Posts Tagged ‘samsæri’

Mér finnst alltaf skelfilega grátlegt og um leið svolítið fyndið þegar þeir sem efast um niðurstöður vísindanna, td. talsmenn hinna og þessa samsæriskenninga, skjóta sig í fótinn með tilvísun í ‘fræðimenn’. Gjarnan með því að bæta „virtur“ við án nokkurrar fótfestu.
Til að mynda, nú síðast, Covid-19 samsæriskenningasmiðar vísa í að svo og svo margir læknar telji að Covid-19 veiran / faraldurinn sé eitt alls herjar plat (‘hoax’). [Flestir á meðan þeir voru að lepja upp einhverja þvælu til stuðnings bandaríkjaforseta, þar til í ljós kom að hann var bara að ljúga]. En þetta er svona svipað og þegar loftslagsafneitarar eru að flagga því að sérfræðingar í loftlagsmálum séu á einhverri tiltekinni „skoðun“.
Mótsögnin er nefnilega nokkuð æpandi. Ef viðkomandi telur það styrkja sitt mál að þeir sem vísað er til séu læknar / loftslagssérfræðingar / verkfræðingar… hvers vegna ekki að taka mark á um það bil eitthvað nálægt tuttugu þúsund sinnum fleiri sérfræðingum?
Og á hinn bóginn, ef punkturinn með efasemdunum og kenningunum er sá að ekkert sé að marka sérfræðinga, hvers vegna þá að taka fram máli sínu til stuðnings að þetta séu læknar / loftslagssérfræðingar / verkfræðingar?
Er þetta ekki svolítið eins og að segja, „allir sköllóttir karlmenn eru lygarar“ og í næstu setningu „ég þekki sköllóttan karlmann sem staðfestir það sem ég segi“ [OK, kannski ekki gott dæmi, en ég er með próf upp á að vísa í sköllótta kalla].
Svo er auðvitað fínt að hafa í huga að við hin tökum ekki gott og gilt að sérfræðingar hafi einhverja tiltekna skoðun, við horfum við þess *hvað* viðkomandi hefur fram að færa, ekki *hver* viðkomandi er. Standast gögnin skoðun? Eru greinar ritrýndar? Eru tilvísanir í heimildir áreiðanlegar?

Jökulblaut tuska raunveruleikans

Posted: september 22, 2019 in Umræða
Efnisorð:,

Það hlýtur að öllu jöfnu að vera erfitt að hanga á samsæriskenningum og afneitun staðreynda fram í „rauðan dauðann“.

En það er væntanlega einstaklega pínlegt þegar raunveruleikinn rekur allar kenningar öfugar til baka.

Ég er í þessu tilfelli að vitna í það að jökullinn Ok hverfur. Það er fullt af fólki búið að afneita hlýnun jarðar, heldur því jafnvel fram, mjög nýlega, að massi jöklanna hér á landi sé að aukast.

Ég geri mér grein fyrir að margir eru búnir að hengja of mikið á mannorðið í umræðunni til að geta bakkað með góðu móti.

En ein hugmynd.

Hvernig væri að læra aðeins af þessu?

Bloggfærslur einhverra ómenntaðra einstaklinga með vangaveltum út í bláinn eru ekki staðreyndir eða kenningar byggðar á vísindum. Vefsíður með skálduðum og/eða breyttum gögnum eru heldur ekki staðreyndir. Áður en þið dreifið færslum, YouTube myndskeiðum og/eða bloggfærslum og/eða Facebook færslum – hafið amk. fyrir að lesa fyrst.

Spyrjið ykkur hvort gögnin sem vísað er til séu staðfest. Athugið hvort ályktanir sem dregnar eru af gögnum séu rökréttar. Skoðið aðrar upplýsingar og skoðið rök á móti. Oftast nægir að hugsa aðeins.

Vísindin og vísindamenn eru ekki fullkomin, en það er talsvert meiri þekking og reynsla falin í þeirra vinnu en fólki sem hvorki hefur menntun, þekkingu eða reynslu til að fjalla af neinu viti um viðkomandi umræðuefni. Í mörgum tilfellum sýnist mér fólk halda úti vefsíðum til þess eins að ná athygli með því að birta hvaða þvælu sem er, „þetta væri svo merkilegt ef það væri satt“ er kannski útgangspunkturinn hjá einhverjum.

Í alvöru.

Hvernig væri að læra. Lesa? Eyða meiri tíma í það en að dæla endalausum færslum út um allar trissur. Þið eruð ekki að sannfæra nokkurn lengur, þið eruð að gera lítið úr ykkur sjálfum.

