Archive for the ‘Spjall’ Category

Við bókuðum okkur með góðum hóp fyrir nokkru á villibráðarhlaðborð hjá Silla kokk, sem átti að vera í gær.

En í ljósi þess að faraldurinn var kominn á flug var þetta slegið af en okkur boðið að sækja matinn. Það hentaði reyndar ekki öllum en við þáðum að sækja matinn og nokkrir gesta komu til okkar Iðunnar – ekki margir, öll bólusett, allir í sýnatöku og allir fóru varlega.

Fyrir það fyrsta, þvílíkur matur! Ég greip fyrsta forréttinn og hugsaði með mér, alltaf jafn heppinn, byrja á besta réttinum. En þeir sem á eftir komu voru einfaldlega hver öðrum betri. Fyrsta flokks hráefni, hugmyndarík matreiðsla og framsetningin til fyrirmyndar. Ég er enn, daginn eftir, að „kjamsa“ á sumum réttunum í huganum. Eini gallinn kannski við vorum ekki alltaf klár á hvað var hvað.. en skipti svo sem ekki öllu – matur getur, alveg eins og landslag [hvað svo sem skáldið sagði á sínum tíma] verið mikils virði þó nafnið sé ekki á hreinu.

En ekki síst vil ég þakka Silla og hans fólki fyrir að bregðast við af ábyrgð og finna lausn. Við stýrum ekki alltaf aðstæðum en við stýrum því hvernig við bregðumst við.

Facebook samdráttur

Posted: apríl 9, 2020 in Spjall
Efnisorð:
Ég er ekki til í að hætta á Facebook, mér finnst frábært að fá fréttir af vinum og kunningjum og fólki sem ég kannast lítillega við… oftast fréttir myndi ekki heyra annars.
Þá finnst mér ómetanlegt að heyra af viðburðum, útgáfum og öðrum fréttum af áhugaverðum hlutum.
Ég get alveg haft gaman af að rökræða.
En ég nenni ekki lengur að rífast við fábjána. Við stutta greiningu er nokkuð ljóst að ég eyði allt of miklum tíma í að þrasa við fólk sem tekur ekki rökum, getur ekki unnið úr upplýsingum, veit ekki hvað heimildir eru, skilur ekki aðferðir vísindanna og er í einhverju klappliði fyrir einhverja stjórnmálahreyfingar.. jafnvel í forsvari fyrir þær og/eða að koma sér á framfæri.
En auðvitað get ég að mestu kennt sjálfum mér um. Ég á það (allt of oft) til að gera athugasemdir við fráleitar færslur og ég held áfram að svara furðulegustu athugasemdum.
Ég sem sagt nenni þessu ekki lengur.
Það er ekki svo gott (eða slæmt) að ég sé hættur að tjá mig um allt sem mér dettur í hug að hafa skoðun á.. en ég ætla að færa einfaldar athugasemdir yfir á Twitter og lengri „ræður“ yfir á ‘bloggið’ mitt, þeas. hér.
Á ‘blogginu’ er líka mun þægilegra að halda rökræðum og útiloka röflið.
Svo ég skýri aðeins nánar, þá á ég mjög bágt með að þola að fólk sé að koma núverandi forseta Bandaríkjanna til varnar, þar fer sannanlega getulaust og illa innrætt kvikindi, hættulegur einstaklingur.. svona ef ég held mig við að vera kurteis. Sama gildir um fólk sem telur sig geta haft „skoðun“ á loftslagsmálum. Ekki ætla ég heldur að þola sjálfskipaða veiru- og sóttvarnarfræðinga sem þykjast hafa töfralausnir og kalla þá sem eru í framlínunni þessa dagana öllum illum nöfnum. Ég þarf víst ekki að nefna orkupakkann lengur eða Klausturbárðana.
Ég er ekkert að banna fólki að hafa sínar undarlegu skoðanir, ekki frekar en ég banna fólki að ganga um á skítugum skónum heima hjá sér. En það er ekki í boði að viðra þetta hér á mínum vegg, ekki frekar en að það er í boði að ganga inn heima hjá mér á skítugum skónum.
Þeir sem ekki virða þetta fara einfaldlega af vinalistanum. Það þýðir ekki að mér sé eitthvað illa við viðkomandi og vilji ekki þekkja lengur, ég er ekki til í að fá svona rugl inn á Facebook vegginn minn, þetta er komið svo að þetta er ekki lengur eitthvað til að hlægja að, margt að þessu er einfaldlega stórhættulegt.
Og svo eru nokkur atriði sem ég skal alveg reyna að hafa þolinmæði fyrir en ég geri ráð fyrir að setja ‘unfollow’ á þá sem dæla þessu stöðugt, án þess taka af vinalistanum.
Þetta verður eflaust til að ég dett í gamli-geðstirði-gaurinn flokkinn, en sennilega lítið við því að segja, hvort sem er væntanlega ekki svo fjarri lagi:
  • Ég er frekar þreyttur á leikjum og áskorunum og þrautum, stundum gæti ég haft gaman ef, en mér er fullkomlega fyrirmunað að skilja ‘deildu-án-skýringa’ áráttuna, þar fer eiginlega síðasta ástæðan fyrir því að hafa áhuga!
  • Ég nenni ekki að svara betli um „like“ og/eða ef-þú-manst-eftir-mér…
  • Þá er er frekar hvimleitt þegar fólk getur ekki komið frá sér einföldum texta án þess að setja á svokallaðan „tuddaflöt“, stóran flöt með feitletruðum texta sem tekur óþarflega mikinn hluta af skjánum og bætir engu við innihaldið.
  • Og svo auðvitað fólk sem er stöðugt að skipa mér fyrir með „ræðið“ og „deilið“… fyrir alla muni, hættið þessari frekju! Ég ræði það sem ég hef áhuga á að ræða og ég deili því sem ég hef áhuga á að deila.
  • Ég var víst búinn að nefna þreytandi gjammið frá þeim sem þurfa stöðugt að verja einhverja pólitíkusa, en sú vísa er seint of oft kveðin.
  • Og áróður fyrir og frá svonefndum ‘sósíalistaflokki’ fer í sérstakan flokk, þeir sem dreifa því fara umsvifalaust á ‘unfollow’.

