Sarpur fyrir apríl, 2013

Eitt kjördæmi

Posted: apríl 30, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Ég hef lengi talað fyrir því að landið verði eitt kjördæmi. Rökin fyrir því eru aðallega þau að mér finnst fráleitt að fólk sé kosið á þing eftir landssvæðum, til að vinna að löggjöf – og eins og staðan er hjá okkur – til að mynda ríkisstjórn. Ég hefði reyndar viljað sjá framkvæmdavaldið kosið sérstaklega, en það er önnur saga.

Við erum fámenn þjóð og við þurfum ekki þann hrepparíg sem fylgir kjördæmum og kjördæmapoti. Það eru einfaldlega allt of mörg dæmi þess að þingmenn styðji mál sem nýtast sínu „héraði“ en taki um leið vonda ákvörðun fyrir þjóðina í heild. Kannski finnst þeim þeir vera skuldbundnir þeim sem sendu þá á þing. Það eiga auðvitað allt önnur sjónarmið að ráða hverjir setjast á þing en hvaða landssvæði þingmenn tilheyra.

Á móti kemur að mér finnst sjálfsagt að færa vald meira „heima í hérað“ þannig að íbúar á hverjum stað hafi meira sín mál að segja en virðist í dag. Þannig get ég alveg verið hallur undir einhvers konar fylkja eða landshlutafyrirkomulag í stjórnsýslunni. Á móti kemur auðvitað að við erum tiltölulega fá…

Svo má ekki gleyma því að þetta er einfaldasta leiðin til að ná fullum jöfnuði þingsæta á milli flokka, reyndar ekki eina leiðin – svo því sé haldið til haga – það má gera með fleiri jöfnunarsætum og sérstaklega með jafnari fjölda þingsæta á milli kjördæma.

5% ruglan

Posted: apríl 29, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Það hafa verið einhverjar umræður um hvort 5% reglan í kosningakerfinu eigi rétt á sér eða ekki.

Svarið er einfaldlega kýrskýrt „nei“.

Eða ætlar einhver í alvöru að halda því fram að það sé eitthvert réttlæti í því að 2.430 kjósendur Framsóknarflokks fái sinn fulltrúa á þing á meðan 5.855 kjósendur Dögunar fá engan fulltrúa á þing?

Auðvitað er þetta óréttlát og ósanngjörn regla, sett inn á sínum tíma til að fækka smáflokkum og auðvelda stjórnarmyndum. Hún er sem sagt hugsuð af – og fyrir – stóra flokka á þingi. En ekki fyrir kjósendur. Þetta eitt og sér sýnir svo ekki verður um villst, að stjórnmálaflokkar og/eða þingmenn eiga ekki að vera að vasast í kerfinu sem ræður því hverjir ná inn á þing.

Á sama tíma var reyndar felld út regla um að framboð þyrfti að ná kjördæmakjörnum manni til að eiga rétt á jöfnunarsæti. Það var reyndar rétt að fella þá reglu út en að sama skapi fráleitt að setja þessa reglu. Það eru engin rök fyrir reglunni, það er ekkert sem segir að ekki megi úthluta þingsætum út frá fjölda atkvæða.

Þá kemur fjöldi jöfnunarmanna þessu heldur ekkert við, það er jú alltaf betra að hafa þá fleiri en færri, þá eru meiri líkur á að góður jöfnuður náist. En sá fjöldi hangir á misvægi atkvæða, ekki einhverri 5% reglu.

Einhver umræða hefur verið um að þessi regla hjálpi til að við ná jöfnuði þingflokka. Það er einfaldlega ekki rétt, hún skekkir þá úthlutun.

Það stefnir í að sigurinn í IceSave málinu verði okkur heldur betur dýrkeyptur þegar öll kurl koma grafar.

Vissulega var ég ánægður með að málið vannst… þrátt fyrir að ég mælti með að samþykkja hann á sínum tíma. Mér fannst áhættan einfaldlega ekki verjandi og málsstaður okkar engan veginn eins skotheldur og aðrir vildu meina. Samningurinn var fyrir mér ásættanlega niðurstaða samningaviðræðna þegar aðilar deila.

Málið vannst á tækniatriði sem hafði ekkert að gera með afstöðu þeirra sem börðust fyrir því að fella samninginn. Enginn hafði – amk. mér vitanlega – nefnt þessi rök í kosningabaráttunni. Og hafi einhver nefnt þetta var það að minnsta kosti ekki að ná til kjósenda.

En eftir stóð að málið vannst og sá flokkur sem barðist harðast gegn samningnum sópar að sér fylgi. Kjósendur virðast halda að þó málið hafi unnist hafi það eitthvað haft með afstöðu og rök flokksmanna að gera.

