Sarpur fyrir desember, 2017

Ég velti því fyrir mér hvort kjararáð hafi einhverjar upplýsingar um að tekjur ríkissjóðs vegna jarða sem ríkissjóður tók yfir frá kirkjunni hafi aukist verulega á þessu ári (nú eða kostnaður minnkað)??

Talsmenn kirkjunnar, amk. þeirrar sem er rekin af almannafé, hafa löngum haldið því fram – reyndar út í bláinn, svo því sé haldið til haga – að yfirtaka ríkisins á jörðum, sem kirkjan réði yfir, standi undir launum presta.

Þessi fullyrðing er út í bláinn vegna þess að það getur enginn svarað því hvert verðmæti þessara jarða er, hvaða tekjur ríkissjóður hefur af þessum jörðum eða hvaða kostnað ríkissjóður ber vegna þeirra. Það getur enginn staðfest hvernig kirkjan á að hafa eignast þessar jarðir og það getur enginn sagt hvenær kirkjan á að hafa eignast þessar jarðir. Það getur nefnilega enginn svarað því til hvaða jarðir þetta eru.

Það liggur nefnilega í hlutarins eðli að ef þessar jarðir eiga að standa undir launum presta þá hlýtur það að vera forsenda launahækkunar að jarðirnar skili meiri tekjum.

Hrun – grýlan

Posted: desember 16, 2017 in Umræða
Efnisorð:

Það er varla svo að ég hlusti á fréttatíma án þess að verið sé að gefa í skyn að við stefnum að öðru hruni. Alls kyns fréttir, nú síðast um borðplötur, og umræður um miklar eignir eiga að finna líkingu við tímana fyrir hrun. Og gefa þannig í skyn að við getum átt von á öðru hruni.

Er þetta ekki svolítið eins og að reyna að spá fyrir úrslitum fótboltaleikja út frá veðrinu?

Svo langt sem ég man, þá varð hér hrun vegna innihaldslaus vaxtar bankakerfisins, útrásar þar sem peningum var dælt í íslensku bankana, meðal annars vegna loforða sem engin leið var að standa við… eflaust hjálpaði ekki tilfærsla eigna úr bönkunum. En er eitthvað líkt þessu í gangi? Og ef ekki, er einhver ástæða til að óttast sérstaklega að komið sé að næsta hruni?

Ég er amk. orðinn svo gamall að ég hef oft séð efnahagslegan uppgang án þess að honum fylgi hrun.

Auðvitað er ég enginn hagfræðingur og auðvitað getur vel verið að næsta hrun sé handan við hornið… en ég er ekki að kaupa að þessar upplýsingar bendi til þess.

Gervigreind

Posted: desember 7, 2017 in Spjall, Umræða

Síminn minn vakti mig, hálftíma fyrir pantaða „vakningu“, með því að byrja að spjalla.. benda mér á að það væri heiðskýrt og kjörið að fara í „lautarferð“ (picnic).

Ég var kannski ekki alveg á því í 5 gráðu frosti sem samvarar 12 gráðum með vindkælingu. Hefði jafnvel ekki verið spenntur þó það væri ekki vinnudagur.

Ég ætla manna síðastur að gera lítið úr þeim óþrjótandi möguleikum sem tæknin býður upp á, en að gervigreind sé að fara verða til þess að tækin taki yfir… æ, ég held að við eigum eitthvað í land með að fara að óttast það fyrir alvöru.

Gott og vel, auðvitað á maður ekki að draga of stórar ályktanir út frá einu tilfelli, en þetta á að vera nokkuð „vel til slípað“ og mjög vel prófað forrit.