Sarpur fyrir febrúar, 2016

Bjórhátíð

Posted: febrúar 28, 2016 in Umræða

Við Iðunn mættum tvisvar á bjórhátíðina á Kex, við misstum af fimmtudeginum þar sem við Fræbbblar vorum með hljómleika og á föstudeginum vorum við frekar seint á ferð, náðum þó nokkrum bjórum í bláendann – og keyptum nokkra eftir að hátíðinni lauk.

En við mættum þokkalega tímanlega á laugardeginum og þá var hátíðin í kjallaranum, gamla Nýlistasafninu ef ég er ekki að rugla mikið. Brynja & Óskar og Rikki kíktu með okkur og við náðum, held ég, að smakka alla bjórana sem voru í boði. Fyrir minn smekk hafði PFriem vinninginn (vona að ég muni rétt) en margir aðrir voru mjög nærri lagi, margir frábærir, náði reyndar ekki að punkta hjá mér nöfnin á þeim – Surly, Sleipnir frá Ölvisholti, Garún frá Borg – og ég er örugglega að gleyma einhverjum sem ætti skilið að koma fram.

En frábært framtak hjá Kex og ótrúlegt að hugsa til þess að það er ekki svo langt síðan áfengis- drykkjumenningin snerist um Vodka í kók hjá þeim sem voru vandfýsnir og íslenskt brennivín hjá hinum.

Á þó ekki lengri tíma er kominn ótrúleg flóra af íslenskum eðal bjórum.. mis mikið spennandi fyrir minn smekk, eins og gengur – en ótrúlega margir sem eru með því besta sem ég fæ. Og höfum við þó flakkað um Belgíu og Holland og England og aðeins Bandaríkin og verið dugleg að prófa bjórframleiðslu viðkomandi svæðis, á bjórkynningum og hátíðum.

Ég stend við að margir íslensku bjóranna eru með því besta sem gerist í heiminum. Ótrúlegur árangur á ekki lengri tíma. Og frábært að fá svona kynningar. Takk fyrir gott boð…

Bjórhátíð - 1

Ég hef aðeins fylgst með umræðunni um breytingar á áfengislögum. Þetta skiptir mig kannski ekki svo miklu til eða frá hvort áfengi er selt í matvöruverslunum eða ekki. En mér finnst þetta talsvert mikið „prinsip“ mál. Og að hefðbundinni íslenskri umræðuhefð er ég gjarnan stimplaður sem talsmaður einhverra hagsmunahópa eða þaðan af verra um leið og ég leyfi mér að hafa skoðun.

Hitt er að ég hef talsverðan áhuga á bættri umræðu. Að málin séu rökrædd, skoðanir séu rökstuddar og rökin studd af upplýsingum.

Og það hefur verið einstaklega gremjulegt að fylgjast með umræðunni, hvort sem þar fara læknar, þingmenn og/eða þeir sem bara virðast hafa ríka þörf fyrir að vita betur en ég hvað ég vil..

Það er þekkt sagan (sennilega ekki sönn, en góð dæmisaga) um borgarstjórann sem vildi banna sölu á rjómaís í borginni. Hann hafði jú skoðað tölur og tekið eftir, réttilega, að dauðsföllum fjölgaði verulega í takt við sölu á rjómaís. Það var alveg klár fylgni á milli. Það var hins vegar ekki það orsakasamhengi að rjómaís væri að valda dauða. Skýringin var einfaldlega sú að þegar hitabylgjur gengu yfir þá keypti fólk meira af rjómaís – og á sama tíma fóru fleiri óvarlega við að kæla sig, óðu út í aðal á borgarinnar án fyrirhyggju og afleiðing var að fjöldi fólks drukknaði.

Umræðan um sölu áfengis í matvöruverslunum er því miður mjög lituð af því að farið er mjög óvarlega með upplýsingar og tölur. Fullyrt er að tölfræðileg fylgni sýni fram á orsakasamhengi. Og oft er látið nægja að skauta á hundavaði yfir aðgengilegar tölur, í stað þess að rýna í þær og velta fyrir sér hvort mótsagnir í gögnunum gefi ekki tilefni til að skoða betur.

Kannski er ég farinn að endurtaka mig, en svona í ljósi nýjustu frétta – um þyngdarbylgjur – rifjast upp hversu galið það er í ljósi þekktra upplýsinga að trúa því að heimurinn hafi verið skapaður af guði gyðinga fyrir fáum þúsundum ára.

