Ég velti því fyrir mér hvort kjararáð hafi einhverjar upplýsingar um að tekjur ríkissjóðs vegna jarða sem ríkissjóður tók yfir frá kirkjunni hafi aukist verulega á þessu ári (nú eða kostnaður minnkað)??
Talsmenn kirkjunnar, amk. þeirrar sem er rekin af almannafé, hafa löngum haldið því fram – reyndar út í bláinn, svo því sé haldið til haga – að yfirtaka ríkisins á jörðum, sem kirkjan réði yfir, standi undir launum presta.
Þessi fullyrðing er út í bláinn vegna þess að það getur enginn svarað því hvert verðmæti þessara jarða er, hvaða tekjur ríkissjóður hefur af þessum jörðum eða hvaða kostnað ríkissjóður ber vegna þeirra. Það getur enginn staðfest hvernig kirkjan á að hafa eignast þessar jarðir og það getur enginn sagt hvenær kirkjan á að hafa eignast þessar jarðir. Það getur nefnilega enginn svarað því til hvaða jarðir þetta eru.
Það liggur nefnilega í hlutarins eðli að ef þessar jarðir eiga að standa undir launum presta þá hlýtur það að vera forsenda launahækkunar að jarðirnar skili meiri tekjum.