Hnignun þekkingar

Posted: ágúst 13, 2017 in Spjall, Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:, ,

Samsæriskenningar eru auðvitað eldgamlar og stöku sinnum hefur meira að segja verið fótur fyrir þeim. En þessi öld hefur að einhverju leyti litast af uppgangi samsæriskenninganna. Ellefti-september bauð auðvitað upp á alls kyns umræður og vangaveltur. Í kjölfarið var eins og margir ánetjuðust samsæriskenningunum… alls staðar voru samsæri, jafnvel þeir sem upphaflega voru fórnarlömb samsæranna voru nú hluti af þeim, þeir sem ruddu brautina (ef svo má að orði komast) voru hluti af einhverju samsæri. Það voru samsæri komin í hvert horn. Hlýnun jarðar var samsæri, að jörðin væri hnöttótt var samsæri, þoturákir á himni voru samsæri, CIA yfirtók heila fólks, Clinton (og ef ekki allur demókrataflokkur Bandaríkjanna) var kominn í barnavændi á pizzustað :), gott ef sami flokkur var ekki farinn að standa að því að láta myrða fólk, erfðabreytt matvæli voru (auðvitað) eitt stórt samsæri, bólusetningar að sjálfsögðu ekkert annað en samsæri – og ef annað var ekki boði þá voru einhverjir tónlistarmenn annað hvort þátttakendur í samsæri eða fórnarlömb [eins og hverjum sé ekki sama].

Þörfin fyrir næsta „fix“ af samsæri var nánast orðin óbærileg og allt var samþykkt möglunarlaust.

Ég er ekki frá því að þetta sé grunnurinn að ákveðinni heimskun kjósenda og þar af leiðandi upphafið að ákveðinni hnignun sem við erum rétt að fá forsmekkinn af.

Brexit og Trump eru fínasta dæmi um þetta. Ekki svo að skilja að þessar kosningar hafi beinlínis flotið á samsærum. En þeir sem unnu keyrðu á rangfærslum og lygum og fönguðu atkvæða þeirra fáfróðu og auðtrúa.

Þannig virðist dómgreind almennings hefur farið aftur, fólk samþykkir fullyrðingar ef þær eru settar fram í dramatískum YouTube myndböndum, „Photoshoppaðar“ myndir eru góðar og gildar, jafnvel hreinar og klárar lygar, hvers kyns dylgjur eru teknar sem staðreyndir, tíst eru staðreyndir, einföld mistök sannanir um yfirgripsmikil samráð, langsóttar tengingar eru endanlegar sannanir, óljósar getgátur góðar og gildar og fullyrðingar á bloggsíðum nefndar til sögunnar sem rök.

Efasemdir, leit að mótrökum, athugun á sannleiksgildi, einföld rökhugsun er látið liggja á milli hluta.

Þessi grunnur fáfræði og trúgirni eru nefnilega það sem hefur kostað okkur að fáfræðin hefur sigrað.

Og ég er smeykur um að þetta eigi eftir að versna.

Fyrir rúmri viku setti ég inn færslu um þráhyggjuna við að halda því til streitu að árásirnar 11. september 2001 hefðu verið  einhvers konar samsæri bandarískra stjórnvalda.

Ég gaf svo sem ekkert út á hvað mér finnst, en gerði kröfu um að þeir, sem þykjast hafa sannanir fyrir því að þarna hafi verið samsæri, kæmu með haldbærar upplýsingar. Ég skal játa að ég gerði nokkuð stífar kröfur, en mér finnst allt í lagi að gera stífar kröfur þegar haldið er fram að eitthvað hafi verið sannað.

Ég átti von á flóði af athugasemdum af hvers kyns tagi… og fullt af fólki sem hefði eitthvað haldbært fram að færa.

En, nei… það kom nákvæmlega ekki neitt. Núll, Ekkert.

Og óneitanlega fyndið í ljósi allra sérfræðinganna sem hafa kynnt sér málið rosalega vel.

PS., jú kannski hafa ekki allir lesið þetta, en miðað við fjölda þeirra sem heimsóttu síðuna hefur þetta varla farið framhjá samsærurum.

Ég viðurkenni að ég er orðinn ansi þreyttur á samsæriskenningunum vegna 11. september 2001.

Kenningarnar um koma úr mörgum áttum, taka stöðugum breytingum, eru skelfilega ruglingslegar, ganga út á kjaftasögur og hálfkveðnar vísur – og svo oftar en ekki mótsagnakenndar í öllum þvælingnum fram og til baka.

Það má vel vera að það megi spyrja spurninga um einstök atriði um 11. september. Og það má vel vera að það sé ástæða til að rannsaka einhverja þætti betur. Það er í góðu lagi. Um að gera. Það getur líka meira en verið að þetta hafi allt verið allsherjar samsæri. Ég hef ekki hugmynd um það.