Og afleiðingin verður mögulega sú að ódýrar yfirlýsingar flokksmana í kosningabaráttunni laða kjósendur að flokknum. Kjósendur hugsa líklega eitthvað á þá leið að fyrst flokkurinn hafi haft rétt fyrir sér í IceSave – sem hann hafði ekki – þá hljóti honum að vera treystandi í efnahagsmálum.

Einhverjir kjósendur hafa tekið sönsum eftir því sem flokknum vefst oftar tunga um tönn við að skýra hvað hann  meinar í rauninni með kosningaloforðunum. Og markviss gagnrýni á hugmyndir flokksmanna hafa

En eftir stendur að allt of margir virðast ætla að kjósa flokkinn.

Þetta gæti á endanum kostað okkur meira en það sem við „spöruðum“ með IceSave. Pyrrhosar-sigur var þetta einhverju sinni kallað.

Ég breytti fyrirsögninni úr „Get ég kosið Lýðræðisvaktina?“ eftir að færslan hafði verið í loftinu í nokkra tíma og enginn hefur komið með rök sem sannfæra mig um annað. En það er auðvitað ekki kosið fyrr en á morgun.

Ég hef verið fylgjandi því að setja nýja stjórnarskrá frá því löngu fyrir hrun. Ekki bara vegna auðlindaákvæðis eða betra lýðræðis, þarna skiptir heildar endurskoðunin mestu.

Að mörgu leyti get ég tekið undir þau sjónarmið sem Lýðræðisvaktin setur fram. Þeir hafa verið einlægir í baráttu sinni fyrir nýrri stjórnarskrá, nokkuð sem ég met mikils.

En stefnan er á hinn bóginn full óljós, eða óskýr, fyrir minn smekk, „auka“, „rýmri“, „örva“ og „efla“ er allt góðra gjalda vert. En það vantar allt innihald. Hvernig á að fara að þessu? Á móti kemur að það er lítið hægt að setja út á flest þessi atriði.

Mig grunar jafnvel að margir frambjóðendur vaktarinnar séu mér sammála í nokkurra ára tuði um að verðtryggingin sé ekki vandamál, heldur vísitalan og háir vextir.. en þori varla að segja það almennilega upphátt af ótta við að missa kjósendur. Sumir frambjóðendur hafa tekið undir þetta.. en það er erfitt fyrir mig að komast fram hjá, „Rétta hlut heimilanna með því að færa niður höfuðstól verðtryggðra og gengistryggðra húsnæðislána með almennum aðgerðum“. Þetta er afleit stefna. Fyrir það fyrsta, hvers eiga þeir að gjalda sem ekki eru með verðtryggð eða gengistryggð lán? Í öðru lagi, hvernig á að fara að þessu? Hvað með lánveitendur, sem að stórum hluta eru lífeyrissjóðirnir?

Svo ber að nefna að ég kannski ekki alveg hlutlaust, því einn sonurinn, Viktor Orri, er í fjórða sæti í hinu Reykjavíkurkjördæminu og þó þar fari mjög öflugur (væntanlega) framtíðarþingmaður, þá liggur honum ekkert á – og ég kem hvort sem er seint til með að kjósa eftir vina- og/eða fjölskyldutengslum. Annar sonur, Andrés Helgi, er í framboði í Suðvesturkjördæmi en frekar neðarlega á lista. Þá er þarna mikið af fólki, eins og gengur, sem ég hef „tröllatrú“ á og á fullt erindi á þing – og svo auðvitað stöku dæmi um fólk sem ég tel ekkert erindi eiga á þing.

Það spillir nefnilega mikið fyrir að ofarlega á lista í mínu kjördæmi eru einstaklingar sem ég tel ekkert erindi eiga á  þing. Ekkert persónulegt, ég vil bara ekki „ráða þá tvil vinnu“ á Alþingi.

Oddviti listans í mínu kjördæmi virkaði ekki vel á mig við kynningu á framboði, mér fannst spyrjendur allt of oft koma að tómum kofum og til að kóróna frammistöðuna kom fullyrðing út í loftið á þá leið að álfyrirtæki væru karlafyrirtæki sem skiluðu engu til þjóðfélagsins.

Í öðru sæti er frambjóðandi sem ítrekað hefur farið með rangt mál að mínu viti og tekur ekkert mark á mótrökum eða upplýsingum sem ganga þvert á það sem hann heldur fram. Ekki bætir úr skák að viðkomandi hefur oftar en einu sinni gefið sér að þeir sem hafa aðrar skoðanir séu ekki alls kostar heilir á geði. Auðvitað kemur fyrir á bestu bæjum að fólk láti eitthvað ósmekklegt flakka í hita umræðunnar. En þá þarf viðkomandi bæði að vera tilbúinn til að biðjast afsökunar án undanbragða og helst ekki að vera sífellt að endurtaka leikinn. Þetta er afleitt hjá tilvonandi þingmanni, þeas. að geta ekki tekið rökum og geta ekki skoðað mál hlutlægt og geðvonskulaust.

