Sarpur fyrir ágúst, 2013

Alvöru nudd á Seltjarnarnesinu

Posted: ágúst 31, 2013 in Spjall

Frekar rólegur dagur, byrjaði í nuddi hjá Öggu Hrönn í Sundlauginni á Seltjarnarnesi.. og það var sko ekkert hálfkák heldur hressilega tekið á því – alvöru nudd, eitt það albesta og hef ég þó farið víða. Kíkti aðeins á frekar leiðinkega seinni hluta leikjanna í ensku deildinni á English Pub, ætlaði að líta við á Hamraborgarhátíðinni, en annað hvort stóð hún stutt, eða var frekar fámenn.

Píratar og brauð

Posted: ágúst 25, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Ég setti nýlega inn færslu þar sem ég spurði Pírata um hvernig þeir vildu nálgast höfundarréttarmál. Það spruttu talsverðar umræður af þessu… fóru að hluta til út um víðan völl en ég held að ég sé einhverju nær.. kannski meira sammála þeim en ég átti von á fyrirfram – og veit að minnsta kosti meira um hvar ég er þeim ósammála. Aðallega sakna ég þó að fá ekki skýrari tillögur.. margar eru vel meintar en til þess að gera óljósar. Jú, og málið er vissulega flókið og umræðan er af hinu góða.

En mig dreymdi í framhaldi langrar umræðu.. Baldur bakari að spjalla við talsmann Pírata, Pétur. Ég veit að þetta á ekki nákvæmlega við um höfundarrétt, en…

Baldur: Ertu sem sagt að segja að það sé í góðu lagi að fólk steli brauði af mér? Tekur maður númer hér?

Pírati: Já, já, þú verður að gera þér grein fyrir að það er ekki hægt að koma í veg fyrir þetta. Þú þarft bara að fylgja straumnum leyfa fólki að taka þetta án þess að borga fyrir. Þannig græða allir.

Baldur: Ég gef stundum brauð og sýnishorn til að kynna bakaríið, en það þýðir ekki að allir megi taka brauð frá mér í leyfisleysi. Ég hlýt að mega ráða hvenær ég gef brauðið sem ég baka.

Pétur: Já, en það er bara vonlaust að fylgjast með þessu.

Baldur: Ertu að segja að þetta sé í lagi bara af því að það er erfitt að koma í veg fyrir þetta?

Pétur: Mér finnst allt í lagi að fólk taki brauð frá þér ef það er ekki í fjárhagsskyni?

Baldur: Er það ekki í fjárhagsskyni að taka brauð og sleppa því að borga??

Pétur: Sjáðu til, ef einhver stelur brauði frá þér þá eru hann að efna til viðskipta með brauðið þitt og…

Baldur: Ég er ekki viss um að ég kalli það viðskipti ef ég fæ ekkert fyrir. Ég er eiginlega viss um að ég kalla það ekki viðskipti.

Pétur: og þú verður svo vinsæll og brauðið þitt svo eftirsótt að þú græðir á endanum.

Baldur: Bíddu, myndi ég ekki græða meira ef fólk sem vill borða brauðið mitt myndi einfaldlega borga fyrir það? Er allt þetta fólk á undan mér?

Pétur: Nei, nei, oftast er þetta fólk sem myndi hvort sem er ekki kaupa brauð af þér. Þú myndir örugglega henda þessu hvort sem er.

Baldur: Ef fólk vill ekki borga fyrir þetta, hvers vegna er það að taka?

Pétur: Og svo eru nú mörg dæmi um stórfyrirtæki sem ráða til sín bakara á lúsarlaunum og stórgræða.

Baldur: Hvernig réttlætir það að stela af mér? Ég er enn að ekki að skilja hvernig ég á að lifa af þessu.

Pétur: Jú, jú, sjáðu til öll tölfræði segir að eftir að fólk fór að ná sér í ókeypis brauð þá hafi sala á brauði aukist.

Baldur: Já, en ekki hjá mér… bara ódýru brauðin í stórmörkuðunum og þeir sem baka lítil og einföld brauð úr lélegu hráefni. Neysla á brauði hefur aukist með breyttum neysluháttum. Veit nokkur hvað þetta er löng bið?