En því sem dælt hefur verið samhengislaust á vefinn því til „sönnunar“ að um samsæri hafi verið að ræða stenst ekki skoðun. Sérstaklega ekki þau „dramatíseruðu“ YouTube myndbönd, þar sem hljóðeffektar, klippingar og alvarlegur þulur reyna að breiða yfir að innihaldið er nákvæmlega ekki neitt. Sama gildir um allt of margar þeirra „heimildarmynda“ sem í boði eru. Og það sama gildir líka um hálfkveðnar vísur um að óskyldir atburðir „sanni“, meintar spádómsgáfur eða ólíklegir atburðir hafi eitthvert sönnunargildi.

Þannig að ef þið efist um opinberu skýringarnar, hvort sem þið dragið einstök smáatriði í efa eða haldið að mikið vanti upp á.. þá er það í góðu lagi mín vegna. En ég er orðinn þreyttur á þessum endalausu fullyrðingum að „sannað“ sé að eitthvert samsæri hafi verið í gangi.

Það er líka í góðu lagi mín vegna að fólk trúi hverju sem er, hversu mikil vitleysa sem mér finnst það annars vera. En þegar þessum samsæriskenningum er haldið að manni árum saman af þráhyggju sem jafnast á við heitasta trúboð þá verður þetta þreytandi. Það bætir ekki úr skák þegar þetta dynur á manni úr öllum áttum. Sérstaklega þegar ég hef mjög takmarkaðan áhuga á málinu og það myndi ekki breyta neinu til eða frá fyrir mig þó ég fengi „sönnun“ í hendurnar. Og svo rjúka fjölmiðlar auðvitað upp til handa og fóta í hvert skipti sem einhver „frægur“ endurtekur bábiljurnar.

Ég hef skoðað óteljandi rök með og á móti. Það er þyngra en tárum taki að hugsa til tímans sem ég hef sóað í þetta.

Það sem einkennir þá sem telja sannað að um samsæri sé að ræða er

 • gjarnan er gefið í skyn, eða sagt hreint út, að þeir ekki að sömu niðurstöðu og „samsærarar“ eftir að hafa skoðað gögn og kenningar séu heimskir – þekkt rökvilla
 • eins er gert lítið úr þeim með dylgjum um stuðning við fjöldamorð og þess vegna barnamorð – aftur þekkt rökvilla og taktík sem einkennir fátækleg rök
 • þeir sem dirfast að hafa aðra skoðun eru strax spyrtir við Bandaríkjastjórn og sagðir stuðningsmenn hennar – enn ein rökvillan
 • vísað er í sérfræðinga sem hafa ákveðna skoðun en ekki getið sérfræðinga sem eru annarrar skoðunar
 • fullyrt er að eitthvað geti ekki hafa gerst og/eða hafi aldrei gerst áður (sem er reyndar sitt hvor hluturinn) þrátt fyrir að dæmi finnist sem sýni fram á annað – og þrátt fyrir að auðvitað hefur ekkert þessu líkt gerst áður – sem getur auðvitað virkað á hvorn veginn sem er
 • aðeins eru týnd til rök og upplýsingar sem sýna fram á samsæri, mótrök eru hunsuð, sem og mögulegar skýringar
 • hálf sagan er gjarnan sögð og mikilvægum atriðum sleppt, þetta er ýmist gert af ráðnum hug í flestum tilfellum til að sannfæra viðmælanda eða vegna þess að viðkomandi hefur ekki haft fyrir að skoða málið
 • mögulegar villur og/eða ónákvæmni í viðamikilli rannsókn eru talin merki um samsæri þegar líklegasta skýringin er handvömm og/eða klaufaskapur
 • gjarnan er vísað í myndbönd, upptökur og ljósmyndir sem eiga að sýna eitthvað en ef vel er gáð kemur oft ekkert fram í þá veru sem fullyrt er – myndbönd eru klippt til þannig að þau segja aðeins hálfa söguna og ljósmyndum hefur verið breytt
 • upplýsingar eru birtar úr réttri tímaröð
 • tilviljanir, sem geta auðveldlega gerst, eiga að sanna eitthvað en eftir smá umhugsun er augljóst að ótrúlega trúgirni að tengja við atburðina
 • óskyld atvik eiga að hafa eitthvert sönnunargildi sem ekki nokkur leið er að tengja rökrétt við atburðina, amk. vona ég að þeir sem trúa þessu þurfi aldrei að sitja í kviðdómi

Í ljósi alls þessa finnast mér samsæriskenningarnar um 11. september óttalegt röfl. Er ekki  kominn tími til að sætta sig við að það eru engar staðreyndir sem finnast sem benda til eða staðfesta samsæri. Ef þær finnast má taka málið upp, en er þetta ekki hrein tímasóun á meðan ekkert haldbært kemur fram? Nóg er af staðfestum dæmum sem tímanum væri betur varið í að gagnrýna.

