Sarpur fyrir september, 2013

Útúrsnúningar ofstækismanna

Posted: september 29, 2013 in Trú, Umræða

Það er auðvitað með ólíkindum að ríkisrekin stofnun skuli taka þátt í að kynna boðbera fordóma og mannfyrirlitningar á einhverri fjáröflunarsamkomu sértrúarsafnaða hér í borg. Á meðan þetta er gert fyrir peningana okkar þá er heldur betur ástæða til að láta heyra í sér.

Mín vegna má stjarna samkomunnar hafa sínar forneskjulegu og órökstuddu skoðanir. En ég má líka hafa aðrar skoðanir og er í fullum rétti að láta þær heyrast.

Viðbrögðin við því að skoðanir aðalræðumanns samkomunnar séu gagnrýndar eru auðvitað út í hött. Ef einhver vogar sér að viðra aðrar skoðanir og/eða gagnrýna forneskjulegar skoðanir „stjörnunnar“ þá er því líkt við það að vilja banna honum að hafa skoðun.

Ég sé (auðvitað ekki) fyrir mér umræður um stjórnmál (eða hvaða aðrar umræður sem er):

Frambjóðandi 1: Mér finnst að við eigum að lækka skatta vegna þess að…

Frambjóðandi 2: Mér finnst ekki verjandi að lækka skatta vegna þess að…

Frambjóðandi 1: Heyrðu mig nú, þetta er óþolandi, þú ert að banna mér að hafa skoðun.

Einmitt nákvæmlega svona eru viðbrögð þeirra sem hafa verið að fárast yfir því að skoðanir aðalstjörnu samkomunnar séu gagnrýndar og aðrar skoðanir kynntar. Þetta er auðvitað útúrsnúningur. Og þetta er ofstæki. Að geta ekki þolað að skoðanir séu gagnrýndar. Og bíta höfuðið af skömminni með því að gera þeim sem kynna aðra skoðun upp að vilja takmarka tjáningarfrelsi.

Nei, við leyfum þeim að hafa sínar skoðanir.

En við leyfum þeim líka að heyra okkar skoðanir.

Derby County eða Arsenal

Posted: september 29, 2013 in Fótbolti

Ég fór að halda með Derby County í enska boltanum um 1970. Þrátt fyrir slakt gengi og ansi mörg mögur ár þá hefur þetta alltaf verið „mitt lið“. Hér áður fyrr fylgdist ég mjög vel með, keypti bæði ensk dagblöð og fótboltatímarit, Goal, Shoot og fleiri. En ég fylgist svo sem ekki svo mikið með þeim í dag og held satt að segja að ég geti ekki nefnt einn einasta leikmann, eða réttara sagt, ég get ekki nefnt einn einasta leikmann. Og aldrei hef ég séð liðið spila.

Ég byrjaði að halda með þeim vegna þess að þeir spiluðu góðan fótbolta, nokkuð sem var ekki algengt á Englandi á áttunda áratugnum.

Ég hef heillast af liði Arsenal síðustu árin, hef nokkrum sinnum farið á leik með þeim og kann vel við þá „heimspeki“ sem Arsene Wenger hefur fylgt, reyna aðeins að takmarka vitleysuna í leikmannakaupum en byggja upp lið sem spilar góðan fótbolta. Það er eiginlega eina ástæða þess að ég nenni að horfa á fótbolta, þeas. lið sem spila skemmtilega. Barcelona er fyrirmyndin í dag og Breiðablik er mitt lið hér heima, enda vel spilandi lið.

