Sarpur fyrir maí, 2017

Aftrompun.. 

Posted: maí 30, 2017 in Umræða

Ég neita því ekki að eitt það fyrsta sem ég athuga orðið vongóður á morgnana er hvort Trump hafi sagt af sér…

  • „mig langaði bara að sjá hversu lengi ég gæti dregið ykkur á asnaeyrunum“ væri einn möguleiki, bætir kannski „so long, suckers“ við og gefur puttann
  • „ég er veikur og get ekki meir“ væri önnur
  • „nú á að fara að kæra mig fyrir landráð, best að forða sér“ væri sá þriðji
  • „ég hef verið beðinn um að taka við af páfanum og þarf að drífa mig, bæ, bæ“.. er kannski líklegast

Ég er ekki svo illa innrættur að vona að einhver fari að „skjót’ann“, en kæmi mér svo sem ekki sérstaklega á óvart að lesa einn morguninn að hann hafi verið settur af. 

Ekki svo að skilja að það sé vænlegt lið sem bíður á hliðarlínunni og myndi taka við.

Í bridge er yfirleitt fínasta ráð að „aftrompa“ áður en mótherjar ná að eyðileggja samninginn.. 

En það er ekki bara að ég hafi skömm á stefnu mannsins, tilskipanir byggðar á rasisma, lækkuð fjárframlög til heilbrigðismála, lækkun skatta á þá ríkustu, lækkun útgjalda til vísinda, frámunaleg heimska þegar kemur að vísindum… svo eitthvað sé nefnt af handahófi. Eflaust myndi eftirmaður hans halda óbreyttri stefnu að mestu. Mér er meira að segja nokkurn veginn sama um ræfildóminn, getuleysið, lygarnar, aumkunarverðar yfirlýsingarnar og þvælukenndar afneitanir á staðreyndum – nema auðvitað þegar þetta hefur áhrif á stefnuna hans (ef það er yfirleitt hægt er að tala um „stefnu“).

Og meira að segja væri ég ekki eins smeykur ef Trump fyrir svona 15-20 árum væri forseti.

Ástæðan fyrir að ég vona innilega hann hrökklist frá völdum sem allra fyrst er að það eru ansi sterkar vísbendingar um að hann sé verulega veikur á geði. Ekki svo að skilja að það sé nokkuð til að skammast sín fyrir, en heldur ekki gæfulegt að maður sem ekki er heill á geði hafi örlög milljóna (milljarða?) mann í höndunum.

Auðvitað er ég ekki fagmaður þessu sviði og mögulega má deila um þær vísbendingar hefur verið bent á, en þær eru nægilega sterkar og vísindamenn hafa bent á nægilega sterk rök til að ég hef verulegar áhyggjur.

Þannig að vonandi verða Bandaríkin „aftrompuð“ sem allra fyrst.

Smölun

Posted: maí 27, 2017 in Spjall, Umræða
Efnisorð:

„ekkert óeðlilegt við smölun“ er haft eftir formanni samtaka sem smalaði liði til að skrá sig í samtökin og kjósa hann sjálfan sem formann.

Fyrir utan það að viðkomandi „sauðir“ virðast ekki hafa haft getu til að borga félagsgjaldið sjálfir og eingöngu ráðið við þá aðgerð að leggja inn hjá viðkomandi formannsefni. Og fyrir utan það að þeir skráðu sig eftir að tilskilinn frestur var runninn út. Og fyrir utan að hann fékk svo bæði lán og launahækkun og launaða stöðu framkvæmdastjóra eftir kosningu og náði þannig umtalsverðum upphæðum frá félaginu inn á eigin reikning.

Auðvitað ekki „fyrir utan“ neitt af þessu.. þetta er alveg með ólíkindum.

En punkturinn með þessari færslu er smölunin og hversu galin þessi hugsun er að það sé ekkert óeðlilegt við hana. Þetta eru samtök neytenda og þeir sem hafa verið meðlimir, greitt sín árgjöld og tekið þátt í starfi samtakanna kjósa sér formann, formann sem er fulltrúi viðkomandi félaga og andlit þeirra út á við í þessu starfi. Þess vegna er það fullkomlega fráleitt að fólk sem hefur ekki verið meðlimir, ekki tekið þátt og ekki greitt til samtakanna mæti upp úr þurru til að ákveða hver er fulltrúi félaganna.

Kannski er viðkomandi að spila einhvern leik þar sem hann telur að nægilegt sé að staglast á einhverri vitleysu nógu oft til að vitleysan teljist gott og gilt sjónarmið. Kannski hefur hann hvorki siðferðis- né sómatilfinningu. Kannski er hann einfaldlega ekkert sérstaklega greindur. Hvað veit ég? Jú, ég veit að smölun er fullkomlega óeðlileg við formannskjör í svona samtökum.

Ég vil reyndar að fara fram á það við formanninn að hann staðfesti að þessir aðilar hafi lagt inn á bankareikning hans fyrir fundinn með því að leggja fram staðfest bankayfirlit.

