Sarpur fyrir júlí, 2015

Leiðtogaleysi okkar trúleysingja

Posted: júlí 31, 2015 in Trú
Efnisorð:

Síðustu daga hef ég hef aðeins orðið var frekar hjákátlegar tilraunir til að skjóta á og gera lítið úr öllum trúleysingjum með því að vitna til (ætlaðra) heimskulegra skoðana þekktra trúleysingja, þegar kemur að konum / kvenréttindum. Ég segi „ætlaðra“ vegna þess að ég hef ekki haft fyrir því að kynna mér málið, mér er svo slétt sama um það hvort viðkomandi einstaklingar hafa gamaldags, fáránlegar og/eða heimskulegar skoðanir. Það kemur mér ekki við.

En ansi margir trúaaðir virðast halda að þeir geti komið einhvers konar höggi á trúleysingja almennt með því að klifa á þessu. Til að mynda er einn (annars ágætur) prestur að dæla þessu inn á Facebook.

Það er búið að marg segja og útskýra í bak og fyrir að viðkomandi einstaklingar séu ekki leiðtogar eða fyrirmyndir eða neitt slíkt hjá okkur trúleysingjum.

En dælan heldur áfram og áfram… Kannski til að endurtaka lygina vísvitandi og nægilega of til að einhver trúi. Kannski skilja viðkomandi ekki það sem er búið að útskýra margsinnis fyrir þeim.

En svo fór ég að hugsa hvort skýringin gæti verið önnur.

Kannski er eitthvað sem verður til þess að trúaðir ná ekki þessari hugsun – að einhver geti haft skoðun án þess að þurfa einhverja einstaklinga, lífs eða liðna, ímyndaða eða raunverulega til að standa fyrir skoðanirnar.

Kannski er ákveðið samhengi milli þess að vera trúaður á sinn leiðtoga og geta ekki fyrir sitt litla líf skilið að aðrir eru ekki þannig.

Kannski skýrir það líka þessa eilífu fullyrðingar að trúlausir séu nú bara samt trúaðir líka, hvað sem þeir segja sjálfir.

Ég velti fyrir mér hvort þetta sé einhver líffræðileg takmörkun, eða eitthvað í uppeldinu..

Þetta er ekki illa meint (þó eflaust taki einhverjir þessu þannig).. ég get bara ekki skilið þessa þráhyggju hjá annars vel meinandi og að öðru leyti bráðgreindu fólki.

Mér var bent á undarlega athugasemd frá greinarhöfundi sem margir líta upp til..

Tilefni athugasemdarinnar virtist að gagnrýna þrasgirni og dómhörku.

En athugasemdin sjálf var einmitt þetta, dómharka, tilefnislaust þras – að ónefndum sleggjudómum, uppnefnum, fordómum, að ónefndu fullkomnu skilningsleysi á tilefninu.. jæja, gott og vel, kannski er ekkert fullkomið.

Fyrsta hugsun var, hvílík endemis hræsni.

Næst, ekki bara hræsni, heldur lekur yfirlætið og sjálfumgleðin af þessum skrifum.

Svo.. já, auðvitað.. hann er að grínast, þetta er einhvers konar gjörningur, hann er að benda á þrasgirni og dómhörku með því að skrifa sjálfur þannig athugasemd, sýna í verki hvernig fólk getur misst sig í vitleysunni. Kannski bara gott hjá honum. Verst að allt of margir taka þessu bókstaflega.

En, nei, sennilega ekki, höfundurinn hefur nefnilega verið ákafur talsmaður ákveðinnar ríkisstofnunar og verið á vaktinni og tilbúinn að gagnrýna alla sem voga sér að viðra aðrar skoðanir en stofnuninni þóknast. Einhver myndi segja „sígjammandi varðhundur ríkisrekinnar valdastofnunar“ en mér dettur það ekki í hug, enda kurteis að eðlisfari.

Tónlist, hvernig skal gefa út???

Posted: júlí 17, 2015 in Tónlist
Efnisorð:

Nú þegar við Fræbbblar vorum að hefja upptökur, reyndar í þriðja skipti, á nýrri plötu þá er óneitanlega snúið að ákveða hvernig best er að gefa þetta út.. þeas. þannig að allir sem vilja vita, viti af, geti nálgast efnið og jafnvel stutt okkur þannig að við látum kannski verða af því að gefa út meira í framtíðinni.

Sennilega er einfaldast að setja þetta í vefsölu. Eða einfaldlega láta efnið liggja á einhverjum vefþjóni sem allir geta nálgast. Ekkert nafn á plötunni, ekkert umslag, engar upplýsingar og engir textar. Það er ekkert rosalega spennandi, en kannski er það raunveruleikinn.

Það mætti reyndar pakka lögunum saman í plötu með helstu upplýsingum þó hún verði í sölu á vefsíðu.