Í dag bárust þær fréttir að Derby sé að ráða Tony Pulis sem knattspyrnustjóra. Ég held að ég geri að minnsta kosti hlé á stuðningi mínum við félagið á meðan hann er við stjórnvölinn. Og fylgist með Arsenal. Gallinn við að halda með Arsenal er að þeir eiga sennilega ömurlegustu stuðningsmenn í víðri fótboltaveröld [innskot: nei ég meina þetta ekki bókstaflega, aðeins að leita að ástæðu til að skipta ekki um lið]. Endalausar kröfur um afsögn Wengers eru beinlínis fáránlegar… og ég er smeykur um að mögulega fái þeir sínu framgengt ef heppnin verður ekki með liðinu í ár… já „heppnin“ því það þarf töluvert að detta með liði til að það geti unnið titil í dag – gott lið er forsenda, en dugar ekki alltaf til.

En ég get þá alltaf snúið aftur til Derby County, jafnvel þó gert sé stólpagrín að mér. Fyrir nokkrum árum leit ég við í íþróttavörubúð í London að kaupa afmælisgjöf fyrir einn félaga sem er mikill Arsenal aðdáandi. Ég spurði í leiðinni um hvort hann ætti ekkert fyrir Derby aðdáendur.. það stóð ekki á svarinu, „Sorry, mate, we only do football“.

PS. Reyndar virðast þetta hafa verið óþarfa áhyggjur – Tony Pulis sé ekki að taka við, heldur Steve McClaren.

MK í fjörutíu ár

Posted: september 19, 2013 in Tónlist, Umræða

Fyrir rosalega mörgum árum hóf ég nám í Menntaskólann í Kópavogi… nánar tiltekið haustið 1975. Okkar árgangur var fjórði árgangur skólans og þar af leiðandi var þetta fyrsta árið sem skólinn fullskipaður, þeas. með alla árganga. Ég útskrifaðist 1979, ég missti reyndar af útskriftinni sjálfri en kom til landsins seinna um daginn og tók þátt í fögnuðinum.

En óneitanlega breyttist margt hjá mér í MK… skólinn var lítill og nánast heimilislegur – (næstum því) allir þekktu (næstum því) alla og ég kynntist fullt af fólki – margir eru enn mínir bestu vinir. Fyrir menntaskóla átti ég til þess að gera ekki marga vini og tók lítinn sem engan þátt í félagslífi eða öðru utan skóla.. ef út í það er farið. Æfði reyndar fótbolta með yngri flokkum Breiðabliks.

En í MK breyttist þetta sem sagt og MK á þess vegna „sérstakan stað í mínu hjarta“ – ef ég má nota útvatnaðan frasa.

Ég hafði alltaf átt auðvelt með stærðfræði og góð kennsla bræðranna Gísla Ólafs og Vikars ýtti undir áhugann. Kynning Vikars á forritun mótaði svo endanlega áhugann sem leiddi mig inn í ævistarfið – að minnsta kosti hingað til.

Þá má ekki gleyma því að Fræbbblarnir urðu til í MK. Okkur var í upphafi mikið niðri fyrir og yfirvöld ekki alls kostar sátt við okkur. En ég hitti Ingólf skólameistara á útskriftar afmælum síðar – það fór vel á með okkur þá og ég er ekki frá því að hann hafi nú verið nokkuð stoltur af því að þetta hafi allt byrjað í MK.

Næsta laugardag, 21. september, er haldið upp á fjörutíu ára afmæli skólans á SPOT. Við Fræbbblar spilum nokkur lög og við Steini verðum aftur báðir á sviðinu, eins og í fyrsta skipti sem Fræbbblarnir spiluðu. Arnór og Ríkharður aðstoðuðu okkur við að koma hljómsveitinni á legg og gengu báðir fljótlega til liðs við hljómsveitina – og eru meðlimir í dag. Arnór spilar á laugardag en Ríkharður er í útlandinu, að spila á tónlistarhátíð í Basel – væntanlega bara Fræbbblaefni.

En sem sagt. Ég hlakka til og það væri gaman að sjá sem flesta.

Að fórna fyrir syndir

Posted: september 12, 2013 in Trú

Skemmtileg tilvísun á Vantrú á teikningu Karl Berger.

Ég hef einmitt velt þessu tala um að fórna syni sínum fyrir syndir mannanna. Þetta er sennilega illskiljanlegasta kenningin í kristninni, ef ekki trúarbrögðunum í heild.. og þarf þá nokkuð til.

