Alls ekki misskilja mig, Píratar, sem svo að ég sé í einhverri herferð gegn ykkur. Alls ekki. Það kom vel til greina að kjósa ykkur í vor, nokkur atriði trufluðu mig – og eiginlega gerðu þumbaraleg svörin við vangaveltum mínum endanlega út um þann möguleika. En ég fagnaði því að þið náðuð á endanum inn á þing, þetta er góð og nauðsynleg viðbót. Ég er ykkur sammála í mörgum atriðum, þið hafið staðið ykkur vel í að styðja við persónufrelsi og rétti til að upplýsa um hegðun stjórnvalda. Þið hefðuð mátt gera meira, en ég treysti því að það komi. Önnur stefnumál voru svo fráleit, en kannski má kenna fljótfærni um..
Ég hef sett hér færslur um höfundarrétt og dreifingu efnis vegna þess að ég er ekki sammála stefnu ykkar eins og ég skil hana, en kannski líka vegna þess að ég hef ekki skilið hana nægilega vel. Og geri eiginlega ekki enn. Líka vegna þess að ég hef áhuga á málinu. Og ég hef gaman af málefnalegum rökræðum.. þær hafa reyndar verið mis mikið málefnalegar, Björn Leví og fleiri hafa komið með góðar athugasemdir, þó ég hafi kannski verið óþarflega pirraður þegar mér fundust umræðurnar fara í hringi og út fyrir kjarna málsins. Svo hafa auðvitað komið minna málefnalegar athugasemdir.
Mér varð hugsað til þessarar umræðu þegar það kom aftur upp umræða um tilfelli þar sem trúnaðargögnum var stolið af lokuðu spjalli áhugahóps. Er þetta í lagi að ykkar mati? Þetta eru jú rafræn gögn. Eigandi þeirra vill alls ekki að þau fari til annarra en hann samþykkir. Það er ekki hægt að koma í veg fyrir dreifingu nema með talsverðum tilkostnaði og takmörkun á frelsi. Kannski eiga viðkomandi eigendur bara að vera fegnir því að þessu sé dreift í heimildarleysi, þeir verði bara vinsælli fyrir vikið. Svo því sé haldið til haga þá truflaði mig meira að sá sem tók gögnin í heimildarleysi birti þau ekki, heldur sagðist hafa þau undir höndum og fullyrti að þar kæmi allt annað fram en raunverulega var í gögnunum.
Ef ég skil rétt þá er að ykkar mati í lagi að birta trúnaðargögn stjórnvalda, að minnsta kosti þegar sá sem hefur þau undir höndum telur að um ólöglegt athæfi sé að ræða. En á hinn bógin er ekki í lagi að birta, til dæmis, persónuleg tölvupóst samskipti einstaklinga.
En þá vefst málið fyrir mér, hvað með svona spjallborð á netinu, td. vefsíðum og samfélagsmiðlum ?
Er það t.d. heimilt ef um opinbera aðila er að ræða? Hvað með, til dæmis, ef ég hefði dottið inn á spjallborð stjórnmálaflokks og séð umræður sem gæfu til kynna að forsendur tiltekinnar stefnu flokksins væru allt aðrar en haldið væri fram opinberlega? Eða ef forsprakkar flokksins væru t.d. opinskáttað ræða einstakling, segjum þingmann annars flokks sem færi sérstaklega í taugarnar á þeim og hefði ítrekað sakað gagnrýnendur sína um rógsherferð gegn sér, og þær umræður væru kannski misjafnlega málefnalegar? Væri eðlilegt að birta þær umræður opinberlega?
Svo get ég snúið dæminu við… ef ég gef út lag eða myndband á lokuðu spjallborði og það er öllum ljóst að lagið er bara ætlað þeim sem þar hafa aðgang. Má samt dreifa því? Það gilda jú sömu rök, það er ekki hægt að koma í veg fyrir drefinguna, ég verð örugglega rosalega vinsæll ef þessu er dreift í minni óþökk.
Þess vegna spyr ég… hvar liggja mörkin á því hvenær þessi rök eiga við og hvenær ekki? Ég hef sjálfur ekki afdráttarlaust svar, en hef áhuga á að heyra ykkar.
Og ég er ekki að fiska eftir því hvað er hægt og hvað er ekki hægt, ég þekki það ágætlega. Mín forvitni liggur í því að fá að vita hvað ykkur finnst rétt og hvað ykkur finnst rangt.
Líkar við:
Líka við Hleð...