Grafíkin kvödd

Posted: september 11, 2013 in Spjall

Ég datt fyrir tilviljun inn í vinnu við sjónvarpsútsendingar vegna kosninganna 1986, ég var þá að vinna hjá VKS og hafði talsverðan áhuga á kosningum og öllu sem þeim fylgdi. Þetta var fyrsta kerfið sem ég vann við og var tengt grafík, þó Daði hafi nú séð um alla forritun fyrir grafíkina. En við sáum um kosningakerfi RÚV næstu árin og eftir að ég fór að vinna sjálfstætt 1992 datt ég inn í grafík vinnu fyrir íþróttadeild RÚV. HM95 var svo stórt verkefni og smám saman bættust við fjölbreytt verkefni, bæði hjá Stöð2, Skjánum (og fleiri) og kosningarnar komu aftur inn á borð. Aðrar tegundir af þáttum bættust við, fréttir, skemmtiþættir og spurningaleikir. Frá 1997-2006 vann ég þetta á vegum Kuggs, en síðan ýmist Símanum, ANZA eða Staka.

Síðustu sjö árin hef ég mætt reglulega á IBC sýninguna í Amsterdam, en henni fylgir óneitanlega skemmtileg stemming í frábærri borg. Um tíma höfðum við nokkurn metnað fyrir að sjá um þjónustu við ýmiss konar grafískan hugbúnað og jafnvel fleiri kerfi fyrir rekstur sjónvarps. Hugmyndin var að kannski væri einfaldara fyrir innlenda aðila að hafa eitt fyrirtæki hér á landi sem gæti séð um að þjónusta kerfin, frekar en að bæði fyrirtækin væru að sjá um þjálfun, eða þá að kaupa þjónustuna að utan í hvert skipti.

Smám saman hefur verkefnum fækkað, RÚV sér orðið um íþróttagrafíkina og Stöð2 hefur sótt þjónustu beint fyrir íþróttakerfin, þó við höfum aðeins komið að þeirri vinnu. Stöð2 hefur að mestu hætt útsendingum á kosninganótt eða þá notast við eigin kerfi. RÚV ákvað svo að fara aðrar leiðir við útsendingu vegna kosninganna í vor. Aðrar hugmyndir um tengd verkefni virkuðu spennandi í upphafi og lofuðu góðu gengu ekki eftir, eða hafa að minnsta kosti ekki gert enn. Þegar við bætist að það er meira en nóg af öðrum verkefnum þá er þessu eiginlega sjálfhætt. Fyrir utan nú kannski að það er ekkert endilega kostur að festast í svona verkefnum.

En þetta hafa óneitanlega verið skemmtileg verkefni, oftast unnin í törn og miklu álagi og í talsverðri tímapressu. En á móti kemur að oftast er þeim lokið eftir útsendingu. Þá má ekki gleyma öllu því skemmtilega fólki sem ég hef kynnst og hefur verið gaman að vinna með – í sumum tilfellum höfum við haldið sambandi löngu eftir að verkefnum lauk. Á móti kemur að svona vinna sem unnin er í miklum törnum er oftast unnin utan hefðbundins vinnutíma og einhvern veginn var ég alltaf meðvitað eða ómeðvitað á „bakvakt“. Ég hefði svo kannski kosið að staðið hefði verið öðru vísi að ýmsum breytingum en það þýðir svo sem ekki að fást um það eftir á…

Lokað er á athugasemdir.