Smölun

Posted: maí 27, 2017 in Spjall, Umræða
Efnisorð:

„ekkert óeðlilegt við smölun“ er haft eftir formanni samtaka sem smalaði liði til að skrá sig í samtökin og kjósa hann sjálfan sem formann.

Fyrir utan það að viðkomandi „sauðir“ virðast ekki hafa haft getu til að borga félagsgjaldið sjálfir og eingöngu ráðið við þá aðgerð að leggja inn hjá viðkomandi formannsefni. Og fyrir utan það að þeir skráðu sig eftir að tilskilinn frestur var runninn út. Og fyrir utan að hann fékk svo bæði lán og launahækkun og launaða stöðu framkvæmdastjóra eftir kosningu og náði þannig umtalsverðum upphæðum frá félaginu inn á eigin reikning.

Auðvitað ekki „fyrir utan“ neitt af þessu.. þetta er alveg með ólíkindum.

En punkturinn með þessari færslu er smölunin og hversu galin þessi hugsun er að það sé ekkert óeðlilegt við hana. Þetta eru samtök neytenda og þeir sem hafa verið meðlimir, greitt sín árgjöld og tekið þátt í starfi samtakanna kjósa sér formann, formann sem er fulltrúi viðkomandi félaga og andlit þeirra út á við í þessu starfi. Þess vegna er það fullkomlega fráleitt að fólk sem hefur ekki verið meðlimir, ekki tekið þátt og ekki greitt til samtakanna mæti upp úr þurru til að ákveða hver er fulltrúi félaganna.

Kannski er viðkomandi að spila einhvern leik þar sem hann telur að nægilegt sé að staglast á einhverri vitleysu nógu oft til að vitleysan teljist gott og gilt sjónarmið. Kannski hefur hann hvorki siðferðis- né sómatilfinningu. Kannski er hann einfaldlega ekkert sérstaklega greindur. Hvað veit ég? Jú, ég veit að smölun er fullkomlega óeðlileg við formannskjör í svona samtökum.

Ég vil reyndar að fara fram á það við formanninn að hann staðfesti að þessir aðilar hafi lagt inn á bankareikning hans fyrir fundinn með því að leggja fram staðfest bankayfirlit.

Lokað er á athugasemdir.