Flugfélagsstofnendaráðgjöf

Posted: júlí 13, 2019 in Spjall
Efnisorð:,

Eitt ókeypis ráð til þeirra sem eru að hugsa um að stofna nýtt flugfélag.

Ekki svo að skilja að ég sé neikvæður, það er fínt að fá úrval og fínt að hafa valkosti.

En, fyrir alla muni, lærið að minnsta kosti eitt af nýlegu gjaldþroti.

Eflaust voru margar ástæður fyrir nýlegu gjaldþroti.

En mig grunar að ein hafi verið vanmetin.

Það er eflaust hægt að árangri í upphafi með því að keyra upp öðru vísi stemmingu fyrir nýju félagi, nokkrum ódýrum flugsætum, öðrum dýrari og góðri álagningu á alla þjónustu.

En til að svona félag lifi til lengdar þá ímynda ég mér að þjónustan þurfi að vera í lagi, að minnsta kosti ekki fyrir neðan allar hellur.

Ég varð fyrir því óláni að fá nokkrum sinnum afspyrnu vonda þjónustu. Miðað við einkunnir og umsagnir annarra „gesta“ þá var mín reynsla nú ekki beinlínis einsdæmi.

Fyrstu árin reyndi ég að nýta að kaupa ódýr sæti – og ef ekki, þá lét ég mig hafa það að kaupa eitthvað dýrari – og bætti við þjónustu.

Eftir ítrekuð vonbrigði þá var ég svo sem til í að kaupa allra ódýrustu sætin og láta mig hafa það ef hlutirnir voru ekki í lagi, en um leið og ódýrustu sætin voru farin þá leitaði ég annað.

Mig grunar að þannig hafi fleiri hugsað.

Flugfélag sem leggur upp með að selja ákveðinn hluta sæta á mjög lágu verði og önnur á hærra verði getur auðvitað gengið þokkalega.

En þegar enginn vill kaupa annað en allra ódýrustu sætin, þá finnst mér ólíklegt að dæmið gangi upp.

Þannig að – vel meint ábending til þeirra sem eru að hugsa um að stofna nýtt lággjaldaflugfélag – gangi ykkur vel, en ekki koma fram við viðskiptavini ykkar eins og [jæja, læt vera að láta það orð sem mér dettur helst í hug flakka].

 

Gervigreind

Posted: desember 7, 2017 in Spjall, Umræða

Síminn minn vakti mig, hálftíma fyrir pantaða „vakningu“, með því að byrja að spjalla.. benda mér á að það væri heiðskýrt og kjörið að fara í „lautarferð“ (picnic).