Pétur: Nei, nei, þú misskilur, það er búið að sýna fram á að þeir sem stela brauði þeir koma líka við hjá þér.

Baldur: Ég veit að þeir líta við, þeir kaupa bara ekki neitt… þeir skoða bara hvað ég er að baka.

Pétur: Það má alveg gera ráð fyrir að þeir kaupi.

Baldur: Hvernig færðu það út? Svo eru menn sem stela frá mér í stórum stíl og gefa öðrum.

Pétur: Já, já, þetta er allt gert fyrir þig svo þú verðir vinsæll.

Baldur: Mig langar ekkert sérstaklega til að verða vinsæll, ég vil bara geta lifað af því að baka góð brauð.

Pétur: Já, en heimurinn er bara ekki svona í dag.. nú fá allir frítt brauð sem vilja. Þú verður frægur og getur til dæmis farið að kenna fólki að baka brauð og grætt milljónir þannig.

Baldur: Mig langar ekkert að kenna. Ég er hræðilegur kennari og það er það leiðinlegasta sem ég geri. Ég vil baka brauð.

Pétur: Já, en sjáðu bara bakarann í Perufirði, hann er orðinn moldríkur af að kenna fólki að baka.

Baldur: Já, þetta hentar sumum, aðallega þeim sem kunna að auglýsa sig. Frændi minn var með bakarí í litlu þorpi og þegar enginn vildi kaupa brauðið fór hann að kenna. Það gekk ágætlega í byrjun. En svo vildi fólk fara að fá kennsluna ókeypis líka. Hann er á atvinnuleysisbótum í dag.

Pétur: Hvaða vitleysa, líttu bara á tölurnar, það selst miklu meira af brauði en áður.

Baldur: Já, en ekki mínu. Bara fjöldaframleiddu brauði úr lélegu hráefni.

Pétur: Þú verður bara að nýta þér breytt umhverfi.

Baldur: Ætli það sé ekki einfaldara að skrá sig atvinnulausan. Ég kom einmitt hingað til þess. Já ég er númer níutíu og átta.

Pétur: Þetta er nú óþarfa svartsýni.. þú verður að skilja að einkaréttur og jafnvel eignaréttur eru bara úrelt fyrirbæri. Hey, bíddu, skilaðu tölvunni MINNI!

Fræbbblar á Menningarnótt

Posted: ágúst 22, 2013 in Tónlist
Efnisorð:, ,

Við Fræbbblar tökum þátt í Menningarnótt á Dillon eins og í fyrra.. byrjum að spila hálf fjögur og spilum í hálftíma – Arnór verður reyndar fjarverandi að þessu sinni.

Fyrir áhugasama… þá höfum við Fræbbblar verið að gæla við þá hugmynd að spila plötuna „Viltu nammi væna?“ í heilu lagi á hljómleikum. Staður og stund ekki klár, en væntanlega í vetur, mögulega tengt útgáfu á nýrri plötu.

Við gerum okkur ekki almennilega grein fyrir því hvort það er einhver áhugi eða ekki.

Þannig að áður en við leggjum í vinnu við að æfa og undirbúa þá væri vel þegið að fá einhverja tilfinningu fyrir hvort það er einhver raunverulegur áhugi á þessu.

Facebook „like“ eða athugasemdir við „blogg“ telja eiginlega ekki nægilega mikið.

Þess vegna langar okkur að biðja þá sem raunverulega hafa áhuga á að kaupa nýja lagið okkar, My Perfect Seven, annað hvort á GogoYoko eða tonlist.is. Lagið kostar litlar 100 krónur hjá en á að kosta 120 hjá „tonlist.is“ en er þar í meiri gæðum (við erum reyndar að bíða eftir minni háttar leiðréttingu þar).

Þá má líka veita laginu gengi á vinsældarlista Rásar 2 www.ruv.is/topp30.

En hvað Píratar?

Posted: ágúst 16, 2013 in Tónlist, Umræða
Efnisorð:,

Umræða um höfundarrétt og ólöglega dreifingu efnis er orðin ansi ruglingsleg.

