Sarpur fyrir október, 2020

Fyrir það fyrsta, nei, ég er ekki læknir og því síður sérmenntaður í sóttvörnum.. en ég er ekki að ná nokkurri glóru í málflutningi þeirra sem tala gegn sóttvörnum. Auðvitað er eðlilegt og sjálfsagt að ræða alla fleti og velta upp öllum (ja, mörgum) hugmyndum. En það er allt í lagi að gera lágmarkskröfur um að það sé einhver smá hugsun á bak við.

Nú virðist komin af stað umræða á þeim nótum annars vegar að það sé óþarfi að fylgja fyrirmælum um sóttvarnir á þeim forsendum að 99% þeirra sem sýkjast nái sér og hins vegar að það séu fyrst og fremst ákveðnir hópar sem eru í hættu.

Fyrir það fyrsta, sú fullyrðing að 99% nái sér, ekki veit ég hvaðan er komið.

Þá er gjarnan verið að rugla saman því að fólk lifi af annars vegar og nái sér hins vegar. Það eru allt of margir sem veikja illa og eru að glíma við afleiðingarnar mánuðum saman.

Hitt er að, 1% er kannski ekki hátt hlutfall svona ef við horfum á tölugildi, en það er helv.. hátt ef þú tilheyrir þessu eina prósenti.

Og.. hvaða máli skiptir þó þeir sem eru í áhættuhópi fari verr út úr veikindunum? Er það þá bara allt í lagi? Kannski ekki ef þú tilheyrir þessum hópi. Þar fyrir utan, þá eru mýmörg dæmi um fólk á besta aldri án undirliggjandi sjúkdóma sem hefur látist eftir að hafa veikst vegna Covid-19.

En það sem sérstaklega truflar enn frekar mig er þessi rökleysa með 1% og að það sé ekki mikið miðað við fjölda smita og veikinda, þetta séu fáir einstaklingar. Aftur, ekki svo fáir ef þú ert ein(n) þeirra. En skoðum enn frekar, segjum að það sé „ásættanlegt“ hlutfall {sem mér finnst sem sagt glórulaust svo því sé haldið til haga] á meðan smitin eru ekki fleiri, en hugsið aðeins!

Ef við slökum á sóttvörnum á þeim forsendum að þetta sé ásættanlegt, út frá fjöld smita í dag… hugsið aðeins! Ef slakað er á sóttvörnum og veiran fer á flug þá vísar 1% bara til nokkuð margar einstaklinga.

Skyldu viðkomandi hafa reiknað út afleiðingar þess að 3.600 manns veikist það illa að þau nái sér ekki? Fólk í heilbrigðisgeiranum. Eiga sjúkrahúsin einhverja möguleika á að sinna öllum þessum sjúklingum? Og þetta eru bara þeir sem ekki ná sér. Hvað með þann fjölga sem eru veikir dögum og vikum saman.

Eruð þið í alvöru búin að reikna hvað þetta kostar?

Eða er þetta bara innantómt hugsunarlaust gjamm út í loftið?

Grunn hugsunin finnst mér óverjandi mannfyrirlitning.

Rökin eru þar fyrir utan óhugnanlega heimskuleg.

Mér heyrist tal um laga- eða réttaróvissu sé orðin einhvers konar þungavigtar klisja í málflutningi þeirra sem vilja með öllu forðast að afgreiða nýja stjórnarskrá.

Það er auðvitað gott og gilt að þetta sé haft í huga í meðförum Alþingis og nauðsynlegar breytingar gerðar ef þurfa þykir.

En þetta er farið að hljóma eins og einhver allsherjar afsökun fyrir að sleppa því að, svo mikið sem, taka málið fyrir. Oftar en ekki á einhverjum dularfullum og óútskýrðum nótum.

Nú er ég ekki lögfræðimenntaður og ekki skal ég útiloka að einhver atriði megi betur fara.

En í hverju er þessi óvissa fólgin.. kannski gengur mér illa að leita, en ég finn afskaplega lítið haldbært um þetta. Þetta er aðallega á „ýmsir telja..“ og „sumir óttast..“ nótunum.

Stangast einhver lög á við nýja stjórnarskrá. Nú þá er ekkert að því að breyta viðkomandi lögum. Nú eða breyta stjórnarskránni ef þetta eru einhver tæknileg smáatriði.

Jú, „dómafordæmi“ eru stundum nefnd til sögunnar. Hvaða dómafordæmi? Það er enginn að tala um að stjórnarskrá eigi, frekar en lög, að vera afturvirk.

Stangast ákvæði hennar á forsendur dóma? Gott og vel, er það ekki einfaldlega verkefni dómstóla að leysa úr þessu í framtíðinni? Ég man ekki til að hafa heyrt um að ekki megi breyta lögum vegna dómafordæma…

Líkurnar á því að ekki náist að klára Íslandsmótin í fótbolta aukast stöðugt.

Nú eru reglurnar að hluta til skýrar um hvernig á að afgreiða mót sem ekki næst að klárast. Það vantar reyndar aðeins upp á hvernig á að greina á milli liða sem eru með jafnmörg stig.

Væntanlega er ekki í boði að breyta þeim héðan af.

Og auðvitað er kostur að hafa þær einfaldar.

En er ekki enn mikilvægara að hafa þær sanngjarnar?

Það er nefnilega þannig að liðin hafa mætt mis sterkum andstæðingum og eiga þannig mis erfiða leiki eftir. Auðvitað er ekkert hægt að fullyrða um hvernig „auðveldu“ leikirnir myndu fara. En er ekki ákveðin sanngirni í því að reikna endanlega stöðu út frá stigum og stigum andstæðinganna? Og það er líka ákveðin sanngirni í að skoða hvaða leikir eru eftir.

Tökum dæmi og höfum það einfalt. Segjum að það séu fáar umferðir eftir, þrjú lið berjast um titilinn, eitt þeirra er með 30 stig en hin tvö með 29 stig. Annað liðanna sem er með 29 stig hefur spilað báða leikina við hin, en liðið með 30 stig á eftir að mæta öðru liðanna sem er með 29 stig.

Fyrir mér hefur liðið sem hefur lokið innbyrðis leikjunum náð besta árangrinum og líkurnar mestar á að það lið myndi að lokum vinna mótið. Þetta lið ætti þess vegna að vera meistari.

Það er hægt að nota einfalda reiknireglu til að afgreiða þetta, en látum það bíða að sinni.