Ég var kannski ekki alveg á því í 5 gráðu frosti sem samvarar 12 gráðum með vindkælingu. Hefði jafnvel ekki verið spenntur þó það væri ekki vinnudagur.

Ég ætla manna síðastur að gera lítið úr þeim óþrjótandi möguleikum sem tæknin býður upp á, en að gervigreind sé að fara verða til þess að tækin taki yfir… æ, ég held að við eigum eitthvað í land með að fara að óttast það fyrir alvöru.

Gott og vel, auðvitað á maður ekki að draga of stórar ályktanir út frá einu tilfelli, en þetta á að vera nokkuð „vel til slípað“ og mjög vel prófað forrit.

Hnignun þekkingar

Posted: ágúst 13, 2017 in Spjall, Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:, ,

Samsæriskenningar eru auðvitað eldgamlar og stöku sinnum hefur meira að segja verið fótur fyrir þeim. En þessi öld hefur að einhverju leyti litast af uppgangi samsæriskenninganna. Ellefti-september bauð auðvitað upp á alls kyns umræður og vangaveltur. Í kjölfarið var eins og margir ánetjuðust samsæriskenningunum… alls staðar voru samsæri, jafnvel þeir sem upphaflega voru fórnarlömb samsæranna voru nú hluti af þeim, þeir sem ruddu brautina (ef svo má að orði komast) voru hluti af einhverju samsæri. Það voru samsæri komin í hvert horn. Hlýnun jarðar var samsæri, að jörðin væri hnöttótt var samsæri, þoturákir á himni voru samsæri, CIA yfirtók heila fólks, Clinton (og ef ekki allur demókrataflokkur Bandaríkjanna) var kominn í barnavændi á pizzustað :), gott ef sami flokkur var ekki farinn að standa að því að láta myrða fólk, erfðabreytt matvæli voru (auðvitað) eitt stórt samsæri, bólusetningar að sjálfsögðu ekkert annað en samsæri – og ef annað var ekki boði þá voru einhverjir tónlistarmenn annað hvort þátttakendur í samsæri eða fórnarlömb [eins og hverjum sé ekki sama].

Þörfin fyrir næsta „fix“ af samsæri var nánast orðin óbærileg og allt var samþykkt möglunarlaust.

Ég er ekki frá því að þetta sé grunnurinn að ákveðinni heimskun kjósenda og þar af leiðandi upphafið að ákveðinni hnignun sem við erum rétt að fá forsmekkinn af.

Brexit og Trump eru fínasta dæmi um þetta. Ekki svo að skilja að þessar kosningar hafi beinlínis flotið á samsærum. En þeir sem unnu keyrðu á rangfærslum og lygum og fönguðu atkvæða þeirra fáfróðu og auðtrúa.

Þannig virðist dómgreind almennings hefur farið aftur, fólk samþykkir fullyrðingar ef þær eru settar fram í dramatískum YouTube myndböndum, „Photoshoppaðar“ myndir eru góðar og gildar, jafnvel hreinar og klárar lygar, hvers kyns dylgjur eru teknar sem staðreyndir, tíst eru staðreyndir, einföld mistök sannanir um yfirgripsmikil samráð, langsóttar tengingar eru endanlegar sannanir, óljósar getgátur góðar og gildar og fullyrðingar á bloggsíðum nefndar til sögunnar sem rök.

Efasemdir, leit að mótrökum, athugun á sannleiksgildi, einföld rökhugsun er látið liggja á milli hluta.

Þessi grunnur fáfræði og trúgirni eru nefnilega það sem hefur kostað okkur að fáfræðin hefur sigrað.

Og ég er smeykur um að þetta eigi eftir að versna.

Smölun

Posted: maí 27, 2017 in Spjall, Umræða
Efnisorð:

„ekkert óeðlilegt við smölun“ er haft eftir formanni samtaka sem smalaði liði til að skrá sig í samtökin og kjósa hann sjálfan sem formann.

Fyrir utan það að viðkomandi „sauðir“ virðast ekki hafa haft getu til að borga félagsgjaldið sjálfir og eingöngu ráðið við þá aðgerð að leggja inn hjá viðkomandi formannsefni. Og fyrir utan það að þeir skráðu sig eftir að tilskilinn frestur var runninn út. Og fyrir utan að hann fékk svo bæði lán og launahækkun og launaða stöðu framkvæmdastjóra eftir kosningu og náði þannig umtalsverðum upphæðum frá félaginu inn á eigin reikning.