Þetta er sem sagt ekkert persónulegt, ég þekki hvorugan að nokkru marki og báðir fá ágætis ummæli frá sameiginlegum kunningjum, þetta snýst um allt annað.

Auðvitað get ég strikað þá út sem ég treysti ekki, en dómgreindarskorturinn sem felst í því að setja viðkomandi ofarlega á lista fælir mig frá.

Á hinn bóginn þá eru ekki margir kostir eftir í stöðunni.

Eins og er þykir mér líklegast að Lýðræðisvakin fái mitt atkvæði, en fari svo kem ég til með að strika efstu tvo frambjóðendurna út. Þessi afstaða byggir á því að það er fátt sem mér mislíkar og einhverjar líkur eru til að vinna megi betur úr stefnu og áherslum, framboðið er jú nýtt, og kannski ekki mikill tími til að slípa alla hluti til.

Ég hef spjallað við fullt af vinum og kunningjum – og ég er ekki frá því að það sé þokkalegur samhljómur um hvernig flokk við myndum vilja kjósa í komandi alþingiskosningum – auðvitað með heiðarlegum undantekningum, aðallega hjá þeim sem starfa fyrir eða tilheyra öðrum framboðum.

Það er samt frekar skrýtið að þrátt fyrir fjórtán framboð í mínu kjördæmi þá er enginn valkostur sem virðist ganga upp – eiginlega ekki einu sinni nálægt því.

Hvað vil ég þá geta kosið?

Einhverjir myndu kalla þetta hægra megin við miðju og ofarlega á frjálslyndisskalanum, og hafa rétt fyrir sér að hluta, þeas. afskipti ríkisins takmörkuð og til þess að gera einfaldar almennar reglur. Miklu skiptir að atvinnulífið fái viðunandi skilyrði. Ríkið sinni fáum verkefnum en geri það vel. Almennar og einfaldar leikreglur fyrir fyrirtæki þar sem ábyrgð fylgir frelsi, fyrirtæki standa jafnt að vígi og vinatengsl skipta ekki máli. Draumórar? Getur verið, en ekki verri en hverjir aðrir.

Ég vil sjá nýja stjórnarskrá, breytt kvótakerfi, ekki vil ég ríkiskirkju, mér finnst fráleitt að afskrifa Evrópusambandið án þess að fá að vita hvað er í boði – og ég kaupi ekki töfralausnir í efnahagsmálum.

Þá vil ég sjá einstaklinga sem geta tekið þátt í málefnalegri umræðu, tekið mótrökum og skipt um skoðun ef svo ber undir. Og taka aldrei þátt í málþófi, útúrsnúningum eða skipa sér í lið með afstöðu sinni. Kannski ætti þetta að heita Skynsemisflokkur??

Mér finnst ég ekki einu sinni biðja um mikið…

Besta kosningataktíkin?

Posted: apríl 25, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Það er oft talað um að kjósa taktískt. Oftast er þá átt við að „nýta“ atkvæði sitt með því að kjósa einhvern þeirra flokka sem eru líklegir til að ná 5% markinu sem þarf til að ná jöfnunarmanni á þing … svona eins langt og skoðanakannanir ná.

Ef marka má skoðanakannanir þá eru Dögun og Lýðræðisvaktin nokkuð undir 5% markinu eða nær 3%. Þetta er reyndar ekki svo mikið þegar fjöldi óákveðinni er hafður í huga.

Það er rétt að ítreka, í ljósi athugasemda, að þessi færsla fjallar eingöngu um úthlutun jöfnunarsæta. Sérstök dreifing atkvæða í einu kjördæmi getur auðvitað orðið til að flokkur nái manni án 5% reglunnar.

Þetta þýðir að mesta „verðmætið“ fæst mögulega fyrir atkvæðið með því að kjósa annan hvorn þessara flokka, eða þess vegna einhvern sem mælist með enn minna fylgi. Ef atkvæði er greitt einhverjum þeirra sem líklegir eru til að ná 5%, þá hjálpar eitt atkvæði í mesta lagi við að bæta einum þingmanni við hjá viðkomandi flokki. En hvert atkvæði getur jafnvel komið þremur þingmönnum inn ef það verður til þess að koma framboði yfir 5% múrinn. Það er líka rétt að ítreka að þetta er bara líklegur möguleiki og ekki hægt að gefa sér neitt um fjölda þingmanna.

Þannig er atkvæði greidd þessum flokkum mögulega verðmætustu atkvæðin ef til tekst. En auðvitað, ef ekki, þá fellur það dautt. En þá má líka hafa í huga að það falla líka talsvert mörg atkvæði dauð af þeim sem greidd eru „stórum“ flokkum. Í síðustu kosningum fóru til dæmis 7.217 atkvæði „til spillis“ af sem greidd flokkum sem náðu manni á þing en 5.255 atkvæði voru greidd þeim sem ekki náðu inn á þing.

