„… viltu ekki vera eins og þessir kallar?“

Posted: september 2, 2017 in Umræða

Ég hef oftar en einu sinni og oftar en tvisvar verið spurður að því hvers vegna ég taki ekki eitthvert fólk mér til fyrirmyndar og leggi þannig grunninn að því að ná góðum árangri.

Nú væri ég að skrökva ef ég þættist hafa eitthvað á móti því að hafa það aðeins betra fjárhagslega. En ég hef enga sérstaka þörf fyrir að verða stjarnfræðilega ríkur.

Ég er samt reglulega spurður hvers vegna ég taki ekki ríka fólkið, fræga fólkið, viðskiptajöfrana og/eða frumkvöðlana (einhverra hluta vegna alltaf karlar) mér til fyrirmyndar… í því skyni að ná árangri.

Fari að hlaupa reglulega, stunda jóga, hugleiða og hella mér út alls kyns lífsspeki og / eða sjálfshjálparnámskeið.

Mér vefst gjarnan tunga um tönn við að útskýra hvers vegna ég hef ekki nokkurn áhuga á þessu. Að hluta til vegna þess að ég get það ekki nema kannski að gera lítið úr áhuga viðkomandi viðmælanda. En kannski aðallega vegna þess að ég efast um að ég myndi mæta nokkrum skilningi.

Þannig að, kannski ég reyni hér, í góðu tómi.

Í fyrsta lagi, þá hef ég bara ekki nokkurn minnsta áhuga á að vera eins og einhver annar.

Í öðru lagi, þá virðast þeir sem gjarnan eru nefndir til sögunnar, (Steve Jobs?) sem góðar fyrirmyndir, ekki hafa verið neitt sérstaklega geðfelldir einstaklingar, jafnvel nánast drepið sig úr hreinni heimsku.

Í þriðja lagi þá virðast flestir þeir, sem nefndir eru til sögunnar, hafa náð árangri áður en þeir fóru að hella sér út í að fylgja hvers kyns „lífsstílsstílspeki“, mögulega margir hverjir orðið fórnarlömb loddara sem finna sér fórnarlömb í nýríkum (kannski ekki bara nýríkum) einstaklingum.

Í fjórða lagi, þá eru einmitt milljónir manna einmitt að eltast við að herma eftir því hvernig viðkomandi einstaklingar virðast vera á yfirborðinu, án þess að ná nokkrum árangri.

En aðallega, þá hef ég enga sérstaka þörf fyrir að hugleiða, mér finnst fullkomlega tilgangslaust að tæma hugann, ég hef enga eirð í mér að ganga eða hlaupa bara til að ganga eða hlaupa.

Það er allt í góðu mín vegna ef aðrir finna sig í þessu – þetta er bara ekki fyrir mig.

Lokað er á athugasemdir.