Jökulblaut tuska raunveruleikans

Posted: september 22, 2019 in Umræða
Efnisorð:,

Það hlýtur að öllu jöfnu að vera erfitt að hanga á samsæriskenningum og afneitun staðreynda fram í „rauðan dauðann“.

En það er væntanlega einstaklega pínlegt þegar raunveruleikinn rekur allar kenningar öfugar til baka.

Ég er í þessu tilfelli að vitna í það að jökullinn Ok hverfur. Það er fullt af fólki búið að afneita hlýnun jarðar, heldur því jafnvel fram, mjög nýlega, að massi jöklanna hér á landi sé að aukast.

Ég geri mér grein fyrir að margir eru búnir að hengja of mikið á mannorðið í umræðunni til að geta bakkað með góðu móti.

En ein hugmynd.

Hvernig væri að læra aðeins af þessu?

Bloggfærslur einhverra ómenntaðra einstaklinga með vangaveltum út í bláinn eru ekki staðreyndir eða kenningar byggðar á vísindum. Vefsíður með skálduðum og/eða breyttum gögnum eru heldur ekki staðreyndir. Áður en þið dreifið færslum, YouTube myndskeiðum og/eða bloggfærslum og/eða Facebook færslum – hafið amk. fyrir að lesa fyrst.

Spyrjið ykkur hvort gögnin sem vísað er til séu staðfest. Athugið hvort ályktanir sem dregnar eru af gögnum séu rökréttar. Skoðið aðrar upplýsingar og skoðið rök á móti. Oftast nægir að hugsa aðeins.

Vísindin og vísindamenn eru ekki fullkomin, en það er talsvert meiri þekking og reynsla falin í þeirra vinnu en fólki sem hvorki hefur menntun, þekkingu eða reynslu til að fjalla af neinu viti um viðkomandi umræðuefni. Í mörgum tilfellum sýnist mér fólk halda úti vefsíðum til þess eins að ná athygli með því að birta hvaða þvælu sem er, „þetta væri svo merkilegt ef það væri satt“ er kannski útgangspunkturinn hjá einhverjum.

Í alvöru.

Hvernig væri að læra. Lesa? Eyða meiri tíma í það en að dæla endalausum færslum út um allar trissur. Þið eruð ekki að sannfæra nokkurn lengur, þið eruð að gera lítið úr ykkur sjálfum.

Lokað er á athugasemdir.