Það er rétt að ítreka að dreifing atkvæða á milli kjördæma getur skekkt þessa mynd, sérstaklega ef einn flokkur fær miklu fleiri kjördæmakjörna þingmenn en hann á „innistæðu“ fyrir á landsvísu.

Ég bendi í þessu samhengi á færslur frá Viktor Orra Að nýta atkvæðið sem best og Einar Steingrímssyni á Að koma í veg fyrir meirihluta B+D.

PS. Ég breytti upphaflegu heiti á færslunni úr „Besta kosningataktík stuðningsmanna Samfylkingarinnar“, þar sem þetta á ekkert endilega sérstaklega við þá – þó svo að hugmyndin hafi komið fyrst upp þannig. Og þegar öllu er á botninn hvolft mæli ég auðvitað með því að fólk kjósi eftir sannfæringu. Færslan er svona í aðra röndina hugsuð sem mótvægi gegn þessum gegndarlausa áróðri að fólk eigi ekki að kjósa smáflokka vegna 5% reglunnar – og beint til þeirra sem hafa hugsað sér að kjósa gegn sinni sannfæringu.

Það er oftast talað um það sem heilagan sannleik að það eigi að kjósa flokk eftir málefnum en ekki einstaklinga.

Og það er auðvitað rétt svo langt sem það nær.

Fyrir það fyrsta þá vitum við ekki fyrir kosningar nákvæmlega hvaða mál koma upp á komandi kjörtímabili. Þá er mikilvægt að hafa einstaklinga á þingi sem geta unnið rökrétt úr upplýsingum, skoða rök með og á móti, taka málefnalega afstöðu – og umfram allt, eru ekki á kafi í taka þátt í liðsskipun – alltaf með mínum og alltaf á móti hinum – eins og illa upp alin smábörn [með fullri virðingu fyrir illa upp öldum smábörnum, þannig séð]. Þessi í stað vil ég fólk sem getur skipt um skoðun þegar nýjar og betri upplýsingar koma fram.

Þá er heldur ekki ósennilegt að fólk sem hefur þessi eiginleika aðhyllist stefnu sem stenst skoðun og ég get verið sammála. Því hvað sem hægri / vinstri – frelsi / forsjárhyggju líður þá styð ég fyrst og fremst skynsemi.

Það hefur aðeins verið fjallað um athugasemdir við þá einstaklinga sem eru í framboði til þings. Gjarnan eru þetta kallaðar persónulegar árásir og afgreitt sem slíkt. Og, jú, stundum eru þetta bara innihaldslausar kjaftasögur til þess eins að gera lítið úr frambjóðanda.

En við skulum ekki gleyma því að það er allt í lagi að skoða og, ef tilefni er til, gagnrýna frambjóðendur, þá sem „sækja um vinnu“ á Alþingi. Þeir verða einfaldlega að þola að þeirra hegðun sé skoðuð og hvernig þeir vinna úr upplýsingum.

Á sínum tíma gat ég til dæmis ekki kosið Sjálfstæðisflokkinn, meðal annars vegna þess að Árni Johnsen var í framboði fyrir flokkinn. Hann hafði samkvæmt fréttum ítrekað beitt fólk ofbeldi og þannig einstaklingur átti ekki erindi á þing að mínu viti. Og flokkur sem hafði ekki rænu á að hafna slíkum einstaklingi gat ekki fengið mitt atkvæði. Árni hefur eflaust sína kosti, þó þeir séu mér ekki ljósir, en þetta var næg ástæða fyrir mig. Og já, ég veit að þetta er stífni og ég þyki mjög erfiður að þessu leyti. En eru þetta ekki fínar lágmarkskröfur?

Sama gildir sem sagt um frambjóðendur sem geta engan veginn unnið úr upplýsingum og tekið málefnalega afstöðu – eru, svo ég tali nú hreint út, með hausinn fullan af rugli. Jafnvel þó ég sé viðkomandi einstaklingum sammála að mörgu leyti þá get ég ekki kosið þá.

Útstrikanir eru ágætis tæki. Stundum fælir það mig frá því að kjósa flokk ef hann hefur sýnt skelfilegt dómgreindarleysi við val á frambjóðendum. Og það fælir mig líka frá því að kjósa flokk ef einstaklingur sem ég vil ekki inn á þing gæti náð sæti sem jöfnunarmaður, það er nefnilega ekki hægt að strika út einstaklinga í öðrum kjördæmum.

En… punkturinn er. Kjósum samt, en strikum út þá einstaklinga sem ekki eiga erindi á þing.