Auðvitað ekki „fyrir utan“ neitt af þessu.. þetta er alveg með ólíkindum.

En punkturinn með þessari færslu er smölunin og hversu galin þessi hugsun er að það sé ekkert óeðlilegt við hana. Þetta eru samtök neytenda og þeir sem hafa verið meðlimir, greitt sín árgjöld og tekið þátt í starfi samtakanna kjósa sér formann, formann sem er fulltrúi viðkomandi félaga og andlit þeirra út á við í þessu starfi. Þess vegna er það fullkomlega fráleitt að fólk sem hefur ekki verið meðlimir, ekki tekið þátt og ekki greitt til samtakanna mæti upp úr þurru til að ákveða hver er fulltrúi félaganna.

Kannski er viðkomandi að spila einhvern leik þar sem hann telur að nægilegt sé að staglast á einhverri vitleysu nógu oft til að vitleysan teljist gott og gilt sjónarmið. Kannski hefur hann hvorki siðferðis- né sómatilfinningu. Kannski er hann einfaldlega ekkert sérstaklega greindur. Hvað veit ég? Jú, ég veit að smölun er fullkomlega óeðlileg við formannskjör í svona samtökum.

Ég vil reyndar að fara fram á það við formanninn að hann staðfesti að þessir aðilar hafi lagt inn á bankareikning hans fyrir fundinn með því að leggja fram staðfest bankayfirlit.

Hátíðarkveðjur úr Kaldaseli

Posted: desember 23, 2016 in Fjölskylda, Spjall, Umræða
Efnisorð:,

Það er víst altalað að árið 2016 fari í sögubækurnar sem ömurlegt ár.. og vissulega er margt til í því.

En við getum ekki kvartað mikið hér í Kaldaselinu, árið hefur eiginlega verið nokkuð jákvætt og ég get ekki sagt að við höfum yfir miklu að kvarta.

Við Iðunn höfum náð ansi mörgum góðum kvöldum (og dögum) með góðum vinum, ættingjum, kunningjum og ókunnugu fólki. Mér taldist lauslega til að 92 daga hafi eitthvað sérstakt verið í gangi hjá okkur. Og svo áttum við ótal kvöld í góðu tómi saman í rólegheitunum.

Ferðirnar út fyrir landsteinana voru nokkuð vel heppnaðar. Við fórum til London í byrjun mars, hittum Viktor, fórum á bjórhátíð, sáum Stiff Little Fingers á hljómleikum og hittum á nokkuð góða veitingastaði.

london-mars-chinatown

Iðunn fór í fimmtugsafmælisferð með Sérsveitinni til Amsterdam í apríl – ég kíkti til Kaupmannahafnar og heimsótti Barða sömu helgi.

Stóra ferðin 2016 var svo til Frakklands á EM, að mestu með Viktori og Alla – og í rauninni hátt í tuttugu manns sem við tengdumst lauslega – og enn fleiri sem við hittum af tilviljun.

euro-2016

 

idunn-neglurÉg fór til Amsterdam í september á IBC sýninguna og Iðunn til Parísar í vinkvenna heimsókn til Sóleyjar.

Svo kíktum við til Manchester í lok nóvember með Alla og Matta í svona nokkurs konar jólaferð.

manchester-jolamarkadur-2

Einifellshelgarnar urðu þrjár, alltaf jafn vel heppnaðar, gamli potturinn rifinn eina helgina, sá nýi vígður seinna og lax reyktur í þeirri síðustu. Petanque, matseld, bjór, vín og eðal kræsingar einkenna þessar helgar.

Sambindið fór saman í helgarferð í febrúar og hittist nokkrum sinnum þar fyrir utan.

Postularnir (fótboltahópurinn minn) héldu upp á veturinn í boði Arnars (og Unnar) í helgarferð við Reykholt.

Goutons Voir matar-félagsskapurinn hittist þar fyrir utan og ónefndi matarklúbburinn sem tengist Rúv (Rúv-Tops) náði að hittast óvenju oft.

Auðvitað hittust fjölskyldurnar reglulega og kannski var eftirminnilegast þetta árið að hitta ættingja frá Kanada, og það í tvígang.

