Sarpur fyrir júlí, 2017

Forsetalingurinn

Posted: júlí 25, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Ég held að ég viti hvernig einfaldast er að koma Trump frá..

Ef við skoðum aðeins ferilinn, þá eyddi hann óhemju orku í að búa til ímynd af sér sem öflugum og hörðum viðskiptamanni með því að gera einhverja „raunveruleika“ sjónvarpsþætti um sjálfan sig. Þetta virðist nú hafa verið ansi brengluð mynd af kjaftagleiðri en getulausri rolu sem spilaði rassinn úr buxunum með arfinn frá pabba.

Fyrstu mánuðir forsetatíðar hans einkennast af allt of lítilli athygli á tilskipanir, rasískar, heimskulegar, hættulegar heilsu, ívilnanir til þeirri ofurríku, skipun fábjána í lykilstöður, takmörkun á vísindarannsóknum, viðskipti við þá sem stunda gróf mannréttindabrot…

Að sama skapi virðist athyglin beinast að innihaldslausum kjaftagangi, stórkarlalegum yfirlýsingum, svívirðingum, yfirkeyrðum athugasemdum, sjálfsvorkunn, myndbrotum þar sem hann gerir sig að fífli, hver vill halda í höndina á honum (og hver ekki) og hvernig honum er heilsað.

Ég held nefnilega að mögulega hafi hann engan sérstakan áhuga á völdum og ég held að hann hafi ekki nokkurn minnsta áhuga á að Ameríka verði aftur „stórkostleg“ – veit reyndar ekki hvort hann tekur El Salvador, Síle og Kanada í þær pælingar.

Ég held að hann sé athyglissjúkur, forsetatíðin sé yfirkeyrður raunveruleikaþáttur og um leið og fólk missir áhugann þá hypjar hann sig burtu..

(ætli það sé ekki nauðsynlegt að gera enska útgáfu af þessari færslu?)

Flóttafólk, í samhengi

Posted: júlí 25, 2017 in Umræða
Efnisorð:

Ég skrifaði fyrir nokkrum dögum færslu um að það væri fínasta nálgun, þegar flóttafólk er annars vegar, að miða við hvernig við myndum kjósa að tekið yrði á móti okkur í svipuðum aðstæðum.

Kveikjan að þeirri færslu voru reyndar örfáir einstaklingar sem virðast hafa fengið einstaklega ómannúðlega meðferð hjá íslenskum stjórnvöldum. Einstaklingar sem eru búnir að koma sér fyrir og eru hluti af samfélaginu, einstaklingar sem eru jafnvel í lifshættu vegna skoðana / kynhneigðar ef við sendum þá úr landi.

Margar athugasemdirnar sem voru gerðar við færsluna snerust um fjöldatölur, skattpeninga og verklag við að taka á móti fólki. Sumar góðar og gildar, en höfðu í rauninni lítið með færsluna mína að gera. Ég ákvað að sleppa því að skýra betur að ég hefði nú verið með örfá þekkt tilfelli í huga, enda á hugsunin svo sem við í flestum tilfellum.

Ég fór svo að hugsa þetta í samhengi við þann sið fyrr á tímum hér á landi (og væntanlega víðar) að bjóða ferðalöngum gistingu. Oftast held ég að þetta hafi verið án endurgjalds – eða að minnsta kosti ekki verið gerð krafa um greiðslu.

Þetta var (að ég held) einhvers konar þegjandi samkomulag fólks í harðbýlu landi þar sem fólk varð einfaldlega úti ef ekki fékkst húsaskjól. Án þess að hafa sagnfræði eða tölfræði til taks þá þykist ég vita að þetta hafi verið nánast undantekningarlaus siður, enda flest þeirra sem veittu húsaskjóli oft sjálf í þeirri aðstöðu að þurfa að ferða og þiggja gistingu. Ekki var hægt að panta gistingu á vefnum, ekki einu sinni hægt að hringja og kanna mögulega gistingu.

Ég veit ekki til að bændur hafi til að mynda reiknað sér fyrirfram hvað þeir gætu tekið á móti mörgum.

Og ég hef ekki frétt af neinum sem lokaði húsum sínum alfarið vegna þess að annars yrði allt fullt af ferðalöngum.

Svona rétt til að setja hlutina í samhengi.

Bardagaíþróttir

Posted: júlí 19, 2017 in Umræða
Efnisorð:,

Nú hef ég æft karate í nokkur ár – og líkar vel.  Ekki það að ég hafi nokkurn áhuga á slagsmálum og vonandi kemur aldrei til að ég þurfi að nýta mér það litla sem hefur skilað sér í þekkingu / þjálfun í raunverulegum bardaga. En að æfa karate er fínasta þjálfun, agi, einbeiting, samhæfing hugar og hreyfingar – að ógleymdum góðum félagsskap – gerir það að verkum að þetta er eina íþróttin sem ég hef enst eitthvað til að stunda… fyrir utan auðvitað fótbolta.

En ég datt aftur í að horfa á blandaðar bardagalistir um helgina og hef dottið í umræður þar sem fólk ruglar saman því að finnast einstaka íþrótt ekki geðfelld og því að gera lítið úr því íþróttafólki sem hana stundar. Þessu fylgir einhvers konar grautur af óþarfa æsingi, skítkasti og rökleysum dynja á þeim sem voga sér að finnast greinin ekki geðfelld.

Ég geri ekki lítið úr því að þetta er flott íþróttafólk sem við eigum, margir mættu taka þau sér til fyrirmyndar þegar kemur að þjálfun, einbeitingu og að ná árangri – að ógleymdu því hvað þau koma vel fyrir, hafa haldið haus og eru laus við allan hroka og yfirlæti… nokkuð sem æstustu stuðningsmenn þeirra mættu taka sér til fyrirmyndar.

En mér finnst eitthvað verulega ógeðfellt við greinar þar sem markmiðið er að sigra andstæðinginn með því að meiða og það er beinlínis hluti af keppninni að meiða. Þetta hefur ekkert með slysa- eða dánartíðni að gera.. það er einfaldlega eðli leiksins sem ég kann ekki við.

Og, nei, ég vil ekki banna þessar greinar, fullorðið fólk má ráða því sjálft hvaða áhættu það tekur.

Stundum dett ég inn í umræður um hvernig við eigum að taka á móti flóttafólki.

Svarið er einfalt.

Ég vil taka á móti flóttafólki eins og ég vonast til að yrði tekið á móti mér ef ég þyrfti að leita hælis annars staðar.. hvort sem væri vegna náttúruhamfara, stríðsátaka eða annarra ástæða.

Burtséð frá því að reynslan hefur sýnt að innflytjendur leggja til lengri tíma mikið til samfélagsins og eru víðsfjarri því að vera byrði á öðrum, jú, örugglega misjafnt eftir einstaklingum og væntanlega má fá mismunandi niðurstöður með því að taka nægilega stutt tímabil. En þetta snýst ekki um peninga.

Einhverra hluta vegna hafa þessar umræður dúkkað upp á Facebook og margir sem vilja meina að við höfum ekki efni á að taka á móti flóttafólki..