Sarpur fyrir september, 2017

Myglan, Kári og smá tilraun

Posted: september 5, 2017 in Umræða
Efnisorð:,

Kári Stefánsson segir í grein í Fréttablaðinu að það sé algjörlega ósannað að mygla í húsum hafi áhrif á heilsu fólks, líkir þessu við draugatrú og talar stórkarlalega um vaxandi „iðnað“ – án þess að nefna nokkuð máli sínu til stuðnings að því leitinu.

Nú má vel vera að tenging myglu við heilsufar sé ekki læknisfræðilega sönnuð. Kannski eru upplýsingar WHO lítils virði og þeim „hollast“ að fara í endurmenntun?

Sbr. „This document provides a comprehensive review of the scientific evidence on health problems associated with building moisture and biological agents.“  WHO Guidelines

Ég er auðvitað ekki læknir og hef engar læknisfræðilegar sannanir fyrir áhrifum myglu í húsum á heilsu. Ég hef séð marga veikjast illa við að vera í húsum með myglu en halda góðri heilsu annars staðar, en ég geri mér grein fyrir að ekki eru allir jafn viðkvæmir.

Fylgnin er samt nokkuð mikil og ekki hefur verið bent á aðrar skýringar. Þannig leyfi ég mér að gera ráð fyrir að talsverðar líkur séu á því að mygla í húsum hafi áhrif á heilsu fólks. Ekki sannað. En talsverðar líkur.

Mér dettur samt í hug hvort einföld tilraun gæti skýrt málið að einhverju leyti, annað hvort sýnt mér fram á að tölfræðin standist ekki skoðun eða þá sýnt Kára fram á að þarna eru sannanlega tengsl.

Ég veit til að margir einstaklingar þola illa að fara í húsnæði þar sem mygla er til staðar og finna fljótt fyrir miklum einkennum.

Væri ekki góð hugmynd að framkvæma smá tilraun þar sem farið er með nokkra þeirra í eitt húsnæði á viku, í einhverjar vikur Auðvitað má ekki fara með viðkomandi í þekkt hús (nema leyna húsinu) og auðvitað má sá sem fylgir viðkomandi ekki vita hvort greinst hefur mygla í hvaða húsi.

Það þarf að skilgreina fyrirfram hversu marga einstaklinga þarf að prófa, hversu mörg hús þarf að heimsækja og hversu mikil fylgni þarf að vera á milli einkenna til að þetta teljist staðfest eða fullkomlega ósannað.

En er þetta ekki nokkuð einfalt?

Það sem meira er, Kári segir að þetta sé óþekkt annars staðar í heiminum, ef rétt er og ef staðfest fylgni kemur í ljós – er þá ekki komið verulega áhugavert verkefni fyrir erfðafræðina?

Eina vandamálið við þessa tilraun er að þeir sem hafa slæma reynslu af myglu gætu verið tregir til að taka þátt – en kannski er það til þess vinnandi, ef það myndi staðfesta málið á annan hvorn veginn.

Ég hef oftar en einu sinni og oftar en tvisvar verið spurður að því hvers vegna ég taki ekki eitthvert fólk mér til fyrirmyndar og leggi þannig grunninn að því að ná góðum árangri.

Nú væri ég að skrökva ef ég þættist hafa eitthvað á móti því að hafa það aðeins betra fjárhagslega. En ég hef enga sérstaka þörf fyrir að verða stjarnfræðilega ríkur.

Ég er samt reglulega spurður hvers vegna ég taki ekki ríka fólkið, fræga fólkið, viðskiptajöfrana og/eða frumkvöðlana (einhverra hluta vegna alltaf karlar) mér til fyrirmyndar… í því skyni að ná árangri.

Fari að hlaupa reglulega, stunda jóga, hugleiða og hella mér út alls kyns lífsspeki og / eða sjálfshjálparnámskeið.

Mér vefst gjarnan tunga um tönn við að útskýra hvers vegna ég hef ekki nokkurn áhuga á þessu. Að hluta til vegna þess að ég get það ekki nema kannski að gera lítið úr áhuga viðkomandi viðmælanda. En kannski aðallega vegna þess að ég efast um að ég myndi mæta nokkrum skilningi.

Þannig að, kannski ég reyni hér, í góðu tómi.

Í fyrsta lagi, þá hef ég bara ekki nokkurn minnsta áhuga á að vera eins og einhver annar.

Í öðru lagi, þá virðast þeir sem gjarnan eru nefndir til sögunnar, (Steve Jobs?) sem góðar fyrirmyndir, ekki hafa verið neitt sérstaklega geðfelldir einstaklingar, jafnvel nánast drepið sig úr hreinni heimsku.

Í þriðja lagi þá virðast flestir þeir, sem nefndir eru til sögunnar, hafa náð árangri áður en þeir fóru að hella sér út í að fylgja hvers kyns „lífsstílsstílspeki“, mögulega margir hverjir orðið fórnarlömb loddara sem finna sér fórnarlömb í nýríkum (kannski ekki bara nýríkum) einstaklingum.

Í fjórða lagi, þá eru einmitt milljónir manna einmitt að eltast við að herma eftir því hvernig viðkomandi einstaklingar virðast vera á yfirborðinu, án þess að ná nokkrum árangri.

En aðallega, þá hef ég enga sérstaka þörf fyrir að hugleiða, mér finnst fullkomlega tilgangslaust að tæma hugann, ég hef enga eirð í mér að ganga eða hlaupa bara til að ganga eða hlaupa.

Það er allt í góðu mín vegna ef aðrir finna sig í þessu – þetta er bara ekki fyrir mig.