Sarpur fyrir ágúst, 2018

Facebook „frágangur“

Posted: ágúst 2, 2018 in Umræða

Það er ekki bara það að ég sé búinn að fá mig fullsaddan af því þegar fólk er að verja núverandi bandaríkjaforseta á Facebook… – eða, jú, það er eiginlega bara það.

Gott og vel, það má tína til einhverja mola þar sem hann hefur fengið á sig ósanngjarna gagnrýni eða meira gert úr smáatriðum en efni standa til.

En það telur einfaldlega ekkert á móti þeim aragrúa atriða þar sem hann hefur sannanlega sýnt af sér fáránlegan graut af mannfyrirlitningu, vanhæfni, þekkingarleysi, rasisma, fáfræði, getuleysi, svikum, lygum og hreinræktaðri heimsku – og ég er örugglega að gleyma einhverju.

Og ég get einfaldlega ekki verið að eltast við að svara þessu aftur og aftur og aftur – og einu sinni enn. Enda fullkomlega tilgangslaust – ef viðkomandi tæki rökum og gæti unnið úr upplýsingum þá væri viðkomandi ekki að eltast við að verja þennan gauk.

En það eru alltaf einhverjir sem ráða ekki við að vinna úr upplýsingum og heimildum – og fyrir einhverja sérstaka óheppni virðast margir þeirra haldnir ákveðinni þráhyggju og þurfa að rífast um allt og ekki neitt fram í rauðan dauðann.

Og eftir því þvættingurinn verður augljósari, rökin fáktæklegri og fleiri staðreyndir líta dagsins ljós – því dýpra grefur fólk sig ofan í þetta svarthol fávitaskapar – afsakið, ég kann ekki meira viðeigandi hugtak.

Gott og vel, fólk má haga sér eins og fávitar mín vegna.

En þegar kemur að Facebook þá er ég að ekki að nenna þessu. Mér finnst virkilega gaman að fylgjast með vinum kunningum og gömlum félögum. Og ég kann oftar en ekki að meta upplýsingar um áhugaverða viðburði. Það er líka fínt að sjá stöku brandara og flottar ljósmyndir.

En ég nenni ekki Facebook sem stað fyrir þvætting, heimsku og hatursáróður.

Ég tek mig stundum til og skoða alls kyns undarlegar vefsíður, fullyrðingar, bloggfærslur, fréttir, upplýsingar og skoðanir sem eru kannski ekki allra – oftar en ekki út úr kú – en bara forvitninnar vegna og til að gefa öðrum skoðunum tækifæri. En ég vil velja mér stað og stund, ekki láta drita þessu stanslaust og samhengislaust yfir mig.

Alveg eins og fólk má vera sóðar heima hjá sér en ég þarf ekki að láta bjóða mér að það gangi svona um heima hjá mér.

Þannig að ég ætla að losa mig við svokallaða Facebook vini sem hafa ekkert fram að færa en þvætting, heimsku og hatursáróður. Ef ég gleymi einhverjum, endilega verið svo væn að taka af skarið og fjarlægja mig af vinalistanum.