Fyrr í vikunni birtist grein í Fréttablaðinu (muni ég rétt) sem var eflaust vel meint til varnar þeim sem eiga efni sem verið er að dreifa ólöglega. Greinin var því miður ruglingsleg og talsvert af misskilningi og jafnvel rangfærslum.. sem gerði þeim hálfgerðan bjarnargreiða sem ætlunin var væntanlega að styðja.

Talsmaður Pírata svaraði svo eitthvað á þeim nótum að þeir væru ekki bófaflokkur og það þyrfti að ræða málið. Ágætt svar, en kannski frekar efnislítið.

Ég hef rætt þetta og skrifast á við marga Pírata og aðra sem áhuga hafa – og satt best að segja fengið lítið um nothæf svör – langlokur um sögulega hluti sem leysa ekkert og svara engu, sumir tala um að ólögleg dreifing sé nú bara allt í lagi og aðrir hafa hugmyndir sem eru kannski ágætar út af fyrir sig (eins og að stytta tíma eftir lát höfundar).. en breyta engu um eðli málsins.

Þannig að mig langar að ítreka spurningu til Pírata.. og fara fram á skýr svör, í texta, ekki á YouTube, ekki með tilvísun í YouTube efni eða greinar eða hugmyndir annarra. Heldur ykkar eigin svör í læsilegum texta, ef ég má vera svo frekur.

1. Finnst ykkur í lagi að dreifa efni í óþökk höfundar?

(já, ég veit að sumir njóta þess að efni er dreift og já ég veit að það er erfitt að stöðva þetta, en það er ekki spurningin, heldur hvort ykkur finnist þetta í lagi?)

2. Finnst ykkur í lagi að sækja efni sem boðið er upp á ókeypis í óþökk höfundar?

Ég veit að þið hafið talað um að það þurfi að ræða þetta og finna lausnir. Sem er gott, en þið hljótið að hafa einhverjar hugmyndir. Nafnið Píratar vísar (amk. sögulega, ef ég hef skilið rétt) í að vera á móti löggjöf („anti piracy) sem var umdeild, þannig að ef ég skil rétt eruð þið „anti – anti – Piracy“.

Það er í góðu lagi að vera á móti.. en það kostar líka kröfu (frá mér amk.) um að koma með betri hugmyndir.

Hverjar eru ykkur hugmyndir? Ekki niðurnegldar, heldur til umræðu. Í hvað vísar Pírata nafnið?

PS. Og að fenginni reynslu verð ég að ítreka ósk um skýr svör og ekki einhverju spjalli út um víðan völl

Blikinn Konni kvaddur

Posted: ágúst 15, 2013 in Fótbolti
Efnisorð:, , ,

Konráð Kristinsson er í margra hugum ímynd Blikans, þeas. stuðningsmanns Breiðabliks.

Konni, eins og hann var kallaður, lést fyrir nokkrum dögum 93 ára að aldri, og náði því að sjá félagið tryggja sér langþráða bikarmeistara- og Íslandsmeistaratitla í karlaflokki. Ég fer varla á völlinn án þess að verða hugsað til Konna, nú síðast þegar ég fylgdist með frábærri frammistöðu liðsins í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Ég kynntist Konna þegar ég vann fyrir meistaraflokk fyrir um tuttugu árum. Þá var hann liðsstjóri hjá meistaraflokknum, sá um búninga og að hafa alla hluti klára í leikjum og á æfingum. Mikilvægt starf en nánast ósýnilegt öðrum en leikmönnum, þjálfurum og þeim sem unnu fyrir liðið. Konni var alltaf með allt sitt á hreinu, lagði á sig ómælda vinnu við að hafa allt klárt og til staðar þegar á þurfti að halda.

Ég man samt best eftir Konna þegar við fórum með liðinu í æfingaferð til Danmerkur 1994, við deildum þá litlum kofa og það var bæði gaman og fróðlegt að spjalla við Konna eftir æfingar.

 

En lesbíur í biblíunni?

Posted: ágúst 12, 2013 in Trú, Umræða
Efnisorð:, ,

Þetta endalausa röfl um að samkynhneigð sé synd vegna þess að það standi í biblíunni er auðvitað með ólíkindum og ætti ekki að heyrast lengur.

