Sarpur fyrir nóvember, 2015

Græni hatturinn

Posted: nóvember 7, 2015 in Umræða

Við Fræbbblar fórum norður um helgina og spiluðum á Græna hattinum. Við höfum verið lengi á leiðinni að spila þarna, nokkrum sinnum tekið frá kvöld, en einhvern veginn aldrei gengið upp.

En mikið rosalega var gaman að spila þarna, öll aðstaða og allar græjur til fyrirmyndar og ekki verra að vinna með fyrsta flokks hljóðmanni. Frábært hjá Hauki – og öllum á Græna hattinum – að halda þessum stað gangandi, það er nákvæmlega svona staður sem mér finnst gaman að spila… ekki of stór, en nógu stór, allt til alls, og góður „andi“ [í merkingunni auðvelt að ná fram góðri stemmingu].

En þar fyrir utan var þetta ógleymanlegt kvöld… Helgi og hljóðfæraleikararnir hófu leik, stórskemmtileg hljómsveit.. og okkur gekk, að ég held, alveg þokkalega vel. Við höfðum smá áhyggjur af Gumma, sem var sárlasinn, en hann sagði okkur að vera ekki með þetta væl fyrir hans hönd, settist við trommusettið og spilaði hátt í tvo tíma á fullu, með stuttri pásu. Spilamennskan gekk mjög vel, einhverjir minni háttar hnökrar í fáum lögum og tvö hefðu þolað að vera örlítið hraðari (og eitt örlítið hægara) en að mestu leyti mjög fín keyrsla og við skemmtum okkur að minnsta kosti mjög mjög vel, og að ég held einhverjir í salnum – svona vil ég hafa hljómleika!

Við Iðunn tókum svo bjór á Götubarnum eftir hljómleika með Díönu og Sigrúnu, en aðrir Fræbbblar fóru að sofa.. Gummi var útkeyrður, Helgi að verða veikur, Assi búinn að vera uppi á fjalli frá því snemma um morguninn.