýsingum.. og fyrstu verkum, þá stendur hann klárlega fyrir flest það sem mér finnst ógeðfellt.

Það er vissulega eitthvað til að hafa áhyggjur af, en við höfum áður séð undarlega einstaklinga í valdastöðum og heimurinn hefur svo sem komist af en óneitanlega verið talsvert verri fyrir vikið.

Það sem ég virkilega óttast og það sem veldur því að ég hef í fyrsta skipti verulegar áhyggjur af leiðtoga í valdastöðu sem getur haft mikil áhrif á heimssöguna (jú, víst) er að..

Ofan á það sem virðist ekkert sérstaklega mikil greind, getu til að vinna úr upplýsingum og alls engan áhuga á að kynna sér mál áður en ákvörðun er tekin – þá virðist þetta vera einstaklingur í verulega miklu ójafnvægi, einstaklingur sem getur ekki höndlað minnsta mótlæti eða frábrigði án þess að bregðast við af gegndarlausu offorsi og persónulegum árásum á þá sem eru ósammála hans (að mér finnst) brengluðu sjónarmiðum.

Síendurtekin vanstilling að hætti þriggja ára barns í skapofsaköstum er einfaldlega eitthvað sem ég hef verulegar áhyggjur af hjá einum valdamesta einstaklingi í heimi.

Vonandi er öryggisnetið í lagi og vonandi verður hægt að koma honum (ofbeldidslaust) úr embætti sem fyrst.