  • ef guðinn vildi fyrirgefa mönnum syndir þeirra, hefið ekki verið einfaldast að gera það án frekari málalenginga?
  • hvernig hjálpaði það guðinum að gefa mönnum son?
  • hvað þá að láta hann deyja píslardauða?
  • hvernig hjálpaði það guðinum að láta kvelja son sinn?

Svona smá vangaveltur, ef við gefum okkur að „guðinn“ ráði yfir lágmarks rökhugsun, sem við eigum kannski ekkert að vera að gera…

    • hefði ekki verið nær að láta soninn lifa sem lengst og fræða fólk?
    • hefði ekki verið auðveldara fyrir guðinn að fyrirgefa ef fólk hefði tekið syninum opnum örmum?
    • var þetta „hönnuð atburðarás“, þeas. var guðinn búinn að ákveða að sonurinn yrði píndur og tekinn af „lífi“?
      • ef guðinn ákvað þessa atburðarás, getur hann þá ekki ákveðið alla hegðun allra?
      • ef guðinn ákvað ekki þessa atburðarás, þá er hann varla almáttugur, en aðallega…
      • ef guðinn ákvað ekki þessa atburðarás, hvers vegna var hann svona sáttur við að mennirnir skyldu drepa son hans?
    • ef guðinn ber ábyrgð hegðun allra, gildir það ekki líka um „syndir“ allra?
    • ef guðinn ákvað þetta ekki, hefði hann þá ekki fyrirgefið syndir mann ef fólk hefði tekið syninum opnum örmum?
    • ef sonurinn dó fyrir syndir mannanna, hvers vegna eru þá þessar „syndir“ svona algengar tvö þúsund árum seinna?

Nei, ég spyr bara svona. Vitandi að það eru engin svör.

Grafíkin kvödd

Posted: september 11, 2013 in Spjall

Ég datt fyrir tilviljun inn í vinnu við sjónvarpsútsendingar vegna kosninganna 1986, ég var þá að vinna hjá VKS og hafði talsverðan áhuga á kosningum og öllu sem þeim fylgdi. Þetta var fyrsta kerfið sem ég vann við og var tengt grafík, þó Daði hafi nú séð um alla forritun fyrir grafíkina. En við sáum um kosningakerfi RÚV næstu árin og eftir að ég fór að vinna sjálfstætt 1992 datt ég inn í grafík vinnu fyrir íþróttadeild RÚV. HM95 var svo stórt verkefni og smám saman bættust við fjölbreytt verkefni, bæði hjá Stöð2, Skjánum (og fleiri) og kosningarnar komu aftur inn á borð. Aðrar tegundir af þáttum bættust við, fréttir, skemmtiþættir og spurningaleikir. Frá 1997-2006 vann ég þetta á vegum Kuggs, en síðan ýmist Símanum, ANZA eða Staka.

Síðustu sjö árin hef ég mætt reglulega á IBC sýninguna í Amsterdam, en henni fylgir óneitanlega skemmtileg stemming í frábærri borg. Um tíma höfðum við nokkurn metnað fyrir að sjá um þjónustu við ýmiss konar grafískan hugbúnað og jafnvel fleiri kerfi fyrir rekstur sjónvarps. Hugmyndin var að kannski væri einfaldara fyrir innlenda aðila að hafa eitt fyrirtæki hér á landi sem gæti séð um að þjónusta kerfin, frekar en að bæði fyrirtækin væru að sjá um þjálfun, eða þá að kaupa þjónustuna að utan í hvert skipti.