Á hinn bóginn skal ég alveg taka rökum – eins og alltaf – en:

 • Ekki benda mér á heimildarmyndir, ég er búin að sjá meira en nóg og þar er engar sannanir að finna. Bendið á gild rök í viðkomandi myndum ef einhver eru.
 • Ekki byrja á einhverju rausi um hversu heimskur, einfaldur, vitlaus eða mikill útsendari Bandaríkjastjórnar ég sé. Það er rangt. Og þó það væri rétt, þá kemur það málinu ekkert við.
 • Komið með staðreyndir.
 • Ekki segja mér að ég þurfi að skoða svo og svo mikið af hálfkveðnum vísum og getgátum til að sjá einhverja heildarmynd og þar af leiðandi samsærið. Ef ekki eru staðreyndir fyrir hendi, þá er engin heildarmynd af neinu samsæri.
 • Ekki vísa í fjölda sérfræðinga sem hafi einhverja skoðun nema tilgreina líka hversu margir sérfræðingar eru á annarri skoðun. Hafið með öðrum orðum rænu á að kynna ykkur báðar hliðar. Ekki afgreiða sérfræðinga sem eru á annarri skoðun en þið með því að þeir séu á mála hjá stjórnvöldum. Með sömu rökum má afgreiða aðra sérfræðinga sem ótrúverðuga. Takið sem sagt annað hvort mark á sérfærðingum eða ekki. Ekki velja og hafna út frá fyrirfram gefinni niðurstöðu.
 • Ekki vísa í óritrýndar greinar á þeim forsendum að um vísindagreinar eða rannsóknir sé að ræða.
 • Ekki benda á klippt YouTube videó sem segur hálfa sögu, skoðið hvort til sé annað myndband sem segir aðra sögu.
 • Ekki benda á YouTube myndbönd nema þau sýni efnislega fram á eitthvað, þeas. séu af atburðum þennan dag. Alls ekki bjóða upp á myndskreyttan texta – sem vel væri hægt að skrifa – þar sem hefðbundnum áróðursbrögðum kvikmyndatækninnar er beitt.
 • Ekki benda á breyttar („fótósjoppaðar“) ljósmyndir, skoðið hvort myndin er upprunaleg, að minnsta kosti athugið hvort til séu aðrar útgáfur af viðkomandi ljósmynd.
 • Ekki benda á myndbönd sem eiga að sýna eitthvað sem ekki er til staðar og sést ekki.
 • Sama gildir um hljóðupptökur þar sem fullyrt er að einhver segi eitthvað annað en sagt er. Látið líka vera að túlka eða leggja einhverja langsótta merkingiu í það sem sagt er.
 • Ekki benda á myndir af einhverju án þess að skoða hvaða myndir sýna aðra hlið.
 • Ekki vísa í samhengislausa atburði.
 • Ekki stæra ykkur af því hversu margar greinar þið hafið lesið, hversu margar heimildamyndir þið hafið séð eða hversu mörgu YouTube skot þið hafið horft á. Sýnið hvað þið hafið skiljið af þessu með því að lýsa með eigin orðum. Magn er ekki sama og gæði þegar kemur að því að skoða og vinna úr upplýsingum.
 • Ekki yfirheyra mig um hvað ég hafi horft á og hvað ég hef skoðað, ef þið viljið sannfæra mig, komið með sannfærandi efni.
 • Að lokum, segið mér svo endilega hversu margir tóku þátt í þessu. Segið mér hvernig þetta var framkvæmt. Ef þið haldið því fram að um samsæri sé að ræða hafið að minnsta kosti einhverja hugmynd um umfangið og hvernig þetta gæti mögulega hafa verið gert.

Svo ég sé nú sjálfum mér ósamkvæmur þá skil ég að mörgu leyti viljann til að trúa því að þetta hafi verið einhvers konar samsæri og að bandarísk stjórnvöld beri einhverja ábyrgð. Mér þykir ekki útilokað að vitneskja hafi verið um yfirvofandi árásir en þær hafi verið hunsaðar, annað hvort af hreinu og kláru getuleysi eða þess vegna vísvitandi. Ég kemst einfaldlega ekki framhjá því að engar staðreyndir eða upplýsingar benda til samsæris. Þess vegna samþykki ég ekki þessar kenningar.

PS. Ég er svo heppinn að verða utan þjónustusvæðis næstu daga og kem ekki til með að  sjá athugasemdir strax. Allar athugasemdir fara í bið og ég samþykki aðeins til birtingar þær sem standast þær kröfur sem ég nefni. Ég nenni ekki að eyða meiri tíma í ómarkvissar getgátur og óvandaðar kenningar.