Ég reikna með að kjósa Lýðræðisvaktina

Posted: apríl 26, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Ég breytti fyrirsögninni úr „Get ég kosið Lýðræðisvaktina?“ eftir að færslan hafði verið í loftinu í nokkra tíma og enginn hefur komið með rök sem sannfæra mig um annað. En það er auðvitað ekki kosið fyrr en á morgun.

Ég hef verið fylgjandi því að setja nýja stjórnarskrá frá því löngu fyrir hrun. Ekki bara vegna auðlindaákvæðis eða betra lýðræðis, þarna skiptir heildar endurskoðunin mestu.

Að mörgu leyti get ég tekið undir þau sjónarmið sem Lýðræðisvaktin setur fram. Þeir hafa verið einlægir í baráttu sinni fyrir nýrri stjórnarskrá, nokkuð sem ég met mikils.

En stefnan er á hinn bóginn full óljós, eða óskýr, fyrir minn smekk, „auka“, „rýmri“, „örva“ og „efla“ er allt góðra gjalda vert. En það vantar allt innihald. Hvernig á að fara að þessu? Á móti kemur að það er lítið hægt að setja út á flest þessi atriði.

Mig grunar jafnvel að margir frambjóðendur vaktarinnar séu mér sammála í nokkurra ára tuði um að verðtryggingin sé ekki vandamál, heldur vísitalan og háir vextir.. en þori varla að segja það almennilega upphátt af ótta við að missa kjósendur. Sumir frambjóðendur hafa tekið undir þetta.. en það er erfitt fyrir mig að komast fram hjá, „Rétta hlut heimilanna með því að færa niður höfuðstól verðtryggðra og gengistryggðra húsnæðislána með almennum aðgerðum“. Þetta er afleit stefna. Fyrir það fyrsta, hvers eiga þeir að gjalda sem ekki eru með verðtryggð eða gengistryggð lán? Í öðru lagi, hvernig á að fara að þessu? Hvað með lánveitendur, sem að stórum hluta eru lífeyrissjóðirnir?

Svo ber að nefna að ég kannski ekki alveg hlutlaust, því einn sonurinn, Viktor Orri, er í fjórða sæti í hinu Reykjavíkurkjördæminu og þó þar fari mjög öflugur (væntanlega) framtíðarþingmaður, þá liggur honum ekkert á – og ég kem hvort sem er seint til með að kjósa eftir vina- og/eða fjölskyldutengslum. Annar sonur, Andrés Helgi, er í framboði í Suðvesturkjördæmi en frekar neðarlega á lista. Þá er þarna mikið af fólki, eins og gengur, sem ég hef „tröllatrú“ á og á fullt erindi á þing – og svo auðvitað stöku dæmi um fólk sem ég tel ekkert erindi eiga á þing.

Það spillir nefnilega mikið fyrir að ofarlega á lista í mínu kjördæmi eru einstaklingar sem ég tel ekkert erindi eiga á  þing. Ekkert persónulegt, ég vil bara ekki „ráða þá tvil vinnu“ á Alþingi.

Oddviti listans í mínu kjördæmi virkaði ekki vel á mig við kynningu á framboði, mér fannst spyrjendur allt of oft koma að tómum kofum og til að kóróna frammistöðuna kom fullyrðing út í loftið á þá leið að álfyrirtæki væru karlafyrirtæki sem skiluðu engu til þjóðfélagsins.

Í öðru sæti er frambjóðandi sem ítrekað hefur farið með rangt mál að mínu viti og tekur ekkert mark á mótrökum eða upplýsingum sem ganga þvert á það sem hann heldur fram. Ekki bætir úr skák að viðkomandi hefur oftar en einu sinni gefið sér að þeir sem hafa aðrar skoðanir séu ekki alls kostar heilir á geði. Auðvitað kemur fyrir á bestu bæjum að fólk láti eitthvað ósmekklegt flakka í hita umræðunnar. En þá þarf viðkomandi bæði að vera tilbúinn til að biðjast afsökunar án undanbragða og helst ekki að vera sífellt að endurtaka leikinn. Þetta er afleitt hjá tilvonandi þingmanni, þeas. að geta ekki tekið rökum og geta ekki skoðað mál hlutlægt og geðvonskulaust.

Þetta er sem sagt ekkert persónulegt, ég þekki hvorugan að nokkru marki og báðir fá ágætis ummæli frá sameiginlegum kunningjum, þetta snýst um allt annað.

Auðvitað get ég strikað þá út sem ég treysti ekki, en dómgreindarskorturinn sem felst í því að setja viðkomandi ofarlega á lista fælir mig frá.

Á hinn bóginn þá eru ekki margir kostir eftir í stöðunni.

Eins og er þykir mér líklegast að Lýðræðisvakin fái mitt atkvæði, en fari svo kem ég til með að strika efstu tvo frambjóðendurna út. Þessi afstaða byggir á því að það er fátt sem mér mislíkar og einhverjar líkur eru til að vinna megi betur úr stefnu og áherslum, framboðið er jú nýtt, og kannski ekki mikill tími til að slípa alla hluti til.

Lokað er á athugasemdir.