Smám saman hefur verkefnum fækkað, RÚV sér orðið um íþróttagrafíkina og Stöð2 hefur sótt þjónustu beint fyrir íþróttakerfin, þó við höfum aðeins komið að þeirri vinnu. Stöð2 hefur að mestu hætt útsendingum á kosninganótt eða þá notast við eigin kerfi. RÚV ákvað svo að fara aðrar leiðir við útsendingu vegna kosninganna í vor. Aðrar hugmyndir um tengd verkefni virkuðu spennandi í upphafi og lofuðu góðu gengu ekki eftir, eða hafa að minnsta kosti ekki gert enn. Þegar við bætist að það er meira en nóg af öðrum verkefnum þá er þessu eiginlega sjálfhætt. Fyrir utan nú kannski að það er ekkert endilega kostur að festast í svona verkefnum.

En þetta hafa óneitanlega verið skemmtileg verkefni, oftast unnin í törn og miklu álagi og í talsverðri tímapressu. En á móti kemur að oftast er þeim lokið eftir útsendingu. Þá má ekki gleyma öllu því skemmtilega fólki sem ég hef kynnst og hefur verið gaman að vinna með – í sumum tilfellum höfum við haldið sambandi löngu eftir að verkefnum lauk. Á móti kemur að svona vinna sem unnin er í miklum törnum er oftast unnin utan hefðbundins vinnutíma og einhvern veginn var ég alltaf meðvitað eða ómeðvitað á „bakvakt“. Ég hefði svo kannski kosið að staðið hefði verið öðru vísi að ýmsum breytingum en það þýðir svo sem ekki að fást um það eftir á…

Grýla og trúin

Posted: september 8, 2013 in Trú

Í gamla daga voru – að mér er sagt – börn hrædd með sögum af grýlum og alls kyns tröllum og kynjaverum sem kæmu að taka, berja, refsa, éta, flengja, læsa inni þau börn sem ekki voru þæg. Þetta var auðvitað miklu einfaldara en að tala um fyrir börnunum og virkaði bara nokkuð vel í myrkum torfbæjum og þegar börnin höfðu ekki aðgang að upplýsingum.

Sama gerðu ýmsir þjóðflokkar. Þeir bjuggu til sögur um ógnvænlega geðvonda ósýnilega veru sem refsaði öllum þeim sem ekki höguðu sér eins og leiðtögum viðkomandi þjóðflokks líkaði. Einföldum ráðum, sem flest áttu sér rökréttar skýringar, var pakkað inn í boð frá verunni. Önnur voru einfaldlega dyntir viðkomandi leiðtoga. Þetta var miklu auðveldara en að útskýra fyrir fólki hvað var rétt og hvað var rangt og hvers vegna. Enda fólk ekki sérstaklega vel upplýst.

Hvers vegna það að upphefja seinni hlutann fær verndaða stöðu í þjóðfélögum nútímans er nokkuð sem ég fæ seint skilið.

Eitt enn, Píratar…

Posted: september 7, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Alls ekki misskilja mig, Píratar, sem svo að ég sé í einhverri herferð gegn ykkur. Alls ekki. Það kom vel til greina að kjósa ykkur í vor, nokkur atriði trufluðu mig – og eiginlega gerðu þumbaraleg svörin við vangaveltum mínum endanlega út um þann möguleika. En ég fagnaði því að þið náðuð á endanum inn á þing, þetta er góð og nauðsynleg viðbót. Ég er ykkur sammála í mörgum atriðum, þið hafið staðið ykkur vel í að styðja við persónufrelsi og rétti til að upplýsa um hegðun stjórnvalda. Þið hefðuð mátt gera meira, en ég treysti því að það komi. Önnur stefnumál voru svo fráleit, en kannski má kenna fljótfærni um..

Ég hef sett hér færslur um höfundarrétt og dreifingu efnis vegna þess að ég er ekki sammála stefnu ykkar eins og ég skil hana, en kannski líka vegna þess að ég hef ekki skilið hana nægilega vel. Og geri eiginlega ekki enn. Líka vegna þess að ég hef áhuga á málinu. Og ég hef gaman af málefnalegum rökræðum.. þær hafa reyndar verið mis mikið málefnalegar, Björn Leví og fleiri hafa komið með góðar athugasemdir, þó ég hafi kannski verið óþarflega pirraður þegar mér fundust umræðurnar fara í hringi og út fyrir kjarna málsins. Svo hafa auðvitað komið minna málefnalegar athugasemdir.