Á sama hátt og það að borða skelfisk, kjöt af dýrum sem slátrað var fyrir meira en þremur dögum, ganga í klæðnaði úr fleiri en einu efni, lífláta börn fyrir að bölva foreldrum, ekki megi raka höfuð, umskurð og ég veit ekki hvað… bendi á skemmtilega samantekt hér TOPP 20: HLUTIR SEM ERU BANNAÐIR Í BIBLÍUNNI.

Ég þekki ekki marga sem taka mikið mark á þessum boðskap. Engan satt að segja.

En þegar kemur að samkynhneigð þá er allt í einu nauðsynlegt að taka texta biblíunnar og fara eftir upp á staf.

Það sem vefst hins vegar fyrir mér á hvaða forsendum fordæma lesbíur? Ég veit ekki til að það standi neitt til eða frá um þeirra hegðun í bókinni. Varla er bókstafstrúarfólkið farið að túlka textann eftir eigin höfði. Það er auðvitað engin bókstafstrú…

Þannig að ég spyr ykkur „kæru“ útbreiðendur mannfyrirlitningar í nafni texta úr ævafornum ritum gyðinga… á hvaða forsendum fordæmið þið samkynhneigðar konur?

PS. kannski finnst þetta, en það væri þá fróðlegt að sjá hvar það er… ég fæ ekki betur séð en að helstu biblíu spekingum vefjist tunga um tönn.

Trúarhátíðin

Posted: ágúst 9, 2013 in Trú, Umræða

Í næsta mánuði verður trúarhátíðin  __________ haldin í _____________. Að samkomunni standa (A) _________ og aðalræðumaður er ___________ sem vakið hefur athygli fyrir afdráttarlausar skoðanir sínar gegn réttindum (B) __________ sem hann rökstyður með tilvitnum í (C) __________

A

  1. Þjóðkirkjan og einhver undarlegur sértrúarsöfnuður frá Bandaríkjunum
  2. Félag múslima á Íslandi og einhver undarlegur söfnuður frá Sómalíu

B

  1. kvenna
  2. samkynhneigðra

  1. kóraninn
  2. biblíuna

Fyllist út eftir þörfum…

Flott Blikalið

Posted: ágúst 9, 2013 in Fótbolti

Svona þegar svekkelsið yfir að tapa í vítakeppni í forkeppni Evrópudeildarinnar er aðeins farið að minnka..

Þá er allt í lagi að hafa í huga hversu vel liðið hefur staðið sig í Evrópukeppninni í sumar. Öruggur sigur í fyrstu umferð á liði frá Andorra, gamla stórveldið Sturm Graz lagt í annarri umferð og sigur heima á Aktope frá Kasakstan. Tæpt víti í fyrri leiknum kom gestunum í vítakeppnina sem gekk svo engan veginn nógu vel.

En liðið er firnasterkt og á (vonandi) eftir að standa uppi sem Íslandsmeistari í haust… það er að minnsta kosti allt til staðar sem þarf til að vinna Íslandsmótið, flottur hópur, frábær þjálfari og fín stemming hjá stuðningsmönnum.

Kannski er frábær árangur Blika, mjög góður árangur FH og ágæt frammistaða bæði KR og ÍBV til marks um að íslenski boltinn hafi tekið miklum framförum. Það eru örfá á síðan þetta sama lið frá Kasakstan vann FH 6-0.

Verðtryggð lán lækka

Posted: ágúst 6, 2013 in Umræða, Verðtrygging
Efnisorð:

Ég velti fyrir mér hvort þeir sem býsnast hafi yfir verðtryggingunni, talið henni allt til foráttu og kallað þá öllum illum nöfnum sem voga sér að benda á að hún er ekki okkar raunverulega vandamál… hafi tekið eftir lækkun vísitölunnar í júlí.

Auðvitað er þetta ekki mikil lækkun, 411,5 í 411,3 stig. Og auðvitað ganga hækkanir fyrri ára ekki til baka á einum mánuði. Og hún hækkar aftur í ágúst.

En þetta gæti orðið til þess að auka skilning á eðli verðtryggingarinnar.

Og sérstaklega ef þetta gæri orðið til þess að fleiri skilji að verðtryggingin er ekki okkar stærsta vandamál í (td.) húsnæðismálum, stærsta vandamálið eru háir vextir…