Það eru auðvitað sárafáir hér á landi og í Evrópu sem beinlínis hafa þetta fyrir satt. En í fjölmennu ríki vestan hafs er þetta til að mynda nokkuð útbreidd skoðun.

Það væru nokkuð augljós viðbrögð að þegar búið er að afsanna án nokkurs vafa þann grundvöll sem ákveðinn trúarbrögð byggja tilvíst sína á – þá væri sjálfgefið að segja einfaldlega, „jæja, þetta var nú barasta hreinn og klár misskilningur, þeim var kannski vorkunn að halda þetta á sínum tíma, en nú vitum við betur og leggjum þetta til hliðar“. Þannig bregst að minnsta kosti sæmilega skynsamur einstaklingur við því þegar í ljós kemur að skoðanir hans / hennar standast ekki skoðun.

En einhverra hluta vegna ríghalda talsmenn trúarbragðanna í að þetta sé nú samt allt satt og rétt, þrátt fyrir allt. Kannski er of mikið undir. Kannski er búið að fjárfesta of mikið, bæði bókstaflega og fyrir mannorðið.

Á flóttanum undan staðreyndum og upplýsingum þá er gripið til að segja að megnið af vitleysunni sé nú bara líkingamál, allt saman myndlíkingar sem beri nú (allt í einu) ekki að taka bókstaflega. Enginn getur reyndar svarað fyrir hvað þetta líkingamál stendur og/eða hvað það er sem myndlíkingarnar vísa til. Ég veit ekki til að nokkur hafi getað svarað því hvað það er sem „meyfæðing“ vísar til sem myndlíking.

En ef allt sem stendur í bókinni er orðið líkingamál, eða amk. smám saman að verða líkingamál (því flóttinn frá textanum virðist hraðari með hverjum deginum), hvert er þá innihaldið? Er þá ekki guðinn sjálfur myndlíking? Eru trúarbrögðin (sum) þá bara safn myndlíkinga?

Forseta sem rekur ríkisstjórnina?

Posted: febrúar 10, 2016 in Umræða

Sú hugmynd var viðruð fyrir síðustu forsetakosningar að það væri kjörið að fá forseta sem byði sig fram með það sem helstu stefnu að fara bókstaflega eftir stjórnarskránni. Mig minnir að bæði Daði Ingólfsson og Egill Helgason hafi fjallað um þetta, eflaust fleiri og ekki veit ég hvaðan hugmyndin er upphaflega komin.

En tilgangurinn var að sýna fram á hversu meingölluð stjórnarskráin er í raun og veru. Og það þýðir ekki að bera fyrir sig að hefðir trompi texta stjórnarskrárinnar. Fyrir það fyrsta, þá er það einmitt staðfesting á því að stjórnarskráin er ekki nægilega góð ef ekki er hægt að fara eftir henni. Hitt er að hefðir hafa reynst lítils virði gegn bókstaf þegar stjórnarskráin er annars vegar, eins og núverandi forseti sannreyndi þegar hann vísaði lagasetningu til þjóðaratkvæðagreiðslu.

En það má svo taka þessa hugmynd aðeins lengra. Í stjórnarskránni segir:

15. gr. Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.

Væri góð hugmynd að einhver tæki þetta bókstaflega og byði sig fram til forseta með það aðal stefnumál að veita núverandi ráðherrum lausn og skipa aðra. Kannski mætti sá fyrirvari vera að núverandi stjórnarflokkar fái að sitja áfram ef þeir snúa við blaðinu og samþykki þá stjórnarskrá sem þjóðin samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu.

PS. Svo enginn misskilningur sé á ferð, þá er ég alls ekki að bjóða mig fram til verksins. Fyrir það fyrsta þá held ég að þetta sé ekkert sérstaklega skemmtilegt starf – en aðallega þá má ég ekkert vera að því að standa í kosningabaráttu. Í júní ætlum við að dóla okkur í Frakklandi, borða góðan mat, drekka úrvals rauðvín og horfa á fótbolta!

Þjóðráð til kirkjunnar

Posted: febrúar 6, 2016 in Umræða

Nú er ekki svo að skilja að ég sé sérstakur stuðningsmaður kirkjunnar.

En ég er heldur ekki sá andstæðingur sem margir kirkjunnar menn vilja meina.

Vissulega finnst mér galið að trúarsöfnuður sé ríkisrekinn og vil losna við þá tengingu sem fyrst.