Og ekki má gleyma reglulegum póker / bjór kvöldum í Kaldaselinu.

Okkur leiðist sem sagt ekkert að elda og borða góðan mat, drekka eðal vín og góðan bjór.. en kannski aðallega hitta skemmtilegt fólk.

Iðunn hélt upp á afmælið sitt hér heima í Kaldaseli, best heppnaða partý ársins og þó lengra sé leitað. Í framhaldinu var dæmt á Iðunni að fara í fallhlífarstökk og í bústað með Brynju og Óskari.

fallhlif-238

Við Fræbbblar spiluðum ekki mikið, en fyrir utan nokkur einkasamkvæmi er sennilega eftirminnilegast að mæta á Bifröst í byrjun ársins, halda nokkurs konar útgáfuhljómleika á Rosenberg, spila á Rokkhátíð Ölstofu Hafnarfjarðar og taka þátt í fullveldispönkhátíð á Hard Rock Cafe í byrjun desember.

Ég er enn hjá Staka, sem færði sig yfir til Deloitte í haust, þessu fylgja talsverðar breytingar og spennandi tímar framundan.

arshatid

Iðunn er enn hjá BUGL, en hefur misst mikið úr vegna myglusveppa á vinnustaðnum.

Andrés vinnur í þjónustuveri Símans og hefur verið virkur í starfi Pírata og var kosinn formaður félagsins í Reykjavík í haust.

Guðjón sinnti tónlistinni framan af ári og spilaði meðal annars á Secret Solstice. Seinni hluta ársins tók hann við rekstri spilastaðar og náði fljótlega að snúa rekstri staðarins við.

Viktor sinnti námi og rannsóknum fyrri hluta ársins, en kom heim í sumar, tók þátt í prófkjöri Pírata og kosningabaráttunni fyrir þingkosningarnar. Hann náði ekki kjöri, þó ekki munaði miklu, en var svo kallaður inn á þing fyrir jól – því miður við erfiðar aðstæður – en situr nú á þingi næstu vikurnar.

Annars eru ítarlegri frásagnir auðvitað í dagbók

Mig langar að beina þessari færslu til tónlistarmanna og annarra sem eiga hagsmuna að gæta vegna höfundarréttar.

Ég efast um að margir hafi þrasað eins mikið við Pírata um höfundarréttarmál og ég hef verið að gera síðustu árin.

Samt ætla ég að kjósa Pírata í komandi kosningum.

Að miklu leyti vegna þess að það hefur orðið talsverð hugarfarsbreyting hjá þeim flestum, ef ekki öllum sem eru nálægt því að komast inn. Ný stefna í höfundarréttarmálum er langt frá því að vera gallalaus en hún er mikil framför frá fyrri yfirlýsingum.

En aðallega vegna þess að það er hægt að ræða málin og þau taka upplýsingum og þau taka rökum.

Þá má ekki gleyma að þau standa fyrir mjög mikilvæg málefni, þar sem stjórnarskráin er efst á blaði. Næsta þing á hvort sem er ekki eftir að skipta sköpum í höfundarréttarmálum, en það gæti skipt sköpum í mörgum lykilatriðum.

Nú veit ég ekkert hvort ykkur (sem ég nefndi í upphafi) hugnast yfirleitt að kjósa Pírata í næstu kosningum. En að minnsta kosti ef þetta er eina atriðið sem stóð í veginum, þá er það ekki lengur tilefni til að neita að kjósa Pírata. [nei, ekki heldur hallærislegt nafn, eða sagan á bak við það]

Það eru (næstum því) allir að bjóða upp á einhvers konar kosningaáttavita fyrir komandi kosningar. Þeir geta svo sem verið skemmtilegir en það er alltaf þess sem stillir upp að ákveða spurningarnar og svo geta svör og vægi þeirra ekki alltaf gefið nákvæma mynd.

Þannig að ég ætla að láta miklu einfaldari og öruggari – enda mín flokkun miklu betri en hinna!

Fyrir það fyrsta, ertu fordómafull(ur), kannt illa að vinna úr upplýsingum, raisisti, er auðvelt að spila með þig með hræðsluáróðri, hrædd(ur) [að ástæðulausu] við fólk af öðrum uppruna, tekur ekki sönsum þegar þér er bent á rökleysur, telur þig þjóðrækna/rækinn (þó þú getir ekki skrifað heila setningu óbrenglaða á íslensku) og hafnar öllum upplýsingum sem falla ekki að fyrirfram gefinni skoðun?