Og það mætti örugglega koma þessu vel á framfæri í samvinnu við net-tónlistar-útgáfur.

Svo má búa til eitthvað af geisladiskum og setja í sölu. Þá myndi platan örugglega heita eitthvað og helstu upplýsingar yrðu aðgengilegar. En, okkur skilst að geisladiskasala fari minnkandi, geisladiskaspilarar séu jafnvel ekki til lengur á heimilum. Þá borgar sig ekki að framleiða diska nema fyrir ákveðið lágmark.

Minnislykill er tilbrigði við þetta, sennilega ekkert eða lítið lágmark.

Svo eru nokkrir félagar búnir að óska eftir að fá gripinn á vinyl. Þetta skilst okkur aftur að sé enn stærri pakki, þeas. dýrara og meiri vinna – og eftirspurnin jafnvel enn minni, en kannski þeir sem mestan áhuga hafa.

En, allar hugmyndir vel þegnar.. við ákveðum ekki endanlega fyrr en efnið er tilbúið.

Sex á tíu

Posted: júlí 15, 2015 in Tónlist
Efnisorð:, , ,

Við Fræbbblar spiluðum í Hörpunni, 28. febrúar 2013, til stuðnings Ingólfi Júlíussyni.

Viktor Orri tók okkur upp á videó og við fengum hljóðið frá starfsmönnum Hörpunnar.

Annar gítarleikari okkar Fræbbbla, Ríkharður H. Friðriksson, hefur nú hljóðblandað þetta og við settum hljóðið við myndirnar sem Viktor tók.

Árangurinn má sjá á Fræbbblarnir í Hörpu – Sex á tíu.

Þetta eru hráar upptökur, engu er bætt við, ekkert er tekið út og engin hlé eru falin.

Sex lög á rétt rúmlega tíu mínútum.

Við erum að minnsta kosti nokkuð sátt. Auðvitað eru einhverjir minni háttar hnökrar í spilamennsku og söng. Og hljóðið var auðvitað ekki tekið upp með útgáfu í huga.

Lögin eru:

  • CBGB’s
  • Ljóð
  • Bjór
  • Judge a pope just by the cover
  • Hippar
  • Æskuminning

Þarna spiluðu:

  • Guðmundur Gunnarsson – trommur
  • Helgi Briem – bassi
  • Arnór Snorrason – gítar, söngur
  • Ríkharður H. Friðriksson – gítar
  • Valgarður Guðjónsson – söngur, gítar
  • Iðunn Magnúsdóttir – söngur
  • Brynjar Arnardóttir – söngur
  • Kristín Reynisdóttir – söngur

Og eins og einhver sagði við okkur eftir hljómleikana, „Þetta var fínt hjá ykkur, en þurfið þið að gaufa svona mikið á milli laga?“

En fínt að birta þetta nú þegar upptökur á nýju plötunni okkar fara af stað í þriðja sinn.

Rugluð rök fyrir ofbeldi

Posted: júlí 9, 2015 in Umræða

Ég var að spjalla við mann sem ég kannast við og hann hélt því fram fullum fetum að það væri allt í lagi að beita ofbeldi.

Jú, það væri að vísu lögbrot, og það mætti búast við refsingu ef upp kæmist.

En rökin hans voru þau að það væri ekki hægt að koma algjörlega í veg fyrir ofbeldi. Ekki nema með miklu eftirlitskerfi þar sem frelsi borgaranna væri skert og „stóri bróðir“ fylgdist með hverju fótmáli.

Ég reyndi eitthvað að malda í móinn, það væri nú samt ekki í lagi að ganga svona freklega á rétt annarra, þetta væri jú ólöglegt og það að strangt eftirlit til að koma algjörlega í veg fyrir ofbeldi þýddi ekki það sama og að ofbeldi væri löglegt.

Mig rámar í að hafa tekið sams konar umræðu vegna annars málefnis, man ekki alveg hvað það var…

Guðlast

Posted: júlí 2, 2015 in Umræða
Efnisorð:,

Mig langaði að skrifa færslu til að fagna því að guðlastlögin hafa verið afnumin. En þetta er svo augljóst og sjálfsagt mál og löngu útrætt að ég hef í rauninni ekkert um það að segja.

Svo datt mér í hug að fárast yfir þeim þingmönnum sem mölduðu í móinn – sem sumir hverjir hafa nú stundum verið með þeim skynsamari. En það er eiginlega óþarfi enda gef ég mér að þeir hafi áttað sig á endanum – og langar satt að segja ekkert til að vita hafi svo ekki verið.

Kannski má hrósa þeim sem tóku af skarið og lögðu frumvarpið fram, en ég er auðvitað löngu búinn að því.

Þannig að það er óþarfi að skrifa færslu í þetta sinn.