Og höfum líka á hreinu að ég gef ekki mikið fyrir boðskap kirkjunnar, svona þau atriði sem greina trúarboðskapinn frá almennri skynsemi og góðum siðum sem enga stoð þurfa í trú á yfirnáttúru.

En kirkjan má mín vegna vera til staðar fyrir þá sem áhuga hafa og vilja nota þjónustu hennar.

Það styttist auðvitað í að trúarbrögðin líði undir lok, þetta er óhjákvæmileg afleiðing betri upplýsinga og auðveldara aðgengis að upplýsingum. Væntanlega mælist þetta í fáum áratugum hér hjá okkur.

Einhver heldur eflaust að það hlakki í mér að horfa á örvæntingarfullar tilraunir kirkjunnar til að halda í gamla tíma. Því fer fjarri… Ég veit að þarna er fullt af góðu fólki sem vill vel og á betra skilið. En allt of margir forsvarsmenn og talsmenn kirkjunnar eru einfaldlega að mála hana út í horn og hafa ekki rænu á að hætta að grafa, svo ég vísi nú í gamla líkingu.

Mér datt í hug að láta nokkur ráð fylgja.. vel meint – í alvöru – og að ég held eina leiðin fyrir kirkjuna að þjóna þeim kynslóðum sem henni vilja fylgja á lokasprettinum.

  • svo ég tali nú íslensku, hættið þessu væli.. það má eflaust orða þetta á „penni“ og tillitsamari hátt, en þetta er nú samt það sem ég vildi sagt hafa..
  • hættið að sníkja peninga umfram það sem aðrir fá, það er holur hljómur í þessum bænum um stöðugt meira fé til „musterisbygginga“ og rímar illa við þann boðskap sem þið kynnið, til að mynda, fermingarbörnum
  • hættið að spila ykkur sem talsmenn þeirra sem minna mega sín á meðan þið njótið óhóflegra forréttinda og þeir sem minna mega sín sitja eftir
  • sleppið þessum markaðsátökum til að sækja fólk til kirkjunnar, þau eru gegnsæ og vinna gegn ykkur til lengdar, hugsið frekar um að vinna gott starf og þjóna þeim sem það vilja, það gæti meira að segja farið svo að þá vilji fleiri koma til ykkar, ekki bara sem óvirk kennitala í þjóðskrá, heldur hafi raunverulegan áhuga á að tilheyra kirkjunni
  • sleppið sérstaklega að sitja fyrir börnum, hvort sem er í skólum eða annars staðar, það er satt best að segja frekar ógeðfellt að sitja um fólk sem hefur kannski ekki þroska, menntun og reynslu til að taka afstöðu til þess sem þið eruð að boða
  • hættið að fara með rangt mál í umræðu um málefni kirkjunnar, það samrýmist ekki boðskap ykkar að gera þetta viljandi og það samrýmist (vonandi) ekki menntun ykkar að láta þetta fara óviljandi frá ykkur
  • hættið að líta á gagnrýni sem „barsmíðar“ og hættið að líta á þá sem eru ósammála ykkur að einhverju eða öllu leyti sem árásargjarna.

Nú, eða, hunsið þessi ráð og horfið á þetta líða enn fyrr undir lok…

 

Mikið rosalega getur málflutningur talsmanna ríkiskirkjunnar farið í taugarnar á mér.

Annars ágætur prestur, Davíð Þór Jónsson, er að fárast yfir harðri gagnrýni og spyr hvort kirkjan eigi að bjóða hinn vangann – sem er nú reyndar það sem hún sjálf boðar, svo kaldhæðnislegt sem það er.

Ríkiskirkjan rekur grimmt markaðsstarf, kostað af almannafé, þar sem ítrekað er haldið fram rangfærslum, blekkingum og jafnvel hreinum ósannindum í áróðrinum.

Örfáir einstaklingar eiga það til að benda á rökleysur og rangfærslur – í sínum frítíma – án þess að talsmenn kirkjunnar hafi nokkur svör, þeas. -önnur en að kveinka sér undan umræðunni.

Þannig að ef þið lítið á málefnalega gagnrýni sem löðrung, já, þá megið þið alveg bjóða hinn vangann.

En byrjið kannski á að fylgja öðrum boðskap ykkar í verki, þetta boðorð, þarna, þið munið, sem hefur eitthvað með ljúgvitni að gera.. Eða er það kannski bara orðið líkingamál eins og allt annað hjá ykkur?

Kannski rifja upp eitthvað með bjálka og flísar..