Ef svarið er „já“

  • þá er einhver flokkur sem reynir að kenna sig við þjóðfylkingu sem þú ættir kannski að kjósa.. og já, eiginlega endilega kasta atkvæðinu þínu á glæ þar, frekar en að styðja einhvern hálfvolgan stuðningsmanna útlendingafodóma.

En svarið er væntanlega „nei“ (amk. ef þú ert að lesa færslu frá mér).

Þá er næsta spurning hvort þú sért ánægð(ur) með núverandi ríkisstjórnarflokka, finnst kjörið að lækka gjöld fyrir notkun auðlinda, sjálfsagt að svíkja kýrskýr kosningaloforð, finnst fín mótþróaröskun þeirra varðandi nýja stjórnarskrá í stað bráðabirgða plaggsins frá 1944, telur gott mál að ríkissjóður styrki fólk vegna „forsendubrests“ lána sem ekki hefur orðið fyrir neinum forsendubresti en skilji þá sem raunverulega urðu fyrir forsendubresti úti á köldum klaka, finnst sjálfsagt að þingmenn skerði kjör öryrkja og aldraðra á meðan þeir þiggja sjálfir hærri laun, finnst ekkert að því að einn milljarður sé talinn „ekki-svo-mikill“ peningur þegar verið að er að lækka gjöld á þá sem nýta sameiginlegar auðlindir en hefur ekki hugmynd um hvert á að sækja fé í heilbrigðiskerfið, ert sátt(ur) við síhækkandi greiðslur til ríkisrekinnar kirkju og daðrar við útlendingahatur og kynþáttaforóma?

Ef svarið er „já“, þá er þetta væntanlega spurning um annan ríkisstjórnarflokkanna.

Ef þér finnst ekkert að því að stjórnmálamenn séu ítrekað staðnir að hreinum og klárum ósannindum, hafi lítið fram að færa annað en að velta sér upp úr vænisýki og standi í stöðugu stríði við alla fjölmiðla (aðra en þá sem þeir eiga), séu ítrekað staðnir að fáfræði og umfram allt duglausir þegar kemur að því að koma einhverju í verk

Ef svarið er „já“

þá er um að gera að kjósa Framsóknarflokkinn – en ekki telja þér trú um að þú sért að kjósa „hina“ frambjóðendur flokksins (sem vissulega eru margir hverjir ágætir) því þeir njóta allir atkvæða á landsvísu.

Ef svarið er „nei“, þá áttu sennilega ekki aðra valkosti en Sjálfstæðisflokkinn.

En ef svarið er „nei“ (við stuðningi við núverandi ríkisstjórnarflokka), þá vandast málið eitthvað.

Ef þú þekkir einhvern, eða ert sjálf(ur) í framboði fyrir einhvern smáflokkanna sem lítur ekki út fyrir að sé nálægt því að ná kjöri, nú eða telur það framboð standa nákvæmlega fyrir þín gildi,  þá er bara að kjósa þann flokk. Ég get ekki sagt nákvæmlega til um stóran mun á þeim, svona almennt séð virðist þetta ágætis fólk og vel meinandi en með mismunandi raunhæfar hugmyndir og áherslur. En þeir eiga það sameiginlegt að eiga ekki alvöru möguleika á að ná manni á þing. Það er ósanngjarnt, ömurlegt og ólýðræðislegt. En það er staðreynd. Ef þú vilt gefa út stuðningsyfirlýsingu við eitthvert þessara framboð, þá verður að hafa það.. en þú ert um leið búin(n) að fyrirgera rétti til að kvarta og kveina yfir vondum stjórnvöldum næsta kjörtímabil.

En ef ekki, þá eru enn nokkrir kostir í stöðunni.

Ef þú ert gamaldags (já, ég nota þetta vísvitandi í neikvæðri merkingu) vinstri kona/maður höll/hallur undir verulega ríkisforsjá, finnst ekkert að því að velta upp hugmyndum um netlögreglu, gerir sjálfkrafa ráð fyrir að flest fyrirtæki séu rekin af ljótu-köllunum og trúir hverju sem er gagnrýnislaust þegar að þeim kemur, treystir frambjóðendum VG betur en sjálfum/sjálfri þér til að ákveða hvað þú mátt kaupa hvar og hvenær – og/eða ef þú ert ákafur umhverfisverndarsinni, nema auðvitað það þurfi að koma peningum heim í kjördæmi… ja, þá eru Vinstri grænir nokkuð augljós kostur.