Mér varð hugsað til þessarar umræðu þegar það kom aftur upp umræða um tilfelli þar sem trúnaðargögnum var stolið af lokuðu spjalli áhugahóps. Er þetta í lagi að ykkar mati? Þetta eru jú rafræn gögn. Eigandi þeirra vill alls ekki að þau fari til annarra en hann samþykkir. Það er ekki hægt að koma í veg fyrir dreifingu nema með talsverðum tilkostnaði og takmörkun á frelsi. Kannski eiga viðkomandi eigendur bara að vera fegnir því að þessu sé dreift í heimildarleysi, þeir verði bara vinsælli fyrir vikið. Svo því sé haldið til haga þá truflaði mig meira að sá sem tók gögnin í heimildarleysi birti þau ekki, heldur sagðist hafa þau undir höndum og fullyrti að þar kæmi allt annað fram en raunverulega var í gögnunum.

Ef ég skil rétt þá er að ykkar mati í lagi að birta trúnaðargögn stjórnvalda, að minnsta kosti þegar sá sem hefur þau undir höndum telur að um ólöglegt athæfi sé að ræða. En á hinn bógin er ekki í lagi að birta, til dæmis, persónuleg tölvupóst samskipti einstaklinga.

En þá vefst málið fyrir mér, hvað með svona spjallborð á netinu, td. vefsíðum og samfélagsmiðlum ?

Er það t.d. heimilt ef um opinbera aðila er að ræða? Hvað með, til dæmis, ef ég hefði dottið inn á spjallborð stjórnmálaflokks og séð umræður sem gæfu til kynna að forsendur tiltekinnar stefnu flokksins væru allt aðrar en haldið væri fram opinberlega? Eða ef forsprakkar flokksins væru t.d. opinskáttað ræða einstakling, segjum þingmann annars flokks sem færi sérstaklega í taugarnar á þeim og hefði ítrekað sakað gagnrýnendur sína um rógsherferð gegn sér, og þær umræður væru kannski misjafnlega málefnalegar? Væri eðlilegt að birta þær umræður opinberlega?

Svo get ég snúið dæminu við… ef ég gef út lag eða myndband á lokuðu spjallborði og það er öllum ljóst að lagið er bara ætlað þeim sem þar hafa aðgang. Má samt dreifa því? Það gilda jú sömu rök, það er ekki hægt að koma í veg fyrir drefinguna, ég verð örugglega rosalega vinsæll ef þessu er dreift í minni óþökk.

Þess vegna spyr ég… hvar liggja mörkin á því hvenær þessi rök eiga við og hvenær ekki? Ég hef sjálfur ekki afdráttarlaust svar, en hef áhuga á að heyra ykkar.

Og ég er ekki að fiska eftir því hvað er hægt og hvað er ekki hægt, ég þekki það ágætlega. Mín forvitni liggur í því að fá að vita hvað ykkur finnst rétt og hvað ykkur finnst rangt.

Skoðanir og skætingur

Posted: september 6, 2013 in Spjall, Umræða
Efnisorð:

Ég hélt úti bloggi á Eyjunni í nokkurn tíma en gafst upp á að halda úti gagnrýninni umræðu þegar dómstólar gengu ítrekað freklega á málfrelsi. Ég hætti að skrifa á Eyjunni þegar þeir höfnuðu stuðningi við eitt málið.

Ég fór að skrifa smá fréttir hér, hef smám saman færst yfir í að lýsa skoðunum aftur.

Vandamálið við að lýsa óvinsælum skoðunum er að það eru allt of margir sem afgreiða skoðanir með skætingi og því að láta mig fá það óþvegið, persónulega.