Ég verð að játa að ég varð alveg kjaftstopp þegar ég heyrði að Breiðablik hafi sagt Arnari Grétarssyni upp sem þjálfara karlaliðsins í knattspyrnu.

Nú skal setja þann fyrirvara að ég hef ekki innanbúðarupplýsingar, en svo langt sem ég veit og hef heyrt, þá var ekkert óvænt sem kom upp sem réttlætir þetta.

Þetta er því miður orðin allt of algeng aðferð í knattspyrnuheiminum, örvæntingarfull viðbrögð stjórnarmanna sem geta ekki unnið undir pressu og sjá ekki lengra fram í tímann en nokkra daga – hafa enga framtíðarsýn.

Hafi stjórnin ekki treyst Arnari til að stýra liðinu á þessu tímabili var rétti tíminn til að skipta um þjálfara eftir síðasta tímabil. En þegar þjálfari er endurráðinn þá á að þurfa meira til en tvo tapleiki til að ákvörðunin sé endurskoðuð.

Gott og vel, auðvitað getur komið upp sú staða að lítið sé annað til ráða en að skipta um þjálfara.. en það eru undantekningar, sem oftast má rekja til flumbrugangs við upphaflega ráðningu.

Ég vil ekki styðja svona hegðun og svona framkomu við starfsfólk. Ég hef sagt upp árskortinu og tek mér frí frá vellinum í sumar.

.. en „rasisti“ er hann

Posted: maí 8, 2017 in Umræða

Ég var eitthvað efins um daginn hvort það væri tímabært að nota hugtakið „fasisti“ um núverandi forseta Bandaríkjanna.

En ég er ekki í nokkrum vafa um að það er rétt – og skylt – að kalla hann „rasista“. Okkur vantar eiginlega gott íslenskt orð yfir þetta hugtak, „kynþáttafordómar“ gefa til kynna að orðið nái eingöngu yfir fordóma vegna kynþáttar. Reyndar er „racism“ að hluta til þannig líka.

Látum orðhengilshátt liggja á milli hluta.. það er fínt að ganga út frá skilgreiningu Evrópuráðsins ECRI-7

“racism” shall mean the belief that a ground such as race, colour, language, religion, nationality or national or ethnic origin justifies contempt for a person or a group of persons, or the notion of superiority of a person or a group of persons.

Það þarf ekkert að deila um að forsetinn hefur reynt að mismuna fólki á þessa vegu og að hann hefur sýnt fólki fyrirlitningu á þessum forsendum. Þrátt fyrir að hann hafi reynt að draga í land og jafnvel breiða yfir sum atriðin.

Nokkur dæmi sem nægja mér amk.:

  • Hann vill banna fólki af ákveðnu þjóðerni að koma til Bandaríkjanna, segir það reyndar byggt á trú viðkomandi, en lætur það eingöngu bitna á fólki frá ákveðnum löndum og gerir engar athugasemdir við að fólk sömu trúar frá öðrum löndum komi til landsins.
  • Hann á setningarnar „Black guys counting my money! I hate it“ og „I think that’s guy’s lazy. And it’s probably not his fault because laziness is a trait in blacks.“.. Þetta var haft eftir honum og hann staðfesti upphaflega að hafa sagt þetta, þó hann hafi reynt að draga það til baka eftir að hann fór í pólitík.
  • Um Mexíkóa sagði hann „We get the killlers, drugs & crime, they get the money!“ Já, hann segir reyndar að þetta eigi bara þá Mexíkóa sem koma til Bandaríkjanna en þetta eru samt fordómar byggðir á þjóðerni.
  • „Sadly, the overwhelming amount of violent crime in our major cities is committed by blacks and hispanics-a tough subject-must be discussed.“

Háir vextir og króna, spurning..

Posted: maí 4, 2017 in Umræða, Vextir
Efnisorð:,

Ég fæ víst seint nóbelsverðlaunin í hagfræði, enda allt of mikið í því að velta upp „heimskulegum spurningum“ þegar kemur að efnahagsmálum.

Eitt sem er stöðugt haldið fram er að vegna þess að krónan sé ónýt sem gjaldmiðill þá sé ekki hægt að hafa lægri vexti. Getur einhver útskýrt fyrir mér hvers vegna?

Jú, óverðtryggð lán þurfa væntanlega ákveðið svigrúm vegna mögulegra verðlagsbreytinga.. en hvers vegna þurfa verðtryggð lán að vera með hærri vöxtum en 0,5%-1,0%? Verðtryggð króna er jafn stöðug og hvaða gjaldmiðill sem er, eða hvað??

En, smá fyrirvarar, ég hallast að því að taka við tökum aðild að ESB alvarlega og upptöku Evru… án þess að vera fullkomlega sannfærður og er auðvitað tilbúinn að taka rökum (eins og alltaf).