Leiðtogaleysi okkar trúleysingja

Posted: júlí 31, 2015 in Trú
Efnisorð:

Síðustu daga hef ég hef aðeins orðið var frekar hjákátlegar tilraunir til að skjóta á og gera lítið úr öllum trúleysingjum með því að vitna til (ætlaðra) heimskulegra skoðana þekktra trúleysingja, þegar kemur að konum / kvenréttindum. Ég segi „ætlaðra“ vegna þess að ég hef ekki haft fyrir því að kynna mér málið, mér er svo slétt sama um það hvort viðkomandi einstaklingar hafa gamaldags, fáránlegar og/eða heimskulegar skoðanir. Það kemur mér ekki við.

En ansi margir trúaaðir virðast halda að þeir geti komið einhvers konar höggi á trúleysingja almennt með því að klifa á þessu. Til að mynda er einn (annars ágætur) prestur að dæla þessu inn á Facebook.

Það er búið að marg segja og útskýra í bak og fyrir að viðkomandi einstaklingar séu ekki leiðtogar eða fyrirmyndir eða neitt slíkt hjá okkur trúleysingjum.

En dælan heldur áfram og áfram… Kannski til að endurtaka lygina vísvitandi og nægilega of til að einhver trúi. Kannski skilja viðkomandi ekki það sem er búið að útskýra margsinnis fyrir þeim.

En svo fór ég að hugsa hvort skýringin gæti verið önnur.

Kannski er eitthvað sem verður til þess að trúaðir ná ekki þessari hugsun – að einhver geti haft skoðun án þess að þurfa einhverja einstaklinga, lífs eða liðna, ímyndaða eða raunverulega til að standa fyrir skoðanirnar.

Kannski er ákveðið samhengi milli þess að vera trúaður á sinn leiðtoga og geta ekki fyrir sitt litla líf skilið að aðrir eru ekki þannig.

Kannski skýrir það líka þessa eilífu fullyrðingar að trúlausir séu nú bara samt trúaðir líka, hvað sem þeir segja sjálfir.

Ég velti fyrir mér hvort þetta sé einhver líffræðileg takmörkun, eða eitthvað í uppeldinu..

Þetta er ekki illa meint (þó eflaust taki einhverjir þessu þannig).. ég get bara ekki skilið þessa þráhyggju hjá annars vel meinandi og að öðru leyti bráðgreindu fólki.

Lokað er á athugasemdir.