Sarpur fyrir apríl, 2021

Píratar og sóttvarnarlög

Posted: apríl 26, 2021 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Það er ekkert leyndarmál að ég er verulega ósáttur við framgöngu sumra þingmanna Pírata á Alþingi.

Ég hef kosið Pírata í síðustu kosningum.

Ég hef svo sem líka kannski rifist hvað mest við Pírata… ruglið sem flokkurinn var stofnaður í kringum byggir að mínu viti á vanþekkingu og skammsýni. En þeim til hróss hafa þau verið tilbúin í rökræður og það fer lekki lengur mikið fyrir þessum upphaflegu hugmyndum.

Þau hafa staðið sig mjög vel, verið ferskt afl á Alþingi og spurt erfiðra spurninga.

En mér finnst framganga sumra þingmanna í umræðum um sóttvarnarlög einfaldlega ekki verjandi.

  • Þau tala um „geðþóttaákvarðanir“, það er ekki geðþóttaákvörðun að fylgja ráðum vísindamanna.
  • Þau tala um að það hefði átt að reyna vægari aðgerðir, vitandi (eða amk. höfðu alla möguleika á að vita) að það að búið að reyna og einfaldlega ekki að virka.
  • Þau tala um að frumvarp hafi verið illa undirbúið og unnið á skömmum tíma. Fyrir það fyrsta, þá var nú ekki mikill tími til stefnu. Þá þarf ekki að hafa fylgst mikið með til að vita að búið er að ræða málið fram og til baka og bókstaflega fráleitt að gefa í skyn að hér sé einhver flumbrugangur á ferð.
  • Að tala um að frumvarpið hafi verið samið á einum degi er svo dæmi um fullkomlega marklausar athugasemdir. Það er ólíklegt að frumvarpið hafi verið samið á einum degi þó frágangur hafi mögulega verið unninn í flýti. En það skiptir bara ekki nokkru einasta [hér má velja kjarnyrt blótsyrði] máli hversu langan tíma tók að skrifa frumvarpið.. það sem skipti máli er hvort það var nógu gott eða ekki.
  • Píratar kvarta undan að breytingatillaga þeirra hafi ekki verið samþykkt, mögulega, sennilega, líklega hefði frumvarpið verið betra þannig, en það þýðir ekki að ekki megi samþykkja það.
  • Þá er gjarnan gripið í að snúa þessu upp í mannréttindamál. Mannréttindi eru mikilvæg, en ég gef einfaldlega ekkert fyrir baráttu fólks fyrir mannréttindum ef það lítur svo á að mannréttindi felist í að fólk hafi rétt til að leggja aðra í lífshættu að nauðsynjalausu.
  • Og svo virðist „háll-halli-rökleysan“ (slippery-slope fallacy) stöðugt dúkka upp í réttlætingu á afstöðu sumra þingmanna.

Þetta er alvarlegt mál. Ef fólk er situr á Alþingi og er að greiða atkvæði þá er lágmarkskrafa að vinna heimavinnuna og halda þræði í hugsun og rökfærslu – sleppa klisjum og innantómum frösum.

Ef ekki verður breyting á þessu þá er líklegt að mitt atkvæði fari annað í Alþingiskosningunum í haust.

Ég styð Pírata áfram í borgarstjórn og öðrum sveitarstjórnum þar sem þau eru að vinna gott verk.

Fjármálaráðuneytið svarar ekki lengur erindi mínu um lækkun skattgreiðslna vegna sóknargjalda.

Þá er næsta skref að senda erindi til Umboðsmanns Alþingis.

Ég sendi erindi þar sem ég fór fram á að skattgreiðslur mínar væru lækkaðar sem nemur greiðslu til trúar- og lífsskoðunarfélaga.

Rökstuðningur minn er sá að vegna þess að ég tilheyri ekki neinu slíku félagi þá lækka útgjöld ríkissjóðs sem því nemur.

Ég benti auk þess á að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði vísað frá beiðni Darby (mál 11581/85) gegn sænska ríkinu á þeim forsenum að hann hefði þann valkost að lækka skattgreiðslur sínar með því að standa utan lífsskoðunarfélaga.

Í stuttu máli svaraði ráðuneytið því að

  • þeim fyndist að segja mætti eitthvað, sem varla getur talist gild rök fyrir mismunun, hvað þá mannréttindabrotum, fyrir utan nú það að lítil stoð var í því sem þeim fannst mega segja.
  • þetta væri erfitt í framkvæmd, sem það er ekki og bauð ég aðstoð mína við að leysa tæknileg vandamál, ef einhver væru – ég leyfi mér að efast um að þetta hafi verið kannað að nokkru marki.
  • vísa í eitthvert undarlegt aukaatriði í úrskurði MDE í máli Darby.

Ég tel því augljóst að engin gild rök eru fyrir svörum ráðuneytisins.