Sarpur fyrir febrúar, 2021

Lækkun sóknargjalda, þriðja tilraun

Posted: febrúar 4, 2021 in Samfélag
Efnisorð:

Ég fékk aftur svar frá Fjármálaráðuneytinu vegna erindis míns um að fá skattgreiðslur lækkaðar vegna sóknargjalda. Ég sendi eftirfarandi sem þriðju tilraun.

Í svarinu kemur fram að engin ný gögn komi fram í seinna bréfi mínu. Það er vissulega rétt, enda er tilgangurinn ekki að koma með ný gögn heldur að benda á að ég fékk engin marktæk svör. Einnig, ef út í það er farið, þá koma engin ný gögn fram í svörum ráðuneytisins.

Í svarinu er tilvísun í lagatexta og síðan er dregin – að mér finnst – bæði undarleg og vafasöm ályktun og hún aftur studd með „þá má segja“.

Nú hef ég ekki próf í lögfræði en ég er samt nokkuð viss um að það að einhverjum finnist að það „megi segja eitthvað“ hefur ekki sérstaklega mikið lagalegt gildi, hvað þá að sú þokukennda hugmynd geti réttlætt brot á mannréttindum.

Ég á til að mynda erfitt með að ímynda mér að ef (svo ólíklega vildi til að) ég mældist keyra á hraða umfram hámarkshraða að ég gæti komið með hjá sektargreiðslu með því að halda því fram að „það megi segja“ að hámarkshraðinn sé annar en hann er. Eða hvað?

Er það virkilega afstaða ráðuneytisins að það að einhverjum finnist að það megi segja eitthvað sé nægjanlegt fyrir dómstólum? Jafnvel þó það sem „segja má“ stangist á við staðreyndir, sé hrein rökleysa og / eða komi málinu einfaldlega ekkert við.

Þá er einhver undarleg rökleysa, ef ekki ranghugmynd, jafnvel vanþekking, að minnsta kosti grundvallar misskilningur, að fyrst ekki sé hægt að tengja skattgreiðslur einstaklings við ákveðin útgjöld þá sé ekki hægt að veita lækkun á skattgreiðslum. Það er óumdeilt að útgjöld ríkissjóðs eru lægri vegna þess að ég er ekki skráður í lífsskoðunarfélag. Þess vegna er ekkert sem kemur í veg fyrir að hægt sé að lækka greiðslur mínar sem þessu nemur.

Að lokum er fjallað um mál Darby gegn sænska ríkinu. Sú umfjöllun staðfestir þann skilning minn að fyrirkomulag þessara greiðslna stangist á við mannréttindasáttmála Evrópu. Engu að síður er þessum texta svo fylgt eftir með þeirri fullyrðingu að ekkert bendi til þess að greiðslur ríkisins feli í sér brot! Sem er bókstaflega þvert á það sem sagt er í næstu setningum á undan.

Í lok bréfsins segir að málinu sé lokið af hálfu ráðuneytisins. Þessu máli lýkur ekki af minni hálfu fyrr en ég fæ viðunandi lausn. Eina spurningin er hvort ráðuneyti klári málið án frekar málalenginga eða þurfi að fá á sig dóm.