Ef þú hefur alltaf kosið Sjálfstæðisflokkinn en ert búin(n) að missa allt traust til þeirra, þolir ekki forpokaða Evrópustefnu og fékkst nóg þegar flokkurinn sveik kosningaloforðin eftir síðustu kosningar, tja, þá liggur Viðreisn nokkuð vel við „x-i“. Reyndar gæti viðreisn hentað mörgum, hafa til að mynda gefið upp að þeir vilji fullan aðskilnað ríkis og kirkju.

Ef þér finnst mikilvægt að staðfesta nýja stjórnarskrá, bæði vegna þess að það er táknræn aðgerð um vilja til að breyta og koma í veg fyrir mistök.. og ekki síður vegna þess að sú gamla er stagbætt bráðabirgðaplagg frá 1944 sem stenst ekki innbyrðis skoðun og er illa götótt þegar kemur að mörgum lykilatriðum, finnst skipta töluverðu máli að stjórnarskráin sem var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu taki gildi, ef þér finnst mikilvægt að fá nýja nálgun í stjórnmál, ef það er ekki sjálfsagt að ríkissjóður reki trúfélag, ef þér finnst mikilvægt að þingmenn taki gagnrýni þannig að hún sé til að læra af, ef heilbrigðismálin skipta einhverju, ef aðgangur að sameiginlegum auðlindum er einhvers virði, hugmyndir um aukið beint lýðræði hljóma vel og talsvert bætt stefna í höfundarréttarmálum truflar ekki of mikið.. ja, þá held ég að Píratar séu augljós valkostur, þau eru það að minnsta kosti fyrir mig.

Nú, ef ekki, þá eru einn eða tveir valkostir eftir, því sennilega er ekki rétt að telja Bjarta framtíð með smáflokkunum. Ég kann hins vegar í alvöru ekki nægilega góða skýringu á því hvar munurinn liggur milli, kannski myndu frambjóðendur Samfylkingarinnar ekki bulla svona þegar kemur að stóriðju og hafa eitthvað meiri þekkingu á sögunni.

Ekki svo að skilja að það megi ekki taka tillit til þess að flest framboðin eru með einhvers konar blöndu af annars vegar öflugu og heiðarlegu fólki sem bæði vill gera vel og getur gert vel og hins vegar fólki sem kann ekki að vinna úr upplýsingum, er fordómafullt og lítur á stjórnmálin sem stanslaus átök og baráttu. Hlutföllin virðast óneitanlega mismunandi milli framboða, en ræður varla úrslitum, nema mögulega í einu tilfelli.

Frídagar, endurskoða??

Posted: ágúst 2, 2016 in Spjall, Umræða
Efnisorð:

Næsta átta og hálfan mánuðinn er einn almennur frídagur.

Annar í jólum, 26. desember, er eini frídagurinn þar til svokallaður Skírdagur dettur inn 13. apríl 2017.

Er ekki löngu kominn tími til að endurskoða þetta frídaga kerfi?

Það er auðvelt að stilla frídögum ársins upp þannig að þeir verði að jafnaði jafn margir á hverju ári og þeir eru með núverandi kerfi. En í stað þess að sum árin sé nánast enginn frídagur og önnur endalausir frídagar, þá má jafna þetta á frekar einfaldan hátt.

Ég setti fram hugmynd í grein á Eyjunni fyrir nokkru, sem er vert að rifja upp.

  • síðasti virki dagur hvers árs verður frídagur – heill, ekki hálfur
  • síðasti virki dagur fyrir 25. desember, oftast 24. desember – líka heill frídagur
  • fyrstu tveir virkir dagar eftir 24. desember
  • fyrsti virki dagur hvers árs
  • síðasti föstudagur fyrir 16. júní (vegna 17. júní)
  • fyrsti mánudagur í maí (í stað 1. maí)
  • fyrsti mánudagur í ágúst (óbreyttur frídagur verslunarmanna)
  • fyrsti mánudagur í júní (nýr frídagur, td. sjómanna)
  • löng páskahelgi óbreytt, en mætti gjarnan festa við fyrstu helgi í apríl
  • uppstigningardagur dettur út
  • annar í hvítasunnu dettur út
  • sumardagurinn fyrsti dettur út