Það er ekkert að því að vera ósammála mér, ég fagna málefnalegri umræðu, get vissulega verið þrjóskur, en tek nú rökum. Stundum eru þetta meira að segja vangaveltur sem ég er ekkert allt of viss um sjálfur, en hef áhuga á umræðunni

  • Ef ég bendi á að klámvarnir séu illframkvæmanlegar og heimskulegar þá er ég bandamaður klámhunda, ef ekki útsendari klámbransans.
  • Ef ég lýsi þeirri skoðun, og færi sterk rök fyrir, að verðtrygging sé ekki vandamál, hendur birtingarmynd raunverulegra vandamála, þá fæ ég hrinu yfir mig eins og að ég sé varðhundur einhverra.
  • Ég er sakaður um einelti ef ég tek þátt í því sem mér þykir málefnaleg umræða, bara vegna þess að ég er ekki sammála þeim sem ákveður að lýsa sig fórnarlamb eineltis.
  • Ef ég lýsi þeirri skoðun að trúlausir eigi rétt á að vera í friði fyrir trúboði, þá er ég að ráðast á trúaða, jafnvel takmarka mannréttindi þeirra.
  • Ef ég lýsi þeirri skoðun minni að það sé siðferðilega rangt að dreifa efni í leyfisleysi þá er þarf ég að sitja undir miður fögru umtali.
  • Ef ég vil klára umræður við ESB þá liggur við að ég sé kallaður landráðamaður.
  • Sama gilti um IceSave, ég nenni ekki að rifja upp uppnefnin sem fylgdu þeirri afstöðu.
  • Ef ég gagnrýni heimskuleg ummæli þingmanns þá er ég að taka þátt í herferð gegn henni.

Það er eiginlega ekki þess virði að hafa skoðanir, amk. ekki óvinsælar. Það eru öll önnur ráð en málefnaleg umræða notuð.

Það kemur kannski ekki á óvart að þetta séu viðbrögð eldri kynslóðar stjórnmálamanna. En ég gæti næstum því grenjað yfir því að sjá nákvæmlega sömu aðferðafræði hjá ungu kynslóðinni.

Ég skrifaði bloggfærslu á Eyjunni fyrir nokkrum árum þar sem ég spurði hvort það væri í lagi að gefið væri sterklega í skyn í kennslu í HÍ að ég væri haldinn kynþáttafordómum.

Ég átti fyrir nokkrum dögum spjall á Facebook við viðkomandi kennara og þar kom fram að hann var ósáttur við að ég væri að saka hann um að gefa í skyn að ég væri haldinn kynþáttafordómum. Þetta snerist um gyðinga og hann skýrði að hann hefði átt við þá sem væri gyðingstrúar, ekki gyðinga sem kynþátti, ættkvísl, ættbálk, þjóð eða annað sem einkennir fólk vegna uppruna. Hann hefur staðfest að þetta hafi skýrt komið fram í kennslu.

Við erum svo sem ekki alveg sammála um hvort framsetningin hafi gefið tilefni til að ég dró þessar ályktanir, en það er aukaatriði.

Aðalatriðið er að ég tek skýringar kennarans góðar og gildar og tel ekki að gefið hafi verið í skyn að ég sé haldinn kynþáttafordómum í þessari kennslu.

A hinn bóginn er ég er svo auðvitað ekkert sáttur við að gefið hafi verið í skyn að ég standi á nokkurn hátt fyrir að fordæma minnihlutahópa á borð við þá sem eru gyðingatrúar. Þá eru önnur atriði úr þessu kennsluefni sem virka enn undarlega á mig og ég hef enn ekki fengið góðar og gildar skýringar á þeim.

En það er jákvætt að koma að minnsta kosti einu atriði út af borðinu. Og það er jákvætt að ræða málið. Kannski eru skýringar á einhverjum fleiri atriðum þannig að þau hafa verið kynnt á fullnægjandi hátt. Kannski eru athugasemdir réttmætar og kennarinn samþykkir að kennsluefnið hafi ekki verið nægilega gott.